Batman (1989) 👍👍🖖

Ungur drengur verður fyrir áfalli og sem fullorðinn maður reynir hann að fylla tómið með því að klæða sig í grímubúning.

Í október 1989 var ég í Reykjavík í fimmtugsafmæli Hauks frænda. Það var ákveðið að við Starri og Aðalsteinn fengjum að fara í bíó. Það var ein mynd sem okkur þremur þótti langmest spennandi að fara á: Indiana Jones and the Last Crusade. Síðan kom í ljós að hún var bönnuð innan tólf ára og hinn níu ára Aðalsteinn taldist of ungur til að fara á hana.

Þannig að Batman í Bíóhöllinni varð fyrir valinu. Það var í fyrsta skiptið sem ég fór í bíóið í Mjódd sem hefur nú verið hverfisbíóið mitt í rúm tuttugu ár. Í lok janúar verður því lokað og vegna þess að kapítalisminn ræður öllu fáum við ekkert menningarlegt í staðinn. Bara helvítis Nova sem er fyrirtæki sem ég vissi ekki að væri ennþá starfandi.

Um daginn var ég í Egilshöll með Sigga vini mínum að ræða um væntanlegar sýningar á Batman-myndum og minning skaust upp í huga minn frá því í Glerárskóla. Ég var að segja Sigga að mér hefði ekki þótt Batman sérstaklega góð. Hann ásakaði mig um að vilja bara vera öðruvísi af því myndin væri svona vinsæl. Mögulega var smá sannleikur í því en ég held ég hafi aðallega verið að finna afsökun til að monta mig af því að hafa séð myndina löngu áður en hún kom í bíó á Akureyri. Síðan var ég smá bitur að hafa ekki fengið að sjá Indiana Jones and the Last Crusade.

Tim Burton var ekki augljóst leikstjóraval fyrir Batman en skrýtnu myndirnar hans höfðu slegið í gegn þannig að hann fékk séns. Samt ekki fyrren Joe Dante leikstjóri Gremlins hafði hafnað starfinu.

Það að fá Michael Keaton í hlutverk Batman var vægast samt umdeilt. Hann var talinn alltof mikill grínleikari til að geta staðið undir hinum myrka Batman sem aðdáendurnir voru að vonast eftir. Leðurblökumaðurinn var í uppsveiflu eftir að Alan Moore skrifaði The Killing Joke and Frank Miller hina Reagan/fasísku The Dark Knight Returns.

Á sínum tíma var Batman Tim Burton umtöluð fyrir að vera dökk teiknimyndasögumynd. Það var augljóslega miðað við tóninn í Batman þáttunum frá sjöunda áratugnum. Hún er líka dökk miðað við Joel Schumacher Batman-myndirnar sem komu seinna.

Batman er næstum því skylduáhorf. Áhrif hennar voru gríðarleg, sérstaklega vegna útlits og hönnunar. Tónlist myndarinnar er einn af hápunktum ferils Danny Elfman. Ég veit að margir eru hrifnir af lögunum sem Prince gerði fyrir myndina en mér finnst þau alltaf voðalega meh, sérstaklega miðað við hans bestu lög.

Jack Nicholson er ennþá minn Jóker. Hann fer svo innilega yfir toppinn og skyggir auðvitað á alla aðra leikara myndarinnar. Þó er Tracey Walter líka eftirminnilegur sem hans næstráðandi. Líka gaurinn sem heldur á tónlistargræjunum.

Handritið sjálft er hálfgert klúður og það hefði mátt stytta Batman töluvert. Kim Basinger passar eiginlega ekki í myndina og ég held að það sé ekki henni að kenna.¹

Af öðrum leikurum myndarinnar má nefna Billy Dee Williams, Pat Hingle, Jerry Hall, Robert Wuhl og auðvitað Jack Palance.

Maltin gefur ★★⯪☆.

Óli gefur ★★★★☆👍👍🖖

¹ Hlutverk Kim Basinger í Batman varð til þess að hún var kynnir á Óskarsverðlaununum fyrir árið 1989. Ég hef ekki séð almennilega staðfestingu á því sem gerðist en ég held að hún hafi einfaldlega farið út fyrir handritið þegar hún átti að kynna Dead Poets Society. Hún leit allavega út fyrir að vera mjög taugaóstyrk þegar hún fór allt í einu að tala um að ein besta mynd ársins Do The Right Thing hefði ekki hlotið tilnefningu. Fyrir það verður Kim Basinger alltaf á mínum topplista.

Le Bonheur (1964) ★★★★★👍👍🖖

Hamingjusamur fjölskyldufaðir reynir að finna sér enn meiri hamingju.

Le Bonheur er ekki það sem hún virðist vera. Hún er eitthvað meira. Þetta er dökk mynd. Eiginlega með þeim dekkstu. Hún er miskunnarlaus fordæming á karlrembu fransks samfélags. Það eru líka fleiri en ég sem hafa tekið eftir á að hún sé eiginlega rangt flokkuð sem dramamynd.

