Sumt fólk er ekki mikið fyrir að láta taka af sér myndir, sumt fólk er yfirleitt bak við myndavélina.
Þessi mynd er nú frekar léleg en hefur sérstöðu fyrir það að á henni eru tvær manneskjur sem voru sjaldan myndaðar. Myndin er tekin í Klettavík í Borgarnesi árið 1981, líklega í fermingu hjá Guðmari frænda. Ég reyndi aðeins að laga hann til, hún er ákaflega brún þannig að ég var aðallega að reyna að ná eðlilegri litum.
Afi var einn af þessum sem ekki vildi láta mynda sig, þegar það átti að finna almennilega mynd af honum fyrir minningargreinina þá var það nær ómögulegt verkefni, að lokum fannst ágæt passamynd af honum sem mig minnir að hann hafði falið í bílnum sínum (bílnum mínum). Það var auðvelt að sjá hann fyrir sér flissandi yfir þessari leit okkar…
Mamma var hins vegar eiginlega alltaf bak við myndavélina, ég á þar af leiðandi afar fáar myndir af henni. Það er ákaflega skrýtið þegar myndaalbúmið er skoðað, nær engar myndir teknar árið 1984 en annars þá er ekkert sem gefur til kynna að mamma hafi dáið, hún var svo sjaldan á myndum að það vekur enga eftirtekt þó hana vanti allt í einu alveg…