Upplýsingafræðipartí

Eða bókasafnsfræðipartí? Eða bæði? Það var vísindaferð á föstudag í Stéttarfélag Bókasafns- og Upplýsingafræðinga. Þar kom margt áhugavert í ljós, sérstaklega þegar talað var könnun sem gerð var fyrir nokkrum árum. Þar kom í ljós að langflestir B- og U-fræðingar eru ánægðir með menntun sína, þetta hefur reyndar eitthvað versnað undanfarið en lofar samt góðu.

Stéttarfélagið var með bjór, hvítvín og rauðvín á boðstólnum en bara eina tegund af gosi, Egils Kristal. Af hverju er þetta svona alls staðar? Ein flaska af 2l gosi kostar eitthvað álíka og einn bjór en samt er alltaf minna úrval af gosi. Það er ekki auðvelt að vera edrú.

Við fengum áfengið með okkur í partíið sem var náttúrulega hérna hjá okkur Eygló. Þegar mest var voru öll sæti frátekinn. Ég talaði heilmikið við Sóleyju Láru áður en hún fór, Eygló spjallaði líka mikið við hana um sveitalífið sem þær eiga sameiginlegt.

Það fækkaði töluvert í partíinu eftir klukkan 21:00 (áfengisneysla hófst klukkan 17:00). Pöntuð var pizza og rætt um tónlist og blogg. Kom í ljós að sumir hafa komið fram í myndböndum með bæði Herberti Guðmundssyni og Sykurmolunum, geri aðrir betur. Reyndar kom um leið í ljós að sú hin sama er búin að vera að kíkja á dagbækur okkar Eyglóar og blogg almennt. Það spunnust skemmtilegar umræður uppúr því enda hafði Ásdís mörg áhugaverð komment/spurningar um blogg, ég endaði með að pæla heilmikið í þessu. Kannski meira um það seinna.

Uppúr miðnætti vorum við ein eftir með Halla, Danna og Hjördísi og ég byrjaði með mína margfrægu, stórskemmtilegu tónlistargetraun. Það stóð langt fram á nótt (Eygló gafst upp á undan gestunum okkar). Ég endaði nóttina á því að vaska upp og taka til sem varð til þess að Eygló varð þakklát og góð við mig í svona korter á laugardaginn.

Sagan búin.