Agnès Varda byrjaði feril sinn sem ljósmyndari og það sést. Ég hef sjaldan séð jafngóða römmun og Le Bonheur og hinum myndum hennar. Hérna fær litanotkun hennar að blómstra. Það öskrar ekkert á mann og líklega er hægt að missa af því. Það er bara hluti af hinum hversdagslega raunveruleika fjölskyldunnar. Sem mér þykir töluvert afrek.

Maltin gefur ★★⯪☆ og segir að sagan sé ósannfærandi og ég ætla að segja nokkuð sem ég forðast almennt: hann fattaði ekki myndina.

Óli gefur ★★★★★👍👍🖖

Cecil B. Demented (2000) ★★★☆☆👍

Frægri leikkonu er rænt og hún neydd til að koma fram í kvikmynd sem gagnrýnir Hollywood.

Cecil B. Demented skartar Melanie Griffith í aðalhlutverki en þarna er líka fjöldinn allur af leikurum undir þrítugu sem voru ekki sérstaklega frægar á þeim tíma en hafa afrekað margt á síðasta aldarfjórðungi, s.s. Stephen Dorff, Maggie Gyllenhaal, Alicia Witt, Michael Shannon og Adrian Grenier. Síðan er Patty Hearst¹ á svæðinu til þess að spegla reynslu persónu Melanie Griffith.

Hópurinn sem rænir Melanie Griffith samanstendur af ungu kvikmyndagerðarfólki og -unnendum. Þau hata meginstrauminn og sérstaklega Hollywood. Þau vilja eitthvað meira ekta en eru alveg laus við að átta sig á eigin tilgerð. Sumsé, Cecil B. Demented er ekki bara að gagnrýna Hollywood heldur líka að gera grín að þeim sem taka sjálfstæða kvikmyndagerð óhóflega alvarlega. Um leið er hjarðeðli almennings skotmark.

Á köflum er Cecil B. Demented ákaflega fyndin en hún er líka mjög ójöfn. Hún stendur ekki alveg undir sér en hún er nógu stutt til þess að það var ekki að ergja mig neitt óhóflega. Leikararnir gera mikið fyrir myndina. Það á bæði við um þau yngri og Melanie Griffith sem gerir töluvert grín að eigin ímynd.

Maltin gefur ★⯪☆☆ og var greinilega ekki alveg að fíla myndina.

Óli gefur ★★★☆☆👍

¹ Árið 1974 var Patty Hearst, barnabarni blaðakóngsins William Randolph Hearst², rænt af samtökum sem kölluðust Symbionese Liberation Army. Tveimur mánuðum seinna fengu fjölmiðlar segulbandsspólu þar sem hún lýsti því yfir að hún hefði gengið til liðs við mannræningja sína. Hún tók í kjölfarið þátt í aðgerðum s.s. bankaráni.

Rúmu einu og hálfu ári eftir að Patty Hearst var rænt var hún handtekin. Þrátt fyrir að ekkert benti til þess að hún hefði framið nokkra glæpi ef henni hefði ekki verið rænt var hún sótt til saka og dæmd í fangelsi. Dómurinn var síðan mildaður og að lokum var hún náðuð.

² Sjá umfjöllun um Citizen Kane.

Laura (1944) ★★★⯪☆👍

Lögreglumaður rannsakar morð heillandi og fallegrar ungrar konu en það er ekki allt sem sýnist.

Laura er mikils metin kvikmynd eftir Otto Preminger. Ég hef heyrt að hún hafi haft töluverð áhrif á David Lynch og að persónan Laura Palmer í Twin Peaks sé nefnd eftir titilpersónu myndarinnar.

Þó ég vissi fyrirfram að Vincent Price léki í Laura þekkti ég hann ekki strax en auðvitað þurfti hann ekki að segja margt áður en ég tengdi. Það er ekki bara að hann sé tiltölulega ungur hérna heldur áttaði ég mig alls ekki á hve hávaxinn hann var.

Mér þótti Laura mjög fín mynd en ég sá ekki snilldina. Mögulega get ég bara ekki áttað mig nægilega vel á því hvað var nýtt á þessum tíma. Allavega held ég því alveg opnu að ég hafi ekki náð þessari mynd.

Maltin gefur ★★★★.

Óli gefur ★★★⯪☆👍.

Cléo de 5 à 7 (1962) ★★★★⯪👍👍

Söngkonan Cléo reynir að dreifa huga sínum meðan hún bíður slæmra frétta.

Cléo de 5 à 7 rímar við Sans toit ni loi. Það var ekki eitthvað sem ég áttaði mig á þegar ég ákvað að horfa á tvær kvikmyndir eftir Agnès Varda með stuttu millibili. Cléo er nærri toppnum en Mona á botninum. Mögulega ríma allar myndir hennar, ég hef ekki séð fleiri.

