Pearl (2022) 👍
{88-67-ø-ø}

Ung kona tekst á við stjörnudrauma, vonbrigði, fjölskyldu sem heldur aftur af henni og þær ögranir sem fylgja því að eiginmaður hennar fór að berjast í fyrri heimstyrjöldinni (sem var kölluð annað árið 1918). Af einhverjum ástæðum var ég það forvitinn um þessa mynd að ég ákvað að horfa á hana rétt eftir þá fyrri.

Árið er 2021 og faraldurinn í fullum gangi. Það er verið að taka upp kvikmynd á Nýja Sjálandi og leikstjórinn Ti West áttaði sig á því að það væri voðalega hentugt að taka upp aðra mynd sem gerðist á sama stað með sama upptökuliðinu. Þannig að hann og leikkonan Mia Goth skrifaðu þetta handrit á meðan sú fyrri var tekin upp.

Þetta er sumsé forhald (eða afturhald) af X (2022). Þar sem þetta gerist rúmum sextíu árum á undan fyrri myndinni er Mia Goth augljóslega ekki að leika Maxine, aðalpersónuna úr X heldur Pearl. Árið er 1918 og spænska flensan í fullum gangi. Sem þýðir að aukaleikarar geta einfaldlega rölt um með nauðsynlegan hlífðarbúnað falin á bak við grímur sem tilheyra samtíma sögunnar. Það er ákveðin snilld.

Mia Goth er ekki bara í aðalhlutverki í myndinni, nær öll myndin hvílir á henni og það gengur upp. Mig langar helst að líkja henni við Nicolas Cage.

Ekki það að aðrir leikarar séu ekki góðir. Sérstaklega Tandi Wright í hlutverki mömmu Pearl.

Kvikmyndatakan er skemmtileg. Litirnir minna á Technicolor. Þetta gæti verið Wizard of Oz eða Disney-mynd. En er það ekki. Bara alls ekki.

Þessi mynd er ekki allra. Hún er fyrir suma og sumir verða hrifnir.

Terminator 2: Judgment Day (1991)👍👍🖖
{87-ø-ø-ø}

Til þess að drepa skæruliðaforingja framtíðarinnar er tortímandi sendur til ársins 1995. En skæruliðaforinginn sendir líka verndara til að vernda sjálfan sig.

Ég rifja reglulega upp hreim æskunnar þegar ég segi Ter-mín-a-tor. Svona Djúran Djúran dæmi.

Hér verða höskuldar.

Ég missti alveg af þessari í bíó. Ég var tólf ára þá. Mér finnst eins og ég hafi jafnvel verið búinn að sjá Wayne’s World fyrst (12. nóvember 1992 í Borgarbíó). Mig minnir að ég hafi fyrst séð þessa í Furulundinum hjá Gunnlaugi Starra frænda. Síðan fékk tónlist Brad Fiedel að hljóma nokkuð reglulega hjá honum.

Auðvitað er þetta hluti af kvikmyndauppeldinu. Við horfðum á fyrri myndina í fyrra. Ég uppgötvaði að hún var töluvert betri en mig minnti. Upplausnin hjálpar töluvert.

Mér finnst þessi eldast mun betur en True Lies sem við sáum um daginn, þó þessi sé nokkrum árum yngri. T2 (eins og hún var gjarnan kölluð) er eiginlega gegnheil. Hún er með allra bestu hasarmyndum þessa, og líklega allra, tíma.

Schwarzenegger er fyndinn þó hann sé á stöku stað að nálgast það að vera skopmynd af sjálfum sér. Lukkulega gerðist það ekki fyrr en árið 1997 (rétt rúmum tveimur mánuðum fyrir heimsendi).

Það er svolítið erfitt að gúddera Edward Furlong sem tíu ára krakka. Hann var ekki mikið eldri, líklega tólf að verða þrettán. Hann bara hagar sér ekki eins og hann sé tíu ára. Ég er hins vegar alveg tilbúinn að líta framhjá því. Hann hefur væntanlega „þroskast“ hratt meðfram því að alast upp meðal skæruliða.

