Lust, Caution (2007) ★★⯪☆☆🫴

Hópur háskólastúdenta gengur til liðs við andspyrnuna gegn hernámi Japana í Seinni heimsstyrjöldinni.

Leikstjóri Lust, Caution er Ang Lee. Í aðalhlutverkum eru Tony Leung (best þekktur fyrir að leika í myndum Won Kar-wai) og Tang Wei.

Það er margt gott við Lust, Caution en hún er bara svo langdregin. Það er til útgáfa sem er um tíu mínútum styttri. Sú er væntanlega með minna kynlífi sem gæti verið framför þó ég efist um að það sé nóg (og mögulega er fólk spenntast fyrir atriðunum sem klippt voru út).

Maltin gefur ★★★☆ og það miðast við löngu útgáfuna.

Óli gefur ★★⯪☆☆🫴.

Picnic at Hanging Rock (1975) ★★★☆☆👍

Valentínusardaginn árið 1900 fara ástralaskar skólastúlkur í lautartúr að jarðfræðiundrinu Ngannelong. Þú getur aldrei giskað hvað gerðist næst.

Margrómuð kvikmynd frá ástralska leikstjóranum Peter Weir (sem ég mun ætíð tengja við Vitnið). Ég er ekki alveg hluti af margróma kórnum því mér þótti Picnic at Hanging Rock fín en ekki frábær.

Það eru hlutar af Picnic at Hanging Rock sem ég hefði viljað kafa dýpra í en það er eiginlega innbyggt í hugmyndina að það er ekki gert.

Maltin gefur ★★★

Óli gefur ★★★☆☆👍

Goodbye, Dragon Inn (2003) ★★★★★👍👍

Við flækjumst um niðurnítt kvikmyndahús í Taípei og fylgjumst með starfsfólki og gestum í hversdagslegum athöfnum þeirra á meðan kvikmyndin Dragon Inn er sýnd í síðasta sinn.

Þegar fyrstu orðin voru mælt af leikurum Goodbye, Dragon Inn athugaði ég og sá að það voru liðnar næstum 45 mínútur af kvikmyndinni. Hún var rúmlega hálfnuð. Það er engin saga. Þetta eru bara aðstæður. Það er ekki kafað í persónurnar.

Hvers vegna í ósköpunum var ég svona heillaður af Goodbye, Dragon Inn? Kannski nær kvikmyndatakan að fanga fagurfræði niðurníðslunnar? Ég hef annars enga vitræna greiningu. Myndin bara greip mig.

Óli gefur ★★★★★👍👍

Dragon Inn (1967) ★★★★☆👍

Ólíklegur hópur af bardagafólki kemur saman til að verja börn látins kínversks herforingja um miðja fimmtándu öld.

Nú skortir mig þekkingu á kínverskum¹ bardagamyndum (í þessu tilfelli er undirflokkurinn wuxia) til að setja Dragon Inn í kvikmyndasögulegt samhengi. Þó get ég vel séð að hérna er verið að vinna með hugmyndir sem urðu mikilvægar í kvikmyndum næstu áratugina. Ef þú vilt rekja línuna aftur frá Crouching Tiger, Hidden Dragon og Matrix þá finnur þú Dragon Inn.

Bardagaatriðin eru oft skemmtileg en það er augljóst að á næstu áratugum var unnið með þessar hugmyndir þannig að í samanburðinum eru þau mjög gamaldags.

Það sem eldist best er húmorinn.

Óli gefur ★★★★☆👍.

¹ Ekki bara ríkið Kína heldur líka Hong Kong og, í þessu tilfelli, Taívan.

Un simple accident (2025) ★★★★★👍👍

Fyrrverandi andófsmaður telur sig hafa fundið manninn pyntaði hann meðan hann var í haldi íranskra stjórnvalda … en hann er ekki alveg viss.

Í sýnishorninu var Un simple accident létt farsakennd¹ gamanmynd um erfitt málefni. Hún er vissulega fyndin á köflum en hún er líka þung og spyr spurninga um siðferðisleg álitamál.

Meðan ég horfði á Un simple accident velti ég fyrir mér hvort það væri mögulegt að hún hefði raunverulega tekin upp í Íran. Hún er svo gagnrýnin á stjórnvöld og ögrar þeim með persónum sem hunsa reglur um slæðunotkun og efast jafnvel um tilvist framhaldslífs í þeirri mynd sem það er predikað. En myndin var tekin upp að öllu leyti í Íran á svig við lög og reglur.

Jafar Panahi sem leikstýrir Un simple accident hefur verið í ónáð hjá klerkaveldinu í töluverðan tíma. Hann var fangelsaður fyrir nokkrum árum en var sleppt eftir þrýsting alþjóðasamfélagsins. Hann mætti óvænt á kvikmyndahátíðina í Cannes þar sem myndin hlaut Gullpálmann ásamt helstu leikurum myndarinnar. Hvað verður um þau nú?

Óli gefur ★★★★★👍👍

¹ Þetta er næstum orðaleikur, óviljandi samt.

Den Sidste Viking (2025)★★★★☆👍

Glæpamaður sleppur úr fangelsi og þarf strax að takast á við erfiðar fjölskylduaðstæður og afleiðingar glæpaverka sinna.

Af sýnishorninu að dæma átti Den Sidste Viking að vera létt og skemmtileg gamanmynd. Hún er í raun blóðug dökk gamanmynd og virkar ákaflega vel sem slík. Það sem mér þótti erfiðast var að geðsjúkdómurinn sem er í aðalhlutverki er mjög kvikmyndaleg útgáfa af umdeildri greiningu.

Den Sidste Viking er leikstýrt af Anders Thomas Jensen sem hefur skrifað myndir á borð við I Kina spiser de hunde, Mifunes sidste sang og Bastarden. Mads Mikkelsen ætti að vera óþarfi að kynna, Nikolaj Lie Kaas (Idioterne og I Kina spiser …), Sofie Gråbøl (Mifunes sidste sang) og Bodil Jørgensen (Idioterne og Róm).

Óli gefur ★★★★☆👍.

Hrafninn flýgur (1984) ★★★⯪☆👍

Fortíðin ásækir gamla víkinga sem frömdu ódæðisverk á árum áður.

Það var ógurlega langt síðan ég hafði séð Hrafninn flýgur. Samt var ég alveg með augun opin en vildi sjá hana í háum gæðum. Þannig að það lá beint við að fara á hana í Bíó Paradís, sérstaklega þar sem var töluverður áhugi hjá öðrum á heimilinu. Leikstjórinn var greinilega spenntur líka því hann sat á fremsta bekk.

Frá því að ég sá Hrafninn flýgur síðast hefur það augljósa gerst að ég hef séð kvikmyndir frá Akira Kurosawa og Sergio Leone. Það skiptir máli því Hrafn Gunnlaugsson var auðvitað undir áhrifum frá þeim myndum. Sumir hafa tekið dýpra í árinni.

Í stuttu máli má segja að Hrafninn flýgur sé betri en ég bjóst við en ekki jafn góð og margir vilja segja. Vísanirnar í Kurosawa og Leone eru svo augljósar að ég á erfitt með að ímynda mér að Hrafni hafi dottið í hug að fólk sæi þær ekki. Kannski er þetta „heiðrun“.

