Fighting With My Family (2019) ★★⯪☆☆🫴

Það reynir á þegar tvö systkini fá tækifæri til að láta drauma sína rætast í glímuheiminum. Sannsöguleg mynd.

Æi.

Florence Pugh er frábær og ég hefði varla nennt að horfa á Fighting with My Family ef hún hefði ekki verið þarna til að gefa persónunni dýpt (ef ekki hæð¹). Jack Lowden (Slow Horses) mjög góður en í minna hlutverki. Skemmtilegt að Lena Headey (Game of Thrones) og Nick Frost (Shaun of the Dead o.s.frv.) séu þarna. Þetta er samt aðallega auglýsing fyrir glímufyrirtæki.

Stephen Merchant leikstýrði og skrifaði handritið.

Óli gefur ★★⯪☆☆🫴.

¹ Það er skondið atriði í myndinni þar sem Florence Pugh gnæfir yfir andstæðing sinn með alla 162 centimetrana sína.

Paris, Texas (1984) ★★★★★👍👍🖖

Maður gengur út úr eyðimörk, hvað var hann að flýja?

Paris, Texas er ein af þessum kvikmyndum sem hefur verið að eilífu á listanum mínum þannig að þegar við sáum hana á dagskrá hjá Bíó Paradís ákváðum við feðgar að drífa okkur.

Wim Wenders leikstýrði Paris, Texas. Sam Shepard skrifaði handritið en L.M. Kit Carson aðlagaði það (ég er ekki alveg að fatta verkaskiptinguna). Harry Dean Stanton (Alien, Repo Men) og Dean Stockwell (Quantum Leap, Blue Velvet) leika bræður og hæðast þannig að meinloku minni sem lýsir sér þannig að ég rugla saman nöfnum þeirra. Svo er það auðvitað Nastassja Kinski.

Hunter Carson leikur átta ára strák. Foreldrar hans voru leikkonan Karen Black og fyrrnefndur L.M. Kit Carson. Mamma hans fylgdi honum við tökur og hjálpaði honum að negla hlutverkið.

Paris, Texas greip mig alveg frá upphafi. Það er fínt jafnvægi í tóninum sem leyfir henni að sveiflast frá drama yfir í húmor og aftur í drama. Þetta er líka gullfalleg mynd. Það sem sló mig sérstaklega var í lokin þegar spegill sameinar tvær manneskjur í eina.

Einfaldur bílaeltingaleikur í Paris, Texas náði að vera gríðarlega spennandi af því að mér fannst eitthvað raunverulegt vera í húfi.

Stóra uppgjör myndarinnar og endalok hennar höfðu greinilega mikil áhrif á áhorfendur því að í þögninni heyrði ég nokkrum sinnum „sniff“ frá fólki sem átti í erfiðleikum með að halda aftur af tárunum.

Maltin gefur ★★½ en tekur fram að hans sé jaðarskoðun. Það má skilja á honum að vandamálið sé kannski að hann sé ekki hrifinn af verkum Sam Shepard.

Óli gefur ★★★★★👍👍🖖 enda myndi Paris, Texas lenda ofarlega á lista hans yfir bestu myndir sem hann hefur séð.

Beitiskipið Pótemkin (1925) ★★★★★👍👍🖖

Árið er 1905 og maðkað kjöt dregur dilk á eftir sér.

Ég veit ekki hve gamall ég var þegar ég sá kvikmyndina Alexander Nevskíj eftir Sergei Eisenstein en mig langaði strax að sjá fleiri af hans verkum. Rúmlega þrjátíu árum seinna horfði ég loksins á Beitiskipið Pótemkin. Mér til varnar verð ég að segja að ég hef reynt áður og það hefur ekki alltaf verið auðvelt að nálgast hana.

Pótemkin er ein mest ívísaða mynd kvikmyndasögunnar. Augljósa dæmið er The Untouchables en skot úr henni eru líka gjarnan sýnd þegar við fáum montage af frægustu kvikmyndum allra tíma.

Stendur Pótemkin ennþá undir lofinu? Ég held það. Hún var fyndnari en ég bjóst við. Ódessaþrepin eru óneitanlega flott. Atriðið þar sem almenningur vottar látnum skipverja er áhrifamikið. Í uppáhaldsatriðinu mínu sjáum við mannfjöldann bregðast við manni sem reynir að æsa til gyðingaofsókna. Auðvitað glæsimynd sem átti ekki við rök að styðjast.

Maltin gefur ★★★★.

Óli gefur ★★★★★ (sem er jafnmikið) 👍👍🖖.

Take This Waltz (2011) ★★★⯪☆👍👍

Kona vill prufa eitthvað annað en kjúkling. Sambandsdrama.

Sarah Polley, sem við munum öll eftir úr Leiðin til Avonlea, leikstýrði og skrifaði handrit Take This Waltz. Líkt og hún er myndin kanadísk. Aðalleikonan Michelle Williams er hins vegar bandarísk (og lék í Dawson’s Creek) og þó hún hafi ítrekað verið sorrí er ég ekki viss um hvort framburðurinn hafi verið góður eða ekki.

Hin aðalhlutverkin í Take This Waltz eru í höndum kanadísku leikarana Seth Rogen og Luke Kirby (Lenny Bruce í The Marvelous Mrs. Maisel). Svo er hin ameríska Sarah Silverman í minna hlutverki.

Það sem stendur upp úr er frammistaða Michelle Williams. Hún er alveg frábær hérna.

Maltin gefur ★★½ en segir réttilega að sumir hlutar myndarinnar séu betri en heildin.

Óli var aðeins hrifnari og gefur ★★★⯪☆👍👍.

Fitting In (2023) ★★★★⯪👍👍

Sextán ára stúlka¹ uppgötvar að hún tilheyrir þeim hluta mannkyns sem ekki passar þægilega í hefðbundna² kynjaflokkun.

Ég rakst á Fitting In þegar ég var að fara yfir lista af bestu myndum síðasta árs³. Síðan fékk hún að bíða meðan ég plægði í gegnum myndirnar sem voru tilnefndar. Augljós mistök.