Linda Hamilton er hins vegar mjög sannfærandi sem kona sem hefur eytt rúmlega tíu árum í að undirbúa sig fyrir heimsendi.

Það er skemmtileg tenging milli T2 og Gremlins 2: The New Batch. Dan og Don Stanton léku vísindamenn á rannsóknarstofu Christopher Lee í þeirri mynd en hér leika þeir öryggisvörð og tortímanda sem endurskapar útlit öryggisvarðarins. Þeir hafa komið víðar við áður en kvikmyndaiðnaðurinn fór á þær kjánalegu slóðir að láta sama leikarann leika tvíbura.

Stóri skjárinn hjálpaði mér að sjá ný smáatriði. Ég hló upphátt þegar ég las á skilti „Cactus Jack’s“ því það (Cactus Jack) er gömul Schwarzenegger (ásamt Kirk Douglas og Ann-Margret) mynd í leikstjórn Hal Needham. Við Starri tókum hana einhvern tímann á spólu og þótti stórfyndin. Hef ekki séð hana lengi.

Ég er ekki alveg viss hvernig tímaferðalagarökfræðin gengur upp í þessari mynd. Ég veit ekki hvort hún gengur upp. Aftur á móti skil ég 12 Monkeys, Back to the Future og Predestination. Lukkulega lauk Terminator-heiminum með þessari mynd. Ímyndið ykkur ef það hefði verið haldið áfram eftir þessi fullkomnu endalok. Talandi um að hafa þumalinn upp.

Maltin gefur ★★½. Ekki beint óvænt.

X (2022) 👍
{86-66-ø-ø}

Árið er 1979. Vinnufélagar í Texas, ásamt kærustum sínum, halda út í sveit ásamt ungum kvikmyndagerðarmanni og kærustu hans til þess að búa til tilraunakennda mynd. Markmiðið er að græða peninga myndbandsspólusölu (sem er reyndar frekar góð langtímaspá á þessum tíma). Listræna mynd sumsé. Klám. Þau fá gistingu á vegum frekar undarlegs gamals fólks.

Þarna er Mia Goth í aðalhlutverki. Ég veit hver hún er en ekki mikið meira. Merkilegt nokk hef ég ekki séð Nymphomaniac myndir Lars von Trier. Ég sá Idioterne og lét það bara duga. Jenny Ortega þekki ég bara út af Beetlejuice Beetlejuice. Ég var hrifinn þeirri mynd. Og þær standa sig báðar vel hérna.

Í raun er ég ekki sérstaklega vel að mér í hryllingsmyndum. Þó hef ég yfirleitt séð fyrstu myndirnar í þessum seríum. Það sem ég sá voru vísanir í Texas Chainsaw Massacre, Psycho, The Shining og Friday the 13th (Vrijdag de 13e á spólunni sem ég fékk lánaða frá Þórarni). Síðan giskaði ég á vísun í aðra mynd sem ég hef aldrei séð en væri eiginlega höskuldur að nefna.

Myndin hefur frekar augljós þemu. Æsku, að eldast, öfund, ást og kynlíf.

Mér sýnist eins og þessi mynd hafi gengið í gegnum tímabil bæði oflofs og bakslags. Ég hafði engar óhóflegar væntingar og fannst hún bara mjög fín. Ekki horfa á hana ef þið hafið andúð á hryllingsmyndum.

Ég er ekki alveg viss um að ég horfi á framhaldsmyndirnar tvær. Það vekur samt áhuga minn að forhaldið var gefið út strax sama ár. Frekar óvenjulegt.

Songcatcher (2001) 👍
{85-65-ø-ø}

Þjóðlagafræðingur er uppgefin á kynjamisrétti í háskólanum sínum og fer til systur sinnar sem rekur skóla í Appalachia-fjöllum. Þar rekst hún á fjársjóð þjóðlagahefðar fjallafólksins.

