Í nótt kommentaði einhver hjá mér í skjóli nafnleysis, hann skrifaði:
Oj bara. Horfirðu á Survivor!!!
Er mér ekki sama þó einhverjum finnist sjónvarpsefni sem ég horfi á ómerkilegt? Hvað þá einhverjum sem þorir ekki einu sinni að skrifa nafnið sitt. Ég horfi á Survivor, ég skammast mín ekkert fyrir það enda eru þetta stórskemmtilegir þættir og áhugaverðir fyrir þá innsýn sem þættirnir veita í mannlega hegðun. Hvað er annars að því að horfa á kjánalega sjónvarpsþætti? Það er ekki einsog maður hefði annars eytt tímanum í eitthvað merkilegt.
Eitt það kjánalegasta maður sér þegar er að skoða „rökræður“ á netinu er þegar fólk segir að það ætli ekki að tjá sig meira um mál en kemur samt aftur. Ég hef lent í svona atvikum þar sem fólk segist ætla að hætta svona þrisvar sinnum í sömu umræðunni en kemur alltaf aftur. Ef þú segir að þú ætlir að hætta þá skaltu hætta, með því að segjast vera hættur þá gefur maður eftir lokaorðin og maður verður bara að sætta sig við það. Ég er örugglega sekur um að hafa gert þetta einhvern tímann sjálfur en ég er vonandi hættur því.
Það er ægilega pirrandi til lengdar þegar fólk ásakar mig um að vera „dapur“ eða „reiður“ af því ég kýs að tala um skoðanir mínar á trúmálum. Ég hef skoðanir, á ég að sitja heima í fýlu og sleppa því að rökræða þessar skoðanir? Finnst þessu fólki trúarskoðanir sínar vera svo bjánalegar að þeim finnst ómögulegt að rökstyðja þær og ákveða þess í stað að ráðast á persónu mína?
Það er sífellt verið að leggja mér orð í munn, ég hef oft verið ásakaður um að hafa sagt að trúað fólk sem vitlaust. Það er algerlega ósatt, þetta fólk hefur ákaflega vitlausar skoðanir en getur þrátt fyrir það verið snjallt á öðrum sviðum. Ég er ekki á þeirri skoðun að allir frjálshyggjumenn séu bara aular af því þeir hafa þessar skoðanir, ég lifi ekki í svo einföldum svarthvítum heimi. Ef ég hefði í alvörunni þá skoðun að trúað fólk væri vitsmunalega skert þá myndi ég ekki reyna að rökræða við það. Það er nefnilega ekki allt trúað fólk sem er með svona persónuárásir á netinu, raunar alger minnihluti. Margir taka þátt í rökræðum við okkur Vantrúarseggina, aðrir taka þá afstöðu að því sé bara alveg sama hvað okkur finnst og hunsar okkur.