Easy A (2010)★★★☆☆👍

Unglingsstúlka sem er leið á að vera óspennandi leyfir sér að spinna sögu en missir síðan takið á þræðinum.

Easy A er mynd sem hefði getað verið frábær en missir of oft takið á takti og tón. Hún var á köflum ákaflega fyndin.

Emma Stone augljóslega frábær. Stanley Tucci og Patricia Clarkson er ákaflega skemmtileg sem foreldrarnir. Amanda Bynes, sem ég þekki bara úr fyrirsögnum, kemur mjög sterk inn í hlutverki skúrksins sem heldur að hann sé bjargvætturinn. Gaman að sjá Dan Byrd sem var góður í Cougar Town (og í gestahlutverki í Community).

Starfsfólks skólans eru m.a. Thomas Hayden Church, Lisa Kudrow og Malcom McDowell, þau fyrstnefndu góð en sá þriðji er voðalega lítið nýttur sem skólastjórinn.

Hérna leikur Aly Michalka í mynd með Stanley Tucci en systir hennar lék með honum í The Lovely Bones. Mér líkar betur við hann sem svalan pabba heldur en barnamorðingja.

Maltin gefur ★★½.

Óli gefur ★★★☆☆.

The Pale Blue Eye (2022) ★★☆☆☆🫴

Gaur er kallaður til að rannsaka dauða nema við herskólann West Point árið 1830.

Það er hálfgerður höskuldur í öllum lýsingum á The Pale Blue Eye og ég er eiginlega tilneyddur til að gera það sama. Ef þið viljið ekkert vita getið þið stoppað núna.

Útlitslega er The Pale Blue Eye ákaflega vel heppnuð. Það virðist hafa verið mikið lagt í búninga og sviðsmynd. Bara ef myndin sjálf hefði verið betri.

Christian Bale er rannsakarinn og bara fínn sem slíkur. Við höfum síðan Lucy Boynton, Charlotte Gainsbourg, Gillian Anderson og meiraðsegja óþekkjanlegan Robert Duvall. Verst er að þau hafa mjög takmarkaðan efnivið. Ég hafði á tilfinningunni að þau væru öll að gera sitt besta.

Svo kemur höskuldurinn sjálfur, Harry Melling er í hlutverki Edgar Allan Poe. Honum tekst ágætlega til við að búa til trúverðuga en óspennandi útgáfu af skáldinu.

Margir höfundar eru greinilega spenntir fyrir því að setja sögulegar persónur í uppskáldaðar aðstæður og búa til einhvers konar baksögur sem eiga að skýra líf þeirra og verk. Það mistekst bara svo rosalega oft.

The Pale Blue Eye hvirflast í kringum gátu og rannsóknina á henni. Mér tókst ekki að hafa sérstakan áhuga á henni og úrlausnin, sem var að sumu leyti kjánaleg, hafði því ekki mikil áhrif á mig. 

Óli gefur ★★☆☆☆

Sex (2024) ★★★☆☆👍

Tveir norskir vinnufélagar spjalla saman um kynlíf og drauma og við fylgjumst með því hvernig umræðuefnið hefur áhrif á líf þeirra næstu daga.

Þriðja mynd kvöldsins er Sex, fyrsta myndin í þríleiknum Sex-Drømmer-Kjærlighet. Kynhneigð og framhjáhald eru á yfirborðinu meginþema myndarinnar en aðallega er hún þó um vináttu tveggja karlmanna.

Að vissu leyti má segja að Sex kallist á við Chasing Amy varðandi hugmyndir um algilda og einfalda kynhneigð. Auðvitað er kafað dýpra hér en kannski ekki sérstaklega djúpt á mælikvarða samtímans. Almennt er myndin líka mjög endurekningarsöm. Persónurnar eru alltaf að tala um það sama og oft með litlum viðbótum.

Á milli atriða eru allskonar skot af borginni, byggingum og umferð sem ég fílaði þau alls ekki. Voru þau að segja eitthvað sem ég missti af? Ég get ekki útilokað það en mér þykir það ólíklegt. Það hefði mátt skafa einhverjar mínútur af.

Óli gefur ★★★☆☆ og er tilbúinn að kíkja á aðra mynd í þessum þríleik með lækkaðar væntingar.

Róm (2024) ★★⯪☆☆👍

Dönsk hjón á eftirlaunum heimsækja Róm, hann í fyrsta skipti en hún á gömlum slóðum.

Konan stundaði listnám í Róm en karlinn er menningarsnauður. Við skiljum ekki alveg af hverju þau eru ennþá saman og stundum virðast þau sjálf ekki vita það.

Myndin er betri þegar hún er fyndin en þegar hún er dramatísk. Það er ekki alltaf vel höndlað hvernig myndin hoppar úr kjánalátum yfir í alvarleika.

Það er hálf-klisjukennt atriði þegar eiginkonan er að tala um dóttur sína við Svíann. Hefði mátt afgreiða öðruvísi.

Norræn samskipti sýnd í áhugaverðu ljósi.

Óli gefur ★★⯪☆☆.

Vingt Dieux (2024)👍👍★★★⯪☆

Átján ára sveitastrákur í austurhluta Frakklands þarf skyndilega að taka á sig meiri ábyrgð og uppgötvar að ostagerð er ákaflega áhugaverð en þó flókin.