Þetta er í alvörunni frægt dæmi í þjóðfræðinni. Þjóðlög frá Bretlandseyjum sem lifðu áfram í einangruðum samfélögum. Síðan er sögulega rétt farið með hugarfar þjóðfræðasafnara (ekki bara þjóðlagasafnara) sem tala endalaust um „hreinar“ hefðir. Það hefur lagast töluvert.

Þetta er skrýtin mynd með óhóflega skammta af melódrama. Aftur á móti er tónlistin ákaflega góð og það eru margar skemmtilegar persónur vel túlkaðar af góðum leikurum (s.s. Jane Adams og Pat Carroll plús David Patrick Kelly í hlutverki skíthælsins eins og svo oft áður). Satt best að segja falla aðalpersónurnar tvær (Janet McTeer og Aidan Quinn) í skuggann. Þeirra saga er frekar óspennandi.

Ég endaði samt á því að vera jákvæður með ákveðnum fyrirvörum.

Maltin gefur ★★★★ sem er frekar óhóflegt.

Black Bag (2025)👍👍
{84-64-48-26}

Njósnamynd. Það er svikari innanhúss. Getur njósnari treyst maka sem er einnig njósnari?

Gunnsteinn benti mér á Black Bag. Ég hef aldrei elst sérstaklega við myndir Steven Soderbergh en er hrifinn af Out of Sight og (sérstaklega) The Limey.

Handritshöfundurinn er David Koepp sem skrifaði m.a. Jurassic Park, fyrstu Mission Impossible og Death Becomes Her.

Aðalhlutverk eru Michael Fassbender og Cate Blanchett. Síðan er gamall Bond með, Pierce Brosnan sem fékk aldrei nógu góð handrit (nema kannski GoldenEye – hef ekki horft á hana síðustu þrjátíu ár).

Myndin nær að keyra í gegn á 93 mínútum. Ef það var veila í plottinu þá get ég ekki bent á hana. Frábær mynd. Ekki jafn góð og Companion (enn besta 2025 myndin) en ég held að ég geti mælt með þessari við fleiri af því það er miklu minna blóð.

Hammett (1982) 🫴
{83-63-ø-ø}

Rithöfundurinn Dashiell Hammett lendir í miðju glæpamáli sem gæti allt eins komið úr eigin hugarheimi. Leikstýrt af Wim Wenders.

Það er margt gott við myndina. Frederic Forrest er skemmtilegur í aðalhlutverkinu. Sviðsmyndirnar gera það augljóst að hún er tekin upp í stúdíói, sem gefur bara viðeigandi tón. Þetta er eins og Noir-myndirnar sem byggðar eru á sögum Hammett.

Aftur á móti er Lydia Lei (um þrítugt) mjög ósannfærandi sem sautján ára stelpa. Söguþráðurinn er ákaflega þunnur og endirinn fyrirsjáanlegur.

Er vandamálið að ég þekki frumefnið ekki nægilega vel? Mögulega hefði myndin verið betri sem gamanmynd. Hún er oft á mörkunum. Peter Boyle hefði allavega virkað betur ef húmorinn hefði verið í aðalhlutverki.

Kannski hefði verið erfitt að fara grínleiðina þar sem nokkrum árum áður hafði Neil Simon skrifað hina vanmetnu The Cheap Detective sem tók fyrir þessar harðsoðnu einkaspæjaramyndir með Peter Falk í aðalhlutverki (Wenders vann einmitt með honum nokkrum árum síðar).

Maltin gefur ★★★ sem mér finnst örlítið örlátt.

The Godfather (1972) 👍👍🖖
{82-ø-ø-25}

Líklega hef ekki heyrt eða lesið meira um nokkra mynd heldur en The Godfather. Baksagan er nefnilega áhugaverð. Mafíósar, olíubarónar og listamenn. Ef ég myndi leyfa mér það gæti ég skrifað nærri því jafn mörg um þá sögu og kvikmyndina sjálfa. Ég skal reyna að hemja mig. Francis Ford Coppola hefur sagt að þetta hafi verið erfiðara en að gera Apocalypse Now. Læt söguna af þeirri mynd líka bíða. En ég mæli alveg með sjónvarpsþáttunum The Offer (2022) sem fjallar um þetta og er ótrúlega nærri sannleikanum.