Cléo de 5 à 7 gerist á nær rauntíma og þar sem lengd myndarinnar er ekki nema níutíu mínútur er titillinn villandi, myndin endar um hálf-sjö. Corinne Marchand nær að túlka persónu sem verður hægt og rólega áhugaverðari eftir því sem hún nálgast dóm sinn.

Þrátt fyrir að vera hrifnari af kvikmyndum með meiri söguþræði greip Cléo de 5 à 7 mig.

Ég verð að nefna skemmtilegt atriði þar sem Cléo horfir á þögla gamanmynd með leikurum á borð við Jean-Luc Godard, Anna Karina og Eddie Constance.

Matlin gefur ★★★☆.

Óli Gneisti gefur ★★★★⯪👍👍.

Sans toit ni loi (1985) ★★★★⯪👍👍

Ung kona finnst látin í skurði og við heyrum frá fólki sem kynntist henni, til lengri og skemmri tíma, í aðdraganda andláts hennar.

Sandrine Bonnaire leikur aðalhlutverkið í mynd Agnès Varda Sans toit ni loi. Á ensku er myndin kölluð Vagabond en íslenski titillinn Ekkert þak, engin lög er nær bókstaflegu merkingu frönskunnar. Mona er flakkari eða einfaldlega útigangskona.

Í Sans toit ni loi sjáum við harmleik í uppsiglingu. Margir eru tilbúnir að hjálpa aðalpersónunni, að vissu marki en Mona gerir þeim það ekki sérstaklega auðvelt. Það er greinilega eitthvað meira að. Það eru líka ýmsir sem gera henni mein, viljandi og af slysni eða bara einföldu tillitsleysi.

Sandrine Bonnaire er alveg frábær.

Þar sem ég sá aðra mynd eftir Agnès Varda, Cléo de 5 à 7, strax næsta dag á ég svolítið erfitt með að hugsa um Sans toit ni loi eina og sér. Þessi samanburður hækkar álit mitt á báðum kvikmyndunum.

Maltin gefur ★★★⯪.

Óli gefur ★★★★⯪👍👍.

Waxwork (1988) ★★★☆☆👍

Ungt fólk ákveður að þiggja miðnæturheimsókn á dularfullt vaxmyndasafn.

Waxwork veit að hún er ódýr hryllingsgamanmynd. Markmiðið var ekki að gera lélega mynd heldur skemmtilega mynd sem tekur sig ekki alvarlega. Hún nær ekki alveg að lenda. Hún er 93 mínútur og það hefði mátt skafa aðeins af henni. Þrátt fyrir það þótti mér hún skemmtileg.

Aðalleikararnir voru vel þekktir á þessum tíma. Það á við um Deborah Foreman og Michelle Johnson. Zach Galligan lék auðvitað í Gremlins og í Waxwork skemmtir hann sér með persónu sem er gjörólík því hlutverki. David Warner (sem ég tengi alltaf við The Man With Two Brains) rekur vaxmyndasafnið og John Rhys-Davies (góðu Indiana Jones myndirnar) kemur örsnöggt þó persóna hans sé lengur á skjánum.

Maltin gefur ★⯪☆☆.

Óli gefur ★★★☆☆👍.

The First Wives Club (1996) ★★★⯪☆👍

Þrjár gamlar vinkonur ákveða að ná fram réttlæti gagnvart mönnunum sem hafa komið illa fram við þær.

Á sínum tíma var The First Wives Club frekar byltingarkennd því þetta var mynd með eldri leikkonum (rétt rúmlega fimmtugum sumsé) í aðalhlutverkum. Hvers vegna myndi nokkur vilja horfa á þær?

Auðvitað voru Diane Keaton¹, Goldie Hawn² og Bette Midler³ þá fyrir löngu búnar að sanna sig sem gamanleikkonur. The First Wives Club er líka ákaflega fyndin. Það eru líka margir góðir leikarar í aukahlutverkum sem fá mismikið að gera.

Maggie Smith, Elizabeth Berkley, Sarah Jessica Parker, Marcia Gay Harden, Stockard Channing, Timothy Olyphant, Rob Reiner, Bronson Pinchot, Stephen Collins, …

The First Wives Club er leikstýrð af Hugh Wilson sem er líklega þekktastur fyrir Police Academy en mér þykir alltaf sérstaklega vænt um mynd hans Rustlers’ Rhapsody.

Það er töluvert stefnuleysi í The First Wives Club. Það er eins og fólkið sem gerði myndina hafi ekki verið sammála um hvernig hún ætti að vera. Á köflum eru innskot með Diane Keaton með sögumanni sem virka mjög undarlega, eins og þeim hafi verið bætt við eftir á til að útskýra rugling í söguþræðinum.