Tónlistin í Hrafninn flýgur er almennt góð. Hún er eftir Harry Manfredini sem samdi víst líka tónlistina við upprunalegu Friday the 13th. Þarna var auðvitað verið að spinna við Á Sprengisandi en mér fannst samt fleira kunnuglegt. Í lokabardaganum tengdi ég loksins. Þetta hljómaði mjög svipað tónlist Ennio Morricone úr Dollaramyndunum.

Það var eilítið skrýtið að persónan Gestur fékk aldrei að heita neitt annað. Þarna er blanda af íslenskum menningararfi og kvikmyndavísunum á ferð. Hann á að vera „nafnlausi“ maðurinn. Það gengur ekki alveg upp því á ákveðnum tímapunkti lá svo beint við að við fengjum að heyra nafnið að það er ósannfærandi að það hafi ekki verið sagt.

Ég skal sleppa að kryfja nákvæmlega það sem mér fannst aðfinnsluvert sögulega séð í Hrafninn flýgur, aðrir hafa séð um það. Mér fannst reyndar skondið að sjá slétt tún, sem er ekki beinlínis náttúrulegt ástand íslenskrar náttúru. Síðan hefði ég viljað heyra Íra tala írsku, það hefði verið nokkuð auðvelt að leysa það mál.

Leikararnir í Hrafninn flýgur eru flestir mjög fínir. Jakob Þór Einarsson er í þeirri óöfundsverðu stöðu að vera borinn saman við Clint Eastwood og Toshirō Mifune en sleppur bara vel. Helgi Skúlason gnæfir auðvitað yfir aðra, andlitið á honum eitt og sér hækkar stjörnugjöf myndarinnar. Það eru grunsamlega fáar konur á svæðinu. Edda Björgvinsdóttir er sú eina sem fær að segja meira en örfá orð.

Óli gefur ★★★⯪☆👍.

Black Christmas (1974) ★★★★⯪ 👍👍

Óhugnanlegur símadóni herjar á háskólastúdínur¹ sem búa saman í drungalegu húsi.

Black Christmas lítur út eins og hún tilheyri bylgju kvikmynda sem komu í kjölfar Halloween. Í raun er hún nokkrum árum eldri. Mig grunar að ímynd mín af henni sé tengd því hvernig hún var markaðsett fyrir myndbandamarkaðinn.

Black Christmas er ekki ódýr blóðug hryllingsmynd. Þetta er meira Hitchcock en Wes Craven (með fullri virðingu fyrir honum). Ógnin verður hægt og rólega alltumlykjandi.

Kvikmyndatakan er á köflum í fyrstu persónu og hefur væntanlega verið frumleg á síns tíma mælikvarða. Ég átta mig ekki alveg á því hvernig hægt var að fara svona lipurlega með myndavélina.

Frægustu leikkonur Black Christmas eru Oliva Hussey (Júlía úr Romeo and Juliet) og Margot Kidder (Lois Lane úr Superman). Andrea Martin er ekki jafn stórt nafn en hefur leikið í mörgu, til að mynda Innerspace. John Saxon var líklega frægastur á þessum tíma. Ári fyrr lék hann í Enter the Dragon og áratug seinna lék hann í A Nightmare on Elm Street.

Ég hef aldrei áður velt fyrir mér ferli leikstjórans Bob Carter. Það er áhugaverð samsuða af myndum. Black Christmas, A Christmas Story, Porkys, Baby Geniuses og Karate Dog. Ég hef eingöngu stiklað á stóru …²

Maltin gefur ★★⯪☆ þó hann sé almennt lítið fyrir jólahrylling og tekur fram að Black Christmas sé „ekki slæm“.

Óli gefur ★★★★⯪ 👍👍.

¹ Stúdína. Ekki besta orðið.

² She-Man: A Story of Fixation hljómar einstaklega illa.

The Dark Knight (2008) ★⯪☆☆☆👎

Hver er hetja? Hver er skúrkur? Hverjum er ekki sama?

Þar sem mér þótti Batman Begins betri en mig minnti var ég á varfærinn hátt bjartsýnn fyrir The Dark Knight. Mér þótti hún á sínum tíma betri en sú fyrsta og kannski yfirsást mér eitthvað sem myndi útskýra hvers vegna hún er í svona miklum metum hjá fólki.

Eftirminnilegasti hluti The Dark Knight er saga sem brytinn Alfreð segir. Á sínum yngri árum var hann málaliði sem starfaði fyrir spillt yfirvöld í Mjanmar (þá kölluð Búrma) sem voru að reyna að múta „ættbálkaleiðtogum“. „Bandíti“ náði að tefja þetta framtak með því að ræna gimsteinum sem átti að nota sem greiðslur.

Það sem Alfreði þótti skrýtnast var að þessi maður virtist ekki hafa neinar rökréttar ástæður eins og peningagræðgi að leiðarljósi. Í raun hafði bandítinn ekki einu sinni áhuga á gimsteinunum vegna þess að hann fleygði þeim. Enginn á svæðinu hafði áhuga á því að segja til hans þannig að málið var leyst með því að brenna skóginn.

Bíddu. Hvað? Þessi saga gæti verið snilldargreining á viðhorfi Breta til fyrrverandi nýlendna sinna. Vandamálið er að það er aldrei gefið nokkuð til kynna að Alfreð eða Bruce áttuðu sig á hve fáránleg þessi framsetning væri. Þvert á móti var látið eins og sagan væri full af innsæi um að sumt fólk hegðaði sé á órökréttan hátt. Alfreð toppaði söguna með því að segja að sumir vildu bara sjá heiminn brenna … Ehh, hver var það sem bókstaflega brenndi skóginn?¹

Jókerinn á sumsé að vera eins og bandítinn af því græðgi stjórnar ekki athöfnum þeirra. Þetta er undirstrikað þegar glaðværi maðurinn brennir bókstaflegan haug af peningum. Sögulegt samhengi The Dark Knight er áhugavert vegna þess að hún kom út á þeim tíma sem peningagráðugir menn höfðu byggt upp efnahagskerfi sem var á mörkum þess að hrynja.

Þegar ég skrifaði um Batman Begins nefndi ég að ef Bruce Wayne vildi bæta Gotham ætti hann stuðla að kerfisbreytingum. Í The Dark Knight er hann með ákveðnar þreifingar í þá átt með því að styðja saksóknarann Harvey Dent en það byggir allt á mjög einfeldningslegum hugmyndum um vandann sem borgin stendur frammi fyrir. Borgin þarf ekki hetju, borgin þarf umbætur á öllum sviðum.

Það er undarlegt pyntingaratriði í The Dark Knight sem sýnir hve siðferðislega gjaldþrota Batman og löggurnar eru. Myndinni til … hróss … virka pyntingarnar nákvæmlega ekkert og koma meira að segja í bakið á þeim. Þessi mynd endurspeglar Bandaríkin á tímum George W. Bush.

Oft hefur Batman notað geðsjúkdóma til þess að útskýra illmenni sín. Það virðist líka eiga við um Jókerinn og flesta skósveina hans. Það er eiginlega bara vandræðalegt að horfa á þetta með gagnrýnum augum. Mig langar frekar að minnast Heath Ledger fyrir Shakespeare myndina sína.²

The Dark Knight þjáist af oflengd. Ég sem áhorfandi þjáðist af oflengd hennar. Eftir á velti ég upp þeirri spurningu hvort við hefðum séð einhverja leikstjóraútáfu (nei) en Gunnsteinn benti á að Christopher Nolan væri hrifinn af lengd. „En ekki dýpt“ svaraði ég.