Myndin er gerð eftir samnefndri metsölubók Mario Puzo frá árinu 1969. Leikstjóri er fyrrnefndur Coppola. Aðalhlutverk er Marlon Brando, Al Pacino, James Caan, Diane Keaton, John Cazale, Talia Shire (systir Coppola og mamma Jason Schwartzman) og Robert Duvall.

Kvikmyndagerð Coppola virðist alltaf hafa verið fjölskyldumál. Pabbi hans Carmine kom að tónlistinni og sést í einu atriði. Sonur hans Roman Coppola (sjá Dracula færsluna) leikur strák á götunni. Áhugaverðast er kannski að nýfædd dóttir hans Sofia kemur fram í skírnaratriðinu og enginn hefur kvartað yfir frammistöðu hennar. Bróðursonurinn Nicolas Coppola fékk ekki hlutverk en þið kannist við hann sem Nicolas Cage.

Richard S. Castellano festist í minninu sem Clemenza. Því miður er Abe Vigoda sem lék Tessio látinn fyrir nokkrum árum (brandari sem þið munið kannski ekkert eftir).

Af öðrum eftirminnilegum má nefna Lenny Montana sem hafði unnið unnið fyrir mafíuna í hlutverk Luca Brasi. Hann var svo taugaóstyrkur að Coppola innlimaði það í persónuna. Annar uppgjafaglæpamaður var Alex Rocco í hlutverki Moe Greene (Bugsy Siegel) en þið þekkið kannski röddina hans frekar úr The Simpsons þar sem hann lék Roger Meyers Jr. (Itchy and Scratchy framleiðandinn).

Það þarf að nefna kvikmyndatökustjórann Gordon Willis sem ber mikla ábyrgð á útliti myndarinnar. Hann var einmitt kallaður myrkrahöfðinginn vegna þess hve takmarkaða lýsingu hann notaði (og mig minnir að hann hafi svarað með því að kalla eldri kollega sína eldvörpur).

Þá er ónefndur Nino Rota sem samdi tónlistina í myndinni (sumt aðlagað frá fyrri verkum sínum). Ég man það alltaf því einhvern tímann sagði ég að það hefði verið Ennio Morricone og Ásgeir leiðrétti mig.

Söguþráðurinn, og hér verða höskuldar, er í stuttu máli: Þó mafíuforingi hafi gert sitt besta til þess að halda yngsta syni sínum frá glæpum neyðist sá til að blanda sér í fjölskyldureksturinn eftir að faðirinn hefur verið skotinn. Einfalt? Ekki beint.

Ég sá Godfather þríleikinn fyrst í október 1995. Þemamánaður á Stöð 2 Líklega sá ég fyrstu myndina 13. október. Þó var þetta á tíma í lífi mínum þar sem ég var allt í einu virkur í félagslífi þannig að það er smá séns að ég hafi tekið myndina upp og horft á daginn eftir. Þetta var auðvitað á túbusjónvarpi og mig grunar að ég hafi ekki áður séð myndina á breiðskjá og auðvitað aldrei á breiðtjaldi.

Það munar töluverðu að sjá hana á stóra tjaldinu. Reyndar klúðruðu Sambíóin þessu og um mínúta í upphafi myndarinnar var bara svört. Pirrpirr. Ekki einu sinni Gordon Willis hefði ekki sætt við slík birtuskilyrði.

Ég man aldrei eftir að tekið eftir því að Frelsisstyttan er í bakgrunninum í cannoli atriðinu. Hún snýr bakinu í það sem gerist.