Sem feminísk mynd er The First Wives Club ekki alltaf frábær. Meðferðin á nýju kærustum gömlu mannanna er til dæmis undarleg. Sú eina sem gerði eitthvað raunverulega af sér sleppur eiginlega alveg en það er barið á þeim yngri. Síðan eru frekar ósmekklegir brandarar um átröskum sem eru mjög síns tíma.

Maltin gefur ★★⯪☆ og segir að bókin sé betri.

Óli gefur ★★★⯪☆👍.

¹ Upprunalega Diane Hall, kölluð Annie. Þegar Michael Douglas gat ekki notað sitt eigið nafn vegna Hollywood-reglna ákvað hann að taka leikaranafnið Keaton í höfuðið á Diane. Pabbi mannsins sem mátti nota ættarnafn hans hét upprunalega Issur Danielovitch og tók upp fornafnið Kirk.

² Upprunalegt nafn hennar var Goldie Jean Studlendgehawn.

³ Upprunalegt nafn hennar var Bette Midler.

Midnight Run (1988) ★★★★⯪👍👍

Góðhjartaður glæpamaður á flótta er gómaður af fyrrverandi löggu sem hefur fimm daga til að koma honum frá New York til Los Angeles.

Midnight Run var ein eftirlætismyndin mín á tímabili. Satt best að segja horfði ég nógu oft á hana til þess að ég var kominn með smá leið á henni. Síðan eru liðin mörg ár.

Midnight Run í leikstjórn Martin Brest (Beverly Hills Cop) fjallar um ólíklega félaga og er blanda af gaman-, hasar- og vegamynd. Robert De Niro og Charles Grodin ná ákaflega vel saman en Yaphet Kotto, Joe Pantoliano og John Ashton (félagi Judge Reinhold í Beverly Hills Cop) eiga allir mörg skemmtileg atriði.

Það er ekki hægt að segja að Midnight Run hafi gleymst en hún er ekki jafn oft nefnd og hún á skilið. Hún hefur elst mjög vel þó hún sé auðvitað barn síns tíma. Við sjáum hluti sem væru óhugsandi í dag.¹

Tónlist Danny Elfman spilar stóran þátt í takti myndarinnar. Midnight Run er reyndar frekar ólík öðrum verkum hans, allavega frá upphafsárunum.

Maltin gefur ★★★⯪.

Óli gefur ★★★★⯪👍👍.

¹ Á þessum tíma þótti nefnilega í fínu lagi að reykja út um allt. Yngra fólk áttar sig kannski ekki á því að mörgum þótti Charles Grodin voðalega pirrandi og leiðinlegur fyrir að kvarta undan reyknum.

Bugonia (2025) ★★★★★👍👍

Tveir frændur hafa komist að þeirri niðurstöðu að forstjóri stórfyrirtækis eigi sök á því hve hræðilegt líf þeirra er og reyna að leysa vandamálið með ófyrirséðum afleiðingum.

Þar sem ég var ákaflega hrifinn af Poor Things hafði ég töluverðar en kvíðablandnar væntingar til Bugonia sem er gerð af sama leikstjóra, Yorgos Lanthimos. Þetta var ekki gleðirík bíóferð því myndin hófst ekki fyrren hálftíma eftir auglýstan sýningartíma. Það var sumsé pirringur í loftinu. Takk Sambíóin Álfabakka.

Í stuttu máli er Bugonia ein besta kvikmynd þessa árs. Hún er sú eina sem er í raunverulegri samkeppni við Companion um efsta sætið. Þegar ég fer yfir árið í heild eru allar líkur á að ég horfi aftur á þessar tvær myndir.

Bugonia er mjög dökk gamanhryllingsmynd. Alveg með þeim dekkstu. Hún fjallar um stöðu heimsins á ákaflega gagnrýnin hátt. Nú er ég ekki alveg viss um að allir túlki myndina á sama hátt en mér þótti boðskapurinn þó frekar skýr og að í honum fælist nauðsynleg skilaboð.

Íslenski texti myndarinnar var á köflum mjög vandræðalegur. Verst var líklega að tvíræðni enskunnar í notkun persónufornafna glataðist algjörlega. Það náði líka að ergja mig töluvert að þýðandinn hafði ekki einu sinni fyrir því að fletta upp orðinu „shibboleth“ og ákvað að þýða það sem „slagorð“.¹

Emma Stone og Jesse Plemons eru jafn góð og við var að búast. Alicia Silverstone var óþekkjanleg.² En það er hinn ungi Aidan Delbis í hlutverki frændans sem veit ekki alveg hvað er á seyði sem slær í gegn.

Bugonia er endurgerð af suður-kóreskri mynd sem kallast Save the Green Planet! (2003). Miðað við hve skýrar vísanir þessi nýja mynd hefur í samtíma okkar get ég ímyndað mér að mörgu hafi verið breytt.

