London 2024 – afmælisferð

Snemma á árinu stakk Hafdís systir upp á því við mig að við myndum halda upp á afmæli mömmu með því að fara saman í ferð til London. Hún hefði orðið sjötug þann 11. nóvember.

Við Eygló fórum út á föstudegi. Öll börn voru skilin eftir heima og því gátum við snarað Sóleyju Önnu frænku í að vera með strákana. Hún fékk líka bílinn okkar sem virkaði fínt því við gátum bara lagt honum við BSÍ og síðan sótt hann aftur þegar við komum heim með rútunni af flugvellinum.

Það er lítið um flugið að segja. Ég þyrfti alltaf að muna að vera með tyggjó þegar ég flýg því hellurnar geta verið erfiðar (aðallega af því ég heyri svo lítið áður en eyrun jafna sig). Lukkulega var Eygló með slíkt þarfaþing.

Þegar ég fer til London reyndi ég að stilla því þannig upp að ég geti farið beint í neðanjarðarlestina af Heathrow og komið upp á þeirri stöð sem næst er hótelinu. Núna var Earl’s Court sú stöð.

Við gátum ekki innritað okkur strax þannig að við settum farangur í geymslu og skruppum í verslunarmiðstöðina Westfield. Það tók lengri tíma en ég hélt en allavega náði ég að fá tvennar buxur, jakka og tvo UHD bluray diska.

Þegar við komum til baka var okkur vísað á herbergið okkar. Í kjallaranum. Okkur var sagt að við gætum beðið um annað herbergi daginn eftir ef við værum ósátt.

Til þess að komast í herbergið þurfti að leggja á minnið ótal beygjur, fara í gegnum tvær eldvarnarhurðir og niður stiga (hvers vegna þá að auglýsa að það sé lyfta).

Herbergið var fínt að mestu leyti. Mjög stórt. Það var hins vegar erfitt að ná réttu hitastigi, aðallega vegna þess að flest hafði máðst út af hitastillinum. Við gátum líka heyrt í neðanjarðarlestinni undir okkur. Það hefði farið illa í mig ef ég hefði ekki verið með eyrnatappa. Ekki nenntum við samt að skipta um herbergi, óþörf fyrirhöfn fyrir lítinn ávinning.

Við höfðum ekki mikinn afslöppunartíma því við þurftum að koma okkur í leikhús. Það gekk reyndar svo hægt að við enduðum inn á McDonald’s til þess að geta borðað hratt.

Reykjavík (Hampstead Theatre)

Það er hálfvonlaust að mæla með leikriti sem er bara í gangi í þessum mánuði en ef þið farið þangað og hafið tækifæri ættuð þið að kíkja. Þið mættuð þá líka sleppa því að lesa það sem ég skrifa um leikritið og leyfa því að koma á óvart.

Þegar kom að því að velja leikhússýningu fyrir þessa ferð var margt í boði. Sumt var samt augljóslega eitthvað sem við hefðum viljað fara á með Gunnsteini. Við fundum leikrit sem er sýnt í takmarkaðan tíma.

Reykjavik snýst um fiskveiðar breskra sjómanna við Íslandsstrendur. Árið er 1975. Leikritið byrjar í Hull en eftir hlé förum við til Reykjavíkur.

Leikmyndirnar voru tvær, skrifstofa útgerðarinnar og móttaka á reykvísku hóteli. Eygló sagðist vera óvön slíkum einfaldleika þar sem íslensk leikhús væru yfirleitt sífellt að skipta öllu út. Það virkaði allavega vel þarna.

Mig grunar að Bretar viti ekki hve mikla samúð Íslendingar hafa með þeim sjómönnum sem misstu lífsviðurværi sitt þegar við færðum út landhelgina. Það var því heillandi að sjá söguna frá sjónarhóli þeirra.

Af öllu sem kom fyrir í leikritinu þótti mér áhugaverðast að heyra af “The Widow’s Walk”. Samkvæmt leikritinu var það hálfgerð píslarganga þar sem útgerðarstjórinn heimsótti ekkjur þeirra sjómanna sem höfðu farist og til að tilkynna þeim það formlega (þó þær hefði líklega vitað það þá þegar).

Þegar sviðsmyndin af reykvíska hótelinu var afhjúpuð hló ég. Ekki af því að þetta leit gervilega út. Þvert á móti fannst mér eins og margt þarna væri ákaflega kunnuglegt. Einhvern veginn fannst mér stafagerðin sem var notuð á skiltin (“móttaka” osfrv.) hljóta að hafa verið mikið notuð á Íslandi.

Síðan voru brennivínsflöskur á sviðinu. Bjórbannið kom einmitt mikið til tals (flest sögulega rétt) enda bresku sjómennirnir vanari þeim drykk. Í bakgrunninum var í gangi íslenskur fréttaflutningur af útfærslu landhelginnar í tvöhundruð mílur.

Leikkonan Sophie Cox fór með hlutverk eina Íslendingsins í leikritinu, hótelstjóra að nafninu Einhildur (raunverulegt en sjaldgæft nafn). Við höfum væntanlega flest heyrt vonlausar tilraunir erlendra leikara sem reyna að tala með íslenskum hreim, yfirleitt hljóma þeir bara eins og Svíar. Sophie náði þessu hins vegar bara mjög vel. Framburður hennar var reyndar frekar harður þannig að ég hefði giskað að persónan væri að norðan en ekki Reykvíkingur.

Ýmislegt yfirnáttúrulegt kemur við sögu í leikritinu. Það virðist vera svipað með fiskveiðisamfélögin í Hull og Íslandi að trúarbrögð skipta minna máli en hjátrú af ýmsum toga. Allavega ef við miðum við sögurnar sem sjómennirnir sögðu.

Þegar Einhildur sagði sögu varð Djákninn á Myrká fyrir valinu. Það var kannski veikasti bletturinn á íslenska hlutanum. Sagan var töluvert breytt og var til að mynda prestur í aðalhlutverki.

Laugardagur

Við fengum tilboð frá Önnu um að vera með í kirkjuskoðun snemmmorguns á laugardag en við voru ennþá þreytt þannig að í staðinn ráfuðum við um. Uppáhalds verslunarbletturinn minn er auðvitað þar sem hægt er að komast í Forbidden Planet (nördabúð), Orc’s Nest (spil) og Fop (tónlist og kvikmyndir). Þegar þessar tvær fyrrnefndu búðir eru heimsóttar sést auðvitað hve góð búð Nexus er.

Við rákumst síðan á Foyle’s þarna rétt hjá og ég rölti um átta hæðir af bókum (og tímaritum og öðru sem finnst í bókabúðum). Ég fann þar eina bók sem ég hef reynt að finna í ýmsum búðum. Gott úrval en yfirþyrmandi.

Á leið á hótelið fengum við tvo valkosti.

  1. Horfa á fótbolta á bar með Önnu systur, Martin mág og Óla móðurbróður.
  2. Borða með Hafdísi systur og Mumma mág. Við vorum svöng og fótbolti er mér ekki kær.

Maturinn var á veitingastað samtengdum hótelinu okkar. Þar var malaískur (vona að ég muni að fletta þessu upp) matur. Ég reyndi eitthvað nýtt og fílaði ekki.

Eftir mat ákváðum við að finna bar þar sem hægt var að setjast niður og spjalla. Við vorum heppin að finna Checkmate. Þar voru fallegir og þægilegir leðursófar. Fótboltinn var reyndar á sjónvarpsskjánum en hljóðstyrkurinn var mjög hóflegur. Mæli alveg með.

Þegar við komum aftur á hótelið hittumst við öll saman í fyrsta skiptið og ákvörðuðum plön fyrir næsta dag.

Sunnudagur

Camden Town hef ég af einhverjum ástæðum ekki heimsótt áður. Við byrjuðum daginn á að koma okkur þangað. Markaðurinn var skemmtilegur og ég hefði án efa getað eytt töluverðum tíma í að ráfa þar um en það gátum við ekki.

Við höfðum bókað siglingu um skipaskurð. Báturinn var ekki sá mest traustvekjandi sem ég hef farið í en svosem ekkert hættulegur að sjá. Við lögðum af stað frá Camden og fórum að Little Venice.

Leiðsögumaðurinn okkar talaði aðallega um bátamenningu Englands. Hann útskýrði fyrir okkur hvernig auðjöfrar hafa gert þeim fátækari ákaflega erfitt fyrir með því að kaupa upp bátalægi í London. Við fengum líka að heyra um muninn á þeim sem raunverulega nota bátana sína og þeim sem búa í þeim og fara aldrei neitt. Hann hálfspáði því að margir þeirra báta myndi sökkva fyrr eða síðar vegna vanrækslu. Áhugavert.

Í bátnum varð ég fyrir því óláni að annað glerið datt úr gleraugunum mínum. Lukkulega fann ég samt skrúfuna. Þegar við komum að veitingastað varð ég glaður að sjá steikarhnífa með frekar hvössum oddi. Það var ekki auðvelt en ég notaði hnífinn til þess að skrúfa gleraugun aftur saman.

Við fengum stutt stopp á hótelinu áður en kom að aðalatriði ferðarinnar.

ABBA ferðin

Ætli flestir hafi ekki heyrt um ABBA Voyage. Þar eru meðlimir hljómsveitarinnar endurskapaðir í þrívídd.