Þessi mynd, þessar myndir, fjalla auðvitað um það sem við köllum núna eitraða karlmennsku og hvernig ofbeldi kallar á ofbeldi. Við sjáum hvernig ævistarfi og markmiðum Vito Corleone er rústað. Sonurinn sem átti að vera heiðarlegur er orðinn guðfaðir. Sá elsti er dauður. Framhald síðar. Coppola og Puzo vissu alveg hvað þeir væru að gera.

Atriðið í skírninni er auðvitað meistaraverk. Hræsni Michael sem afneitar djöflinum og öllum hans verkum á meðan morðingjar vinna skítverkin hans.

Maltin gefur ★★★★ og það ætti að vera óumdeilt. Ég hlustaði líka á þátt af hlaðvarpinu hans The Movie Guide with Maltin & Davis þar sem er létt umfjöllun um The Godfather. Í þættinum segir hann frá því þegar hann sé myndina fyrst í bíó og á ákveðnum tímapunkti segir stelpa bak við hann við vinkona sína: Þetta er atriðið með hestshausnum í rúminu.

The Black Cauldron (1985) 🫴
{81-62-ø-ø}

Mislukkaður svínahirðir lendir í ævintýrum. Disney hittir Tolkien og Ralph Bakshi.

Disney tapaði peningum á þessari mynd og því var aldrei í boði að sjá hana þegar ég tók fyrstu atrennu á teiknimyndir fyrirtækisins. En hún var samt frekar spennandi út af því. Núna er hún einfaldlega á Disney+.

Tónn Black Cauldron er mjög ójafn, á köflum er hún miklu dekkri en í öðrum Disney-myndum í anda fyrri teiknimynda fyrirtækisins. Það sem er skrýtnast eru atriði sem gæti allt eins hafa verið í myndum eftir Ralph Bakshi.

Ég þarf að höskulda hér.

Þetta er eins og eftiröpun á Hringadróttinssögu nema Gollum er krúttlegur vinur Frodo sem hoppar sjálfviljugur í eldinn til að fórna sér en lifir af.

Á þessum tíma stjórnuðu Michael Eisner og Jeffrey Katzenberg Disney. Þeir tóku ákvörðun um að klippa myndina í óþökk leikstjóra af því hún var ekki nógu barnvænleg. Mig grunar að það sé ekki eina ástæðan fyrir því að myndin virkar ekki sérstaklega vel.

John Hurt og Nigel Hawthorne leika hlutverk hrædds tónlistarmanns og vonda hyrnda kóngsins. Giskið hvor er hvað.

Maltin gefur ★★½ sem mér finnst frekar örlátt en tekur fram að þetta virki aðallega fyrir krakka.

Smjörhóll í Axarfirði eða Herhóll í Öxarfirði eða Axarfirði

Í fórum mínum er jólakort til ömmu minnar (Ingibjörg Óladóttir 1912-2002) sem er stílað á Imbu á Herhóli. Þar sem fæðingarstaður ömmu heitir Smjörhóll þótti mér þetta nokkuð nokkuð áhugavert.

Frá ömmu (og seinna Sigurði Birgi frænda mínum á Smjörhóli) fékk ég þær skýringar að prestur nokkur hafi verið á því að Herhóll væri réttara nafn. Á sínum tíma grúskaði ég töluvert í þessu og var orðinn nokkuð viss um að umræddur prestur hefði verið Þorleifur Jónsson á Skinnastað. Hann lést árið 1911 og í kjölfarið virðist bæjarheitið Herhóll hafa fjarað út.

Þessi sama skýring er gefin hjá Örnefnastofnun:

Nú á síðari tímum (líklega frá sr. Þorleifi á Skinnastað) fór að koma fram nafnið Herhóll, en enga stoð mun það nafn eiga í heimildum.#

Fyrir nokkrum árum dúkkaði upp breyting á upplýsingum um ömmu í Íslendingabók. Hún er sögð fædd „á Herhóli í Öxarfirði“ og að hún hafi verið „á Herhóli“ 1920. En síðan stendur að hún hafi alist „upp með foreldrum á Smjörhóli“ og hafi verið „[v]innukona á Smjörhóli“ [1930]. Það vottar hvergi fyrir að Herhóll og Smjörhóll sé sami bærinn.