Það eru líklega færri konur í The Dark Knight en Batman Begins. Katie Holmes er skipt út og þó Maggie Gyllenhaal sé betri leikkona er persóna hennar samt algjörlega skilgreind út frá sambandi hennar við tvo karlmenn. Síðan uppfyllir hún eitt týpískasta hlutvera kvenna svona myndum

Christian Bale, Michael Caine, Gary Oldman, Cillian Murphy (í mýflugumynd) og nokkrir í viðbót snúa aftur. Aaron Eckhart leikur saksóknara, Eric Roberts er mafíósi, Anthony Michael Hall („used to be a nerd, now he’s a meathead“) er lögga.

Tónlistin er óeftirminnileg. Ef markmiðið var að skyggja ekki á myndina þá tókst það. Tónskáldin hafa oft gert betur.

Endirinn er það næst undar- og asnalegasta við The Dark Knight. Batman lætur eins og hann sé tilneyddur til að þykjast vera vondi kallinn. Af hverju? Planið hans er fullkomlega órökrétt og mjög ólíklegt að það gangi upp. Það var fullt af fólki sem gæti afhjúpað sannleikann og ótal aðrir möguleikar til að ná fram markmiðinu.

Á leiðinni út heyrði ég brot úr samtali sem hljómaði eitthvað á þessi leið „sko, hún er alveg góð en …“. Líklega mun The Dark Knight falla neðar á topplistum þegar á líður. Á ég að nenna að sjá hann rísa?

Maltin gefur ★★☆☆.

Óli gefur ★⯪☆☆☆👎.

¹ Þetta er sagan af Hróa hetti sem er að berjast við spillt yfirvöld. Alfreð heldur því fram að bandítinn hafi fleygt gimsteinunum. Það bendir ekkert til þess að það sé rétt. Hann hefur engar sannanir heldur segist hafa séð barn leika sér að gimsteini og dregur þessa ályktun. Það virðist vera ótrúlegur skortur í ímyndunarafli.  Eða sögðu innfæddir honum þessa sögu? Er ekki líklegra að þessi Hrói höttur hafi bara gefið fátækum þessa steina?

Alfreð virðist vera týpískur Breti sem getur engan veginn skilið nýlenduþegna heimsveldisins. Það að hann hafi verið að vinna í fyrrverandi nýlendu segir ekkert gott um persónu hans. Hvað þá sú undarlega skoðun hans að peningagræðgi sé rökrétt. Það að The Dark Knight láti eins og Alfreð sé vitur öldungur sýnir í raun hve gjaldþrota myndin er.

² 10 Things I Hate About You. Ekki brandari. Góð mynd.

The Running Man (2025) ★⯪☆☆☆👎

Fátækur en ofursvalur gaur mætir í banvænan raunveruleikasjónvarpsþátt og sýnir hve harður hann er.

Flóttamaðurinn var ein af fyrstu bókum Stephen King sem ég las. Líklega sá ég myndina með Arnold Schwarzenegger fyrst. Hún var mjög góð lexía í því hvernig bækur breytast í Hollywood.

Er sanngjarnt að meta kvikmynd út frá bókinni? Hiklaust. Það er ekki hægt að ætlast til þess að myndin sé beint eftir bókinni en þaðan komu hugmyndirnar. Þessi kvikmynd var líka kynnt á þeim forsendum að hún væri trú bókinni. Þar sem ég er nýbúinn að endurlesa The Running Man eftir Richard Bachman¹ er ég ágætlega í stakk búinn að meta það. Vissuð þið að hún gerist árið 2025?

Í aðalhlutverki The Running Man (2025) er Glen Powell. Ég var smá efins því þó hann sé ekki vöðvatröll er hann langt frá því að vera meðaljóninn² sem lýst er í bókinni. Efasemdirnar áttu rétt á sér. Í þessari mynd er Ben Richards bara rosalega svalur harðjaxl.

Sumar Hollywood-stjörnur hafa komist í þá stöðu að fá að endurskrifa hlutverk sín til þess að þau falli betur að ímynd þeirra. Ég efast um að Glen Powell sé kominn í þá stöðu. Samt hljómuðu línurnar hans í The Running Man þannig. Hann er endalaust hnyttinn. Það er þreytandi.

Söguþráðurinn í The Running Man er að mörgu leyti frekar trúr bókinni framan af. Það sem hefur breyst eru persónurnar og samspil þeirra. Sérstaklega er nútímavæðing á einni helstu hjálparhellu aðalpersónunnar sársaukafull. Honum var breytt úr raunverulegum aktívista í samsæriskenningasjónvarpsgláparaáhrifavald.

The Running Man (2025) er áberandi slökust af myndum Edgar Wright. Ég vona að þetta sé „ein fyrir þá“ og við fáum fljótlega „ein fyrir mig“ mynd til að vega upp á móti henni. Engin breyting frá bókinni er til batnaðar. Það á auðvitað sérstaklega um endinn sem er ótrúlega ósannfærandi og satt best að segja asnalegur. Algjört kjarkleysi.

The Running Man (2025) hefur verið réttilega gagnrýnd fyrir að hafa lítið að segja um samtíma okkar. Það hefur jafnvel verið stungið upp á því að myndin hefði frekar átt að fjalla um samfélagsmiðla. Það er ekkert frábær hugmynd. Það er bara allt önnur kvikmynd. Líklega hefði hún samt haft meira um samtíma okkar að segja ef hún hefði fylgt bókinni. The Long Walk öskrar að það sé hægt.

Það eru góðir leikarar í myndinni en ég var ekkert að falla fyrir frammistöðu þeirra. Colman Domingo, Katy O’Brian og Michael Cera virðast allavega hafa skemmt sér.

Óli gefur ★⯪☆☆☆👎

¹ Skondið að fá tvær myndir gerðar eftir bókum Richard Bachman sama árið. Hin er betri.

² Þegar ég var krakki fattaði ég aldrei hvað þetta ljón kæmi málinu við.

Batman Begins (2005)★★★☆☆👍

Ríkur gaur reynir að komast yfir ótta sinn við fleyg spendýr.

Fyrsta myndin í Dark Knight-þrennu Christopher Nolan var mótefni gegn myrkraverkum Joel Schumacher. Hún er mikið dekkri og alvarlegri sem kemur stundum í bakið á henni.

Fyrsti hluti Batman Begins (byrjunin) fjallar um ferðalag sem Bruce Wayne tekur að hætti Sullivans í mynd Preston Sturges nema að hann lærir ekki jafn mikið. Þar hittir hann Ra’s al Ghul. Sá partur er tilgerðarlegur og byggir þar að auki á afskaplega kjánalegum steríótýpum. Það hefði mátt sleppa öllu þessu því í kjölfarið er myndin að mestu leyti ágætis skemmtun.

Það er ákveðinn vandi sem fylgir því að gera „alvarlega“ útgáfu af ofurhetju. Raunveruleiki og fáránleiki þurfa að ná ákveðnu jafnvægi. Þetta er ekki vandamál hjá Tim Burton í Batman Returns. Mörgæsaherinn passar við veruleikann sem myndin byggir á. Leðurblökuherinn í Batman Begins passar ekki. Þar að auki fór ég að pæla í því hvernig í ósköpunum vatnsveitukerfi Gothan-borgar virkar eiginlega og sá ekki hvernig þetta ætti að ganga upp.