Fitting In er á köflum sorgleg en eiginlega meira fyndin. Hún náði mér alveg. Þið ættuð öll að sjá hana.

Maddie Ziegler er frábær í aðalhlutverkinu. Sama gildir um Emily Hampshire (mömmuna) og Djouliet Amara (vinkonuna).

Óli gefur ★★★★⯪👍👍.

¹ Ég segi „stúlka“ og ég segi „hún“ bæði af því myndin notar slík orð og vegna þess að hún (myndin) er sjálfsævisöguleg og leikstjórinn Molly McGlynn notar „hún“.

² Hefðbundin, bundin í hefð, ekki staðreyndir. Um leið og einhver segir að kynin séu bara tvö þá er sá búinn að dæma sig úr leik. Við lærðum strax í grunnskóla að kynlitningar raðast ekki bara á tvennan hátt. Síðan verður þetta ennþá flóknara þegar kafað er dýpra og þá ættu sérfræðingar að fá að tala en ekki einhverjir gaurar sem treysta á grunnskólaþekkingu (þó ég hafi greinilega fylgst betur með en sumir).

³ Ártalið er líklega loðið af því þetta er kanadísk mynd og listarnir sem ég skoðaði miðuðu við bandaríska frumsýningu. Stundum er hlutir bara flóknari en svo að hægt sé að skella einum merkimiða á þá.

It Follows (2014) ★★⯪☆☆🫴

Ung kona lendir í eitruðum karlmanni og þarf að kljást við afleiðingarnar.

Það er til gamall brandari, lífið er sjúkdómur sem smitast við kynlíf. Sem þýðir auðvitað að dauðinn er líka kynsjúkdómur.

Á meðan ég horfði á It Follows var ég ítrekað að hugsa upp lausnir fyrir persónurnar. Allt mjög augljóst. Ég held að til þess að njóta þessarar myndar þurfir þú að vera hrifinn af draumkenndum myndum. Það er ég ekki. Allavega þarf það að vera sérstaklega vel gert til þess að ég heillist.

David Robert Mitchell er sami leikstjóri og gerði Under The Silverlake sem ég féll ekki heldur fyrir. Ég hef fulla trú á því að hann geti, og hafi mögulega gert, kvikmynd sem mér þætti sérstaklega góð því hæfileikarnir eru augljóslega til staðar.

Sömu sögu má segja um leikarana. Það væri örugglega gaman að sjá þau aftur.

Óli gefur ★★⯪☆☆

The Untouchables (1987) ★★★★⯪👍👍🖖

Sannsöguleg¹ kvikmynd um baráttu Elliott Ness og hinna ósnertanlegu við að koma Al Capone á bak við lás og slá.

Brian De Palma leikstýrir. Kevin Costner leikur Elliott Ness. Robert De Nero er Al Capone. Sean Connery er gamla götulöggan Malone sem kennir Ness að vera lögga í Chicago. Andy Garcia er unga löggan. Charles Martin Smith er talnaglöggi gaurinn frá Washington. Patricia Clarkson er eiginkona Ness og móðir ímyndaðra barna hans.

Billy Drago er Frank Nitti sem var í alvörunni hálfgerð skrifstofublók en er hérna sýndur sem helsti morðingi Capone. Það eru líka mörg kunnugleg andlit í myndinni. Borgarfulltrúi sem reynir að múta Ness er leikinn af Del Close sem er frægastur fyrir áhrif sín á „spunagrín“ (improv).

Upphafstitlarnir í The Untouchables eru einhverjir þeir flottustu í kvikmyndasögunni. Auðvitað er tónlistin lykilatriði. Eftir myndina endurómaði Gunnsteinn hugsanir mínar þegar hann sagðist ekki vera viss um hvort myndin væri frábær eða hvort tónlistin hefði bara sannfært hann um það.

Ennio Morricone er auðvitað eitt helsta tónskáld kvikmyndasögunnar. Stundum velti ég fyrir mér hvernig samvinna hans við De Palma hefði verið því það eru skot í The Untouchables sem minna á spagettívestra Sergio Leone og þar fannst mér Morricone leyfa tónlistinni að undirstrika það.

Þegar á leið myndinni fattaði ég að ég hefði klúðrað kvikmyndauppeldinu. Ég hafði fyrir löngu síðan ákveðið að sýna Gunnsteini Beitiskiptið Pótemkin áður en við færum á The Untouchables.

Þegar ég var líklega í tíunda bekk var myndin Naked Gun 33⅓: The Final Insult ný og einn kennari ákvað að taka okkur í smá kvikmyndafræðslu. Á mjög yfirlætisfullan hátt var okkur sagt að við föttuðum sko alls ekki alla brandarana í myndinni, til dæmis hefði atriðið í tröppunum upprunalega verið í The Untouchables.

Þetta var stór gott tækifæri til að svara á yfirlætisfullan hátt að þó að Naked Gun 33⅓ væri vissulega að vísa í mynd De Palma þá kæmi upprunalega atriðið frá sóvesku myndinni Beitiskipið Pótemkin. Mig langaði að segja þetta þó ég hefði reyndar aldrei séð þá upprunalegu. Stundum hafði ég vit á að þegja.

Það er ekki verið að fela vísunina í Pótemkin í The Untouchables. Það eru til dæmis fjölmargir sjóliðar² í lestarstöðinni sem fara upp og niður tröppurnar. Atriðið er auðvitað klassískt og sýnir að De Palma er frábær leikstjóri. Spenna og drama.

Það eru samt klunnaleg atriði sem veikja The Untouchables. Þar má nefna eldspítnabréfið og kannski sérstaklega hvernig réttarhaldinu lýkur. Aðeins of kjánalegt. Við getum líklega kennt handritshöfundinum David Mamet um en hann var örugglega óánægður með myndina því flestir leikarar myndarinnar reyndu að gefa eitthvað af sér í stað þess að þylja bara upp línurnar hans.

Það er auðvitað frægt að hreimur Sean Connery í The Untouchables er vandræðalega lélegur. Hann á að vera Íri en hljómar eins og Skoti. Og þó. Í þetta skiptið fylgdist ég með og ég held að það sé bara persóna Andy Garcia sem kallar Malone írskan og það er í fyrsta skiptið sem þeir hittast.

