Í fyrra lauk ég við meistaraverkefni mitt í hagnýtri menningarmiðlun. Það er Rafbókavefurinn sem hýsir aðallega rafbækur sem innihalda texta úr höfundarétti sem fengnir voru frá Netútgáfunni. Ég vil ekki að Rafbókavefurinn deyi. Ég vil að hann verði upphafið að meiru. Ég vil þúsund íslenskar rafbækur sem eru opnar öllum. Til þess þarf ég hjálp ykkar.
Til þess að breyta pappírsbók í texta þarf nokkur skref.
- Fyrsta skrefið er að mynda bókina. Það geri ég með hjálp Svavars Kjarrvals og bókaskannanum sem hann byggði með hjálp Svavars Jóhannessonar afa síns.
- Annað skrefið er að breyta mynd í texta. Þá þarf að ljóslesa textann sem er ekki fyrirhafnarmikið.
- Þriðja skrefið er að leiðrétta ljóslesna textann svo hann verði réttur. Öll ljóslestrarforrit gera mistök – sérstaklega á íslenskum stöfum. Það er stóra vandamálið í ferlinu sem krefst aðkomu margra svo það geti gengið hratt.
Svavar Kjarrval félagi minn hefur hjálpað mér að setja upp vefkerfi frá Gutenberg verkefninu. Kerfið gengur út á að hver sem er geti skráð sig inn og borið saman ljóslesinn texta við mynd af blaðsíðu og leiðrétt það sem hefur farið aflaga. Þetta getur þú gert með því að skrá þig hérna. Ég minni bara á að þetta er ekki prófarkalestur í hefðbundnum skilningi þar sem markmiðið er ekki að fá rétt stafsetningu eða málfar heldur til þess að fá textann eins og hann er á síðunni.
Fólk getur hjálpað með því að lesa yfir eina síðu á dag (þó það sé hægt að lesa yfir tíu síður á dag án þess að eyða of miklum tíma í þetta – sleppið bara Facebook í smástund og lesið yfir í staðinn).
Á þessu stigi málsins er eitt vandamál að ég á eftir að þýða og aðlaga eitthvað af kerfinu og leiðbeiningunum til þess að auðvelda notkun. Þar þarf ég líka aðstoð og þeir sem vilja með í því ættu að skrá sig á vefinn og kynna sig síðan á spjallborðinu þar sem hægt er að ræða þessi mál.
Ég hef þegar skannað inn fjölmargar bækur. En hvaða bækur er ég að skanna? Hér er um að ræða bækur sem eru komnar úr höfundarétti. En ég hef hingað til lagt áherslu á tvenns konar bækur.
Í fyrsta lagi eru bækur sem hafa augljóst menningarlegt gildi. Hómerskviður og Þjóðsögur Jóns Árnasonar eru gott dæmi um þær bækur.
Í öðru lagi eru það bækur sem ég tel að gæti höfðað til stráka (svona tíu ára og eldri – þeirra sem lesa lítið sem ekkert en eru líklegir til að eiga t.d. spjaldtölvur). Ég hef fundið bækur sem ég las sjálfur og aðrar sem mér finnst líklegt að ég hefði lesið ef ég hefði haft aðgang að þeim. Þarna má nefna Námur Salómons konungs og Skytturnar eftir Dumas.
Ef ég verð einn að í yfirlestri get ég kannski klárað nokkrar bækur á ári. Ef nógu margir koma að verk þá er hægt að lesa yfir tugi bækur, jafnvel hundruði. Að lokum myndi það verða til þess að það væri hægt að dreifa þúsund íslenskum rafbókum ókeypis.