Annars eru öll merki sem benda til þess að Batman sé bara persóna sem Bruce Wayne skapaði vegna þess að hann var einn og yfirgefinn. Eða er ég að rugla þessu saman við American Psycho?

Boðskapur Batman Begins er lagskiptur. Þarna er boðskapur um misskiptingu auðs og ábyrgð hinna ríku. Samt er sá hluti mjög yfirborðskenndur og í praxís er myndin bara sama gamla lemja glæpamenn. Ef Bruce Wayne vildi í alvörunni breyta Gotham þá ætti hann að nota peningana sína til að breyta kerfinu. Það er t.d. ekki nóg að byggja almenningssamgöngur heldur þarf að tryggja að rekstur kerfisins sé ekki háður góðvild hinna forríku.

Auðvitað er mjög ólíklegt að skemmtiefni sem er framleitt af stórfyrirtækjunum geti innihaldið nokkuð sem er raunverulega gagnrýnið á kerfið. Á smærri skala teiknimyndasögunnar komst Græna Örin t.d. upp með að vera með vinstrisinnaðar skoðanir en þær hurfu fljótt í sjónvarpsþáttunum Arrow.

Batman Begins er uppfull af leikurum. Líkt og þær flestar. Í þessu tilfelli eru það leikarar sem áhorfendur ættu að kannast við. Christian Bale (alltaf með Blue Steel svip undir grímunni), Morgan Freeman, Liam Neeson (skeggið er vont), Gary Oldman (í þetta sinn undir toppnum), Michael Caine, Cillian Murphy, Tom Wilkinson, Ken Watanabe, Rutger Hauer (fær ekkert að gera nema að biðja starfsmann um risastóran greiða og reka hann um leið, ekki snjallt) og Mark Boone Junior.

Svo er krúttlegur lítill fátækur strákur leikinn af Jack Gleeson. Hann fæddist í Cork á Írlandi nokkrum árum áður en Cillian Murphy hóf nám þar (við minn gamla skóla University College Cork). Að lokum varð strákurinn sem engum líkaði við konungur Westeros.

Konur í Batman Begins eru mögulegar kærustur, mömmur og einkaritari. Ekki varð ég var við að mamma Bruce Wayne ætti sér nafn eða persónuleika. Kannski var verið að reyna að bæta upp fyrir það í Batman V. Superman. Það er síðan ein kona í afmælisveislunni sem kynnir Bruce Wayne fyrir manni og hunsar algjörlega þegar glaumgosinn bregst við með stórundarlegri fullyrðingu.

Það væri hægt að segja að Community hafi eyðilagt Dark Knight-myndirnar fyrir mér en satt best að segja fannst mér bara skemmtilegra að hugsa endalaust um Abed rymjandi „Æmm Battmann“. Síðan er hægt að breyta þessu í Yoda með litlum tilfæringum á rödd og setningarskipan.

Batman Begins leið hjá án þess að ég tæki nokkuð eftir tónlistinni. Danny Elfman var sárt saknað.

Maltin gefur ★★★☆.

Óli gefur ★★★☆☆👍.

Millennium Actress (2001) ★★★★⯪👍👍

Heimildargerðarmaður tekur viðtal við goðsagnakennda leikkonu sem hefur lifað einangruðu lífi frá því hún yfirgaf sviðsljósið.

Millennium Actress er japönskt teiknimynd eftir Satoshi Kon. Nú skortir mig allt samhengi því ég hef ekki séð neina af mörgum marglofuðum kvikmyndum hans fyrren nú. Líklega eru jólin rétti tíminn fyrir Tókýóíska guðfeður en mig langar líka að sjá Fullkominn bláma og Paprikuna.

Í Millennium Actress er teiknimyndaformið notað til að blanda saman fortíð, samtíð og kvikmyndum sem titilpersónan lék í. Sagan greip mig fljótt og frásagnarmátinn heillaði mig þrátt fyrir að þessi frumlega nálgun sé djörf og hefði hefði með nokkrum feilsporum líklega pirrað mig. Síðan náði myndin einhvern veginn að ná lendingunni sem ég bjóst varla við.

Nú hef ég ekki djúpa þekkingu á japanskri kvikmyndagerð en sú staðreynd að ég áttaði mig strax á vísunum í Kóngulóarvefskastala¹ Akira Kurosawa gerði mér ljóst að ég væri án efa að missa af ýmsu öðru.

Maltin gefur ★★⯪☆.

Óli gefur ★★★★⯪👍👍.

¹ Mér þykir alltaf frekar leiðinlegt að þurfa að nota enska titla til að tala myndir sem eru ekki frá enskumælandi löndum. Það er samt erfitt að forðast það þegar myndir eins og Throne of Blood eru nær eingöngu þekktar undir enskum titlum.

Batman Returns (1992) 👍👍🖖

Leðurblökumaðurinn etur kappi við myrku spegilmynd sína á sama tíma og hann reynir að feta sig áfram í ástarlífinu.

Árið 1990 fékk Joe Dante hrúgur af peningum frá Warner Bros. til að gera hvað hvað sem honum datt í hug með framhaldsmyndina af Gremlins. Árið 1992 fékk Tim Burton hrúgur af peningum frá Warner Bros. til að gera það sem hann vildi með Batman 2. Út úr þessu komu tvö meistaraverk sem almenningur féll ekki fyrir strax en hafa með tíð og tíma verið endurmetin.

Það sést á Batman Returns að Tim Burton fékk að stjórna. Tónlist Danny Elfman fær að njóta sín ótrufluð. Búningar og sviðsmynd eru jafnvel gotneskari en í fyrstu myndinni. Síðan eru mörgæsirnar. Flestar raunverulegar. Þær standa uppúr.

Batman Returns sker á flest sem tengir hana við fyrri myndina. Fyrir utan Keaton eru það líklega bara Michael Gough (Alfreð) og Pat Tingle (Gordon) sem koma fram í báðum myndum. Þeir tveir héldu svo hlutverkum sínum Batman Forever og Batman and Robin og eru líklega það eina sem gefur til kynna að myndir Joel Schumacher tengist Burton-myndunum.¹

Þó Batman Returns hafi skilað hagnaði var henni ekki vel tekið. Hún var talin of myrk. Of mikið ofbeldi. Of miklir kynferðislegir undir- og yfirtónar. McDonald’s fór í fýlu vegna þess að samningar um hamingjumáltíðarleikföng höfðu byggt á hugmyndum um barnvæna mynd.

Ég féll ekki fyrir Batman Returns á sínum tíma. Ég náði henni ekki. Hún er allt öðruvísi en upprunalega Batman Tim Burton. Í þetta skiptið áttaði ég mig á að hún er einfaldlega miklu betri.

Mig grunar að Dan Waters eigi stóran þátt í hve skemmtileg Batman Returns er. Hann á mest í handritinu þó hann hafi haft athugasemdir við ákveðnar breytingar sem voru gerðar. Áður hafði hann skrifað Heathers og verið einn af höfundum Hudson Hawk (líklega vanmetnasta mynd Bruce Willis). Það er alveg hægt að sjá línu frá fyrri verkum Dan Waters yfir í Batman Returns.

Michael Keaton er mun öruggari í titilhlutverkinu en í fyrstu myndinni. Hann virðist skemmta sér. Í þetta sinn fékk hann líka mótleikara sem gáfu af sér í stað þess að leika í áttina að honum. Það eru Christopher Walken², Danny DeVito³ og Michelle Pfeiffer sem leika skúrkana.