Fyrsta mynd kvöldsins var Vingt Dieux sem er titluð eitthvað á íslensku, meðal annars í miðasölunni hjá Bíó Paradís en ég finn það ekki á vefnum þeirra. Þar er hún kölluð enska titlinum Holy Cow.

Við fylgjumst með Totone gera allskonar mistök, sum hlægileg og önnur grátleg. Eitt helsta afrek myndarinnar er einmitt að geta skipt um tón á áhrifaríkan en þó ekki stuðandi hátt.

Óli gefur ★★★⯪☆ og rifjar upp að í árdaga bloggsins notaði hann alltaf þriðju persónu til að botna færslur sínar.

Smurfs (2025) 🫳 ★★☆☆☆

Strumparnir reyna að passa upp á Galdaskræðu.

Það eru ótrúlega margir frábærir leikarar með raddir í Smurfs. John Goodman er Æðstistrumpur, Natasha Lyonne, Kurt Russell og margir aðrir. Því miður er James Corden þarna líka.

Það er engin þörf á góðu leikurunum hér. Þeir hafa ekkert að vinna með. Myndin í heild sinni er algerlega óþörf og óspennandi.

Hvers vegna ákvað ég að kíkja? Af því ég sá að leikstjórinn var Chris Miller. Christopher Miller og Phil Lord gerðu auðvitað The Lego Movie. Frumlegt stöff. Það er allt annar Chris Miller sem gerði Smurfs. Þjáðust allir þessir flottu leikarar af sama misskilningi og ég?

Það var margt undarlegt við myndina. Hún á voðalega lítið skylt við Strumpa Peyo. Viðbæturnar eru óþarfar og/eða asnalegar. Við komumst að því að Strumparnir eru í alvörunni …. sjá neðst¹.

Teiknistíllinn er leiðinlegur. Strumpar með skegg líta ótrúlega undarlega út. Það virðist eins og því sé smellt á eins og þeir séu Mr. Potato Head.

Eini kostur myndarinnar er að hún er sjaldan beinlínis leiðinleg. Það er hægt að horfa á hana í gegn.

Óli gefur ★★☆☆☆ og finnst það sjálfum eiginlega óhóflegt.

Neðar

Neðar

Neðar

Neðar

¹ Verndarar hins góða eða eitthvað álíka bjánalegt. Hvers vegna þurfa Strumparnir að vera eitthvað meira en þeir eru?

Yacht Rock A DOCKumentary (2024) 👍 ★★⯪☆☆

Tónlistarstefnan sem hefur í seinni tíð verið kölluð snekkjurokk krufin.

Channel 101 var örsjónvarpsþáttasamkeppni í Los Angeles, stofnuð af Dan Harmon (Community) og Rob Schrab (Scud: The Disposable Assassin) þegar ferill þeirra staðnaði eftir Heat Vision and Jack og Monster House (the house … is … a monster).

Fyrir utan Rick & Morty og The Lonely Island er hugtakið snekkjurokk mögulega það þekktasta sem þaðan hefur komið. Gerviheimildarþættirnir Yacht Rock bjuggu til nýja tónlistarstefnu úr gamalli tónlist sem oftast hafði verið flokkað sem „mjúkt rokk“. Doobie Brothers, Steely Dan, Toto og margt fleira. Það eru ekki allir glaðir að vera flokkaðir sem snekkjurokkarar.

Alvöru heimildarmyndin (hafnarmyndin? DOCK sko) er ekki slæm en hefði mátt vera aðeins styttri. Þó mér líki vel við eitthvað af þessum lögum þá er nær engin af þessum hljómsveitum eða tónlistarmönnum í slíku uppáhaldi hjá mér að mig langaði að vita sérstaklega mikið um þær.

Skemmtilegast fannst mér þegar fjallað var um Toto. Þó ég hlusti kannski ekki á heilu plöturnar þeirra er ég hrifinn af lögum eins og Rosanna (Arquette) og auðvitað Africa. Miðað við umfjöllunina í heimildarmyndinni verð ég víst að taka fram að þetta er ekki íronískt að neinu leyti. Ég er enginn hipster. Ef mér líkar við tónlist þá reyni ég ekki að fela það.

Það sem kom mér mest á óvart var hve snekkjurokkið virtist heilla marga svarta tónlistarmenn og að áhrif þessarar tónlistar heyrist kannski einna helst í hipphoppi.

Það fór í taugarnar á mér hvernig eldra myndefni var unnið. Það er eins og að allt sem leit ekki nógu vel út hafi bara verið keyrt í gegnum einhverja gervigreind og uppskölun í stað þess að laga það almennilega til. Það var oft skelfilega ljótt.

★★⯪☆☆

MacGruber (2010) 👍 ★★⯪☆☆

Þegar hættulegustu kjarnorkueldflaug er rænt er engin önnur lausn en að kalla til hasarhetjuna MacGruber.

Ýmsir eru á því að MacGruber sé einhver besta gamanmynd síðari ára. Þetta er víst byggt á persónu úr Saturday Night Life sem ég þekki ekkert.

Will Forte getur verið ógurlega fyndinn en hérna er hann oft á grensunni með að vera óhóflega kjánalegur. Val Kilmer er illmennið og fer vel yfir toppinn. Kristen Wiig fær ekki mikið að gera, hún verður aðallega fyrir gríni. Ryan Phillippe er merkilega skemmtilegur sem eðlilegi gaurinn.