Líklega hefði ég ekki valið sjálfur að fara á þess sýningu en ég mótmælti ekkert. Ég er auðvitað mjög hrifinn af ABBA. Þetta er líka hljómsveit sem á næstum því jafn mörg þekkt lög og Queen. Ég hef samt ekkert kafað mikið meira en ABBA Gold og ABBA More Gold.

Helsta umkvörtunarefni mitt er hve skær ljósin voru á köflum. Ég þurfti að loka augunum í allavega tveimur lögum.

Þrívíddin virkar merkilega vel. Meðlimir hljómsveitarinnar léku sig sjálf klædd sérstökum göllum með borðtenniskúlum. Svona eins og eru notaðar í öllum myndum sem treysta mikið á tölvugrafík.

Áhorfendur sjá hins vegar fólkið eins og það var þegar ABBA var upp á sitt besta. Þær tölvugerðu manneskjur köfuðu samt stundum djúpt í “óþægindadalinn” (uncanny valley). Persónurnar voru sumsé ákaflega nálægt því að vera raunverulegar þannig að gervileikinn varð frekar áberandi.

Líklega eru húð og hár bestu dæmin um þennan gervileika. Skegg- og skeggbroddar virkuðu oft mjög óraunverulega. Þá var húðin á fólkinu stundum undarlega slétt. Það var samt alls ekki alltaf og bara þegar fólk var í nærmynd.

Mér fannst gervifólkið njóta sín best þegar lögmál raunheimsins voru hunsuð eða þegar gervileikinn var settur í aðalhlutverk. Í einu atriði eru allir í hálfgerðum Tron-galla sem leit flott út.

Ég held satt best að segja að sýningin væri skemmtilegri ef meira væri leikið sér með fáránleika þess að hafa þrívíddarskapaðar manneskjur. Ég hefði jafnvel byrjað á því að sýna meðlimi hljómsveitarinnar þegar þau tóku upp hlutverk sín og sjá umbreytinguna sem verður þegar tölvugrafíkin er sett ofan á þau.

Þó ég hafi verið sáttur við fáránleikann var ég ekki alltaf hrifinn af því þegar persónurnar þökkuðu fyrir klapp sem þær gátu ekki heyrt. Ég var mjög feginn að uppklappið var fyrst og fremst tileinkað tónlistarfólkinu sem var raunverulega á sviðinu.

Lagavalið var ágætt. Ég þekkti ekki alveg öll lögin nægilega vel til að syngja með. Flest uppáhaldslögin mín voru þarna. Þar er auðvitað Thank You For The Music efst á blaði. Við gátum samt talið upp ýmis lög sem hefðu mátt vera með í sýningunni.

Eftir sýningu fórum við aftur í átt að hótelinu. Við tókum fyrst leigubíla til að koma okkur að lestarstöðinni. Við Eygló, Anna og Martin vorum saman í bíl og þegar bílstjórinn sagði okkur að það væri mikil umferð nálægt ákvörðunarstað okkur sagði ég ákveðið að við þyrftum að fara þangað til að hitta fólk.

Þegar við komum á lestarstöðina fengum við strax að heyra að þau hin hefðu endað á annarri stöð (með svipað nafn). Við hittumst samt bara á endastöðinni okkar.

Þann 11. nóvember árið 1918 tók vopnahlé gildi í heimsstyrjöldinni fyrri. Því var minnst þennan sunnudag (degi á undan) í Englandi. Við vorum sumsé umkringd fólki með næld á sig rauð gerviblóm. Því miður er dagurinn að miklu leyti notaður til að vegsama breska herinn frekar en að minnast hryllingsins.

Í neðanjarðarlestinni sáum við mann með ótal orður monta sig af því hvernig hann hefði unnið sér fyrir þeim á Norður-Írlandi, Afghanistan og Írak. Ég fór að raula með sjálfum mér írskt lag sem fjallar um frelsisstríðið.

Come out ye black and tans
Come out and fight me like a man
Show your wife how you won medals down in Flanders
Tell her how the IRA
Made you run like hell away
From the green and lovely lanes of Killashandra

Við áttum pantað borð á Dishoom Kensington sem er með indverskan mat. Tónlistin þarna var truflandi hávær. Við gátum lítið spjallað (ég útlistaði álit mitt á sýningunni og Anna spurði mig aftur daginn efir því hún heyrði ekkert).

Þjónninn okkar var voðalega “sniðugur” og þótti gaman að tala. Þegar við svöruðum að við hefðum ekki áður borðað á Dishoom ákvað hann að halda yfir okkur langa ræðu sem virtist gera ráð fyrir að við hefðum aldrei borðað indverskan mat áður. Fæst okkar heyrðu mikið hvað hann var að tala um. Síðan tók heila eilífð að fá hann til að koma aftur þegar við vorum tilbúin að panta.

Maturinn var samt ákaflega góður. Ég held að það hafi verið samdóma álit (en kannski heyrði ég ekki kvartið fyrir tónlistinni). Þetta hefði verið fínt ef ég væri einn með heyrnartól.

Mánudagurinn (afmælisdagurinn)

Við byrjuðum mánudaginn sitt í hverju lagi. Eygló vildi fá að sjá það sem hún áleit alvöru London þannig við röltum frá Piccadilly Circus og yfir Thames að British Film Institute.

Við fórum algjörlega óvart í gegnum undirgöng sem eru greinilega tileinkuð vegglist. Ákaflega skemmtilegt.

Áður en ég fór út skoðaði ég dagskrána í IMAX-sal BFI. Kvöldið áður en við komum var verið að sýna The Fall (2006) ásamt smá spjalli frá leikstjóra myndarinnar. Ég hefði viljað vera þar. Í staðinn var bara verið að sýna myndir sem ég hef ekki áhuga eða myndi vilja sjá með strákunum.

Búðin hjá BFI er með gott úrval af UHD-diskum, meðal annars frá Criterion. Ég reyndi að fara í gegnum allt. Því miður voru DVD, bluray og UHD allt saman í bland. Það rifjaðist upp fyrir mér hvernig það var á fara á videoleigur og þurfa að passa sig að velja ekki Betamax. Ég fann samt tvo diska.

Eftir meira ráf enduðum við á hótelinu að hitta alla. Áfangastaður okkar var veitingastaðurinn Duck & Waffle. Við vorum næstum búin að ganga fram hjá staðnum en Anna systir hafði verið búin að grandskoða þetta áður og stoppaði okkar á réttum stað. Skiltið fyrir staðinn var frekar lítið.

Þegar við komum inn áttaði ég mig á nokkru. Staðurinn var ofarlega í byggingunni. Nánar tiltekið á fertugustu hæð. Ég er ekki aðdáandi þess að vera hátt uppi. Lyftan dreif okkur hratt upp og það hefði örugglega heillað marga að sjá útsýnið. Ég fékk pínkulitlar hellur fyrir eyrun.

Staðurinn er fínni en þeir sem ég vel venjulega. Vínseðill var líka umtalsvert lengri en matseðillinn.

Meðal þess sem hægt var að panta sér var “önd og vaffla” sem er það sem það heitir. Ég tók hins vegar eftir nokkru sem hét “Wanna be Duck and Waffle”. Þar var talað um eitthvað sem hét “hæna skógarins”. Ég vissi ekkert og leitaði á netinu. Þetta er víst sveppur.

Ég endaði á að panta mér gervihænuönd með vöfflu. Smá áhætta en það borgaði sig í þetta sinn. Þetta var alveg frábært á bragðið. Mjög erfitt að lýsa. Ég fékk mér síðan karamelluvöfflu í eftirrétt sem var svo góð að ég gleymdi að borða hægt.

Við enduðum á að þurfa að drífa okkur út. Við náðum varla að taka systkinamynd sem við höfðum stefnt að. Þær enduðu með að vera frekar rauðar.

Ástæðan fyrir því að við vorum að flýta okkur var að við Eygló, Anna, Martin og Óli vorum að fara í Jack The Ripper-göngu. Við kvöddum Hafdísi og Mumma og flýttum okkur áleiðis. Lukkulega var Whitechapel ekki fjarri.

Þegar ég var fullungur sá ég einhverja mynd um Kobba kviðristu. Michael Caine lék aðalhlutverkið. Eins og margir hef ég haft áhuga á málinu og las á sínum tíma teiknimyndasöguna From Hell eftir Alan Moore (mikið betri en myndin en samt alveg kolröng sögulega séð). Síðustu tuttugu ár rúmlega hef ég samt fjarlægst sögur af sönnum glæpum.

Leiðsögumaðurinn okkar var mjög ungur. Hann sagðist þó vera með sagnfræðigráðu frá Oxford. Hann var líka frekar spes.

Þó ég geti ekki algjörlega dæmt hve sögulega nákvæmur leiðsögumaðurinn hafi verið þá veit ég að hann var ekki alveg á sömu skoðun og meginlínan í þessum fræðum. Hann valdi hæstu tölu yfir möguleg fórnarlömb (annars hefði gangan verið mikið styttri).

Það var samt fleira tengt kviðristunni í gangi á svæðinu. Við rákumst ítrekað á annan hóp. Leiðsögumaðurinn þar var með fínan færanlegan skjávarpa til að sýna gamlar myndir. Það var greinilega stirt samband milli þessara tveggja manna. Ég heyrði aðeins í hinum og fannst hann miklu yfirlýsingaglaðari en okkar.