Bugonia er að öllu leyti frábær mynd. Kvikmyndataka, hönnun, klipping … Það eina sem gerði mig efins um að splæsa á hana fimm stjörnum³ var að mér þótti Poor Things betri.

Óli gefur ★★★★★👍👍.

¹ Bókstaflega þýðingin hefði auðvitað verið sjibbótet en þar sem við notum þessa Biblíuvísun ekki í daglegu máli mætti í staðinn segja „lausnarorð“. Sagan sjálf er frekar óhugnanleg en hljómar jafnvel verr eftir atburði síðustu ára.

Gíleaðítar settust um Jórdanvöðin yfir til Efraím. Og þegar flóttamaður úr Efraím sagði: „Leyf mér yfir um!“ þá sögðu Gíleaðsmenn við hann: „Ert þú Efraímíti?“ Ef hann svaraði: „Nei!“ þá sögðu þeir við hann: „Segðu ,Sjibbólet.'“ Ef hann þá sagði: „Sibbólet,“ og gætti þess eigi að bera það rétt fram, þá gripu þeir hann og drápu hann við Jórdanvöðin. Féllu þá í það mund af Efraím fjörutíu og tvær þúsundir.

² Ég þekkti hana allavega ekki.

³ Ég gef ekki einkunnir á kúrvu, ég er með ákveðna stigagjöf, mínusar og plúsar sem gefa kvikmyndum af mismunandi tegundum að ná upp í fimmta sætið. Ef ég umbreytti stjörnugjöf minni á nýjum kvikmyndum í tölur er meðaltalið á milli fimm og sex á skalanum 1-10.

Night of the Creeps (1986) ★★★⯪☆👍👍

Það eru krípí kríp að hrella háskólastúdenta um miðjan níunda áratuginn.

Night of the Creeps er ein af þeim hryllingsmyndum frá þessu tímabili sem ég lét alveg fara framhjá mér. Þær höfðu flestar yfirbragð lélegra mynd. Það var mælt með myndinni í Critically Acclaimed, ekki sem stórkostlegri mynd heldur gott dæmi sinnar gerðar.

Leikstjóri Night of the Creeps er Fred Dekker sem gerði næst myndina Monster Squad sem ég hef bara séð einu sinni en líkaði vel við sem grínhryllingsmynd. Handrit þeirrar myndar var skrifað af Dekker og Shane Black (sem varð mun frægari þegar á leið¹).

Það sem dregur Night of the Creeps niður er að leikaravalið er ekki frábært. Það á sérstaklega við um yngri leikarana (nema kannski sá sem leikur skíthælinn). Tom Atkins leikur gamla löggu og hann neglir hlutverkið alveg. Hann veit alveg í hvaða mynd hann er.

Þetta er svona „Ef…“ mynd því það hefði ekki þurft mikið til að Night of the Creeps væri algjörlega klassísk hryllingsmynd á borð við A Nightmare on Elm Street eða jafnvel Gremlins. Ef tæknibrellurnar væru örlítið betri. Ef einhver (t.d. Shane Black) hefði fengið að laga handritið aðeins til. Ef leikararnir væru aðeins betri.

Það er samt lítils virði að reyna að ímynda sér betri útgáfu af myndinni… nema ef einhver myndi einfaldlega endurgera hana. Í heildina er Night of the Creeps ákaflega fín og oft fyndin.

Það eru ótal skemmtilegar vísanir í eldri hryllingsmyndir í Night of the Creeps. Svo er þarna leikari í litlu hlutverki sem er eiginlega sjálfur ein allsherjar vísun hvar sem hann birtist.

Maltin hefur sleppt Night of the Creeps úr handbók sinni sem er mjög óvenjulegt.

Óli gefur ★★★⯪☆👍👍.

¹ Shane Black skrifaði t.d. Last Action Hero, The Last Boy Scout, Lethal Weapon og Predator. Hans bestu myndir eru líklega þær sem hann leikstýrði sjálfur, Kiss Kiss Bang Bang og The Nice Guys. Svo leikstýrði hann einhverri Marvel-mynd sem ég sá aldrei. Þeir Fred Dekker gerði síðan saman The Predator sem mér skilst að sé óþarfi að sjá. Nýjasta mynd Shane Black er Play Dirty sem ég hef ekki lagt í.

The Wolf of Wall Street (2013) ★★★⯪☆👍

Ris og fall og endurkoma svikahrapps.

The Wolf of Wall Street ætti að vera augljós viðvörun til fólks að treysta ekki svikahröppum á borð við þann sem Leonardo DiCaprio leikur. Um leið ættu áhorfendur að sjá að fjármálakerfið er spillt og þjónar aldrei hagsmunum almennings. Það er það sem ég held að Martin Scorsese vilji segja.

