Smáatriðin á myndunum

Þegar maður er að skoða gamlar myndir þá er það ekki alltaf fólkið sem vekur mesta forvitni hjá manni, stundum sér maður hluti maður man eftir, veggfóður, teppi eða styttur.


Koppur
Þetta er áhugaverð mynd. Maður tekur eftir að teppið, málningin og viðarpanellinn á hægri veggnum er ákaflega nítjánhundruðsjötíu og eitthvað (myndin er frá 1981). Á vinstri veggnum er útsaumuð mynd af naktri konu og þar við hliðina er rauður prúðuleikarafeldur sem við nældum ýmis merki í. Hinum megin sjást tveir rammar sem mig grunar að gætu verið útsaumsmyndir með fæðingardegi, þyngd, nafni og lengd okkar Hafdísar. Við Hafdís erum náttúrulega miðpunktur myndarinnar, hún með eitthvað grátt dóterí á hausnum og ég með hvolp á vinstri buxnaskálminni.

Aðalatriði myndarinnar er samt koppurinn sem mamma tók ekki eftir þegar hún var að smella af . . . mig minnir meiraðsegja að koppurinn hafi innihaldið eitthvað skemmtilegt.