Við fengum að sjá myndir á síma leiðsögumannsins. Ég afþakkaði reyndar pent að sjá myndir af fórnarlömbunum. Ég man eftir að hafa séð eina slíka sem fór mjög illa í mig á sínum tíma. Það var ekki heldur gaman að heyra allar lýsingarnar á morðunum.

Bestu hlutarnir voru, að mínu mati, að sjá vinnuhæli og gististaði sem ég hef aðallega lesið um í skáldsögum þessa tíma. Skröggur spyr einmitt hvort það sé ekki til “vinnuhæli og fangelsi” fyrir fátæka fólkið. Við fengum lýsingar sem undirstrikuðu hvers vegna sumir vildu frekar deyja en fara þangað.

Við afrekuðum ekkert eftir ferðina. Komum okkur bara á hótelið.

Þriðjudagur

Við fórum beint á flugvöllinn á þriðjudagsmorgni. Mjög þægilegt að fara bara beint á Earl’s Court og upp í lest.

Við gerðum afdrifarík mistök þegar við fórum í gegnum öryggisskoðun á Heathrow við völdum langsamlega hægustu röðina með pirraðasta starfsfólkinu. Þau voru endalaust að benda okkur á að setja alla vökva í poka ofan á farangrinum og sögðu að tafirnar voru út af fólki sem gerði slíkt ekki (en væntanlega alls ótengt því að einungis ein af þremur stöðvum voru opin á þessu svæði).

Eitthvað varð til þess að ég var tekinn fyrir og rannsakaður betur. Starfsmaðurinn varð eitthvað pirraður á mér þegar ég náði ekki öllu sem hann ældi út úr sér til að leiðbeina mér.

Almennur pirringur starfsfólks var samt kannski oft réttlætanlegur því maðurinn á undan mér í röðinni var tekinn fyrir vegna þess að hann var með vatnsflösku í handfarangrinum.

Annars er lítið að segja af flugi. Rútuferðin var líka þolanleg þó við höfum þurft að bíða fulllengi í bílnum. Við vorum alveg sátt við að aka hægar um Reykjanesbrautina enda töluverður vindur.

Drengirnir voru bara hressir þegar heim var komið.

Ódysseifsferð árið 2001 (1968)

2001: A Space Odyssey er ein af stærstu myndum kvikmyndasögunnar. Ég sá hana á túbusjónvarpi og þótti ekki mikið til koma.

Ég var til í að gefa henni annan séns. Í gær var hún sýnd í Sambíóunum Egilshöll og fékk Gunnstein með.

Þó að það hafi ekki verið bókstaflega uppselt á myndina var setið í nær öllum sætum. Mig grunar að einhver hluti hópsins hafi verið gaurar sem hafa kokgleypt gervigreindarruglið sem er í gangi í dag.

Ég er alltaf svo hissa á fólki sem mætir seint á (sérstaklega svona klassískar) myndir. Satt best að segja væri best að loka bara á fólk rétt áður en myndin er sett á stað. Það var sumsé verið að troðast fyrir framan okkur þegar upphafsatriðið fræga var í fullum gangi.

Um leið og myndin fór af stað varð mér ljóst að ég hefði varla séð hana í raun áður. Þetta var allt önnur reynslu. Þegar “Dögun mannkyns” náði hápunkti sínum fékk Also Sprach Zarathustra að njóta sín algjörlega.

Það var ekki bara tónlistin sem naut sín betur í hljóðkerfinu því allskonar hljóð og tónar byggja upp stemminguna. Ef ég hefði verið að horfa á myndina heim þá hefði ég án efa lækkað á nokkrum tímapunktum af því að hljóðrásin var nærri óþægileg og hefði jafnvel truflað nágranna.

Tæknibrellurnar í 2001 eru ennþá áhrifaríkar, allavega þær sem sýna geimskipin og sérstaklega inn í því stóra. Ég veit hvernig margt af þessu var gert en þetta er samt ótrúlega flott. Star Wars (upprunalega útgáfan) vann afrek þegar kom að því að sýna geimbardaga en stenst ekki samanburð við það sem gerist inn í þessum skipum.

Auðvitað eru tæknibrellurnar í 2001 grunnurinn að ótal samsæriskenningum um að Stanley Kubrick hafi falsað tungllendinguna. Ætli það hafi líka verið slíkir rugludallar að fylla salinn?

Þó “ofskynjunaratriðin” í lok myndarinnar séu líka góð þá grunar mig að þau hafi verið mikið flottari á mælikvarða ársins 1968. Fólk á þeim tímum hefði ekki ósjálfrátt borið litadýrðina saman við skjásvæfur úr Windows 95.

Ég útskýrði fyrir Gunnsteini að skammstöfunin HAL væri að öllum líkindum stafrófsleg vísun í IBM (H-I/A-B/L-M) … og síðan þurfti ég að útskýra fyrir honum hve stórt það fyrirtæki hafi verið í tölvubransanum á sínum tíma.

HAL: I’m sorry, Dave. I’m afraid I can’t do that.

Gervigreindin HAL virkar betur sem andstæðingur heldur en spá um tölvur framtíðar. Auðvitað hefur verið apað eftir þessu í ótal kvikmynd og sjónvarpsþáttum. HAL ber líklega töluverða ábyrgð á því margir eru ginnkeyptir fyrir ýkjusögum af “gervigreind” samtíma okkar. Var eitthvað af því fólki líka í salnum?

Annars ættum við kannski líka að kenna Kubrick um upprétt myndbönd. Það er nefnilega eitt atriði í myndinni sem sýnir að rás 12 af BBC sendir út í háskjá. Auðvitað skondið í mynd sem treystir svo mjög á breiðtjaldið.

2001 hlýtur að vera ein af þeim myndum sem mest hefur verið vísað í í öðrum kvikmyndum. Barbie (2023) er nýlegasta dæmið sem ég man eftir. Sjálfur fattaði ég núna að til dæmis að það eru vísanir í þessa í sjónvarpsþáttunum Community (2009-2015).

Satt best að segja mundi ég mjög takmarkað eftir söguþræði myndarinnar. Meðal annars var ég nærri alveg búinn að gleyma því sem gerist milli “Dögunnar” og Júpíterfarsins.

Ofskynjunaratriðið heillaði mig ekkert þegar ég sá það á túbusjónvarpsskjá. Á hvíta tjaldinu fékk það að njóta sín.

Gaur sem satt í röðinni fyrir framan mig ákvað að hann þyrfti alveg endilega að taka upp litadýrðina á símann sinn, sem var ákaflega truflandi í myrkum salnum. Ég sparkaði tvisvar í sætið hans.

Ég skil fólk sem tekur eitthvað upp á tónleikum af því það er einstakur atburður sem verður aldrei endurtekinn nákvæmlega eins. Af hverju að gera þetta í bíó? Það er hægt að nálgast myndina á annan hátt.

Bláendalok myndarinnar var stórkostlegt að sjá á stóra tjaldinu. Þú veist þegar X er að skoða Y í geimnum. Frábært. Ég tók undir klappið þegar nafn Kubrick birtist.

Sambíóin ætla víst að endursýna myndina þannig að þið hafið ennþá tíma til að sjá myndina á stóra tjaldinu.

Arabíu-Lárens (1962)

Lawrence of Arabia (1962), leikstýrt af David Lean, er á ótal topplistum yfir bestu kvikmyndir allra tíma. Ég sá hana fyrir löngu síðan og hún greip mig ekki. Hvers vegna? Vandamálið er að ég sá hana á litlum túbuskjá, mögulega í styttri útgáfu.

Um leið og ég sá að Sambíóin væru að fara að sýna myndina á stóru tjaldi var ég ákveðinn að fara á hana. Einhvern veginn náði ég að sannfæra 15 ára son minn að koma með mér á kvikmynd sem nálgast að vera fjórir klukkutímar að lengd. Salurinn var ekki fullur en allavega nógu margir gestir til að réttlæta sýninguna.

Það gerði nokkra ringlaða þegar ljósin voru lækkuð og tónlistin byrjaði … en engin mynd birtist á tjaldinu. Það gladdi mig mikið að inngangstónlistin hafi fengið að fljóta með (ásamt tónlistinni í hléinu).

Tónlist Maurice Jarre er líka fyrsta vísbendingin um hve áhrifamikil þessi mynd er í kvikmyndasögunni. Ef þú heyrðir hana spilaða án samhengis myndirðu jafnvel giska að hún væri eftir John Williams.

Líklega var T.E. Lawrence ekki jafn furðulegur og hann er í túlkun Peter O’Toole (sem er líka 30cm hærri en maðurinn var í raun). Eins og oft (en ekki alltaf) gerir söguleg ónákvæmni Lawrence of Arabia að betri mynd. Persónan með undarlegustu hetjum kvikmyndasögunnar. Furðufugl með Messíasarduld. Blá augu O’Toole leikur annað aðalhlutverk kvikmyndarinnar.

Ef fylgst er vel með sjáum við að kvikmyndin leyfir sér að vísa reglulega óbeint í (óstaðfesta) samkynhneigð Lawrence. Auðvitað var ekki hægt að flagga slíku á sínum tíma en því er samt laumað með.

Þegar Lawrence hefur ferð sína kynnist hann eyðimörkinni sem leikur hitt aðalhlutverkið. Engin önnur mynd hefur náð að endurtaka þetta. Á stóru bíótjaldi er auðnin algjör. Þetta eru ekki nokkrar sandöldur heldur banvænt eyðilendi þar sem manneskjur eru á stærð við pöddur.