Það mætti búast við því að Walken myndi stela myndina eins og Nicholson gerði í þeirri fyrri. Svo er ekki. Mögulega vegna þess að hann fær ekki búning en líklega frekar vegna þess hve hörð samkeppnin er.

Nú er ég ekkert rosalega hrifinn af viðrinaskúrkum á borð við Mörgæsina. Í Batman Returns virkar það samt. Að einhverju leyti er það samúðin sem Tim Burton sýnir persónunni en aðallega er það er vegna þess að Danny DeVito⁴ er upp á sitt besta. Hann veltir sér upp úr ógeðinu, stundum bókstaflega.

You’re just jealous because I’m a genuine freak and you have to wear a mask.

Michelle Pfeiffer gefur sig alla sem Kattarkonan. Hún lærði að nota svipu þannig að þegar persónan beitir vopni sínu til að afhöfða gínur þá var það leikkonan sem framkvæmdi bragðið. Í lykilatriði milli mörgæsarinnar og kattarkonunnar setti hún lifandi fugl upp í munninn á sér.

Það er klisja að setja gleraugu á fallegar konur og klæða þær í óspennandi föt. Málið er að Michelle Pfeiffer lætur það virka því það er ekki bara þröngi gervileðurbúningur sem gerir hana kynþokkafulla. Við sjáum að persónan er allt í einu í fullum tengslum við sitt kynferðislega sjálf og sýnir það líkt. Allar hreyfingar minna að einhverju leyti á kött.

Lykilhluti af persónunni er einfaldlega röddin og raddbeiting hennar. Hún táldregur, hæðist og skammast. Hún breimar.

Það hefði verið áhugavert að sjá Catwoman-mynd með Michelle Pfeiffer eftir Dan Waters og í leikstjórn Tim Burton. Kannski ef Batman Returns hefði grætt meira. Ég hef ekki séð myndina sem var gerð rúmum áratug seinna.

Þannig að ef ég ætti að meta skúrka í myndum Tim Burton væri röðin:

Michelle Pfeiffer > Danny DeVito > Jack Nicholson.

Að mínu hógværa og heiðarlega mati er Batman Returns besta myndin um Leðurblökumanninn. Ég þarf að setja upp ákveðna varnagla.

1) Ég er ekki að hugsa um myndirnar í samhengi við teiknimyndasögurnar, bara aðrar Batman myndir. Mér er sama hve trú þær eru upprunalegu persónunum.

2) Ég nennti ekki að sjá Dark Knight Rises á sínum tíma og af nýrri myndunum hef ég bara séð Batman vs. Superman sem var óbærilega asnaleg og leiðinleg. Lego Batman er kannski í öðru sæti.

Maltin gefur ★★☆☆.

Óli gefur ★★★★★.

¹ Það er grautfúlt að Billy Dee Williams hafi ekki verið fenginn til að leika Harvey Dent í Batman Forever.

² Persóna Christopher Walken er augljóslega nefnd í höfuðið á Max Schreck, aðalleikara upprunalegu Nosferatu.

³ Danny DeVito var einu sinni herbergisfélagi mannsins sem varð til þess að Michael Douglas þurfti að kalla sig Michael Keaton.

⁴ Einn af skósveinum mörgæsarinnar er Vincent Schiavelli sem lék með DeVito í One Flew Over the Cuckoo’s Nest.

Batman (1989) 👍👍🖖

Ungur drengur verður fyrir áfalli og sem fullorðinn maður reynir hann að fylla tómið með því að klæða sig í grímubúning.

Í október 1989 var ég í Reykjavík í fimmtugsafmæli Hauks frænda. Það var ákveðið að við Starri og Aðalsteinn fengjum að fara í bíó. Það var ein mynd sem okkur þremur þótti langmest spennandi að fara á: Indiana Jones and the Last Crusade. Síðan kom í ljós að hún var bönnuð innan tólf ára og hinn níu ára Aðalsteinn taldist of ungur til að fara á hana.

Þannig að Batman í Bíóhöllinni varð fyrir valinu. Það var í fyrsta skiptið sem ég fór í bíóið í Mjódd sem hefur nú verið hverfisbíóið mitt í rúm tuttugu ár. Í lok janúar verður því lokað og vegna þess að kapítalisminn ræður öllu fáum við ekkert menningarlegt í staðinn. Bara helvítis Nova sem er fyrirtæki sem ég vissi ekki að væri ennþá starfandi.

Um daginn var ég í Egilshöll með Sigga vini mínum að ræða um væntanlegar sýningar á Batman-myndum og minning skaust upp í huga minn frá því í Glerárskóla. Ég var að segja Sigga að mér hefði ekki þótt Batman sérstaklega góð. Hann ásakaði mig um að vilja bara vera öðruvísi af því myndin væri svona vinsæl. Mögulega var smá sannleikur í því en ég held ég hafi aðallega verið að finna afsökun til að monta mig af því að hafa séð myndina löngu áður en hún kom í bíó á Akureyri. Síðan var ég smá bitur að hafa ekki fengið að sjá Indiana Jones and the Last Crusade.

Tim Burton var ekki augljóst leikstjóraval fyrir Batman en skrýtnu myndirnar hans höfðu slegið í gegn þannig að hann fékk séns. Samt ekki fyrren Joe Dante leikstjóri Gremlins hafði hafnað starfinu.

Það að fá Michael Keaton í hlutverk Batman var vægast samt umdeilt. Hann var talinn alltof mikill grínleikari til að geta staðið undir hinum myrka Batman sem aðdáendurnir voru að vonast eftir. Leðurblökumaðurinn var í uppsveiflu eftir að Alan Moore skrifaði The Killing Joke and Frank Miller hina Reagan/fasísku The Dark Knight Returns.

Á sínum tíma var Batman Tim Burton umtöluð fyrir að vera dökk teiknimyndasögumynd. Það var augljóslega miðað við tóninn í Batman þáttunum frá sjöunda áratugnum. Hún er líka dökk miðað við Joel Schumacher Batman-myndirnar sem komu seinna.

Batman er næstum því skylduáhorf. Áhrif hennar voru gríðarleg, sérstaklega vegna útlits og hönnunar. Tónlist myndarinnar er einn af hápunktum ferils Danny Elfman. Ég veit að margir eru hrifnir af lögunum sem Prince gerði fyrir myndina en mér finnst þau alltaf voðalega meh, sérstaklega miðað við hans bestu lög.

Jack Nicholson er ennþá minn Jóker. Hann fer svo innilega yfir toppinn og skyggir auðvitað á alla aðra leikara myndarinnar. Þó er Tracey Walter líka eftirminnilegur sem hans næstráðandi. Líka gaurinn sem heldur á tónlistargræjunum.

Handritið sjálft er hálfgert klúður og það hefði mátt stytta Batman töluvert. Kim Basinger passar eiginlega ekki í myndina og ég held að það sé ekki henni að kenna.¹

Af öðrum leikurum myndarinnar má nefna Billy Dee Williams, Pat Hingle, Jerry Hall, Robert Wuhl og auðvitað Jack Palance.

Maltin gefur ★★⯪☆.