Það er líka ekkert ósennilega að jafnvel þó Malone teldi sig írskan þá væri hann uppalinn í Skotlandi. Þannig að í þessu tilfelli dæmdi fólk Connery kannski of harkalega.

Við áhorfið rifjaðist upp fyrir mér ein undarleg þýðing sem var á sínum tíma í íslenska textanum á The Untouchables. Einn glæponinn er að hvetja Ness til að handtaka sig en þýðingin var „áreittu mig“. Þýðandinn heyrði greinilega „harrash me“ en ekki „arrest me“.

Maltin gefur ★★★★

Óli gefur ★★★★⯪ 👍👍🖖.

¹ Samt alls ekki.

² Sem er ekki jafn fráleitt og ætla mætti því það er flotastöð í Chicago, held að hún hafi mest verið notið í þjálfun en kannski mun Trump nota hana til að ráðast inn í Kanada

I Saw the TV Glow (2024) ★★★★☆👍👍

Krakkar tengja við undarlegan sjónvarpsþátt og hvort annað.

Undarleg kvikmynd. I Saw the TV Glow er draumkennd en ekki þannig að hún hafi farið í taugarnar á mér. Hún náði að vinna inn fyrir skringilegheitum sínum sem er eitthvað sem á ekki við allar slíkar myndir.

I Saw the TV Glow fjallar almennt um hvaða hlutverk list getur haft í lífi fólk sem upplifir sig sem öðruvísi. Hún vísar sérstaklega í reynslu trans fólks sem kemur kannski ekki á óvart miðað við að leikstjórinn/handritshöfundur (Jane Schoenbrun) og annar aðalleikara (Jack Haven) eru trans.

Justice Smith leikur hitt aðalhlutverkið. Fred Durst (lint kex) leikur pabba hans. Emma Stone framleiddi I Saw the TV Glow ásamt eiginmanni sínum.

Tónlist spilar veigamikið hlutverk í I Saw the TV Glow. Hljómsveitin Sloppy Jane, ásamt fyrrverandi bassaleikara sínum Phoebe Bridgers, flytur lagið Claw Machine á sviði í næturklúbbi í einu atriði myndarinanr. Það heillaði mig nægilega til þess að ég fór að hlusta á hljómsveitina strax eftir að myndin kláraðist.

Óli gefur ★★★★☆ 👍👍.

Rear Window (1954) ★★★★★👍👍🖖

Þegar ljósmyndari er fastur heima hjá sér fótbrotinn byrjar hann að hnýsast í einkalíf nágranna sinni með ófyrirséðum afleiðingum.

Hitchcock var fyrst leikstjórinn sem ég var meðvitaður um. Ég horfði á margar myndir hans þegar ég var líklega átta ára gamall. Ég get ekki nefnt hverjar af myndum hans það voru. Líklega var Rear Window ein af þeim.

Ljósmyndarinn er leikinn af Jimmy Stewart og Grace Kelly er unga fyrirsætan sem er alveg rosalega ástfanginn af honum þrátt fyrir aldursmuninn en hann er ekki jafn spenntur. Thelma Ritter leikur hjúkrunarfræðing sem stelur nær öllum atriðum sem hún er í.

Þó söguþráður Rear Window snúist um mögulegt morð fjallar hún aðallega um tengsl nágranna, hvaða innsýn þeir hafa í líf hvers annars og hvar þeir setja mörkin.¹

Hitabylgja gefur Hitchcock afsökun til að hafa alla glugga í þessum inngarði galopna og því er Rear Window uppfull af örsögum úr lífi fólksins. Við heyrum oftast ekki það sem sagt og því er eins og við séum að horfa á röð af þöglum stuttmyndum.

Ég er almennt á móti öllu þessu „Y², var samfélagsmiðill síns tíma“ en það er eiginlega ekki hægt að hugsa um líkindin milli gægjuhneigðar ljósmyndarans og því hvernig daglegt líf okkar er núna. Munurinn er auðvitað að fólkið sem við sjáum í Rear Window er yfirleitt ekki að reyna að sýnast eða sýna sig.

Þó ljósmyndarinn (Jimmy Stewart) sé aðalpersónan er hann afskaplega lítil hetja. Hann kemur ekki vel fram við kærustu sína (Grace Kelly) og hann er oft neikvæður í garð kvenna. Það er ekki það skrýtna heldur það að hann mætir mótstöðu, bæði frá konunum sem heimsækja hann og veruleikanum sjálfum. Skrýtnast er að Rear Window virðist hafa samúð með konunum sem virðist á skjön við það sem við vitum um Hitchcock.

Rear Window hefur haft gríðarleg áhrif og það er líklega til langur listi af t.d. sjónvarpsþáttum sem hafa apað eftir söguþræðinum, eða allavega aðstæðunum. Ég hef aldrei lagt í endurgerðina þar sem Christopher Reeve fékk hið „fullkomna hlutverk“ eftir slysið sitt.

Það sem kom helst á óvart er hve fyndin Rear Window er og þá er Thelma Ritter augljóslega langfyndnust.

Maltin gefur ★★★★.

Óli gefur ★★★★★👍👍🖖.

¹ Rear Window hafði augljós og mikil áhrif á The ‘Burbs.

² Ein ástæða til að hata Musk er að það er ekki lengur hægt að segja „X var Y síns tíma“, sérstaklega ekki þegar um er að ræða samfélagsmiðla

Citizen Kane (1941) ★★★★★👍👍🖖

Í Kvikmyndahandbók Halliwell¹ er vísað í topplista tímaritsins Sight & Sound frá 1952, ’62, ’72 og ’82. Á elsta listanum eru Hjólreiðaþjófarnir efstir en á þeim þremur sem á eftir fylgja er það Citizen Kane sem trónir á toppnum². Það varð til þess að myndin lenti á „þarf að finna og horfa“ listanum mínum.

Það var ekki auðvelt að komast yfir Citizen Kane á Akureyri þannig að ég held að ég hafi að lokum séð hana þegar hún var sýnd í sjónvarpi 1995. Mér fannst hún góð en féll ekki strax fyrir henni. Ég hef mögulega séð The Magnificent Ambersons³ oftar.