Atriðið þar sem við hittum persónu Omar Sharif byrjar að gefa okkur hugmynd um þennan skala. Það sýnir okkur um leið hve fullkomlega vonlaus hugmynd það er að ætla að sjá þessa kvikmynd á sjónvarpsskjá. Skalinn sem bíótjaldið getur sýnt hverfur um leið og myndin er minnkuð.

Lawrence of Arabia er oft sögð vera epísk mynd. Það gefur til kynna að sagan sé stórbrotin. Hún er það ekki. Hún er frekar einföld miðað við lengd kvikmyndarinnar og í samanburði við aðrar epískar myndir David Lean. Stundum gerist ekkert í lengri tíma. Og það er snilldin við myndina.

Eyðimörkin kallar augljóslega á samanburð við kvikmynd frá þessu ári, Dune 2. Sú mynd er líka mjög löng. En það gerist alveg rosalega margt í henni. Satt best að segja alltof mikið. Eyðimörkin í þeirri mynd er aldrei jafn alltumlykjandi og í Lawrence of Arabia.

Auðvitað er helsti galli myndarinnar að öll aðalhlutverkin, að Omar Sharif undanskyldum, eru í höndum hvítra manna með dekkta húð. Frekar vandræðalegt. Atriðin þar sem Lawrence er látinn eða álitinn kjánalegur í arabískum klæðnaði eru reyndar frekar skondin í ljósi þess að myndin er uppfull af vestrænum leikurum sem eru að gera nákvæmlega það sama.

Það kemur því kannski á óvart að myndin er að mestu leyti hliðhöll Aröbum. Það er ekki alltaf gefin sanngjörn mynd af raunverulega fólkinu sem upplifði þessa atburði. Sumir Arabarnir eru sýndir sem einfaldir, grimmir og/eða gráðugir.

Sögulega lexían sem við fáum er samt ekki af hvíta bjargvættinum og innfæddu barbörunum heldur af því hvernig Frakkar og Bretar sviku Araba. Við lifum enn með þau áhrif sem þetta hafði á Mið-Austurlönd.

Myndin sem heild er snilld og ég á erfitt með að skilja kvikmyndaunnendur sem létu ekki sjá sig þarna. Þið þurfið að sjá þessa mynd á bíótjaldi. Vonandi verður hún sýnd aftur.

Sonurinn var líka hrifinn af myndinni og sagði mér að eftir á að hann hefði eiginlega ekkert hugsað um stærðfræði á meðan hann horfði. Sem er afrek nú um mundir.

Maltin gefur fjórar stjörnur.

Þorgeir í Vík

Terje Vigen (1917) í leikstjórn Victor Sjöström er sögð marka upphaf gullaldar þögulla sænskra kvikmynda. Allavega segir Wikipedia svo vera. Victor Sjöström er auðvitað lykilmaður í þeirri gullöld en hann lék líka aðalhlutverkið í Jarðaberjalundinum/Smultronstället (1957) eftir Ingmar Bergman.

Myndin er byggð samnefndu á ljóði Henrik Ibsen og er texti þess notaður á textaspjöld hennar. Ég hefði reyndar þurft nokkrar sekúndur í viðbót við hvert spjald til þess að skilja norskuna þannig að ég notaði enskan texta með. Það að tala um svarthvítar kvikmyndir er stundum villandi þar sem slíkar myndir, þar á meðal þessi, voru í mörgum tilfellum með litatóna í staðinn fyrir hvítan.

Terje Vigen er norskur sjómaður í Grimstad sem vill helst lifa rólegu lífi í faðmi konu sinnar og barns en öllu er umturnað þegar Bretar leggja á hafnarbann í Napóleónsstríðunum. Til að koma í veg fyrir að fjölskyldan svelti leggur Terje einn í hættuför á árabót til Danmerkur. Breskt herskip verður á vegi hans og …

Sagan er satt best að segja ekki frumleg. Það sem heillaði mig helst var að sjá hvernig rúmlega aldargömul kvikmynd sýnir norskan veruleika fyrir tveimur öldum. Stundum grunaði mig að kvikmyndin sýndi meira af 1917 heldur en 1809.

Því miður var engin hljóðrás á útgáfunni sem ég sá. Tónlist gerir oft mikið fyrir “þöglar” myndir.


Þegar ég sé leikara í þöglum myndum flytja ræður sem eru súmmeraðar upp á titilspjöldum velti ég oft fyrir mér hvað var í raun sagt. Var það allt í handritinu? Voru leikararnir að spinna eitthvað?

Kísinev (ágúst 2024)

Ferðin til Kísinev byrjaði með panikki. Þegar ég fann upplýsingaskilti um flug dagsins sá ég að ferð flugfélagsins FlyOne til Kísinev klukkan 8:20 hafði verið aflýst. Ég eyddi örugglega korteri í að reyna að finna lausnir áður en ég uppgötvaði að það hefðu verið tvö flug með sama flugfélagi á nákvæmlega sama tíma og einungis öðru þeirra hafði verið frestað. Það var mikill léttir.

Flug til Kísinev hafði verið fellt niður.

Þegar ég kom að hliðinu tók við undarlegur leikur þar sem allir sem voru með rafræna farseðla fengu í staðinn pappírsmiða. Það olli miklum misskilningi hjá okkur sem töluðu ekki moldóvsku.

Þegar ég var nýbúinn að koma mér fyrir í þrönga sætinu mínu í flugvélinni á leið til Kísinev kom til mín flugfreyja og benti mér að setjast við neyðarútgang. Þetta var einmitt eitt af þeim sætum sem ég hefði þurft að borga aukalega fyrir ef ég hefði valið mér sjálfur sæti í bókunarferlinu. Flugfreyjan benti mér á nákvæmlega allt sem ég þurfti að gera. Sú staðreynd að hún talaði ekki ensku náði ekki að slá hana af laginu nema eitt augnablik. Ég tók hlutverk mitt jafn alvarlega og alltaf þegar ég hef fengið sæti á þessum stað. Ég vissi alveg nákvæmlega hvernig ég myndi bregðast við og var alveg tilbúinn. Ólíkt gaurnum hinum megin við ganginn sem virtist taka þessari ábyrgð af léttlæti.

Það var flugfreyjusæti á móti mér við neyðarútganginn. Það sæti var um leið við hliðina á næstu sætarröð fyrir framan mig. Þar sat karlmaður á mínum aldri sem eyddi bæði flugtaki og lendingu í að reyna að daðra við flugfreyjuna sem reyndi endalaust að sýna honum kurteisislega að hún hefði engan áhuga á að spjalla við hann.

Flugvöllurinn í Kísinev minnti meira á innanlandsflugvöll en alþjóðlegan. Þar af leiðandi var ekki sama staðleysa og ég upplifi venjulega á slíkum stöðum. Í vegabréfaskoðuninni lenti ég í undarlegum samskiptum þar sem landamæravörðurinn hafði náð að bíta í sig að ég væri frá Úkraínu. Mig grunar að liturinn á vegabréfinu hafi ruglað hann.

Ég hafði lesið viðvörunarorð um leigubílstjóra við flugvöllinn sem reyna að svindla á ferðamönnum. Þess vegna er einfaldlega opinber verðskrá um hvað má rukka. Þegar ég kom út sá ég lögregluna reyna að hafa stjórn á ástandinu þar. Samt kom strax til mín bílstjóri sem reyndi að rukka mig um þrefalt verð. Ég afþakkaði og endaði með að prútta einn niður í þolanlegt verð. Þar sem gengi moldóvska Lei’sins er mjög lágt þá var þetta fyrst og fremst spurning um einhverja íslenska hundraðkalla.

Aksturslagið sem ég varð vitni að á leiðinni inn í Kísinev var slíkt að ég fór að hafa áhyggjur af því að vera gangandi vegfarandi í borginni. Það var endalaust verið að gefa í og bremsa. Ég komst þó heill á hótelið (Regency Hotel) sem kom þægilega á óvart. Ég hafði reyndar passað sérstaklega að fá herbergi með loftkælingu sem var algjörlega nauðsynlegt. Það var líka fínn míníbar sem ég gat tæmt til að koma fyrir vatnsflöskum.

Míníbarinn.

Ég var með litlar “brunasvalir” á herberginu mínu. Þar var ágætt útsýni yfir tré. Það var ákaflega mikið af trjám í Kísinev. Það gerði mér stundum erfitt fyrir þegar mig langaði að taka myndir, sérstaklega af húsunum.

Útsýnið af svölunum.

Ég mætti í morgunmat á hverjum degi og alltaf rakst ég á fólk í landsliðsbúningum. Það tók mig smá tíma að átta mig á hvað væri í gangi. Venjulega er fólk sem tilheyrir landsliði frekar svipað. Þarna var hins vegar fólk af öllum stærðum og gerðum. Að lokum náði ég að rýna í landsliðsbúning Suður-Afríku og sá að þarna var fólk í heimsmeistaramótinu í sjómann. Ég íhugaði að útskýra fyrir þeim íslenska nafnið á þessari íþróttagrein og var búinn að ákveða að nota orðið “sailor” frekar en “seaman”. Mig langaði líka að spyrja hvort þau væru ekki öll aðdáendur myndarinnar Over The Top með Sylvester Stallone (ekki ein af hans bestu).