Óli gefur ★★★★☆👍👍🖖

¹ Hlutverk Kim Basinger í Batman varð til þess að hún var kynnir á Óskarsverðlaununum fyrir árið 1989. Ég hef ekki séð almennilega staðfestingu á því sem gerðist en ég held að hún hafi einfaldlega farið út fyrir handritið þegar hún átti að kynna Dead Poets Society. Hún leit allavega út fyrir að vera mjög taugaóstyrk þegar hún fór allt í einu að tala um að ein besta mynd ársins Do The Right Thing hefði ekki hlotið tilnefningu. Fyrir það verður Kim Basinger alltaf á mínum topplista.

Le Bonheur (1964) ★★★★★👍👍🖖

Hamingjusamur fjölskyldufaðir reynir að finna sér enn meiri hamingju.

Le Bonheur er ekki það sem hún virðist vera. Hún er eitthvað meira. Þetta er dökk mynd. Eiginlega með þeim dekkstu. Hún er miskunnarlaus fordæming á karlrembu fransks samfélags. Það eru líka fleiri en ég sem hafa tekið eftir á að hún sé eiginlega rangt flokkuð sem dramamynd.

Agnès Varda byrjaði feril sinn sem ljósmyndari og það sést. Ég hef sjaldan séð jafngóða römmun og Le Bonheur og hinum myndum hennar. Hérna fær litanotkun hennar að blómstra. Það öskrar ekkert á mann og líklega er hægt að missa af því. Það er bara hluti af hinum hversdagslega raunveruleika fjölskyldunnar. Sem mér þykir töluvert afrek.

Maltin gefur ★★⯪☆ og segir að sagan sé ósannfærandi og ég ætla að segja nokkuð sem ég forðast almennt: hann fattaði ekki myndina.

Óli gefur ★★★★★👍👍🖖

Cecil B. Demented (2000) ★★★☆☆👍

Frægri leikkonu er rænt og hún neydd til að koma fram í kvikmynd sem gagnrýnir Hollywood.

Cecil B. Demented skartar Melanie Griffith í aðalhlutverki en þarna er líka fjöldinn allur af leikurum undir þrítugu sem voru ekki sérstaklega frægar á þeim tíma en hafa afrekað margt á síðasta aldarfjórðungi, s.s. Stephen Dorff, Maggie Gyllenhaal, Alicia Witt, Michael Shannon og Adrian Grenier. Síðan er Patty Hearst¹ á svæðinu til þess að spegla reynslu persónu Melanie Griffith.

Hópurinn sem rænir Melanie Griffith samanstendur af ungu kvikmyndagerðarfólki og -unnendum. Þau hata meginstrauminn og sérstaklega Hollywood. Þau vilja eitthvað meira ekta en eru alveg laus við að átta sig á eigin tilgerð. Sumsé, Cecil B. Demented er ekki bara að gagnrýna Hollywood heldur líka að gera grín að þeim sem taka sjálfstæða kvikmyndagerð óhóflega alvarlega. Um leið er hjarðeðli almennings skotmark.

Á köflum er Cecil B. Demented ákaflega fyndin en hún er líka mjög ójöfn. Hún stendur ekki alveg undir sér en hún er nógu stutt til þess að það var ekki að ergja mig neitt óhóflega. Leikararnir gera mikið fyrir myndina. Það á bæði við um þau yngri og Melanie Griffith sem gerir töluvert grín að eigin ímynd.

Maltin gefur ★⯪☆☆ og var greinilega ekki alveg að fíla myndina.

Óli gefur ★★★☆☆👍

¹ Árið 1974 var Patty Hearst, barnabarni blaðakóngsins William Randolph Hearst², rænt af samtökum sem kölluðust Symbionese Liberation Army. Tveimur mánuðum seinna fengu fjölmiðlar segulbandsspólu þar sem hún lýsti því yfir að hún hefði gengið til liðs við mannræningja sína. Hún tók í kjölfarið þátt í aðgerðum s.s. bankaráni.

Rúmu einu og hálfu ári eftir að Patty Hearst var rænt var hún handtekin. Þrátt fyrir að ekkert benti til þess að hún hefði framið nokkra glæpi ef henni hefði ekki verið rænt var hún sótt til saka og dæmd í fangelsi. Dómurinn var síðan mildaður og að lokum var hún náðuð.

² Sjá umfjöllun um Citizen Kane.

Laura (1944) ★★★⯪☆👍

Lögreglumaður rannsakar morð heillandi og fallegrar ungrar konu en það er ekki allt sem sýnist.

Laura er mikils metin kvikmynd eftir Otto Preminger. Ég hef heyrt að hún hafi haft töluverð áhrif á David Lynch og að persónan Laura Palmer í Twin Peaks sé nefnd eftir titilpersónu myndarinnar.

Þó ég vissi fyrirfram að Vincent Price léki í Laura þekkti ég hann ekki strax en auðvitað þurfti hann ekki að segja margt áður en ég tengdi. Það er ekki bara að hann sé tiltölulega ungur hérna heldur áttaði ég mig alls ekki á hve hávaxinn hann var.

Mér þótti Laura mjög fín mynd en ég sá ekki snilldina. Mögulega get ég bara ekki áttað mig nægilega vel á því hvað var nýtt á þessum tíma. Allavega held ég því alveg opnu að ég hafi ekki náð þessari mynd.

Maltin gefur ★★★★.

Óli gefur ★★★⯪☆👍.

Cléo de 5 à 7 (1962) ★★★★⯪👍👍

Söngkonan Cléo reynir að dreifa huga sínum meðan hún bíður slæmra frétta.

Cléo de 5 à 7 rímar við Sans toit ni loi. Það var ekki eitthvað sem ég áttaði mig á þegar ég ákvað að horfa á tvær kvikmyndir eftir Agnès Varda með stuttu millibili. Cléo er nærri toppnum en Mona á botninum. Mögulega ríma allar myndir hennar, ég hef ekki séð fleiri.

Cléo de 5 à 7 gerist á nær rauntíma og þar sem lengd myndarinnar er ekki nema níutíu mínútur er titillinn villandi, myndin endar um hálf-sjö. Corinne Marchand nær að túlka persónu sem verður hægt og rólega áhugaverðari eftir því sem hún nálgast dóm sinn.

Þrátt fyrir að vera hrifnari af kvikmyndum með meiri söguþræði greip Cléo de 5 à 7 mig.

Ég verð að nefna skemmtilegt atriði þar sem Cléo horfir á þögla gamanmynd með leikurum á borð við Jean-Luc Godard, Anna Karina og Eddie Constance.

Matlin gefur ★★★☆.

Óli Gneisti gefur ★★★★⯪👍👍.

Sans toit ni loi (1985) ★★★★⯪👍👍

Ung kona finnst látin í skurði og við heyrum frá fólki sem kynntist henni, til lengri og skemmri tíma, í aðdraganda andláts hennar.

Sandrine Bonnaire leikur aðalhlutverkið í mynd Agnès Varda Sans toit ni loi. Á ensku er myndin kölluð Vagabond en íslenski titillinn Ekkert þak, engin lög er nær bókstaflegu merkingu frönskunnar. Mona er flakkari eða einfaldlega útigangskona.

Í Sans toit ni loi sjáum við harmleik í uppsiglingu. Margir eru tilbúnir að hjálpa aðalpersónunni, að vissu marki en Mona gerir þeim það ekki sérstaklega auðvelt. Það er greinilega eitthvað meira að. Það eru líka ýmsir sem gera henni mein, viljandi og af slysni eða bara einföldu tillitsleysi.

Sandrine Bonnaire er alveg frábær.