MacGruber gerir grín að hasarmyndum níunda og tíunda áratugarins en MacGyver er greinilega helsti innblásturinn. Ég veit ekki hve margir muna eftir honum.

Myndin er fyndin en ekkert mikið meira. MacGruber er tegund af grínmynd sem ekki er gerð lengur, ekki einu sinni árið 2010. Helst af öllu minnir hún mig á Hot Shots! (eða Deux).

Maltin gefur ★★½.

Óli gefur 👍 og ★★⯪☆☆.

Akira (1988)🫴

Árið er 2019 og tekist hefur að byggja Nýja-Tókýó eftir að sú gamla sprakk árið 1988.

Fyrir þrjátíu árum fékk ég Akira lánaða á spólu frá Þórarni frænda og féll ekki fyrir henni. Ég gaf henni annan séns og meginmunurinn er að á bíótjaldi skil ég betur hvað fólk sér við hana.

Akira er meira flott en góð. Söguþráðurinn er steypa og ekkert sérstaklega áhugaverð sem slík. Persónurnar heilla ekki, hvorki sem skúrkar né hetjur (ekki að það sé nokkur skýr lína þar á milli).

Líklega er það tónlistin sem heillaði mig helst.

Katsuhiro Ôtomo er bæði leikstjóri og upprunalegu Manga seríunnar. Satt best að segja var ég hrifnari af bókinni.

Maltin gefur ★★★ og segir líka að allir aðdáendur teiknimynda fyrir fullorðna þurfi að sjá hana. Sjálfur er ég miklu meira fyrir hina krakkavinalegu Granni minn Totoro sem var frumsýnd um þremur mánuðum á undan Akira.

Mín hávísindalega nálgun á stjörnugjöf: ★★⯪☆☆

Death of a Unicorn (2025)👍👍

Feðgin fara saman í viðskiptaferð að hitta dauðvona auðkýfing en fyrsta fórnarlambið er einhyrningur. Gamanhryllingsmynd.

Þegar leikstjórinn Alex Scharfman mætti í hlaðvarpið The Movies That Made Me var augljóst að Josh Olson og Joe Dante voru báðir mjög ánægðir með mynd hans Death of a Unicorn nóteraði ég það hjá mér. Það hefur áður gerst með myndir eins og Love Lies Bleeding og Strange Darling.

Death of a Unicorn kom í bíó en fékk frekar dræma dóma. Hún er því strax komin til sölu á bandarískum veitum (en ekki íslenskum).

Ég var tilbúinn að verða fyrir vonbrigðum en Jenna Ortega og Paul Rudd voru fljót að fá mig í stuðningsliðið. Fyrst og fremst er þetta ákaflega fyndin mynd.

Death of a Unicorn fer ekki fínt í hlutina. Boðskapurinn er hamraður inn.

Margir gagnrýnendur virðast pirra sig á gæðin á tæknibrellunum en mér fannst þær fínar. Mér fannst skrýmslahönnunin sjálf líka skemmtileg.

Það eru margir frábærir leikarar í myndinni. Richard E. Grant, Téa Leoni, Will Poulter (Midsommar), Sunita Mani (GLOW), Jessica Hynes og Steve Park. Ég verð þó að nefna sérstaklega að Anthony Carrigan er frábær hérna.

Death of a Unicorn er kannski ekki fyrir alla en hún er alveg innilega fyrir mig. Ég held líka að hún muni finna áhorfendur þegar á líður.

Óli gefur ★★★★⯪ og finnst óþægilegt að byrja svona óhóflega jákvæður í stjörnugjöfinni.

Fucking Åmål (1998)👍👍🖖

Þroskasaga ungra stúlkna sem þurfa að takast á við ástarmálin og að búa í fokkings Åmål.

Það er alveg svolítill Dogme 95 fílingur í myndinni. Ég held að það sé ekkert yfirlýst eða dogmatískt. Líklega er bara mjög eðlilegt að norræn mynd frá þessum tíma sé undir þessum áhrifum.

Varför måste vi bo i fucking jävla kuk-Åmål?

Það er langt síðan ég sá Fucking Åmål síðast. Ég man ekki einu sinni eftir að hafa átt hana á DVD. Líkt og áin er myndin en ekki söm og ég er ekki samur. Allt í einu er myndin tímahylki. Tískan og símar færa mig aftur í tímann. Þetta er allt svo raunverulegt sem er eitthvað sem ég gæti aldrei fengið úr Hollywood-mynd.

Rebecka Liljeberg og Alexandra Dahlström eru frábærar í aðalhlutverkunum. Af því sem ég tel vera augljósar ástæður var það Agnes sem ég tengdi aðallega við. Núna tek ég eftir því að Elin er frekar dásamleg líka. Hún er alveg jafn skrýtin (sem Agnes bendir réttilega á) en líklega eru unglingarnir tilbúnir að hunsa það af því hún er talin nógu aðlaðandi. Svo hef ég örlítið meiri samúð með grey Johan en mig grunar að það fari allt vel hjá honum

Fucking Åmål er ein af mínum eftirlætismyndum. Ég finn svo mikið til með þeim stúlkum og vill að það gangi allt upp hjá þeim. Síðan er ég alltaf til í að játa að tónlistarsmekkur minn vinnur engar svalleikakeppnir því ég elska I Want to Know What Love Is með Foreigner.

