Undarlegt salernisatvik

Frá upphafi þá hef ég reynt að forðast klósetthúmor í dagbókinni minni en þetta er undantekningin.

Ég var að fara að sofa núna rétt áðan en fór náttúrulega fyrst á salernið. Eftir að hafa tannburstað mig þá fór ég að losa mig við vökva. Nú þarf að minnast á að fyrir ofan salernið er skápur, verulega illa staðsettur skápur því ég hef tvisvar náð að koma tannburstum hennar Eyglóar ofan í salernið þegar ég hef verið að ná í minn eigin bursta. Skáphurðin var opin og á meðan önnur höndin var að taka út og aðstoða við að miða þá notaði ég hina til þess að loka skápnum. Nú gerist það að efsta hillan í skápnum hrynur og ég rétt náði að loka áður en nokkuð fór oní salernið (eða á þann líkamspart minn sem var að hefja losun).

Nú er ég í undarlegri aðstöðu, ein hönd í venjubundnum náttúrulegum verkum á meðan hin er í því að halda skáphurðinni lokaðri. Eftir smá umhugsun kallaði ég ákvað ég að vekja Eygló með því að kalla í hana. Eygló var merkilega fljót að vakna en hún var samt ekki nógu hress til að ég treysti henni almennilega. Ég útskýrði fyrir henni að hún þyrfti að ýta á skáphurðina. Um leið og ég var viss um að þessi sofandi manneskja ræði við þetta þá gekk frá, þvoði mér um hendurnar (verð að taka það fram að hreinlæti skiptir öllu) og lagði klósettsetuna niður. Eftir þetta náðum við Eygló að koma í veg fyrir að allt myndi hrynja í gólfið.

Kannski er undarlegast við allt þetta að ég gat ekki farið að sofa fyrren ég var búinn að skrifa þetta niður í dagbókina.