Þar sem ég sá aðra mynd eftir Agnès Varda, Cléo de 5 à 7, strax næsta dag á ég svolítið erfitt með að hugsa um Sans toit ni loi eina og sér. Þessi samanburður hækkar álit mitt á báðum kvikmyndunum.

Maltin gefur ★★★⯪.

Óli gefur ★★★★⯪👍👍.

Waxwork (1988) ★★★☆☆👍

Ungt fólk ákveður að þiggja miðnæturheimsókn á dularfullt vaxmyndasafn.

Waxwork veit að hún er ódýr hryllingsgamanmynd. Markmiðið var ekki að gera lélega mynd heldur skemmtilega mynd sem tekur sig ekki alvarlega. Hún nær ekki alveg að lenda. Hún er 93 mínútur og það hefði mátt skafa aðeins af henni. Þrátt fyrir það þótti mér hún skemmtileg.

Aðalleikararnir voru vel þekktir á þessum tíma. Það á við um Deborah Foreman og Michelle Johnson. Zach Galligan lék auðvitað í Gremlins og í Waxwork skemmtir hann sér með persónu sem er gjörólík því hlutverki. David Warner (sem ég tengi alltaf við The Man With Two Brains) rekur vaxmyndasafnið og John Rhys-Davies (góðu Indiana Jones myndirnar) kemur örsnöggt þó persóna hans sé lengur á skjánum.

Maltin gefur ★⯪☆☆.

Óli gefur ★★★☆☆👍.

The First Wives Club (1996) ★★★⯪☆👍

Þrjár gamlar vinkonur ákveða að ná fram réttlæti gagnvart mönnunum sem hafa komið illa fram við þær.

Á sínum tíma var The First Wives Club frekar byltingarkennd því þetta var mynd með eldri leikkonum (rétt rúmlega fimmtugum sumsé) í aðalhlutverkum. Hvers vegna myndi nokkur vilja horfa á þær?

Auðvitað voru Diane Keaton¹, Goldie Hawn² og Bette Midler³ þá fyrir löngu búnar að sanna sig sem gamanleikkonur. The First Wives Club er líka ákaflega fyndin. Það eru líka margir góðir leikarar í aukahlutverkum sem fá mismikið að gera.

Maggie Smith, Elizabeth Berkley, Sarah Jessica Parker, Marcia Gay Harden, Stockard Channing, Timothy Olyphant, Rob Reiner, Bronson Pinchot, Stephen Collins, …

The First Wives Club er leikstýrð af Hugh Wilson sem er líklega þekktastur fyrir Police Academy en mér þykir alltaf sérstaklega vænt um mynd hans Rustlers’ Rhapsody.

Það er töluvert stefnuleysi í The First Wives Club. Það er eins og fólkið sem gerði myndina hafi ekki verið sammála um hvernig hún ætti að vera. Á köflum eru innskot með Diane Keaton með sögumanni sem virka mjög undarlega, eins og þeim hafi verið bætt við eftir á til að útskýra rugling í söguþræðinum.

Sem feminísk mynd er The First Wives Club ekki alltaf frábær. Meðferðin á nýju kærustum gömlu mannanna er til dæmis undarleg. Sú eina sem gerði eitthvað raunverulega af sér sleppur eiginlega alveg en það er barið á þeim yngri. Síðan eru frekar ósmekklegir brandarar um átröskum sem eru mjög síns tíma.

Maltin gefur ★★⯪☆ og segir að bókin sé betri.

Óli gefur ★★★⯪☆👍.

¹ Upprunalega Diane Hall, kölluð Annie. Þegar Michael Douglas gat ekki notað sitt eigið nafn vegna Hollywood-reglna ákvað hann að taka leikaranafnið Keaton í höfuðið á Diane. Pabbi mannsins sem mátti nota ættarnafn hans hét upprunalega Issur Danielovitch og tók upp fornafnið Kirk.

² Upprunalegt nafn hennar var Goldie Jean Studlendgehawn.

³ Upprunalegt nafn hennar var Bette Midler.

Midnight Run (1988) ★★★★⯪👍👍

Góðhjartaður glæpamaður á flótta er gómaður af fyrrverandi löggu sem hefur fimm daga til að koma honum frá New York til Los Angeles.

Midnight Run var ein eftirlætismyndin mín á tímabili. Satt best að segja horfði ég nógu oft á hana til þess að ég var kominn með smá leið á henni. Síðan eru liðin mörg ár.

Midnight Run í leikstjórn Martin Brest (Beverly Hills Cop) fjallar um ólíklega félaga og er blanda af gaman-, hasar- og vegamynd. Robert De Niro og Charles Grodin ná ákaflega vel saman en Yaphet Kotto, Joe Pantoliano og John Ashton (félagi Judge Reinhold í Beverly Hills Cop) eiga allir mörg skemmtileg atriði.

Það er ekki hægt að segja að Midnight Run hafi gleymst en hún er ekki jafn oft nefnd og hún á skilið. Hún hefur elst mjög vel þó hún sé auðvitað barn síns tíma. Við sjáum hluti sem væru óhugsandi í dag.¹

Tónlist Danny Elfman spilar stóran þátt í takti myndarinnar. Midnight Run er reyndar frekar ólík öðrum verkum hans, allavega frá upphafsárunum.

Maltin gefur ★★★⯪.

Óli gefur ★★★★⯪👍👍.

¹ Á þessum tíma þótti nefnilega í fínu lagi að reykja út um allt. Yngra fólk áttar sig kannski ekki á því að mörgum þótti Charles Grodin voðalega pirrandi og leiðinlegur fyrir að kvarta undan reyknum.

Bugonia (2025) ★★★★★👍👍

Tveir frændur hafa komist að þeirri niðurstöðu að forstjóri stórfyrirtækis eigi sök á því hve hræðilegt líf þeirra er og reyna að leysa vandamálið með ófyrirséðum afleiðingum.

Þar sem ég var ákaflega hrifinn af Poor Things hafði ég töluverðar en kvíðablandnar væntingar til Bugonia sem er gerð af sama leikstjóra, Yorgos Lanthimos. Þetta var ekki gleðirík bíóferð því myndin hófst ekki fyrren hálftíma eftir auglýstan sýningartíma. Það var sumsé pirringur í loftinu. Takk Sambíóin Álfabakka.

Í stuttu máli er Bugonia ein besta kvikmynd þessa árs. Hún er sú eina sem er í raunverulegri samkeppni við Companion um efsta sætið. Þegar ég fer yfir árið í heild eru allar líkur á að ég horfi aftur á þessar tvær myndir.

Bugonia er mjög dökk gamanhryllingsmynd. Alveg með þeim dekkstu. Hún fjallar um stöðu heimsins á ákaflega gagnrýnin hátt. Nú er ég ekki alveg viss um að allir túlki myndina á sama hátt en mér þótti boðskapurinn þó frekar skýr og að í honum fælist nauðsynleg skilaboð.

Íslenski texti myndarinnar var á köflum mjög vandræðalegur. Verst var líklega að tvíræðni enskunnar í notkun persónufornafna glataðist algjörlega. Það náði líka að ergja mig töluvert að þýðandinn hafði ekki einu sinni fyrir því að fletta upp orðinu „shibboleth“ og ákvað að þýða það sem „slagorð“.¹

Emma Stone og Jesse Plemons eru jafn góð og við var að búast. Alicia Silverstone var óþekkjanleg.² En það er hinn ungi Aidan Delbis í hlutverki frændans sem veit ekki alveg hvað er á seyði sem slær í gegn.