Bláendir myndarinnar er ótrúlega krúttlegur.

Óli gefur ★★★★★. Já, ég ætla að reyna að gefa stjörnur því fólk er gjarnt á að misskilja þumlana. Ég bjó til grunn að kríteríu fyrr í dag en grunaði ekki að ég myndi byrja á að gefa fullt hús því myndin hafði ekki enn verið valin.

The Lovely Bones (2009)🫳

Stúlka er myrt og segir okkur söguna af aðdraganda þess og eftirmálum.

Ég man eftir að hafa lánað út bókina Svo fögur bein eftir Alice Sebold frekar oft þegar ég vann á Borgarbókasafninu. Ég las hana samt aldrei og hafði ekki séð myndina fyrren núna. Peter Jackson hefur gert mjög góðar myndir, það er bara svolítið langt síðan.

The Lovely Bones rifjaðist upp fyrir mér þegar ég var að skoða leikferil Saoirse Ronan. Ég varð svo minna spenntur þegar ég sá að Mark Wahlberg væri þarna líka. Hann er ekki uppáhaldið mitt þó hann sé fínn í að leika óþolandi gaura frá Boston. Hann tengir við þau hlutverk. Í gær kíkti ég feril Rachel Weisz og sá að hún væri líka í myndinni. Þannig að ég læt mig hafa það.

Efni The Lovely Bones gerir það að verkum að hún getur togað fram tilfinningar. Síðan taka við endalaus súrealísk atriðinu úr handanheimum sem minna helst á What Dreams May Come. Þau atriði eru höfuðverkjavekjandi tölvugrafíkarfyllerí.

The Lovely Bones er á mörkunum að vera sálfræðileg hryllingsmynd og ég held að hún hefði verið betri sem slík. Það hefði verið hægt að klippa út mest af sýrutrippinu sem hefði líka stytt langdregna mynd.

Endirinn var frekar kjánalegur.

Margir hrósa leik Stanley Tucci í myndinni en mér fannst hann líta út eins og gaur sem ætlaði að hræða krakka með því að klæðast barnaníðingsgrímubúning.

Saoirse Ronan er ákaflega góð. Systir hennar er leikin af Rose McIver (nýsjálenska mafían) sem var í skemmtilegasta uppvakningagamanmorðgátuþætti allra tíma, iZombie.

AJ Michalka er í litlu hlutverki, hún var Catra í She-Ra and the Princesses of Power þáttunum og lék í Super 8 (vissuð þið að JJ Abrams afrekaði einu sinni að gera góða mynd). En ég nefni AJ sérstaklega af því systur hennar Aly lék líka í iZombie.

Susan Sarandon kemur með svolítinn húmor í myndina en því miður verð ég að hryggja ykkur, það er mun meira af Mark Wahlberg en Rachel Weisz í myndinni.

Maltin gefur ★★½ sem mér þykir full mikið.

Enter The Dragon (1973)👍👍🖖

Bestu bardagamönnum heims er boðið að mæta á mót á eyju auðkýfings.

Í gegnum tíðina hef ég vanrækt myndir Bruce Lee. Vonir mínar voru hóflegar. Það sem Enter The Dragon skortir er vitrænn söguþráðir og heildstæðar persónur. Það var ekki það sem ég var að leita að.

Þetta er auðvitað ákaflega áhrifamikil mynd. Ég hef séð endalausar vísanir í hana. Frægasta atriðið er lokabardaginn í speglasalnum og það er alveg af góðri ástæðu. Umfram það voru bara mörg skemmtileg skot.

Ég bjóst við að bardagaatriðin yrðu gamaldags miðað við allt sem hefur komið í kjölfarið. Það var bæði rétt og rangt hjá mér. Atriðin voru oft hægari en í nýrri myndum en mig grunar að það tengist því frekar að kvikmyndatakan sjálf sé liprari í dag. Það er ennþá gaman að sjá hvernig Bruce Lee „dansaði“.

Ef þið eruð alveg rosalega glögg getið þið séð 19 ára Jackie Chan taka utan um hetjuna okkar. Líklega auðveldara að kíkja á myndina sem fylgir færslunni.

Maltin gefur ★★★½ sem er fínt.

The Brothers Bloom (2009)🫴

Svikahrappabræður í hringiðu svika.

Mér leið mjög svipað og þegar ég var að horfa á Brick, fyrri mynd Rian Johnson. Mig langaði nefnilega rosalega að líka við myndina.

Það besta við The Brothers Bloom er Rinko Kikuchi. Hún gerir svo mikið með svo litlu. Rachel Weisz er það næstbesta. Titilpersónurnar leiknar af Adrien Brody og Mark Ruffalo náðu mér ekki.

Myndir um svikahrappa eru vandasamar. Það þarf að vera eitthvað vit í svindlunum sjálfum en ég keypti þau aldrei. Það þarf að dansa vandlega til þess að láta alvöru og fáránlegheit virka saman og það tekst ekki hér.