Rétt hjá hótelinu, eiginlega bara handan við hornið, var matvöruverslun sem ég nýtti mér töluvert. Merkingar á vörunum voru nær allar á rúmensku og rússnesku þannig að ég átti stundum erfitt með að finna það sem ég vildi. Ég greip mér poka af Lays-flögum einn daginn til að hafa eitthvað kunnuglegt að maula en þegar ég smakkaði var bragðið undarlegt. Þegar ég rýndi í merkingarnar kom í ljós að það var ekki bara sýrður rjómi og laukur heldur var líka dill. Mér þótti það ekki góð viðbót. Keypti næst Pringles sem var ekki að rugla neitt í uppskriftinni.

Þegar ég var að koma mér af stað uppgötvaði ég að ég hafði misskilið staðsetningu hótelsins. Ég hafði séð fyrir mér að það væri hinum megin við götuna. Þetta þýddi að hugarkortið sem ég hafði búið til af borginni sneri öfugt miðað við hótelið. Þannig að það sem var erfiðast við að rata var að muna í hvaða átt ég ætti að labba burt frá hótelinu. Þetta var vandamál alla dvöl mína þarna.

Bannað að stöðva skiltið vakti gleði mína.

Þegar ég var búinn að ganga um borgina í einhvern tíma áttaði ég mig á að þó bílstjórar virtust endalaust vera að hamast og gefa í þá voru þeir nær alltaf fullkomlega tillitssamir við gangandi vegfarendur. Bílar stoppuðu nær alltaf þegar ég tók mér stöðu við gangbraut.

Kísinev er falleg borg. Það sem ég hafði lesið mér til um benti til þess að þarna væri mikið um sovéskar brútalískar byggingar. Ég gæti haft mjög rangt fyrir mér varðandi skilgreiningar í arkitektúr en ég sá fá dæmi um það sem ég hugsa um sem hefðbundin dæmi um þennan byggingarstíl. Það var lítið um hráa steypuveggi og þessi níutíu gráðu horn og kassa. Reyndar var töluvert um byggingar sem var búið að hreinsa úr að innan og voru í sovéskum stíl.

Mér fannst aðallega áberandi hve blandaður byggingarstíllinn var í Kísinev. Það var mikið um nýklassískan stíl. Kirkjurnar bera ekki mikinn keim af rússneskum réttrúnaðarkirkjum en þegar ég leitaði að myndum af kirkjum í Búlgaríu sýndist mér áhrifin þaðan vera meiri. Einnig voru byggingar sem mér þóttu helst minna á Miðausturlönd. Á sumum stöðum var jafnvel hálfgerður Miðjarðarhafsstíll.

Moldóva er víst næst fátækasta ríki Evrópu. Það var þó ekki áberandi fátækt þarna. Vissulega var þarna að finna betlara en ekki meira en í sumum ríkari löndum sem ég hef heimsótt. Það var þó eitthvað um hús sem voru að drabbast niður eða þurftu á málningu að halda.

Risavaxinn flóamarkaður borgarinnar bar kannski þess helst merki um að kjör íbúa væru ekki jafn góð og þau virðast á yfirborðinu. Þar var aðallega að finna notuð föt og ég fann meðal annars eina gamla íslenska landsliðstreyju. Ég keypti þó ekkert þó einhverjar sovéskar minjar hafi gripið auga mitt. Tungumálamúrinn skipti þar töluverðu en ég er bara ekkert rosalega hrifinn af því að prútta um óverðmerkta hluti. Það voru líka nokkrir básar tileinkaðir hermunum og jafnvel vopnum (fyrir utan alla hnífana sem fundust víða).

Ég fjárfesti ekki í þessari.

Það er erfitt að lýsa hve stór þessi flóamarkaður var. Á kortinu er hann sýndur á mjög takmörkuðu svæði en um hálfum kílómetra áður en ég kom þangað voru allar gangstéttar þéttsetnar af fólki sem var að selja vörur af ýmsu tagi. Sá hluti markaðarins virtist ná í allar áttir. Ég gerði tilraun til þess að labba í gegnum alla anga sem ég fann með söluvarningi en ég þurfti á endanum að gefast upp.

Markaðurinn er staðsettur handan við lestarteina. Auðvitað er brúin þar yfir uppfull af söluvarningi. Þegar komið er inn á þetta afmarkaða svæði tók við völundarhús af stígum og tjöldum. Ég hef enga hugmynd um hve mikið ég náði að skoða af markaðnum. Þetta var einfaldlega yfirþyrmandi.

Í miðborg Kísinev er annars konar markaður með nýjum vörum. Endalausir básar og tjöld hýsa allskonar varning, þó aðallega föt. Það var nærri jafn mikið völundarhús og flóamarkaðurinn. Þar keypti ég mér vel verðmerkta húfu til þess að þola betur sólina.

Markaðurinn í miðborginni.

Hitastigið yfir hádaginn í Kísinev var uppundir 34 gráður flesta daga sem ég var þar. Fyrirfram hafði ég áhyggjur af því hvernig ég myndi plumma mig í þessum hita en þetta var ekki sérstaklega slæmt. Mig grunar að hérna gegni rakastigið lykilhlutverki. Ég þurfti reyndar að passa eigið rakastig ákaflega vel og drakk mjög mikið vatn yfir daginn án þess að það ylli tíðari salernisheimsóknum.

Malldova

Einn daginn ákvað ég að kíkja inn í verslunarmiðstöð bara til þess að njóta loftkælingar. Sem eru ekki merkilegt en samt sem áður afsökun fyrir mig að nefna að hún heitir “MallDova.”

Tungumálamúrinn var mitt helsta vandamál í Kísinev. Það var ákaflega sjaldgæft að rekast á fólk sem talaði ensku. Hver einustu samskipti við afgreiðslufólk voru frústrerandi (ég endaði meira að segja á því að borða á McDonald’s þar sem ég gat bara stillt tungumál sjálfsafgreiðsluvélarinnar á ensku). Það hjálpaði mér þó töluvert að moldóvska (eða bara rúmenska eftir því hvernig litið er á það) er rómanskt tungumál. Þannig að ég gat skilið eitthvað af ritaða málinu. Síðan notaði ég símann til að finna þýðingar á því sem ég gat ekki skilið. Færni í að lesa hjálpaði nær ekkert með talað mál. Einu sinni fór ég bara á heimasíðu veitingastaðar og benti á matinn sem ég vildi fá mér.

Það er hluti af þjóðarmeðvitund í Moldóvu og Rúmeníu að tungumálið þeirra er rómanskt. Fólk tengir mikið við rómverska heimsveldið. Eftirminnilegast er að fyrir framan þjóðminjasafnið í Kísinev er stytta af Rómúlusi og Remusi að sjúga mjólk úr spena úlfynju. Textinn á stallinum er tilvitnun sem hægt væri að þýða “Við erum Rómverjar, við erum frá Dakíu Trajans”.

Ég heimsótti nokkur söfn. Miðaverðið var um tíu lei sem gera tæplega 80 krónur þó ég hafi splæst í tuttugu lei til að sjá allar sýningar á Þjóðminjasafninu. Ég get vel mælt með að heimsækja það safn. Margt áhugavert, flest vel merkt á ensku. Þarna lenti ég tvisvar í því að konur útskýrðu fyrir mér á moldóvsku, og mögulega líka rússnesku, að ég væri að fara vitlausa leið. Ég held að það hafi ekki verið minjagripabúð á safninu. Sá angi safnsins sem ég hélt að hýsti safnabúðina var í raun bara bókabúð. Sem var fínt.

Reyndar var fyrsta safnið sem ég heimsótti herminjasafnið. Eftirminnilegasti gripurinn var reyndar fyrir utan bygginguna, herþota af gerðinni MiG 15 (held ég). Mér þótti reyndar leiðinlegt að sjá að skrokkur vélarinnar var farinn að grotna svolítið niður. Þarna voru líka ýmsir skriðdrekar og önnur stríðstól.

Þegar ég kom inn í húsið vissi ég ekkert hvert ég ætti að fara en ég mætti síðan konu sem útskýrði fyrir mér á moldóvsku að ég þyrfti að fara upp stigann. Ég lenti í undarlegum samskiptum við konuna sem seldi miða. Hún virtist halda að ég væri að borga líka fyrir Pólverja sem var að koma eða kannski að ég vildi fá miða sem leyfði mér að ljósmynda á safninu. Þegar ég ætlaði að fara af stað fór hún að útskýra fyrir mér að ég væri ekki að fara rétta leið í gegnum safnið. Þetta var endurtekið af þremur öðrum konum sem fannst ég ekki standa mig sem safngestur.

Safnið var með töluvert af merkingum á ensku en stundum vantaði slíkt alveg. Munirnir voru af ýmsu tagi. Sumt var eins og hlutir sem ég hafði séð til sölu á flóamarkaðnum. Ég veit ekki hvort safnið verslar eitthvað þar.

Fyrir utan almennt sögulegt yfirlit var kannski áhugaverðast að sjá muni frá tímum Stalíns og lýsingar á refsingum og nauðungarflutningum. Stór hluti sýningarinnar var tileinkaður stríðinu í Transnistríu.

“Bessarabía er Rúmenía!”