Eitt af því frægasta við Citizen Kane er að hún byggir að einhverju leyti á ævi blaðakóngsins William Randolph Hearst. Það skemmdi líka feril Orson Welles þegar að fólk á vegum auðjöfursins réðust á myndina og leikstjórann.

Í seinni tíð er frægt að kvikmyndagagnrýnirinn Pauline Kael hélt því fram í bókinni Raising Kane (1971) að Orson Welles hefði eiginlega ekkert komið nálægt því að skrifa handritið heldur hefði skráður meðhöfundur þess, Herman J. Mankiewicz, skrifað allt.

Þetta hefur meira og minna verið hrakið. Það eru til gögn sem sýna að Welles var sannanlega meðhöfundur og byggir ævi Kana að einhverju leyti á eigin reynslu. John Houseman (sem vann með Orson í Mercury leikhúsinu) á líka ýmislegt í handritinu en afþakkaði boð um að nafn hans yrði sett á myndina.

Orson Welles átti auðvel með að deila heiðri með öðrum. Það sést mögulega best á því að í endatitlinum þar sem hann er skráður leikstjóri setti hann, þvert á venjur, nafn Gregg Toland upptökustjóra beint fyrir neðan.

Auðvitað er það myndatakan, miklu frekar en handritið, sem gerir Citizen Kane að þeirri áhrifamestu í bandarískri kvikmyndasögu.

Höskuldar framundan. Það er betra að horfa á myndina fyrst en að lesa það sem ég skrifa. Ef þið hafið minnsta áhuga á kvikmyndum ættuð þið að horfa á Citizen Kane áður, eða jafnvel frekar, en þið lesið lengri.

HÖSKULDAR.

Citizen Kane var höskulduð fyrir mér löngu áður en ég sá hana. The Simpsons er til dæmis stór sökudólgur. Ég vissi alveg hvað Rosebud væri. Ég þekkti líka söguna frá Gore Vidal um að Hearst hefði kallað sníp Marion Davis, fyrirmyndin að seinni konu Kane, þessu nafni. Gagnrýnandinn Andrew Sarris sagði víst að þetta hefði verið hjól sem Mankiewicz glataði í æsku.

Ég man eftir að hafa heyrt eða lesið sögu um að Orson Welles hafi verið spurður í viðtali hvernig nokkur hafi vitað andlátsorð Charles Foster Kane ef hann var einn í herberginu þegar hann lést. Welles á að hafa verið hissa og sagði: „Ég hef aldrei hugsað um það“. Fólk sem man eftir myndinni getur ímyndað sér kaldhæðnina í röddinni því auðvitað er þetta útskýrt, brytinn Raymond var í herberginu.

Eins og ég nefndi að ofan þá eru það myndatakan og myndmálið sem gerir Citizen Kane að stórvirki. Myndavélin smeygir sér inn og út eins og ekkert sé. Við heyrum samband Kane við fyrri eiginkonu sína deyja í samtölum þeirra en það sem er eftirminnilegast er hvernig fjarlægðin er sýnd.

Það sem er kannski sérstæðast við myndatökuna er að lýsingin er oft notuð til fella skugga á andlit leikaranna. Það er sérstaklega áberandi í atriðinu þar sem blaðamennirnir eru að reyna að finna nýjan vinkil á umfjöllun sína um dauða Kane. Þeir sjást varla og þannig eru samræðurnar settar í forgrunn. Það má segja að almennt sé hljóðhönnun kvikmyndarinnar vel nýtt til þess að dýpka áhrifin.

Þau atriði sem höfðu mest áhrif á mig, allavega í þetta skiptið. Voru í blálokin. Þegar við sjáum listaverkin sem Kane safnaði en voru, að öðru leyti en að sýna auðæfi hans, merkingarlaus fyrir hann persónulega. Síðan sjáum við sleðann, sem er einskis virði en þó ómetanlegur í huga Kane, fleygt á eldinn. Við sjáum hann brenna og með honum leysist leyndardómur myndarinnar upp í ösku og reyk.

Við þetta áhorf tók ég eftir einu sem ég hafði sem ég hafði ekki fattað áður. Þegar Kane hittir fyrst Susan, sem verður seinni konan hans, nefnir hann að hann hafi verið á leið að kíkja í geymslu þar sem væru hlutir sem hann fékk frá mömmu sinni. Hann ætlaði að trítla niður veg minninganna.

Kane hættir við og tekur ákvörðun sem mun ekki bara eyðileggja fjölskyldu hans og drauma heldur svipta hann um mögulegu uppgjöri við æsku sína. Hvort hann hefði orðið betri maður við að finna sleðann sinn í geymslunni er opin spurning.

Það voru gerðir margir Rosebud sleðar fyrir gerð Citizen Kane. Hve margir hafa glatast er óljóst en nokkrir eru enn til. Mig minnir að Spielberg eigi einn.

Á níunda áratugnum kom starfsmaður Universal að tali við Joe Dante og sagðist vera að henda allskonar hlutum sem ekki væri pláss fyrir. Honum varð hugsað til leikstjórans því Dante var og er mikill áhugamaður um kvikmyndasöguna. Í draslinu var einn af Rosebud sleðunum. Það er víst hægt að sjá sleðann í fjórum kvikmyndum Dante. Ég veit ekki hverjum en ég mun örugglega athuga það.

Í júlí síðastliðnum seldi Joe Dante sleðann fyrir rúmar fjórtán milljónir dollara.

Samband Kane við „söngkonuna“ er veigamikið í kvikmyndinni. Hann vill henni allt hið besta og hið besta er það sem hann vill. Hann neyðir hana til að takast á við óperusöng þó hún hafi augljóslega ekki röddina í það (en hefði líklega getað sungið léttari tónlist).

Þar sem söngkonan er byggð á leikkonunni Marion Davis, ástkonu Hearst, var sú persóna líklega það sem fór mest í taugarnar á blaðakónginum. Þetta eitraði líka orðspor Davis því fólk hélt að leikhæfileikar hennar hefðu verið á sama stigi og sönghæfileikar Susan.