Í myndinni útskýrir persóna Rachel Weisz hvernig búa má ná fram camera obscura (myrkrunarhús)¹ áhrifum með vatnsmelónu. Svo skemmtilega vill til að systir leikkonunnar, Minnie, er listamaður sem sérhæfir sig í verkum byggða á þeirri tækni.

Rachel er annars gift Daniel Craig sem er þekktastur² fyrir að leika Benoit Blanc í Knives Out seríu Rian Johnson. Ég missti annars alveg af Joseph Gordon-Levitt hérna, alveg eins og í Glass Onion.

Maltin gefur ★★½ og ég er eiginlega sammála.

¹ Camera obscura er auðvitað rótin af orðinu yfir myndavél og þá er camera herbergi.
² Reyndar lék hann í einhverri annarri seríu en ég hef ekki kíkt á þær myndir hans.

Glass Onion (2022)👍👍

Auðkýfingur býður í morðgátuteiti þar sem gestirnir eiga að leysa hans eigið morð. Er það í alvörunni góð hugmynd? Gæti þetta endað með raunverulegri ráðgátu?

Sjálfstætt framhald af hinni mjög svo skemmtilegu morðgátumynd Knives Out. Leikstjóri og handritshöfundur er Rian Johnson sem var hataður af ömurlegustu týpunni af nördum fyrir sína Star Wars mynd þó, eða vegna þess, að hann reyndi að kveða niður erfðasynd seríunnar. Auðvitað eru pólitískir tónar (ekki einu sinni undirtónar) í þessari mynd.

Reglulega hugsa ég með sjálfum mér að John Mayer er, og ég skal orða það án gildisdóma, asnalega skrýtinn. Það var Janelle Monáe sem minnti mig á það. Hán er líka hjarta myndarinnar.

Daniel Craig snýr aftur sem Benoit Blanc, besti einkaspæjari í heimi. Hreimurinn hans fór áfram í taugarnar á fólki sem telur sig vita hvernig hann ætti að vera. Mér finnst hann bara skemmtilegur.

Jessica Henwick er leikkona sem ætti að fá stærri hlutverk. Hún var það eina góða við Járnhnefaþættina á Netflix. Ég þekkti hana ekki strax enda minnti hún mig helst á Meg Tilly (fæðingarbletturinn kannski frekar en að þær hafa báðar kínverskar rætur).

Edward Norton, Kate Hudson, Dave Bautista, Kathryn Hahn, Madelyn Cline og Leslie Odom Jr. (sem Gunnsteinn þekkir vel út af Hamilton) eru restin af meginleikhópnum.

Þegar kom í ljós um hvað myndin snerist hugsaði ég með sjálfum mér að þessar aðstæður væru ákaflega kunnuglegur, mjög svipaðar kvikmyndinni The Last of Sheila (1973). Mikið hefði ég verið stoltur af sjálfum mér ef ég hefði líka þekkt Stephen Sondheim, sem samdi handritið að þeirri kvikmynd, í gestahlutverki sínu í The Glass Onion (nokkrum mánuðum fyrir dauða sinn). Ég þurfti að fletta því upp.

Ég þekkti hina sem deildu skjánum með Sondheim. Einn af þeim lék einmitt í upprunalegu uppfærslunni af söngleik hans Sweeney Todd árið 1979 en lést stuttu eftir að Glass Onion var frumsýnd. Þarna var líka gaur sem semur bækur tengdar Sherlock Holmes (en er mögulega þekktari sem leikari og …). Og sá fjórði vann svo með leikstjóranum Rian Johnson í þáttunum Poker Face (sem ég hef ekki séð).

Það eru margir aðrir sem kíkja snöggt við. Gaman gaman.

Ég ætti að búa til sérstakt efnisorð til að tengja saman faraldursmyndir (Pearl og X eru augljós dæmi). Í þessi tilfelli er það ekki falið heldur innlimað í söguþráðinn.

Glass Onion er fyndnari en Knives Out. Stundum næstum kjánaleg. Það væri hægt að pirra sig á því en heildin er nógu góð til að ég sætti mig við það.

Í lok árs er von á framhaldi. Ég hlakka til.

Superman (2025)👍👍

Geimvera sem fær krafta sína frá gulu sól jarðarinnar reynir að láta gott af sér leiða.

Það er ein ástæða fyrir því að ég fór á Superman við fyrsta tækifæri í bíó, James Gunn. Hann leikstýrði Guardians of the Galaxy myndunum sem mér fannst standa upp úr öllu þessu Marvel Cinematic Universe dóti.

Ég hef ekki séð mynd úr DC heiminum frá því að Batman og Súpermann settu ágreining sinn til hliðar út af Mörtum sínum. Garg. Ég held að ég haf séð flestar Christopher Reeve myndirnar en hef ekki horft á þær nýlega, mögulega geri ég það og kíki á Donner-útgáfuna.

Þetta Ofurmenni er ekki sérstaklega dökkt. Sem betur fer. Það er ekki karakterinn. Í staðinn er hann skemmtilega óþolandi góðmenni. Fyrir utan að halda tryggð við aðalpersónuna sjálfa fáum við innspýtingu af húmor í anda James Gunn. Bróðir hans Sean fær líka að vera með eins og svo oft.

Einn heimskulegur brandari fékk mig til að hlæja áberandi hátt. En síðan kemur í ljós … Svo er skemmtileg tenging við Styggu stjúpsysturina, óvart.

