Ungur drengur verður fyrir áfalli og sem fullorðinn maður reynir hann að fylla tómið með því að klæða sig í grímubúning.
Í október 1989 var ég í Reykjavík í fimmtugsafmæli Hauks frænda. Það var ákveðið að við Starri og Aðalsteinn fengjum að fara í bíó. Það var ein mynd sem okkur þremur þótti langmest spennandi að fara á: Indiana Jones and the Last Crusade. Síðan kom í ljós að hún var bönnuð innan tólf ára og hinn níu ára Aðalsteinn taldist of ungur til að fara á hana.
Þannig að Batman í Bíóhöllinni varð fyrir valinu. Það var í fyrsta skiptið sem ég fór í bíóið í Mjódd sem hefur nú verið hverfisbíóið mitt í rúm tuttugu ár. Í lok janúar verður því lokað og vegna þess að kapítalisminn ræður öllu fáum við ekkert menningarlegt í staðinn. Bara helvítis Nova sem er fyrirtæki sem ég vissi ekki að væri ennþá starfandi.
Um daginn var ég í Egilshöll með Sigga vini mínum að ræða um væntanlegar sýningar á Batman-myndum og minning skaust upp í huga minn frá því í Glerárskóla. Ég var að segja Sigga að mér hefði ekki þótt Batman sérstaklega góð. Hann ásakaði mig um að vilja bara vera öðruvísi af því myndin væri svona vinsæl. Mögulega var smá sannleikur í því en ég held ég hafi aðallega verið að finna afsökun til að monta mig af því að hafa séð myndina löngu áður en hún kom í bíó á Akureyri. Síðan var ég smá bitur að hafa ekki fengið að sjá Indiana Jones and the Last Crusade.
Tim Burton var ekki augljóst leikstjóraval fyrir Batman en skrýtnu myndirnar hans höfðu slegið í gegn þannig að hann fékk séns. Samt ekki fyrren Joe Dante leikstjóri Gremlins hafði hafnað starfinu.
Það að fá Michael Keaton í hlutverk Batman var vægast samt umdeilt. Hann var talinn alltof mikill grínleikari til að geta staðið undir hinum myrka Batman sem aðdáendurnir voru að vonast eftir. Leðurblökumaðurinn var í uppsveiflu eftir að Alan Moore skrifaði The Killing Joke and Frank Miller hina Reagan/fasísku The Dark Knight Returns.
Á sínum tíma var Batman Tim Burton umtöluð fyrir að vera dökk teiknimyndasögumynd. Það var augljóslega miðað við tóninn í Batman þáttunum frá sjöunda áratugnum. Hún er líka dökk miðað við Joel Schumacher Batman-myndirnar sem komu seinna.
Batman er næstum því skylduáhorf. Áhrif hennar voru gríðarleg, sérstaklega vegna útlits og hönnunar. Tónlist myndarinnar er einn af hápunktum ferils Danny Elfman. Ég veit að margir eru hrifnir af lögunum sem Prince gerði fyrir myndina en mér finnst þau alltaf voðalega meh, sérstaklega miðað við hans bestu lög.
Jack Nicholson er ennþá minn Jóker. Hann fer svo innilega yfir toppinn og skyggir auðvitað á alla aðra leikara myndarinnar. Þó er Tracey Walter líka eftirminnilegur sem hans næstráðandi. Líka gaurinn sem heldur á tónlistargræjunum.
Handritið sjálft er hálfgert klúður og það hefði mátt stytta Batman töluvert. Kim Basinger passar eiginlega ekki í myndina og ég held að það sé ekki henni að kenna.¹
Af öðrum leikurum myndarinnar má nefna Billy Dee Williams, Pat Hingle, Jerry Hall, Robert Wuhl og auðvitað Jack Palance.
Maltin gefur ★★⯪☆.
Óli gefur ★★★★☆👍👍🖖
¹ Hlutverk Kim Basinger í Batman varð til þess að hún var kynnir á Óskarsverðlaununum fyrir árið 1989. Ég hef ekki séð almennilega staðfestingu á því sem gerðist en ég held að hún hafi einfaldlega farið út fyrir handritið þegar hún átti að kynna Dead Poets Society. Hún leit allavega út fyrir að vera mjög taugaóstyrk þegar hún fór allt í einu að tala um að ein besta mynd ársins Do The Right Thing hefði ekki hlotið tilnefningu. Fyrir það verður Kim Basinger alltaf á mínum topplista.