Citizen Kane er frábær mynd og gríðarlega áhrifamikil en ég myndi ekki setja hana efst á lista yfir bestu kvikmyndir allra tíma. Ekki það að ég hafi slíkan lista en ég get hugsað mér nokkrar sem ég myndi hafa oftar. En á lista yfir áhrifamestu kvikmyndirnar…

Maltin gefur ★★★★.

Óli gefur ★★★★★ 👍👍🖖.

¹ Leslie Halliwell var breskur kvikmyndagagnrýnir sem þoldi ekki myndir gerðar eftir cirka 1950. Kannski ýki ég. Af einhverjum ástæðum var valið að þýða og gefa út Kvikmyndahandbók hans í fimm bindum. Mjög handhægt. Ef þið voruð ekki þarna þá áttið ykkur ekki á hve ferskur andblær kom þegar hinn (í samanburðinum) ungi Leonard Maltin varð aðgengilegri í íslenskum bókabúðum.

² Kane er líka á toppnum 1992 og 2002. Myndin toppaði líka leikstjóralista Sight & Sound sömu ár. Árið 2012 færist hún neðar á báðum listum en var þá samt ofarlega sem og 2022.

³ RKO bókstaflega eyðilagði filmurnar sem hefðu gert það mögulegt að endurskapa upprunlegu útgáfu Orson Welles af The Magnificent Ambersons og bjó til sinn eigin. Það er ekki eina dæmið um slík skemmdarverk sem oft voru bara til þess að sýna leikstjórum að þeir hefðu engin völd. Auðvitað er algengara að efni hafi glatast af vanrækslu eða af því það vantaði geymslupláss.

Ég var að lesa að eitthvað gervigreindarfyrirtæki ætlaði að endurgera endinn á The Magnificent Ambersons í takt við fyrirætlanir Welles. Það er viðbjóðslega hugmynd og til merkis um þann ógeðfellda hroka sem fylgir tæknibransanum almennt.

Brimstone (2016) ★★★⯪☆👍

Ung ljósmóðir í Villta Vestrinu lendir í erfiðum átökum sem munu hafa áhrif á alla fjölskyldu hennar.

Brimstone er erfið mynd sem gæti vakið óhug hjá fólki á öllum aldri. Myndin er nærri tveir og hálfur klukkutími en mér þótti hún ekki langdregin. Hún greip mig nefnilega. Síðan kom endirinn sem mér fannst ódýr og pirrandi.

Dakota Fanning (The Runaways 2010, The Alienist 2018-2020 og margt fleira) og Emilia Jones (Locke & Key 2020-2022 og CODA 2021¹), hún verður líka í nýju Running Man frá Edgar Wright) eru í aðalhlutverki. Þær eru báðar frábærar. Guy Pearce er síðan mótherji þeirra. Það eru líka tveir Game of Thrones leikarar, Kit Harington (þið vitið, sá sem veit ekki neitt) og Carice van Houten (rauða nornin).

Þrátt fyrir að ég viti ekki alveg hvort ég myndi mæla með Brimstone er ég á því að í heild sé hún góð mynd.

Óli gefur ★★★⯪☆👍

¹ Brimstone og CODA hafa ákveðna tengingu.

Jennifer’s Body (2009) ★★⯪☆☆👍

Lúðastelpan er vinkona sætu vinsælu stelpunnar en óvæntir atburðir setja strik í reikninginn. Hryllingsgamanunglingamynd.

Megan Fox er sæta vinsæla Jennifer en Amanda Seyfried er lúðinn, svo til að undirstrika þessa Hollywood-hefð að láta fallegar konur þykjast vera óspennandi. Johnny Simmons (sem ég þekki best sem Young Neil úr Scott Pilgrim) er lúðalegi kærasti lúðastelpunnar. Versti Chris-inn er í aukahlutverki.

Jennifer’s Body tengist Juno (2006) á ýmsan hátt enda skrifuð af handritshöfundinum Diablo Cody og framleidd af leikstjóranum Jason Reitman. Emily Tennant, J.K. Simmons og Allison Janney koma fram í báðum myndunum.

Ég var ekki gripinn af myndinni. Hún er fín. Reglulega fyndnar línur en ekkert sem ristir djúpt.

Óli gefur ★★⯪☆☆👍

Maltin gefur ★★

The Roses (2025) ★★★☆☆👍

Hjón eyða ævinni í að læra að hata hvort annað.

The Roses er ekki endurgerð af The Wars of the Roses heldur byggð á sömu bók. Hér hefur sagan verið nútímavædd.

Það var mikið hlegið í salnum. Ég hló oft. Leikararnir eru fínir. Mér fannst The Roses samt frekar innantóm. Kannski er það bara að útgáfan frá árinu 1989 situr fast í mér. Ég fór líka á hana í bíó.

Óli gefur ★★★☆☆ 👍

Annars eyddi ég smá tíma í að athuga fullyrðingu á Wikidata um að klámmyndastjarna frá áttunda áratugnum hefði í alvörunni verið framleiðandi að myndinni. Svo virðist ekki vera þannig að ég lagaði þetta. Ég veit ekki hvað djöfull hefur hlaupið í þennan þýska Wiki-notanda.

Mon Crime (2023) ★★⯪☆☆🫴

Gamanmynd um unga franska leikkonu sem bregst við á óvenjulegan máta þegar hún er ásökuð um morð.

Mon Crime er lauslega byggð á samnefndu leikriti. Sögusviðið er París og nágrenni á fjórða áratugnum. Myndin er oft fyndin en ekki svo að hún réttlæti fáránleika sinn. Það hefði líka mátt stytta hana umtalsvert.

Auðvitað er séns á, eða bara líklegt, að ég hafi misst af einhverri fyndni af því ég skil ekki frönsku.

Óli gefur ★★⯪☆☆🫴

Dirty Pretty Things (2002) ★★★★☆👍👍

Innflytjendur og flóttamenn sem lifa á gráu svæði lagalega í London flækjast inn í glæpastarfsemi og þurfa að ákvarða hverju þau eru tilbúin að fórna fyrir betra líf.