Þegar Moldóva lýsti yfir sjálfstæði á sínum tíma vildu ekki allir tilheyra því ríki og svæði við landamæri Úkraínu lýsti sig sjálfstætt Sovétlýðveldi (sem enginn viðurkenndi). Ef ég skil rétt var ástæða þessa aðskilnaðar fyrst og fremst sá að mörgum sem ekki tilheyrðu “rúmenska” hluta þjóðarinnar hugnaðist ekki sá möguleiki að Moldóva myndi í framtíðinni sameinast Rúmeníu. Þannig að átök brutust út í einhvern tíma en þetta stríð hefur verið frosið í langan tíma. Lengst af var Úkraína á bandi Rússa í þessu máli og studdi aðskilnaðarsinna. Eftir að Rússar réðust á Krímskaga hefur það breyst og Transnistría er einangruð til austurs.

Stríðið í Úkraínu hefur haft mikil áhrif á Moldóvu. Samkvæmt einhverjum heyrðust sprengingar í kringum hafnarborgina Ódessa alla leið til Kísinev. Þegar Rússar réðust inn í Úkraínu árið 2022 flæddi fólk yfir landamærin í leit að skjóli. Það eru ennþá um hundrað þúsund úkraínskir flóttamenn í Moldóvu, flestir í Kísinev.

Rússneska var opinbert tungumál sovéska lýðveldisins Moldóvíu en þann 31. ágúst 1989 var því breytt í moldóvsku með latnesku letri (það er líka til kyrilískt letur fyrir tungumálið). Það er því ekki skrýtið að heyra og sjá rússnesku víða í borginni. Ég get engan veginn þekkt muninn á rússnesku og úkraínsku en mig grunar að margir sem ég heyrði tala hafi verið frá Úkraínu frekar en að tilheyra rússneska minnihlutanum.

Þriðja safnið sem ég heimsótti var stutt frá hótelinu mínu og var blanda af þjóðfræðisafni með þjóðbúningum, daglegum munum og alþýðulist og náttúrugripasafni. Satt best að segja þótti mér byggingin sjálf mest spennandi. Þarna var engin eldri kona til að skamma mig á moldóvsku, bara ungur maður að leiðbeina mér á ensku.

Sigurboginn

Kjarni miðborgar Kísinev eru tvö opin svæði. Annars vegar er það torg (eða mörg torg samtengd) þar sem er að finna dómkirkjuna og bjölluturn hennar og síðan sigurboga. Sigurboginn er til minningar um sigur Rússa á Tyrkjum og “frelsun” Moldóvu (eða Bessarabíu eins og Rússar kölluðu svæðið lengi vel) frá Ottómanveldinu sem hafði að mestu leyti leyft fólkinu að stjórna sér sjálft.

Dómkirkjan er í nýklassískum stíl. Að innan virtist hún vera eins og ég hef alltaf séð fyrir mér rétttrúnaðarkirkjur. Það eru ótal íkonar og aðrar málaðar myndir umkringdar gylltum skreytingum af ýmsu tagi. Þetta var sjaldgæft dæmi um kirkju sem ég hef heimsótt uppfulla af fólki sem tók trú sína mjög alvarlega. Trúræknin birtist helst í því að kyssa íkona. Þó voru líka ótal ferðamenn sem stundum signuðu sig áður en þeir tóku myndir þvert á reglur kirkjunnar. Ég braut óviljandi reglurnar þar sem ég var í stuttbuxum. Það var alveg bannað. Konur áttu líka að hylja sig að mestu. Það var samt enginn að reyna að framfylgja reglunum.

Eitt kvöldið var ég að ráfa þarna um þegar ég heyrði mann með gítar spila English-man in New York. Ég ætlaði ekki að stoppa en þá tók hann annað Sting-lag, Shape of My Heart. Þannig ég settist og hlustaði. Það var bæði sungið á ensku og moldóvsku (eða rúmensku). Því miður var flutningurinn á laginu Careless Whisper ekki frábær en það er líklega auðveldara að láta bera röddina sína saman við Sting frekar en George Michael.

Gítarleikarinn.

Ég átti erfitt með að skilja nákvæmlega hvað var að gerast þarna. Það kom reglulega annað fólk að syngja með gítarleikaranum. Ég veit ekki hvort það var fyrirfram ákveðið eða sjálfsprottið. Í áhorfendahópnum sem safnaðist saman var fólk sem skipti sér mikið af söngnum. Meðal annars ein eldri kona sem virtist vera á því að lagavalið væri ekki merkilegt.

Einn drukkinn maður var steinhissa á því að ég talaði hvorki moldóvsku né rússnesku og hvað þá að ég léti sjá mig á almannafæri án þess að vera með flöskuopnara, kveikjara eða húslykil. Hann fann þó að lokum kveikjara þannig að hann gat opnað bjórinn sinn. Samt hélt hann áfram að reyna að spjalla við mig.

Ská á móti torginu, hinum megin við götuna, er fallegur almenningsgarður þar sem greinilega eru reglulegir viðburðir. Við innganginn er lítið torg og stór stytta af Stefáni mikla prins. Téður Stefán er greinilega í miklum metum í Moldóvu og skreytir alla lei-seðla landsins. Þarna tók ég mynd af ungri konu. Án samhengis væri hægt að álykta að hún væri miður sín en í raun faldi hún andlitið af því að hún var svo niðursokkin í tónlistina sína.

Hlustað á tónlist

Það var tiltölulega auðvelt að taka strætó, sem eru hálfgerðir sporvagnar þar sem þeir eru tengdir við rafmagnsvíra, í Kísinev. Það kostaði heil sex lei (innan við fimmtíu kall) þannig að aðalvesenið var að hafa tilbúna smápeninga. Í hverjum vagni var síðan miðasali sem gekk fram og til baka um vagninn til að rukka.

Strætisvagn.

Í nágrenni við hótelið mitt voru tvö stór útivistarsvæði. Ég heimsótti fyrst Valea Morilor sem er í kringum samnefnt vatn. Svo virðist sem Leoníd Brézhnev hafi haft frumkvæði að því að taka í gegn svæðið á sínum tíma. Það var töluvert um fólk þarna. Mest var um að vera á ströndinni sjálfri en fólk var að róa á vatninu sjálfu og sumir syntu í vatninu (sem mér fannst ekki vera sérstaklega aðlaðandi). Annars fannst mér líka sérstaklega fallegar tröppurnar sem liggja niður að vatninu.

Hinum megin við vatnið var að finna styttu af Lenín með Marx sér á vinstri hönd (og mögulega Engels hinum megin). Þarna hitti ég tvær breskar konur og gantaðist með það að eina fólkið sem hefði áhuga á Lenín í Moldóvu væru ferðamenn.

Hitt útivistarsvæðið er stór garður sem kallast Dendrarium. Það er mikið og fallegt grænt svæði, blóm, tré, aðrar plöntur. Ég þurfti að splæsa heilum tíu lei til að komast inn og fannst það vel þess virði. Ég sá meira að segja froska á nykurrósablöðum (lilypad sem ég hef alltaf þýtt í huganum sem liljublöð en það er lítið í því) sem flutu á litlum tjörnum alveg eins og í teiknimyndum.

Að lokum má nefna Complexul Memorial Eternitate sem var reist til minnis um sovéska hermenn sem létust við að frelsa Moldóvu undan Þriðja ríkinu. Það er auðvitað flókin minning þar sem Sovétríkin höfðu nokkrum árum fyrr samið við nasista um að fá að eigna sér svæðið sem hafði verið hluti af Rúmeníu frá því stuttu eftir lok fyrri heimsstyrjaldar.

Daginn áður en ég fór heim spjallaði ég við hótelstarfsfólkið (sem talaði góða ensku) um að panta fyrir mig leigubíl um miðja nótt. Það kom mér þægilega á óvart þegar mér var boðið að fá pakka með morgunverði (ávextir, brauðhorn og fleira) með mér á flugvöllinn.

Þessi ferð reyndi aðeins á þægindamörkin. Ég er greinilega of góðu vanur að geta bjargað mér á þessum tungumálum sem ég kann (mismikið). Mig langaði oft að geta talað við fólkið í kringum mig og spyrja það að einföldum spurningum um það sem ég var að sjá og upplifa. Ég saknaði slíkra samskipta.

Kafkaísk tilvitnun.

Berlín (ágúst 2024)

Það er ekki möguleiki að komast til Moldóvu án þess að millilenda einhvers staðar. Mig langaði samt ekki bara að heimsækja flugvöll heldur líka stoppa aðeins á nýjum stað. Ég fór í gegnum allar mögulegar borgir og var fyrst að skoða París. Verðin þar í borg voru samt full há fyrir minn smekk og ég áttaði mig ekki fyrren síðar að ég hefði verið þar í lok Ólympíuleikana.

Þó ég hafi heimsótt Þýskaland áður hafði ég aldrei komið til Berlínar. Ég ákvað því að stoppa þar í örfáa daga. Til þess að undirbúa mig horfði ég loksins á kvikmyndina Lola rennt (1998). Alveg stórgóð og þægilega stutt. Ég íhugaði að horfa á Berlin Alexanderplatz (1980) en fannst það fullmikil vinna.

Ég held að þessi Rúdólfur sé ákaflega fjarskyldur mér.

Ég bókaði herbergi á Scandic Hóteli stutt frá Potzdammer Platz til að vera nálægt almenningssamgöngum. Reyndar var ég ekki alveg að skilja kerfið þarna strax. Ég keypti miða í S-Bahn á flugvellinum og fattaði ekki fyrren daginn eftir að ég hefði átt að láta stimpla kortið mitt áður en ég fór um borð í lestina.