The Wolf of Wall Street sýnir uppgang þessa svikahrapps í slíku ljósi að margir virðast hafa litið á hann sem fyrirmynd. Þó Scorsese sýni fallið þá eru senurnar með fallegum nöktum konum eftirminnilegri. Ef þú græðir nóg getur þú fengið að sofa hjá Margot Robbie.

Auðvitað eru þeir sem sjá svikahrappinn í þessum hetjuljóma yfirleitt ekki þeir sem munu verða ríkir á siðlausum viðskiptum heldur þeir sem munu missa peningana sína í peningaleitinni. Kannski hefði mátt eyða einhverjum tíma í að sýna hvernig fór fyrir þeim sem fjárfestu hjá þessu gaur.

Þetta loðir við myndir Scorsese. Það eru endalaust margir sem horfðu á Taxi Driver, Goodfellas og jafnvel Raging Bull og sáu Travis Bickle, Henry Hill og Jake Lamotta í einhverjum dýrðarljóma. Með flottri kvikmyndatöku og réttri tónlist verða skíthælarnir svalir. Hæfileikar kvikmyndargerðarmannsins Scorsese sem kvikmyndagerðarmanns vinnur þannig gegn boðskapnum.¹

Ef við lítum framhjá þessum siðferðislega vinkli er hið augljósa að The Wolf of Wall Street er of löng. Það þurfti ekki þrjá klukkutíma til að segja þessa sögu. Hún er satt best að segja ekki nógu áhugaverð til þess. Aftur á móti er hún oft fyndin.

Myndin er uppfull af góðum leikurum og ég nenni varla upptalningu. Það var auðvitað sérstaklega gaman að sjá Rob Reiner í hlutverki föðursins í ljósi þess að persóna hans Marty Di Bergi í This is Spinal Tap var augljóslega byggð á Martin Scorsese. Svo er augljóslega gaman sjá Jonah Hill í hlutverki Nikótínsalans Sven.

Maltin gefur ★★⯪☆ og segir að mynd um óhóf sé óhóflega löng.

Óli er aðeins hressari og gefur ★★★⯪☆👍 en líklega nær þremur en fjórum.

¹ Þegar ég var að leita að mynd til að skreyta þennan dóm var augljóst að nær öll skjáskot og kynningarmyndir voru af svala svikahrappnum og nær ekkert af falli hans.

Suspiria (1977) ★★★★⯪👍👍🖖

Ung bandarísk dansmær fer til Vestur-Þýskalands til að læra ballet og fljótlega kemur í ljós að það er eitthvað skuggalegt á seyði í skólanum hennar.

Satt best að segja var Suspiria ekki á stóra áhorfslistanum mínum. Mér þótti ólíklegt að hún myndi höfða til mín. Þó ákvað ég að drífa mig þegar hún var sýnd í Bíó Paradís.

Suspiria er fyndin hryllingsmynd. Ofbeldisatriðin eru oft það fáránleg að það er erfitt að hlæja ekki. Mig grunar að það sé betra að sjá myndina í bíósal þar sem fólk er almennt með á nótunum.

Þó Suspiria sé fáránleg er hún samt ákaflega vel gerð. Það er ljóst að Dario Argento er hæfur kvikmyndagerðarmaður. Kvikmyndatakan er alveg frábær. Þetta var víst síðasta myndin sem var gerð með Technicolor¹ á Ítalíu og það sést. Ég er svo einfaldur að það er hægt að gleðja mig með fallegum litum.

Tónlistin í Suspiria er eftir Dario Argento og rokkhljómsveitina Goblin. Hún er oft á mörkunum að fara yfir strikið milli stemmingar og hávaða en nær samt að halda sig réttum megin.

Ég held að ég sé orðinn betri í að sætta mig við ítalska hljóðvinnslu fyrri ára. Sumsé þegar allar raddir eru einfaldlega teknar upp eftir á og oft af öðrum leikurum. Það verður til ákveðin fjarlægð milli hljóðs og myndar og kemur oft niður á frammistöðu leikara. Það náði samt ekki að ergja mig sérstaklega í þetta sinn.

Alla myndina var ég að reyna að fatta hvers vegna ég kannaðist við aðalleikkonuna Jessica Harper og þurfti síðan að fletta því upp þegar ég kom heim. Hún hefur leikið ýmislegt í gegnum tíðina en ég þekki andlit hennar best úr Steve Martin myndinni Pennies From Heaven.

Þetta er ekki mynd fyrir alla en hún náði mér.

Maltin gefur ★★★☆ sem kom mér töluvert á óvart. Kannski er hann minna viðkvæmur fyrir evrópsku blóði.

Óli gefur ★★★★⯪👍👍🖖.

¹ Technicolor var kvikmyndatöku- og vinnslutækni sem skapaði ákaflega sterka liti með því að taka upp rautt/grænt/blátt hvert í sínu lagi og blanda þeim saman í lokaútgáfunni. Þetta er ekki nákvæm útskýring en vonandi hjálpar þetta eitthvað. Eldri Disney-teiknimyndir og The Wizard of Oz eru dæmi um notkun á Technicolor.