Þessi mynd sleppir þessum óþarfa sem er alltaf settur inn þegar ofurhetjumyndum er sparkað aftur af stað í nýrri samfellu. Takk segi ég.

Ég áttaði mig engan veginn á því að ég hefði sé Ofurmennisleikarann David Corenswet fyrir ekki svo löngu í hryllingsmyndinni Pearl (sýningarstjórinn). Þetta nýja hlutverk hans er ekki auðvelt eða þakklát en mér fannst hann standa sig ákaflega vel.

Rachel Brosnahan (Hin frábæra frú Maisel) leikur Lois Lane. Nicholas Hoult (Um strák, Nosferatu og svo frv.) lék Lex Luthor og auðvitað góður. Svo fáum við aðra kunnuglega leikara í minni hlutverkum.

Mér fannst ég heyra reglulega John Williams vísanir í tónlistinni.

Skemmtileg mynd. Ætti ég að horfa næst á Superman (1978) eða Super (2010)?

Den stygge stesøsteren (2025)👍

Ung stúlka flytur með móður sinni og systur á heimili nýs stjúpföður og það kemur í ljós að það er áskorun að búa til nýja fjölskyldu þar sem allir fá að vera með. Hryllingsmynd.

Hinn óræði tími kvikmyndarinnar er skemmtilegur og mjög í anda þess að ævintýri gerast á stað sem finnst hvergi og tíma sem aldrei var. Myndin virkar líka að því leyti að ógeðslegu atriðin eru ógeðsleg og fyndnu atriðin eru oftast fyndin. Ég held samt að myndin risti grynnra en ætlunin hafi verið.

Den stygge stesøsteren er ekki s´erstaklega áhugaverð afbygging á ævintýrinu. Hún segir ekkert sem við vissum ekki fyrir um vonlausa kynjapólitík sögunnar. Að því leyti sem myndin speglar samtíma okkar er hún hálfgerður hræðsluáróður sem ég held að sé ekkert sérstaklega gagnlegur.

Ég er hikandi að gefa myndinni nokkra „einkunn“. Ég gæti vel skipt um skoðun.

Big Trouble in Little China (1986)👍👍

Jack Burton flækist inn í mikil vandræði í Kínahverfi San Francisco.

Það er alveg óvart að ég hafði ekki séð þessa mynd áður. Ég hef meira að segja byrjað á henni en þurft að hætta vegna einhverrar uppákomu.

Myndin er kjánaleg og fyndin. Mörg bardagaatriðin eru mjög skemmtileg. Að einhverju leyti er hún á grensunni með steríótýpur en stærsta steríótýpan er Kurt Russell sem heimski Bandaríkjamaðurinn sem talar eins og John Wayne og hefur mikla oftrú á sjálfum.

Mögulega væri ég gagnrýnni ef ég hefði ekki hlustað á Jessica Gao (Emmy-verðlaunahafi fyrir súrgúrku Rikka) tala mjög jákvætt um myndina þegar umfjöllunarefnið var asískar staðalmyndir.

Það er annars erfitt að finna Hollywood-mynd þar sem eru jafn margir kínverskir leikarar eða af kínverskum uppruna að leika kínverskar persónur. Það er ótrúlega algengt að láta bara duga að finna einhvern leikara sem lítur út fyrir að vera af asískum uppruna. Síðan höfum við örfáa hvítingja.

Auðvitað er sérstaklega gaman að sjá James Hong sem lék í nær bókstaflega öllum kvikmyndum með kínverskum persónum, hann virðist bókstaflega hafa gert allt allsstaðar í einu.

Victor Wong er samt í sérstöku uppáhaldi hjá mér. Hann fékk víst hjartaáfall aðfaranótt 12. september árið 2001 eftir að hafa eytt deginum í að reyna að fá fréttir af sonum sínum sem voru í borginni. Ég komst líka Paul Tillich kenndi honum í háskóla. Fróðleikspunktur fyrir guðfræðinörda.

Margir leikarar úr Big Trouble in Little China unnu fljótt aftur saman í The Golden Child (sem ég hef séð einu sinni, það dugar) og/eða The Last Emperor (sem mig langar að sjá aftur á stórum skjá þar hún er eftirminnilega falleg frekar en góð).

Helstu hvítu leikarar myndarinnar eru Kurt Russell og Kim Cattrall. Þau eru merkilegt nokk miðpunkturinn á veggspjaldinu.

Maltin var ekki skemmt og gaf ★½, sama og hann gaf The Thing. Hann hataði samt ekki öll verk Carpenter því Assault on Precinct 13 (1976) fékk ★★★½.

Elizabeth (1998)👎

Elísabet I verður drottning og þarf að standast allskonar áskoranir, raunverulegar og uppskáldaðar.

Þessi mynd fjallar um að kaþólikkar séu vondir og lúmskir. Þeir fremja ótal illvirki vegna illsku sinnar, ólíkt mótmælendunum sem eru góðir gæjar sem neyðast til að gera slæma hluti til að tryggja almannahag.