Bugonia er endurgerð af suður-kóreskri mynd sem kallast Save the Green Planet! (2003). Miðað við hve skýrar vísanir þessi nýja mynd hefur í samtíma okkar get ég ímyndað mér að mörgu hafi verið breytt.

Bugonia er að öllu leyti frábær mynd. Kvikmyndataka, hönnun, klipping … Það eina sem gerði mig efins um að splæsa á hana fimm stjörnum³ var að mér þótti Poor Things betri.

Óli gefur ★★★★★👍👍.

¹ Bókstaflega þýðingin hefði auðvitað verið sjibbótet en þar sem við notum þessa Biblíuvísun ekki í daglegu máli mætti í staðinn segja „lausnarorð“. Sagan sjálf er frekar óhugnanleg en hljómar jafnvel verr eftir atburði síðustu ára.

Gíleaðítar settust um Jórdanvöðin yfir til Efraím. Og þegar flóttamaður úr Efraím sagði: „Leyf mér yfir um!“ þá sögðu Gíleaðsmenn við hann: „Ert þú Efraímíti?“ Ef hann svaraði: „Nei!“ þá sögðu þeir við hann: „Segðu ,Sjibbólet.'“ Ef hann þá sagði: „Sibbólet,“ og gætti þess eigi að bera það rétt fram, þá gripu þeir hann og drápu hann við Jórdanvöðin. Féllu þá í það mund af Efraím fjörutíu og tvær þúsundir.

² Ég þekkti hana allavega ekki.

³ Ég gef ekki einkunnir á kúrvu, ég er með ákveðna stigagjöf, mínusar og plúsar sem gefa kvikmyndum af mismunandi tegundum að ná upp í fimmta sætið. Ef ég umbreytti stjörnugjöf minni á nýjum kvikmyndum í tölur er meðaltalið á milli fimm og sex á skalanum 1-10.

Night of the Creeps (1986) ★★★⯪☆👍👍

Það eru krípí kríp að hrella háskólastúdenta um miðjan níunda áratuginn.

Night of the Creeps er ein af þeim hryllingsmyndum frá þessu tímabili sem ég lét alveg fara framhjá mér. Þær höfðu flestar yfirbragð lélegra mynd. Það var mælt með myndinni í Critically Acclaimed, ekki sem stórkostlegri mynd heldur gott dæmi sinnar gerðar.

Leikstjóri Night of the Creeps er Fred Dekker sem gerði næst myndina Monster Squad sem ég hef bara séð einu sinni en líkaði vel við sem grínhryllingsmynd. Handrit þeirrar myndar var skrifað af Dekker og Shane Black (sem varð mun frægari þegar á leið¹).

Það sem dregur Night of the Creeps niður er að leikaravalið er ekki frábært. Það á sérstaklega við um yngri leikarana (nema kannski sá sem leikur skíthælinn). Tom Atkins leikur gamla löggu og hann neglir hlutverkið alveg. Hann veit alveg í hvaða mynd hann er.

Þetta er svona „Ef…“ mynd því það hefði ekki þurft mikið til að Night of the Creeps væri algjörlega klassísk hryllingsmynd á borð við A Nightmare on Elm Street eða jafnvel Gremlins. Ef tæknibrellurnar væru örlítið betri. Ef einhver (t.d. Shane Black) hefði fengið að laga handritið aðeins til. Ef leikararnir væru aðeins betri.

Það er samt lítils virði að reyna að ímynda sér betri útgáfu af myndinni… nema ef einhver myndi einfaldlega endurgera hana. Í heildina er Night of the Creeps ákaflega fín og oft fyndin.

Það eru ótal skemmtilegar vísanir í eldri hryllingsmyndir í Night of the Creeps. Svo er þarna leikari í litlu hlutverki sem er eiginlega sjálfur ein allsherjar vísun hvar sem hann birtist.

Maltin hefur sleppt Night of the Creeps úr handbók sinni sem er mjög óvenjulegt.

Óli gefur ★★★⯪☆👍👍.

¹ Shane Black skrifaði t.d. Last Action Hero, The Last Boy Scout, Lethal Weapon og Predator. Hans bestu myndir eru líklega þær sem hann leikstýrði sjálfur, Kiss Kiss Bang Bang og The Nice Guys. Svo leikstýrði hann einhverri Marvel-mynd sem ég sá aldrei. Þeir Fred Dekker gerði síðan saman The Predator sem mér skilst að sé óþarfi að sjá. Nýjasta mynd Shane Black er Play Dirty sem ég hef ekki lagt í.

The Wolf of Wall Street (2013) ★★★⯪☆👍

Ris og fall og endurkoma svikahrapps.

The Wolf of Wall Street ætti að vera augljós viðvörun til fólks að treysta ekki svikahröppum á borð við þann sem Leonardo DiCaprio leikur. Um leið ættu áhorfendur að sjá að fjármálakerfið er spillt og þjónar aldrei hagsmunum almennings. Það er það sem ég held að Martin Scorsese vilji segja.

The Wolf of Wall Street sýnir uppgang þessa svikahrapps í slíku ljósi að margir virðast hafa litið á hann sem fyrirmynd. Þó Scorsese sýni fallið þá eru senurnar með fallegum nöktum konum eftirminnilegri. Ef þú græðir nóg getur þú fengið að sofa hjá Margot Robbie.

Auðvitað eru þeir sem sjá svikahrappinn í þessum hetjuljóma yfirleitt ekki þeir sem munu verða ríkir á siðlausum viðskiptum heldur þeir sem munu missa peningana sína í peningaleitinni. Kannski hefði mátt eyða einhverjum tíma í að sýna hvernig fór fyrir þeim sem fjárfestu hjá þessu gaur.

Þetta loðir við myndir Scorsese. Það eru endalaust margir sem horfðu á Taxi Driver, Goodfellas og jafnvel Raging Bull og sáu Travis Bickle, Henry Hill og Jake Lamotta í einhverjum dýrðarljóma. Með flottri kvikmyndatöku og réttri tónlist verða skíthælarnir svalir. Hæfileikar kvikmyndargerðarmannsins Scorsese sem kvikmyndagerðarmanns vinnur þannig gegn boðskapnum.¹

Ef við lítum framhjá þessum siðferðislega vinkli er hið augljósa að The Wolf of Wall Street er of löng. Það þurfti ekki þrjá klukkutíma til að segja þessa sögu. Hún er satt best að segja ekki nógu áhugaverð til þess. Aftur á móti er hún oft fyndin.

Myndin er uppfull af góðum leikurum og ég nenni varla upptalningu. Það var auðvitað sérstaklega gaman að sjá Rob Reiner í hlutverki föðursins í ljósi þess að persóna hans Marty Di Bergi í This is Spinal Tap var augljóslega byggð á Martin Scorsese. Svo er augljóslega gaman sjá Jonah Hill í hlutverki Nikótínsalans Sven.

Maltin gefur ★★⯪☆ og segir að mynd um óhóf sé óhóflega löng.

Óli er aðeins hressari og gefur ★★★⯪☆👍 en líklega nær þremur en fjórum.

¹ Þegar ég var að leita að mynd til að skreyta þennan dóm var augljóst að nær öll skjáskot og kynningarmyndir voru af svala svikahrappnum og nær ekkert af falli hans.