An American Werewolf in London (1981) ★★★★☆👍👍

Tveir Bandaríkjamenn eru beðnir ítrekað um að halda sig á veginum en fara þess í stað út á heiðina.

Mér finnst eins og ég hafi einhvern tímann byrjað að horfa á An American Werewolf in London en gefist upp. Ekki í stuði væntanlega. Og síðan hef ég verið í minna stuði fyrir John Landis í nokkur ár.

Það liggur í augum uppi að bera saman An American Werewolf in London og The Howling sem kom út sama ár. Í heild myndi ég segja að þessi sé betri mynd. Mér þótti hins vegar marglofuð varúlfaumbreyting í þessari ekki koma vel út í samanburðinum við Howling.¹ Varúlfurinn sjálfur var líka frekar slakur. „Förðunin“ á Griffin Dunne er þó frábær.

Helsti kostur An American Werewolf in London er að hún er fyndin. Líklega hló ég mest að Frank Oz, sérstaklega þegar hann „birtist“ í seinna skiptið.

Helsti galli An American Werewolf in London er aðalleikarinn sem er frekar glataður í samanburði við t.d. Griffin Dunne og Jenny Agutter. Það eru nokkur kunnugleg bresk andlit í myndinni, m.a. ungur Rik Mayall.

Gaman að fá gamla mynd í Álfabakkann.

Maltin gefur ★★★☆

Óli gefur ★★★★☆👍👍

¹ Rick Baker átti að sjá um varúlfana í Howling en þurfti að vinna við An American Werewolf in London í staðinn. Þá tók lærlingur hans Rob Bottin að sér mynd Joe Dante og stóð sig svona afskaplega vel.

The Nightmare Before Christmas (1993) ★★★★★👍👍🖖

Graskerskóngurinn er útbrunninn og heldur að jólin muni færa honum hamingju.

The Nightmare Before Christmas kom í bíó á Íslandi um jólin 1994 og fæstir tóku eftir henni. Ári seinna mælti Þórður Rafn sterklega með myndinni við mig þannig að ég greip hana um leið og ég sá spóluna í Vídeóver í Kaupangi.

Það er frægt að Tim Burton vann fyrir Disney-fyrirtækið í upphafi síns ferils. Það gekk brösuglega. Honum tókst þó að gera tvær stopphreyfimyndir á þeim tíma, sú frægari er Frankenweenie en ég mæli sérstaklega með Vincent þar sem Vincent Price leikur sjálfan sig.¹

Disney sparkaði Burton en átti samt réttinn að hugverkum hans frá þeim tíma sem hann vann hjá þeim. Þegar leikstjórinn sló í gegn með myndum eins og Pee-wee’s Big Adventure og Beetlejuice gat hann sannfært gömlu vinnuveitendur sína um að gera alvöru úr einni af þeim hugmyndum sem fyrirtækið átti.

Tim Burton var reyndar svo upptekinn að hann gat ekki leikstýrt The Nightmare Before Christmas sjálfur. Þar kom Henry Selick inn í myndina. Það leikstjórnarhlutverk var ekki þakklátt því margir vanmeta hans þátt. Þessi myndir bjó sig ekki til sjálf á meðan Tim Burton var að vinna að öðrum verkefnum.

Helstu leikarar The Nightmare Before Christmas eru Catherine O’Hara (Beetlejuice Beetlejuice, Beetlejuice), Glenn Shadix (Beetlejuice), William Hickey (t.d. gamli frændinn í Christmas Vacation) og Paul Reubens (Pee-wee’s Big Adventure).

Rödd Jack Skellington er tvískipt. Chris Sarandon (ótal myndir og fyrrverandi eiginmaður Susan) er talrödd Jack. Söngröddin er tónskáldið sjálft, Danny Elfman.

Disney hafði enga trú The Nightmare Before Christmas. Það sést best á því að hún var gefin út undir merkinu Touchstone. Slíkar myndir voru annað hvort ekki nægilega góðar til að fá Disney stimpilinn eða ekki nógu fjölskylduvænar.

Í gegnum árin hefur The Nightmare Before Christmas verið nær árlegur fasti í október/nóvember hjá fjölskyldunni. Kannski var ég gleraugnalaus í fyrra eða mögulega er 4K útgáfan orðin betri. Allavega gat ég notið ótal smáatriða sem ég hafði ekki tekið eftir áður. Það er magnað að sjá hvílík vinna var lögð í myndina.

The Nightmare Before Christmas er einfaldlega orðin klassísk. Það vinnur allt saman, söguþráður, tónlist og myndefni. Það er ekki skrýtið að Disney sé nú farið að eigna sér myndina sem fyrirtækið taldi ekki nógu merkilega árið 1993.