Elizabeth er næstum óbærilega kjánaleg mynd. Það er ekki minnsta vit í því hvernig hrært er upp í sögulegum atburðum. Það er í sjálfu sér ekkert að því að hunsa það sem gerðist í raun. Það hafa verið gerðar margar góðar myndir sem rugla í mannkynssögunni. Shakespeare var líka góður í þessu. Skáldskapurinn hérna er bara ekki vitrænn, áhugaverður eða skemmtilegur.

Það er svo margt raunverulega áhugavert í sögu Elísabetar en flestu er bara sleppt eða afskræmt þannig að ekkert spennandi er eftir. Við fáum samband hennar við Robert Dudley (hvers bróðir var drottningarmaður Jane Grey í örfáa daga). Stóra spurningin í því sambandi er samt ekki hvort þau sváfu saman heldur hvort hann myrti eiginkonu sína í von um að geta gifst drottningunni.

Hrærigrautur raunverulegra atburða nær hápunkti í lokin þegar okkur er tilkynnt að Elísabet hafi ríkt í 40 ár í viðbót sem þýðir að árið er 1564 en við höfðum rétt áður séð aftöku hertogans af Norfolk sem átti sér stað 1572. Hefði ekki bara verið hægt að sleppa því að gefa upp þessa tölu?

Mér fannst atriðin með Maríu Englandsdrottningu lykta af kvenfyrirlitningu. Síðan er skellt inn smá hómófóbíu (sem var þó vissulega framför frá Braveheart).

Það hefur verið mikið talað um leiksigur Cate Blanchett í hlutverki Elísabetar en ég gat einfaldlega ekki komist yfir hvað þetta var allt vitlaust. Ég sá eiginlega ekkert gott við frammistöðu neinna leikara í myndinni þó margir þeirra séu venjulega frábærir.

Mér fannst franski sendiherrann bæði stirður og kunnuglegur, það var víst hinn eftirminilegi sparkari Eric Cantona. Alveg hafði ég gleymt leiklistarferli hans enda var ég þá nær hættur að fylgjast með fótbolta.

Emily Mortimer er til staðar í gegnum alla myndina en fær varla að segja neitt. Vissuð þið að hún er dóttir John Mortimer sem skrifaði Rumpole-bækurnar?

Ef þið vandið ykkur getið þið séð tólf ára Lily Allen í hópi fylgdarmeyja drottningarinnar. Þið þekkið hana á því að hún er lágvaxin og lítur út eins og hún sjálf (stendur fyrir aftan Cate Blanchett á myndinni sem fylgir).

Maltin gefur ★★★ sem þýðir að hann féll ekki alveg fyrir henni en því miður bendir hann í þetta skiptið ekki á hið augljósa, myndin þjáist af oflengd.

Materialists (2025)👍👍

Kona vinnur í háklassastefnumótaþjónustu og virðist vera góð í að kynna fólk en getur hún fundið háklassaást fyrir sjálfa sig? Rómantísk gamanmynd.

Þetta er klassískur ástarþríhyrningur (hugtak sem mér finnst hafa verið endalaust notað í lýsingum á kvikmyndum hér áður fyrr). Dakota Johnson (dóttir Melanie Griffith dóttur Tippi Hedren og Don) er föst milli tveggja frækinna kosta, mannlega kyndilsins Chris Evans (sem lék í einhverri bestu teiknimyndasögumynd allra tíma) og herra frábærs Pedro Pascal (uppáhalds danski leikarinn minn).

Væntingar mínar voru ekki endilega miklar enda hefur myndin fengið misjafna dóma. Ég hló oft en mér heyrðist ekki allir fíla brandarana. Myndin glímir við allskonar klisjur rómantísku gamanmyndarinnar en nær alltaf að standa í fæturnar.

Leikstjóri er Celine Song sem gerði líka Past Lives (2023) sem ég á eftir að sjá.

Ísland kemur við sögu (en engin raunveruleg efnishyggja).

Longlegs (2024)🫳

FBI-fulltrúi hefur undarlegt samband við raðmorðingja. Hryllingsmynd.

Ég ákvað að reyna aðra mynd frá Oz Perkins, Longlegs. Blehh. Kjánalegheit og fyrirsjáanleiki eyðileggja góðu partana.

Aðalhlutverkið leikur Maika Monroe sem ég hef ekki séð í neinu öðru. Nicholas Cage er eftirminnilegastur en þetta er asnalega skrýtinn Cage, ekki skemmtilega skrýtinn.

Það vottar kannski fyrir höskuldum hérna í framhaldinu.

Það er mjög auðvelt að draga ákveðna ályktun um persónu Cage en ég held að hún sé ekki rétt. Ef þú þekkir myndina af Marc Bolan í bakgrunninum og veist eitthvað um glamrokk hans tíma er nokkuð ljóst hver innblásturinn er. Það er samt nokkur bjartsýni fólgin í því að áhorfendur almennt nái þeim vísunum.

Klisjukenndustu partarnir eru satanismi og Opinberunarbókin. Satanistar sem segja „Heill Satan“ eru bara óhóflega kjánalegir, mig minnir að þetta hafi líka verið í The Blackcoat’s Daughter.

The Howling (1981)🫴

Fréttakona leitar að raðmorðingja en það kemur í ljós að hann er algjör skepna.

Howling er varúlfamynd frá Joe Dante en ég er ekki einu sinni viss hvort ég hafi séð hana áður eða ekki. Umbreyting varúlfsins er flott, eiginlega afrek á síns tíma mælikvarða en hún hægir á myndinni. Söguþráðurinn er ekki slæmur en frekar óspennandi.