Spurningin er: Er rétt að nota bæjarheiti sem var notað í opinberum skjölum vegna sérvisku eins prests? Ég veit ekki til þess að amma hafi nokkrum sinni sagt að hún væri fædd á Herhóli. Ég held að henni hafi ekki komið það til hugar þó henni hafi fundist þetta flott nafn þegar hún var krakki.

Þessi umræða leiðir beint að öðrum samræðum sem ég átti við ömmu. Var amma frá Axarfirði eða Öxarfirði? Hún sagði mér að einhverjir hafi fundið út að Öxarfjörður væri réttara heiti en var sjálf ekki alveg sannfærð.

Þegar ég fór að skoða málið varð ég nokkuð viss um að Öxarfjörður væri dæmi um fyrningu á málinu. Það að „leiðrétta“ eðlilega þróun íslenskunnar með því að nota eldri orð og heiti.

Ég rakst svo á pistil í Alþýðublaðinu eftir Guðna Kolbeinsson.

Ekki hafa þó allir sætt sig við nafnið Axarfjörður, því að Þorleifur Jónsson, sem varð prestur á Skinnastað 1881 og var merkur fræðimaður, mun hafa gengist fyrir því að gerð var sveitarsamþykkt um að halda uppi nafninu Öxarfjörður, og það heitir hreppurinn nú á máli yfirvalda.#

Það var sumsé sami prestur. Hann vildi Herhól í Öxarfirði en ekki Smjörhól í Axarfirði. Honum gekk frekar vel að dreifa sérvisku sinni.

Kveikjan af þessum skrifum er vefurinn Sögulegt mann- og bæjatal sem var víst að fara í loftið. Þar mætti nefna tengja Herhól og Smjörhól.

American Psycho (2000)🫴
{80-ø-ø-24}

Árið er 1987 og Patrick Bateman tilheyrir meisturum alheimsins á Wallstreet. Hann hugsar vel um sjálfan sig. Útlitslega séð. Undir niðri er annað að finna.

Þetta er mynd frá síðustu öld þannig að ég leyfi mér að höskulda aðeins. Varúð.

Rétt áður en við lögðum af stað í bíóið mundi ég eftir ræðunni um Huey Lewis and The News og reyndi að leggja aðalatriðin á minnið. Á leiðinni í bíóið spilaði ég tónlistina úr myndinni og fór með umorðaða útgáfu af öllu því fallega sem Patrick Bateman hafði að segja um Hip To Be Square. Ég geri fastlega ráð fyrir að Gunnsteinn hafi verið að leita að merkingunni sem ég talaði um í þessum mjög innihaldsríka texta.

Ég hafði sumsé séð myndina á sínum tíma og fannst hún fín en ekki snilld. Það kom mér því skemmtilega á óvart hve góð hún var og ég hafði orð á því í hléinu.

Eftir hlé missti myndin flugið. Ég held að tónninn virki ekki. Hún er ekki alveg splatter mynd og hún er ekki heldur grínmynd. Hún nær ekki jafnvægi eða veit ekki alveg hvað hún ætlar að vera.

Christian Bale er augljóslega mjög góður í hlutverki Walter Mitty Wall Street sem dreymir um að vera Ed Gein. Það dugar ekki alveg.

Það eru margir fínir leikarar í myndinni en enginn annar fær tækifæri til að gera nokkuð eftirminnilegt. Kannski helst Jared Leto og Justin Theroux. Reese Witherspoon¹ nær inn nokkrum góðum línum en er annars sóað.

Martin gefur ★½ en er að flestu leyti sammála mér.


¹ Í kvöld sneri aftur þessi leiðinda meinloka mín þar sem ég rugla saman nöfnunum á Renée Zellweger og Reese Witherspoon. Er það af því þær urðu frægar á svipuðum tíma?