Lengst af virkaði netið bara þannig að maður þurfti að velja sér notendanöfn þegar maður skráði sig á t.d. spjallborð eða önnur spjallkerfi (Irc, Messenger og svo framvegis). Það var frekar sjaldgæft að maður notaði eigin nafn. Ein ástæða er sú að maður mátti sjaldnast nota íslenska stafi. En það var líka þannig að ef fleiri Íslendingar voru á svæðinu þá var ólíklegt að maður gæti notað eigin nafn. Sumir leystu það með því að bæta við tölum, t.d. fæðingarári, við á eftir nafninu. Flestir bjuggu sér einfaldlega til eitthvað nafn sem var fljótlegt að skrifa.
Þessi nöfn voru í sjálfu sér ekki dulnefni því þau þjónuðu ekki því hlutverki að dylja það hver væri þar á ferðinni heldur þvert á móti að segja hver þar væri á ferð. Það hvort fólk gæfi upp hver væri á bak við notendanafnið var persónu- og aðstæðubundið. Þegar fólk hefur aldrei sérstaklega leynt því hver væri á bak við notendanafn á netinu þá er ekki hægt að kalla það dulnefni.
Kannski er þessi færsla fullmikið skrifuð í þátíð en það virðast margir eiga erfitt með að skilja hvernig vefurinn virkaði áður en Facebook kom til og hvernig sumir hlutar hans, og netsins, virka ennþá.