Fyrir stuttu var ég spurður hvort ég hefði pláss fyrir blogg á Truflun. Það varð til þess að ég ákvað loksins að þrífa til hérna og færa bloggin á annan hýsingaraðila.
Til að byrja með er rétt að taka fram að mér þykir ennþá vera pláss fyrir blogg í Facebook veröld. Ég tel líka þörf á bloggum sem eru ekki í umsjá fyrirtækja. Ég er mjög glaður að hafa allt mitt á minni eigin könnu. Facebook er lokaður heimur, blogg eins og hér eru hluti af hinum opna vef. Það er ennþá pláss hérna fyrir fólk sem vill vera með.
En já, yfirfærslan.
Tvö blogg voru með gagnagrunnsvillu sem ég þurfti að laga. Merkilegt nokk næ ég alltaf að fikta mig framúr gagnagrunnveseni þó ég segist aldrei kunna neitt í því.
Fjögur blogg voru með ruglaða íslenska stafi. Því var reddað að mestu með find/replace en bloggeigendur ættu endilega að lesa yfir til þess að sjá hvort eitthvað stafabrengl leynist þar enn.
Ég henti út ótal ruslpóstkommentum og lokaði á athugasemdir á færslur sem eru meira en tveggja vikna á öllum bloggum sem eru hér.
Mögulega hefur eitthvað efni týnst í flutningum en það ætti allt að vera einhvers staðar til. Ég er með afrit af gagnagrunnum og öllum möppum þannig að það ætti að vera hægt að finna allt.
Ég endurskipulagði forsíðuna út frá því hve líklegt mér þykir fólk til að blogga á ný. Þið sem eruð í neðri línunum megið endilega koma mér óvart. Sá sem er á leiðinni inn er með spurningamerki en mun vonandi detta inn sem virkasti bloggarinn á svæðinu.
Það eru líklega meira en sjö ár síðan þetta lén var fyrst skráð og ég hef lært heilmikið af þessu bralli og ég sé ekki fyrir mér að ég fari að hætta í bráð.