Árið 2001 lék Audrey Tautou í Amélie og hefur væntanlega færst á ofar í kynningarefni á Dirty Pretty Things sem kom út ári seinna. Líklega bjuggust áhorfendur sem notuðu nafnið hennar til að velja mynd ekki við því sem þau fengu.

Í aðalhlutverki er Chiwetel Ejiofor. Hann varð seinna heimsþekktur tilnefndur til Óskarsverðaluna fyrir leik sinn í 12 Years a Slave. Hér leikur hann óskráðan flóttamann með óljósa fortíð. Hann lifir í samfélagi við aðra sem lifa á jaðrinum líkt og hann, s.s. líkhússtarfsmanninn Benedict Wong og hina tyrknesku, í myndinni allavega, Audrey Tautou.

Dirty Pretty Things er á köflum erfið mynd vegna raunveruleika fólksins sem hún fjallar um. Samt er hún helst af öllu spennumynd og virkar vel sem slík.

Maltin gefur ★★★

Óli gefur ★★★★☆👍👍

Smashing Pumpkins í Laugardalshöllinni 2025

Ef ég myndi einhvern tímann hitta Billy Corgan ætti ég erfitt með að bæta ekki við „smiling politely“ á eftir nafninu mínu.

Ég byrjaði að hlusta á The Smashing Pumpkins eftir harða hríð frá Sigga og Billa. Á sama tíma vorum við Eygló að byrja saman og eftir því sem við best munum var það undir áhrifum frá mér sem hún keypti sér Mellon Collie and the Infinite Sadness í Danmerkurferð. Það er platan sem er í mestu uppáhaldi hjá mér. Frá upphafi til enda, dögun til rökkurs, störnuljós til ljósaskipta.

Þegar kom að Zeitgeist (2007) var ég orðinn efins um stefnu tónlistarinnar.

Þegar fréttist af væntanlegri komu Smashing Pumpkins¹ kom ekki annað til greina að kaupa miða, ekki bara fyrir okkur Eygló heldur Gunnstein líka. Hann var ekki orðinn sérstakur aðdáandi fyrirfram en hann hlustaði greinilega vandlega á spilarlistann sem ég bjó til fyrir okkur þrjú. Þar voru líka nokkur ný lög sem hafa verið reglulega spiluð á tónleikum undanfarið. Hann gat því sungið með þeim lögum sem áheyrendur almennt könnuðust minnst við.

Hvað get ég sagt um tónleikana sjálfa? Þar sem ég hafði svindlað og kíkt á lagalista síðustu vikna kom mér lítið á óvart. Ég setti ekki tökulögin á spilarlista fjölskyldunnar en þegar við lögðum af stað á tónleikana setti ég lagið Take My Breath Away með Berlin óvart á stað þannig að ég gat sett upp skítaglott þegar það byrjaði að hljóma í flutningi Pumpkins².

Verandi fæddur það ár er ég alltaf veikur fyrir 1979³, Ava Adore, Disarm, Tonight Tonight o.s. frv. virðist ég aðallega vera rokkaðdáandi því það voru Bodies, Zero⁴ og Bullet With Butterfly Wings⁵ sem náðu mér algjörlega.

Það var skondið að heyra Billy og James Iha skiptast á fimmaurabröndurum. Gaman að vita að þeir heimsóttu Sky Lagoon en þeir hafa fengið einhverja sérþjónustu, sem fylgir væntanlega „sér“ hluta búningsklefanna.

Mikið var ég annars glaður að hljómsveitin byrjaði bara að spila klukkan 21:00 eins og auglýst var. Algjörlega til fyrirmyndar. Síðan var ég sáttur við að sleppa uppklappsleiknum. Ég er alveg sáttur við hljómsveitir sem vilja taka fimm til tíu mínútna pásur fyrir lokaátökin en ég nenni ekki að klappa á meðan.

Þannig að ég er kátur en þreyttur.

¹ Ég er einhvern veginn mjög gjarn á að sleppa „The“.

² Alltof erfitt að skrifa líka Smashing en þó fljótlegra en að setja inn fótunótu.

³ Þó það byggi á lygi. Lagið fjallar víst um árið 1984 en mögulega væru allir nöttarar að reyna finna Orwellískar samsæriskenningar í textanum þannig að ’79 er betra.

⁴ Ég er klisja en ég lét vera að kaupa (Scott Pilgrim) bol.

⁵ Gunnsteinn kallar það rottulagið. Ég taldi það sérstakt afrek hjá mér að fá það spilað á Bylgjunni sem eitt af þremur lögum sem ég vann í spurningaleik í King Kong sumarið 1999.

 

 

 

 

 

 

Sharper (2025) ★★☆☆☆🫳

Sharper fjallar um svikahrappa.

Góðar kvikmyndir um svik og pretti sem stefna að því að koma áhorfendum á óvart þurfa að feta þröngan stíg. Svikamyllan þarf að vera vitræn og koma áhorfendum á óvart en um leið má ekki ljúga þó það megi vera blekkingar.

Svikin í Sharper komu mér aldrei á óvart (í aðalatriðum allavega). Ég var alltaf á undan persónunum að átta mig á hvað væri í gangi en ég fékk ekki einu sinni þessa sjálfumglöðu tilfinningu sem fylgir því að þykjast vera klár því þetta var allt óhóflega einfalt. Svikin treystu líka um of á tilviljanir, sérstaklega í lokin.

Það er fullt af fínum leikurum í myndinni en ég ætla ekki að nefna þá sérstaklega nema John Lithgow af því ég er í fýlu við hann.

Óli gefur ★★☆☆☆🫳.

Uppreisn / Uprising (2024) ★★★★⯪👍👍

Epísk kvikmynd um uppeldisbræður sem fara í stríð þegar Japan ræðst inn í Kóreu í lok sextándu aldar.

Ég rakst á Uppreisn á topplista Guðmundar Hrafnkels fyrir síðasta ár. Annars hefði hún mögulega farið algjörlega framhjá mér eins og flestum.

