Ég hef verið að velta fyrir mér hvort ég ætti að eltast við miða á Deep Purple í von um að sjá Uriah Heep, ég er eiginlega kominn á þá skoðun að ég ætti að láta það alveg vera. Það gæti verið að ég verði súr ef Uriah Heep kemur en ég hef í raun bara engan áhuga á Deep Purple yfirhöfuð, hljómsveitin heillar mig bara ekki fyrir utan einstaka lag. Uriah Heep finnst mér hins vegar alveg brilljant.
Síðan er spurningin hvort maður eigi að vera eltast við hljómsveitir sem margir myndu segja að væru komnar langt fram yfir síðasta söludag, hljómsveitir þar sem margir upphaflegu meðlimana eru löngu hættir. Þetta er svoltið erfið spurning. Ég efast um að ég myndi nenna að sjá Paul spila Bítlalög enda pirrar sá maður mig töluvert. Ég myndi vilja fara á tónleika með Brian eða Roger úr Queen þar sem þeir spila eitthvað af Queenlögum en ég held að ég myndi samt frekar vilja heyra þá spila sólóefnið sitt. Uriah Heep væri ég alveg til í að sjá þó mér sé ljóst að þeir séu í dag bara skugginn af því sem þeir voru áður.
Ég fékk um daginn þá spurningu í Mr & Mrs hvort ég hefði frekar viljað vera pönkari eða hippi, svarið kom sumum á óvart, ég hefði frekar viljað vera hippi. Af hverju? Af því ég tel tónlistina sem spratt uppúr hippatímanum vera mun betri en tónlist pönksins.
Sem hippi hefði ég getað séð Queen, Smile, The Who, Uriah Heep, Pink Floyd, Bítlana, Black Sabbath, Rolling Stones, Cream, Led Zeppelin, Jimi Hendrix, Doors, David Bowie… þarf ég að telja meira? Pönkið getur bara ekki keppt við þetta. Ekki það að ég hafi neitt á móti pönki.
Reyndar gefur þessi listi í skyn að ég hefði verið hippi í Englandi og að ég hefði haft vit á að fara á tónleika með öllum þessum hljómsveitum sem er náttúrulega ólíklegt, maður kann aldrei að meta það sem maður hefur. Mun ég sjá eftir því að hafa ekki séð Mínus á tónleikum? Varla, það er eitthvað við Krumma sem pirrar mig alla leið til helvítis, alveg einsog pabbi hans og systir pirra mig þangað líka. Ég tek fram að ég er ekki að dæma börnin eftir foreldrinu heldur eftir því sem þau eiga sameiginlegt með foreldrinu.