Hitinn í Berlín var rétt uppundir 30 gráðum. Það var erfitt, jafnvel erfiðari en hærri hiti í Kísinev.

Þjóðverjar hvattir til að hætta stuðningi við þjóðarmorð.

Ég var ekkert sérstaklega heppinn með mat í Berlín. Þó ég hafi prufað ýmislegt var fæst að hitta í mark. Þegar ég loksins ákvað að kaupa mér bara döner-kebab áttaði ég mig á að það hefði átt að vera mitt fyrsta val.

Dönerkebab

Fyrirfram hafði ég óljósar hugmyndir um hvað ég vildi skoða í Berlín. Ég merkti inn ýmsa staði á kortið en fátt ákveðið. Þar sem ég tengi mikið við skiptingu Berlín og Þýskalands (ég var 11 ára þegar Múrinn var rofinn) vildi heimsækja DDR-safnið (Austur-Þýskaland). Á leiðinni þangað rakst ég á styttu af Marx og Engels og leyfði þeim að sannfæra mig um að taka með þeim eins og eina sjálfsmynd.

Frá vinstri: Ég, Marx og Engels.

Það var ekki allt glatað á DDR-safninu en ég var ekkert sérstaklega ánægður með það. Skipulagslega séð er ég ekkert hrifinn af söfnum þar sem þarf endalaust að vera opna og loka skúffum og skápum. Handavinna og smithætta. Tónninn var samt eiginlega verri. Stundum virtist nefnilega virtist ekki bara vera að tala niður stjórnkerfið í Austur-Þýskalandi heldur líka íbúa landsins.

Fyrirfram hafði ég ekki gert ráð fyrir mér að Trabantar yrðu svona áberandi á söfnum og í minjagripabúðum. Það er örugglega öðruvísi fyrir Íslendinga en aðra ferðamenn að sjá þessa bílategund. Á DDR-safninu var einn bíll sem hægt var að setjast inn í og “keyra um” lélega tölvugrafíska útgáfu af Austur-Berlín. Röðin var samt full löng þar.

Mig langaði alveg smá að kaupa svona lítið módel af Trabant en ég lét það vera. Ég tengi mikið frekar við Lödur. Þegar ég sá myndir austurþýskum lögreglubílum hélt ég einmitt að ég hefði misskilið eitthvað eða að kvikmyndir hefðu logið að mér. Í mínum huga voru löggurnar á Lödum en þarna voru bara sýndir Trabantar. Ég lagðist í rannsóknarvinnu (opnaði Wikipediu) til að fá betri upplýsingar og komst að því að báðar bíltegundirnar hefðu verið notaðar. Mögulega var líka auðveldara fyrir framleiðendur James Bond að kaupa Lödur.

Berlínar-dómkirkjan.

Rétt hjá var safnaeyjan. Það var fallegt, sérstaklega dómkirkjan. Ég heimsótti bara Neus Museum (Pergamon var lokað). Það var glatað safn. Mín einfalda þýskukunnátta kom sér að góðum notum, bæði þegar vantaði texta á ensku og þegar safnvörðurinn sagði mér að setja “Flasche” í “Garderobe”.

Það vantaði fókus á safnið og skipulagið var slakt. Gripirnir voru frá mörgum stöðum og mörgum tímum. Að mörgu leyti var það því að kenna að safngripir voru oft hópaðir eftir söfnurunum (ræningjunum) frekar en þema, stað eða tímabili. Það virtist nær ekkert fjallað um gagnrýnina á safnið. Þegar kom að Nefertítí var aum réttlæting á því hvernig styttan komst í þeirra hendur.

Altes Museum (minnir mig)

Það fyrsta sem ég myndi gera ef ég stjórnaði safnamálum í Þýskalandi væri að skila öllum ránsfengnum. Ef það væri ekki í boði myndi ég taka öll þessi söfn á safnaeyjunni og færa til gripi þannig að hvert safn væri með betri fókus.

Brandenborgarhliðið

Brandenborgarhliðið er auðvitað flott en ég tengi ekkert sérstaklega við það. Nema mögulega í gegnum framlag Noregs í Júróvisjón árið 1990.

Checkpoint Charlie er góður staður fyrir sjálfsmyndatökur. Það mætti þó vera eitthvað meira sem sýndi samhengið þegar þetta var hliðið inn og út úr Vestur-Berlín. Það voru hins vegar ótal minjagripaverslanir þarna. Það var meira að segja McDonald’s þarna eins og til þess að leggja áherslu á að Bandaríkin hefðu sigrað.

Fyrirfram hefði ég haldið að skipulagðir Þjóðverjar væru betri í að merkja allt. Svo var ekki. Þegar kom að almenningssamgöngum saknaði ég þess hve auðvelt er að nota Undirgrundina í London. Almennt voru ekki þessar einföldu veggmerkingar til að sýna hvert lestirnar voru að fara þannig að ég þurfti frekar að nota Google til að segja mér hvaða vagna ég ætti að velja mér.

Ég hélt að ég væri búinn að kortleggja hvaða vagna ég þyrfti að taka frá Potzdammer Platz til að komast á flugvöllinn þannig að ég mætti þar um miðja nótt. Það fór þó þannig að ég fann ekki rétta brottfararstaði eða kom þangað of seint. Ég elti skilti sem beindu mér hvert ég ætti að fara en það endaði yfirleitt bara að ég kom upp á yfirborðið og vissi ekkert í hvaða átt ég ætti að fara næst.

Google var líka einstaklega glatað. Það flakkaði fram og til baka með ráðleggingar og virtist ekki gera neinn greinarmun á almenningssamgöngum og einhverjum flugvallarrútum sem reknar voru af einkaaðilum. Ég endaði með því að taka bara leigubíl.

Þegar ég var kominn að flugstöðvarbyggingunni varð ég aftur ringlaður. Ég bað leigubílstjórann að fara með mig að “Terminal 1” en dyrnar voru merktar T2. Ég fór inn og leitaði að skiltum sem beindu mér að T1 en fann ekkert. Ég spurði að lokum starfsmann flugfélags sem upplýsti mig um að þrátt fyrir merkingar væri þetta vissulega T1. Ég var víst ekki fyrsti ferðalangurinn sem ruglaðist á þessu.

Áhrif Roger Corman á kvikmyndir

Það er auðvelt að afgreiða Roger Corman sem framleiðanda B-mynda. Það er alveg sannleikur. Bara ekki allur sannleikurinn.

Eins og margir sem fá áhuga á kvikmyndum byrjaði ég snemma að rekast á nafn Roger Corman. Það var ekki af því hann gerði svo margar góðar myndir heldur vegna fólksins sem hann hjálpaði að komast af stað í kvikmyndaiðnaðinum.

  • Francis Ford Coppola
  • Penelope Spheeris
  • Joe Dante
  • Martin Scorsese
  • Jack Nicholson
  • Robert DeNiro
  • Dennis Hopper
  • James Cameron
  • Sylvester Stallone
  • Peter Bogdanovich
  • Jonathan Demme
  • Curtis Hanson
  • Ron Howard
  • John Sayles

“Ef þú gerir tvær sæmilegar myndir fyrir mig þá þarftu aldrei aftur að vinna fyrir mig” er umorðun á línu sem Corman notaði oft. Listinn er auðvitað miklu lengri og kallar á spurninguna hvað olli því að svona margt hæfileikafólk vann með Roger Corman í upphafi ferils síns. Mín niðurstaða er að hann hljóti að hafa bæði verið góður að þekkja hæfileikafólk og að hjálpa fólki að rækta hæfileika sína.

Joe Dante sagði að svo lengi sem myndirnar uppfylltu ákveðin skilyrði sem áttu að tryggja aðsókn og gróða (s.s. nekt og blóð) hafði kvikmyndagerðarfólk mikið frelsi til að gera það sem það vildi.

Títtnefndur Joe Dante hóf feril sinn við að klippa auglýsingar fyrir Corman. Það voru ekki bara B-myndir sem komu inn á hans borð. Það voru myndir eftir Fellini og Bergman. Stórir dreifingaraðilar höfðu gefist upp á “erlendum” kvikmyndum en Corman sá færi á að selja þær í bílabíó sem gladdi þessa evrópsku kvikmyndajöfra.

Roger Corman leikstýrði líka sjálfur kvikmyndum. Ég var ellefu ára gamall þegar ég sá Pit and the Pendulum (1961) seint um kvöld á Stöð 2. Þó ég muni ekki söguna í heild sinni man ég alltaf hvernig atriðið hræddi mig. Þið sem hafið séð myndina vitið hvaða atriði ég er að tala um. Stephen King hefur lýst því hvaða áhrif þetta atriði hafði á hann.

Ég man líka eftir spennunni þegar ég var fletta í gegnum rekka í Videóveri í Kaupangi og fann The Little Shop of Horrors (1960). Flestir þekkja söngleikinn en upprunalegu myndinni var leikstýrt af Roger Corman. Hún er fræg fyrir að hafa verið tekin upp á örfáum dögum og nóttum. Þarna er ungur Jack Nicholson í hlutverki sjúklingins en ég var auðvitað glaðastur að sjá Dick Miller þar sem ég þekkti hann vel úr myndum Joe Dante (Gremlins, Gremlins 2, Howling, The ‘Burbs, Matinee, Innerspace …).