Uppreisn er uppfull af drama, fyndni og hasar, með sérstakri áherslu á flott skylmingaratriði. Ef ég væri nógu hrokafullur til að telja mig hafa þekkingu til að greina myndina gæti ég mögulega séð einhverja vísun í stöðu Kóreuríkjanna í dag. Lukkulega veit ég að ég hef ekki vit á því. Kvikmyndin spyr allavega hvort við þurfum leiðtoga yfir höfuð.

Handrit Uppreisnar er skrifað af Park Chan-wook sem ég þekki best sem leikstjóra og handritshöfund Oldeuboi. Annars er ég svo illa að mér í kóreskri kvikmyndagerð að ég þekki engan annan sem kemur að gerð myndarinnar.

Nú hef ég líklega lesið Leonard Maltin mér til óbóta en ég held að það hefði mögulega verið hægt að klippa allt að tíu mínútur af Uppreisn. Það var örlítill kafli þar sem myndin missti taktinn … en það skiptir litlu máli fyrir heildina.

Óli gefur ★★★★⯪ 👍👍

Edge of Seventeen (2016) ★★★★⯪👍👍

Sautján ára stelpa þarf að takast á við lífið, ástina, sorg og örvæntingu.

Þegar ég var að leita að mynd til að horfa á afmælinu hans Ásgeirs kíkti ég á Letterboxd dómana hans. Þar sá ég að Edge of Seventeen fékk fjórar og hálfa stjörnu frá honum þannig að hún færðist ofar á áhorfslistann minn. Hann hafði alveg rétt fyrir sér í þetta skiptið.

Edge of Seventeen nær að lyfta upp unglingadramedíu á hærra stig með áhugaverðum persónum og góðum leikurum. Svartur húmor og innlegg Woody Harrelson í hlutverki kennara glöddu mig augljóslega. Að því leyti hefði verið áhugavert að sjá myndina þegar ég vann ennþá í skóla. Svo er Kyra Sedgewick (0 gráður frá Kevin Bacon) er mamman.

Það er samt Hailee Steinfeld sem á Edge of Seventeen. Hún nær að sýna flóknar tilfinningar persónunnar í andliti sínu. Örvænting og varnarleysi skína út frá henni eins og við séum að horfa inn í sál hennar.

´Óli gefur ★★★★⯪👍👍.

Go Fish (1994) ★★★★☆👍👍

Líf hóps samkynhneigðra kvenna um miðjan tíunda áratug síðustu aldar.

Það liggur svo í augum uppi að líkja Go Fish við Clerks. Svarthvítar ódýrar kvikmyndir frá 1994 sem voru meira að segja saman á Sundance kvikmyndahátíðinni. Aðalleikkonan Guinevere Turner varð síðan fyrirmyndin að Amy í Chasing Amy (og kom fram í þeirri mynd og heimildarmyndinni).

Go Fish á það sameiginlegt með Clerks að leikararnir eru veikasti punkturinn. Það er svo margt sem virkar þvingað í frammistöðu þeirra. Aftur á móti eru þær meira og minna nægilega sjarmerandi til að vega upp á móti þeim takmörkunum.

Nú langar mig að segja að Go Fish sé að raunsæ lýsing á lífi samkynhneigðra kvenna (ólíkt Chasing Amy) en málið er auðvitað að ég veit það ekki enda skortir mig innsýn í þennan heim. Myndin er þó gerð af haug af lesbíum (eins og það var orðað í einum dómi frá samkynhneigðri konu) þannig að ég kýs að trúa þeim. Það eru líka augljósar tengingar á milli Chasing Amy og Go Fish þannig að það er augljóst að Kevin Smith var undir áhrifum þessarar myndar en það varð bara full ótrúverðugt í höndum hans.

Annars á ég það sameiginlegt með lesbísku persónunum í myndinni að finnast vesti alveg ákaflega svalur klæðnaður … á tíunda áratugnum.

Maltin gefur ★★★.

Óli gefur ★★★★☆👍👍

First Cow (2019) ★★★★☆👍👍

Á frumárum Villta vestursins hjálpa tveir menn af ólíkum uppruna hvor öðrum að komast áfram í lífinu.

Síðast þegar ég spjallaði raunverulega við Ásgeir mælti hann með First Cow og nefndi þá að hér væri um að ræða mynd sem hefði svolítið horfið vegna faraldursins. Þannig að það var viðeigandi að ég horfði loksins á hana á afmælinu hans.

First Cow var erfið. Aðalpersónurnar taka rangar ákvarðanir sem ég á erfitt með að tengja við af því þær eru eðlisólíkar öllum þeim röngu ákvörðunum sem ég tek dagsdaglega. Í raun var ég með óþægindatilfinningu vegna spennu í gegnum alla myndina. Þannig að myndin hafði allavega áhrif á mig.

Mögulega hefði gefið First Cow lægri einkunn ef ég hefði skrifað um myndina strax og ég kláraði hana en hún hefur svolítið unnið á eftir því sem ég hugsa meira um hana. Það er meira að segja þannig að ég er jákvæður fyrir möguleikunum sem felast í upphafsatriði myndarinnar (talandi um að taka ákvarðanir sem ég tengi ekki við) þó yfirleitt þætti mér svoleiðis leikur vera tilgangslítill.

Óli gefur ★★★★☆👍👍

Together (2025) ★★★★☆👍👍

Par á fertugsaldri¹ gengur í gegnum erfitt tímabili og veltir fyrir sér hvort það hafi fórnað of miklu af sjálfu sér á altari ástarinnar. Líkamshryllingur.

Augljóslega elskum við öll Allison Brie fyrir ár hennar í Community (eða GLOW eða Mad Men). Mögulega hafa ekki allir jafn hlýjar tilfinningar í garð Dave Franco fyrir leik sinni í níundu þáttaröð Scrubs en ég lærði að elska hvað hann var óþolandi og svo lék hann auðvitað lykilhlutverk í Love Lies Bleeding, einni bestu mynd síðasta árs. Þau hafa verið lengi saman en ég man ekki eftir því að þau hafi áður leikið par.