Helsti galli myndarinnar er mögulega húmorsleysið. Jú, það eru stakir brandarar en alltof fáir. En kannski er vandamálið samt aðallega að mér leiðast varúlfamyndir. 

Dee Wallace er í aðalhlutverki og mig minnir að hún hafi í kjölfarið fengið hlutverk mömmunnar í E.T..

Það eru margir fastaleikarar Dante í myndinni, Robert Picardo (Star Trek Voyager) í fyrsta sinn en Dick Miller í fjórða skiptið. John Carradine (pabbi David, Robert og Keith hvers dóttir er Martha Plimpton) og Slim Pickens eru fulltrúar eldri kynslóðarinnar. Roger Corman (sem ég þekkti af baksvipnum) og John Sayles (annar handritshöfundurinn) eru í litlum hlutverkum.

Maltin gefur ★★★ sem er í hærri kantinum.

Lock, Stock and Two Smoking Barrels (1998)👍

Smáglæpamenn í London koma sér í vandræði og reyna að koma sér úr vandræðum en þetta er vítahringur.

Lock, Stock and Two Smoking Barrels var hluti af öldu kvikmynda sem komu í kjölfar Pulp Fiction og var oft stimpluð sem breska útgáfan. Mér þótti hún frábær á sínum tíma en núna fannst mér hún bara fín. Persónurnar eru frekar flatar þrátt fyrir að yfirlesturinn útskýrði fyrir áhorfendum hvers vegna þessir gaurar (endalaust magn af karlmönnum) væru eftirminnilegir.

Snatch er myndin sem Guy Ritchie gerði næst og minnir að hún hafi verið betri. Það væri áhugavert að kíkja á hana og sjá hvort hún virki ennþá.

Það er svolítið skrýtið að Jason Statham hafi orðið stjarna og mér finnst það frekar óraunverulegt að af því ég hef bókstaflega ekki séð neina af stóru myndunum hans. Ég hef t.d. aldrei fundið hjá mér þörf á að kíkja á neina mynd um hina Fjótu og fárreiðu (sem mér skilst að fjalli fyrst og fremst um fjölskyldugildi).

Maltin gefur ★★½ og ég er sáttur við það.

Goon (2011)👍

Maður nokkur finnur tilgang í lífinu, að lemja fólk á íshokkíísnum. Byggt á sannri sögu.

Goon er fín gamanmynd. Ofbeldið og blóðið er á köflum frekar óhóflegt.

Seann William Scott er frábær í myndinni sem maður sem lýsir sér sem heimskum. Ætli það sé ekki ágætt fyrir hann að fólk muni eftir honum í þessu hlutverki frekar en þar sem hann lék gaurinn hvers mamma varð að mikið notaðri skammstöfun.

Alison Pill er góð en fær ekki að vera mikið með. Jay Baruchel skrifaði handritið en persónan hans fór voðalega í taugarnar á mér. Liev Schreiber er gamli ofbeldisseggurinn sem allir aðrir ofbeldisseggir í íþróttinni þurfa að miða sig við.

Maltin gefur ★★½ sem er fínt.

Chasing Chasing Amy (2023)👍👍

Hinsegin leikstjóri gerir heimildarmynd um kvikmyndina Chasing Amy og samband sitt við hana.

Ever seen Hearts of Darkness? Way better than Apocalypse Now.
– Abed (Documentary Filmmaking Redux)

Leikstjóri heimildarmyndarinnar sá Chasing Amy sem unglingur og tengdi mjög við hana. Þetta er því bæði persónuleg saga, saga myndarinnar, þeirra sem gerðu hana og viðbrögð hinsegin fólks við henni.

Kevin Smith kemur auðvitað fram í myndinni og segir, eins og hann hefur sagt í mörg ár, að gagnrýni hinsegin fólks á myndina sé réttmæt og hann hafi bara alls ekki haft innsýn eða þekkingu til þess að fjalla um efnið.

Það kemur ekkert sérstaklega á óvart um gagnrýni hinsegin fólks á myndina. Jákvæðustu raddirnar voru þær sem töldu hana mikilvægt (en gallað) innlegg um að kynhneigð þurfi ekki að vera algjör, annað hvort eða, og að þó merkmiðar geti verið nauðsynlegir þá séu þeir stundum líka heftandi.

Joey Lauren Adams og Guinevere Turner eru áhugaverðustu viðmælendurnir. Persónan Alyssa er á vissan hátt byggð á þeim báðum.

Guinevere Turner var í sama „árgangi“ og Kevin Smith á Sundance-kvikmyndahátíðinni. Hún skrifaði og lék í myndinni Go Fish. Það var mynd um samkynhneigðar konur, gerð af samkynhneigðum konum en fékk auðvitað ekki nærri jafn mikla athygli og Chasing Amy.

Nú hef ég ekki séð Go Fish og get ekki dæmt um gæði hennar (Maltin gefur ★★★). Það er kannski sérstaklega áhugavert í ljósi þess að ég hef séð fleiri myndir frá 1994 en nokkru öðru ári. Hvernig náði ég að láta hana fara fram hjá mér. Hún er allavega komin á listann minn núna. Betra seint en aldrei?