Ég get sagt án þess að ýkja að kvikmyndaiðnaðurinn í dag er mótaður af Roger Corman. Satt best að segja er erfitt að nefna nokkurn sem hefur haft meiri áhrif, beint og óbeint, til góðs og ekki endilega svo góðs.

Ef þið viljið kynnast Roger Corman get ég mælt með þáttum af hlaðvarpinu The Movies That Made Me. Í einu þætti segja leikstjórarnir Joe Dante (meðstjórnandi hlaðvarpsins) og Allan Arkush frá því hvernig var að vinna fyrir Corman en í öðrum þætti mætti maðurinn sjálfur (Roger Corman) í viðtal.

Furðuflug eilífðarinnar

Þegar ég var þrettán ára var ég á kafi í Stephen King. Þar sem ég hafði ekki aðgang að bókum hans á ensku lét ég duga að lesa þær á íslensku. Það var þýdd ein bók ári (töluvert færri en hann skrifaði) þannig að ég gat lesið þær allar.

Furðuflug kom út árið 1992 í þýðingu Karls Th. (Birgissonar) og Guðna Th. (Jóhannessonar). Ég get ekki sagt að þetta hafi verið meðal bestu verka King. Íslenski titillinn er ekki frábær en þó mögulega betri en sá enski. The Langoliers er nóvella og bara ein af fjórum sögum í bókinni Four Past Midnight.

Ég var aðeins farinn að fjarlægjast Stephen King þegar sjónvarpsmynd í tveimur hlutum byggð á sögunni um Furðuflugið kom út árið 1995. Reynsluvísindi gerðu mig ekki spenntari þar sem sjaldan var hægt að treysta á gæði mynda “Stephen King’s …“. Ég sá myndina því aldrei.

Fyrir skömmu heyrði ég af nýrri útgáfu af The Langoliers sem kom fyrir augu almennings árið 2021.

Tölvutæknin hefur gefið venjulegu fólki aðgang að tólum til að klippa myndefni. Sumir hafa nýtt þá tækni til að búa til eigin útgáfu af kvikmyndum. Frægast er að ýmsir aðdáendur Star Wars hafa gert eigin útgáfur af The Phantom Menace (og öðrum hinum myndunum úr seinni seríu George Lucas). Aðallega hefur þetta var gert til að losna við eina persónu sem hefur valdið óhug eldri áhorfenda.

The Timekeepers Of Eternity er töluvert frumlegri en aðrar aðdáendaútgáfur af kvikmyndum enda gerð af manni sem hefur leikstýrt eigin kvikmyndum. Sjónvarpsmyndin The Langoliers var samanlagt um þrír klukkutíma að lengd. Skrýmslin er búin til með tölvubrellum sem voru frekar slakar á síns tíma mælikvarða en bókstaflega hlægilegar í dag. Ég kíkti á hana á YouTube og get ekki ímyndað mér að horfa á hana í heild sinni.

Aristotelis Maragkos tók þessa gömlu sjónvarpsmynd og bjó til klukkutímalanga útgáfu sem er frábær. Hann prentaði út hvern ramma* í svarthvítu og reif síðan og/eða krumpaði pappírinn eftir þörfum. Hann tók síðan myndir af þessum blöðum og bjó til The Timekeepers Of Eternity. Þó ég vilji helst ekki höskulda myndina fyrir fólki þá er rétt að nefna að þessi aðferð er viðeigandi vegna hegðunar einnar persónunnar. Það að nota útprentun til að búa til kvikmynd hljómar eins og galli en það er í raun styrkleiki.

Í grunninn er þetta sama sagan. Það er hægt að horfa á myndina án þess að þekkja bók eða upprunalega kvikmynd. Ef þú fylgist vel með gætir þú fattað þig á að sumar persónurnar hafa nær ekkert að gera. Þær eru meira og minna í bakgrunninum en koma meira fram í þriggja klukkutíma útgáfunni. Ég held samt að það sé lítils að sakna.

Á vissan hátt er The Timekeepers Of Eternity eins og listræn tilraunamynd. Hún er skrýtin. Að mörgu leyti er hún framhald af klippimyndaverkum sem við þekkjum úr myndlist. Málið er samt að hún virkar. Það er allt úthugsað. Mér dettur ekki í hug að horfa á The Langoliers en ég get mælt með þessari.

Augljóslega er The Timekeepers Of Eternity á vafasömum slóðum út frá höfundalögum og sýnir hvernig lögin geta hamlað listsköpun. Hún hefur verið sýnd opinberlega og verið aðgengileg á vefnum en það er erfitt að finna hana í dag án þess að sigla um flóa sjóræningja. Það virðist öllum rétthöfum vera sama þó The Langoliers sé aðgengileg á YouTube. Það er varla hægt að græða krónu á henni í dag. Mögulega einhverja aura. Lagaumhverfið þyrfti að leyfa svona tilraunir í sköpun.

* Segir sagan. Ég er ekki 100% að kaupa að hann hafi gert þetta allt handvirkt.

Gylfi Guðmarsson (1944-2024)

Móðurbróðir minn Gylfi Guðmarsson, fæddur 24. nóvember 1944, er látinn.

Ég náði satt best ekki að segja að klára þessi skrif eins og ég vildi en ákvað að það væri best að birta þau samt sem áður.

Gylfi sagði mér einu sinni frá því hvernig lífið var þegar hann var mjög ungur. Pabbi hans þurfti að fara út á hverjum morgni í von um að snappa sér vinnu þann daginn. Ég held að það hafi haft töluverð áhrif á Gylfa að upplifa erfiða tíma.

Ég var orðinn unglingur þegar mér var sagt að Gylfi væri menntaður bakari. Það var ekki hans raunverulega áhugasvið en vissulega man ég eftir honum að hnoða laufabrauðsdegið.

Í minningunni vorum við einhvern veginn alltaf að þvælast um í Véladeildinni hjá Gylfa frænda. Setjast í nýja bíla, á vélsleða og jafnvel að leika með einhverja varahluti sem okkur þótti spennandi.

Fyrir nokkrum árum var ég í framkvæmdum heima hjá mér og lenti í vesen. Þá birtist Gylfi, sem ég vissi ekki einu sinni að væri í Reykjavík. Hann eyddi deginum í að hjálpa okkur að komast í gegnum vesenið.

Gylfi var hluti af áhöfninni um borð í Húna II þegar sá bátur var hluti af sjónvarpsþætti. Það fór hins vegar framhjá flestum. Mig grunar að Gylfi hafi meira og minna verið að forðast myndavélarnar. Ég á líka nokkuð af myndum þar sem hann horfir í linsuna eins og hann hafi ekki verið spenntur fyrir óhóflegum myndatökum.

Ég sendi samúðarkveðjur til ykkar allra, Arnheiðar konu Gylfa, barna hans, Þórarins, Unnar, Starra og Eyþórs, sem og þeirra barna og maka. Einnig er hugur minn hjá eftirlifandi bræðrum Gylfa, þeim Gumma og Óla.

Við erum mörg sem munum sakna hans.

Kvenhatarar og blóðþyrstu lesbíurnar þeirra

Ég væri til í gagnasafn með dagskrá sjónvarpsstöðvanna hér á árum áður. Í staðinn dunda ég mér að skoða þetta á Tímarit.

Ég rakst á eftirfarandi lýsingu á kvikmyndinni Windows (1980) og fannst hún áhugaverð. Miðað við að flest blöð birtu nokkurn veginn þennan texta geri ég ráð fyrir að þetta hafi komið svona frá Stöð 2.

Gluggagægir. Windows. Spennumynd sem fjallar um Andreu, blóðþyrsta lesbíu, sem fellir hug til ungrar hlédrægrar nágrannastúlku sinnar. Þegar unga stúlkan verður fyrir barðinu á óþekktum árásarmanni leitar hún á náðir Andreu, sér ómeðvituð um hvaða mann hún hefur að geyma. Lögregla nokkur fær veður af árásinni og hefur þegar rannsókn málsins. Unga stúlkan vekur hrifningu hans, en þegar lesbían kemst á snoðir um það fyllist hún öfund og afbrýðisemi. Aðalhlutverk: Talia Shire og Elizabeth Ashley. Leikstjóri: Gordon Willis. United Artists 1980. Sýningartími 95 mín. Ekki við hæfi barna.

Sumt fólk var greinilega ekkert hrifið af myndinni. Í DV stendur til að mynda:

Mynd þessi á að heita þriller. Maltin segir hana afturhaldssama og móðgandi og honum er um megn að skilja hvers vegna hún var yfirhöfuð framleidd.

Leonard Maltin fær prik fyrir þetta ásamt þeim sem laumaði þessu inn.

Pressan var ekki svona örlát. Dómurinn þar var:

Algjörlega misheppnuð mynd um blóðþyrsta lesbíu sem girnist hlédrægan nágranna sinn. Þessi mynd hefur líklega verið gerð af illa upplýstum kvenhatara. Eini dularfulli punkturinn við myndina er hvers vegna hún var yfirleitt gerð. Alls ekki við hæfi barna (og varla þenkjandi fullorðinna heldur).

Fyrir utan “blóðþyrstu lesbíuna” verður að segja að samúð áhorfenda fer æ þverrandi þegar kemur að lögreglumönnum sem verða ástfangnir af fórnarlömbum glæpa sem þeir eru að rannsaka.