Aðalpersónurnar í Together ákveða að flytja úr stórborginni í dreifbýlið. Þau eru bókstaflega í húsi í skóginum og það er bara eins og þau hafi ekki séð eina einustu hryllingsmynd áður. Aldrei eyða tíma í húsi í skóginum, hvað þá flytja þangað.

Together hefur ýmislegt að segja um ást og sambönd. Satt best að segja var ég næstumhissa að lagið Bodies með Smashing Pumpkins hafi ekki verið spilað í lokin. Ég hef auðvitað verið að hlusta á það töluvert undanfarið.

Ég var hrifinn af Together og hló mikið. Við erum sumsé með tvær frábærar hryllingsmyndir í bíó þessa daganna. Sem heild var þessi kannski betri en Weapons fær svo rosalegan stóran plús fyrir hvernig myndin var kláruð. Ef þið þolið hrylling (hvorug myndin er með þeim verstu) og hafið dökkan húmor þá ættuð þið að kíkja á þær.

Ég var minna hrifinn af þeirri vanvirðingu sem Smárabíó sýnir bíógestum sínum með því að byrja myndina ekki fyrren þrettán mínútum eftir auglýstan sýningartíma. Hverslags kjaftæði er þetta? Afleiðingin er augljóslega að sumir mæta seint og síðarmeir. Í þetta skiptið beindi einhver bjáni í leit að sætinu sínu símaljósinu beint í augun á mér á hápunkti spennandi upphafsatriðisins.

Óli gefur ★★★★ 👍👍

¹ Aldur hennar er reyndar aldrei nefndur.

Singin’ in the Rain (1952) ★★★★★👍👍🖖

Munu stjörnur þöglu kvikmyndanna ná að standa af sér hljóðstorminn?

Ég hélt ég hefði séð Singin’ in the Rain áður en ég mundi grunsamlega lítið eftir öðru en nokkrum söngatriðunum. Kannski hafði ég ekki séð hana í heild sinni áður. Það var samt rétt hjá mér að það var minna um kynlíf, nekt og kókaín en í Babylon.

Gene Kelly, Debbie Reynolds¹ og Donald O’Connor leika aðalhlutverkin og gera það vel. Ég þekki Donald ekkert en hans var fyndnasta persónan í þessari fyndnu mynd. Þó ég hafi meira að segja séð klippu með henni fyrir örfáum dögum áttaði ég mig ekki á að Kathleen Freeman léki í myndinni. Ég þekki hana auðvitað best sem Mörgæsina í Blues Brothers og sem sjónvarpskokk í Gremlins 2.

Singin’ in the Rain stenst tímans tönn. Það eru mörg frábær lög (sem ég söng auðvitað með). Það eru ekki bókstaflega öll lögin snilld en nógu mörg. Ef ég ætti að leita að göllum þá get ég nefnt að sum tónlistaratriðin eru kannski aðeins of löng en það er alltaf eitthvað til að skemmta áhorfandanum.

Maltin gefur ★★★★ sem kemur lítið á óvart.
Óli gefur ★★★★★ sem er um það bil sama einkunn.

¹ Mamma Carrie Fisher. Eddie Fisher var pabbinn. Hann yfirgaf Debbie og giftist vinkonu hennar Elizabeth Taylor. Löngu seinna lék þær saman í sjónvarpsmyndinni These Old Broads (2001). Persónur þeirra í myndinni deildu fyrrverandi eiginmanni sem var kallaður Freddie Hunter. Handritið skrifaði Carrie Fisher.

The French Connection (1971)★★★★☆👍

Löggan Stjáni blái Doyle álpast í gegnum fíkniefnamál eins og ofbeldisfullur Dirk Gently.

The French Connection fékk Óskarinn fyrir besta handrit, leikstjóra, klippingu, leikara og kvikmynd. Ég er tvíbentur í afstöðu minnar til myndarinnar. Söguþráðurinn er rugl en þó byggður á sönnum atburðum (að einhverju leyti). En Hackman er vissulega góður.

Það eru nokkur frábær atriði í The French Connection sem gera hana þess virði að horfa á. Eitt fyndið lestaratriði og eitt spennandi lestaratriði sérstaklega. Kvikmyndatakan er á köflum alveg stórkostleg.

Kannski ætti að gefa The French Connection mínus-stig fyrir áhrifin á löggumyndir síðustu áratuga. Líklega er Dirty Harry, sem kom út sama ár, meiri sökudólgur. Popeye Doyle er allavega augljósari skíthæll og algjörlega laust við persónutöfra.

Útgáfan sem við sáum var endurlituð árið 2012 eftir að leikstjórinn William Friedkin hafði, að sumra sögn, eiginlega eyðilagt hana fyrir blu-ray-útgáfu nokkru fyrr.

Wikipedia bendir á að til sé uppdiktað framhald af The French Connection

Maltin gefur ★★★★ sem sýnir að hann er sinnar kynslóðar.

Óli gefur ★★★★☆ sem er mikið minna.

¹ French Connection II (1975) is a fictional sequel.

Konur á barmi taugaáfalls (1988) ★★★⯪☆👍

Spænskar konur sem eiga erfitt með að róa sig.

Hnytinn titill, og kannski fyndnari íslenskri þýðing ef tvíræðnin er viljandi, gerir það að verkum að þetta er myndin sem ég tengi alltaf við Pedro Almodóvar þó ég hafi ekki séð hana fyrren nú. Gamanmynd á barmi þess að verða farsi. Það hitta ekki allir brandarar í mark en nógu margir til að gera áhorfið þess virði.

Líklega er skemmtilegast við Mujeres al borde de un ataque de nervios að sjá kornungan¹ Antonio Banderas² með voðalega hárgreiðslu. Persóna hans hefði samt gott af því að fá lexíu úr nútímanum um samskipti kynjanna.

Maltin gefur ★★★⯪ sem er óhóflegt en sýnir kannski vel hve Konur á barmi taugaáfalls var vinsæl á alþjóðlegan mælikvarða.

Óli gefur ★★★⯪☆👍.

¹ Reyndar að nálgast þrítugt en lítur út fyrir að vera tvítugur.

² Stjúpfaðir Dakota Johnson. Hann er reyndar skilinn við Melanie núna.