Maltin gefur ★★★

Óli gefur ★★★★★👍👍🖖 og skilur ekki af hverju The Nightmare Before Christmas sé ekki í bíó á hverju ári.

¹ Það hljómar kannski skringilega en samband Tim Burton og Vincent Price er á vissan hátt grunnurinn að sambandi Bela Lugosi og titilpersónunnar í myndinni Ed Wood.

Alphaville (1965) ★★★★⯪👍👍

Dystópía sem blandar saman vísindaskáldskap og film noir.

Það er til mynd sem ég kalla stundum í pirringi mínum Andleysi Godard. Ég var ekki, alls ekki, hrifinn af henni þó margir virðist telja hana meistaraverk.¹ Þannig að ég hafði mínar efasemdir um Alphaville eftir Jean-Luc Godard. Aðalleikarar eru Eddie Constantine og hin danska Anna Karina (sem var á þessum tíma eiginkona Godard).

Kemur ekki í ljós að Alphaville er stórskemmtileg og fáránleg, viljandi. Myndin gerist í borg fjarlægri stjörnuþoku² sem er stjórnað af tölvu sem hefur gert tilfinningasemi útlæga.

Líkt og í flestum noir-myndum fylgjumst við með „spæjara“ rannsaka mál. Líkt og oft gerist í slíkum myndum er rannsóknin handahófskennd og er hetjunni okkar oft bara fleygt til og frá án þess að áttum okkur á því nákvæmlega hvað er að gerast.

Alphaville gerir sumsé grín að bæði noir og vísindaskáldskap. Það er undirstrikað í lokauppgjörinu og endinum sjálfum.

Maltin gefur ★★ og segir að myndin sé einungis fyrir harðkjarnaaðdáendur frönsku nýbylgjunnar.

Óli gefur ★★★★⯪👍👍 og er orðinn jákvæðari fyrir því að kíkja á fleiri nýbylgjumyndir.

¹ Mig minnir að Roger Ebert hafi sagt að À bout de souffle (1960) marki upphaf nútímakvikmynda. Hvort sá nútími standi enn yfir er óljóst. Sjálfur hef ég stundum hugsað um Transformers (2007) eftir Michael Bay sem upphaf nútímakvikmynda. Allavega fannst mér það vera tímapunkturinn þar sem Hollywood missti mig.

² Þetta er samt miklu skringilegra en það hljómar.

Open Range (2003) ★★★⯪☆👍

Nokkrir kúrekar (bókstaflega að reka kýr) lenda í útistöðum við nautgripabarón.

Hversu marga vestra hefur Kevin Costner gert? Fleiri en ég hef séð allavega. Open Range er það sem hefur verið kallað endurskoðunarvestri.¹ Mörk góðs og ills eru loðin og hetjurnar ófullkomnar. Besta atriði myndarinnar er einmitt þegar persónurnar deila um muninn á því að myrða og drepa. Þessi innri barátta flæddi út og það var raunverulega taugatrekkjandi. Í heild er þetta mjög traustur vestri.

Meðleikarar Kevin Costner eru Robert Duvall, Annette Benning, Michael Gambon, Diego Luna og mér þótti sérstaklega gaman að sjá Abraham Benrubi sem verður alltaf The Kube² í mínum huga. Þetta var líka síðasta mynd Michael Jeter sem var í töluverðu uppáhaldi hjá mér.³

Maltin gefur ★★★.

Óli gefur ★★★⯪☆👍

¹ Slíkar myndir ögra þeim hugmyndum sem töldust sjálfgefnar í vestrum fyrri ára. Það væri hægt að kalla Dollaramyndir Sergio Leone endurskoðun en mér finnst hugtakið falla betur að bandarískum kvikmyndum. Það væri hægt að miða fæðingu þeirra við afnám Hays-kvikmyndaritskoðunarinnar árið 1968. Þá hurfu reglur um skýrt afmarkaða línu milli góðs og ills. Frægasti endurskoðunarvestrinn gæti verið Unforgiven.

Auðvitað voru gerðar myndir sem ögruðu staðalmyndum um vestra fyrir 1968. High Noon (sem virðist ekki vinsæl meðal minnar kynslóðar) snýr mörgu á haus og þá sérstaklega persóna Grace Kelly. The Man Who Shot Liberty Valance segir áhorfendum að efast. En sú besta sem ég hef séð er The Ox-Bow Incident.

² Parker Lewis Can’t Lose

³ Ég man fyrst eftir Michael Jeter úr meinlausa Burt Reynolds þættinum Fólkið í Forsælu en mögulega var hann eftirminnilegastur í The Fisher King.

Anatomie d’une chute (2023) ★★★⯪☆👍

Marglofuð verðlaunamynd um þýska konu sem er grunuð um að hafa orðið eiginmanni sínum að bana.

Mér þótti Anatomie d’une chute ekki standa undir nær tveimur og hálfum klukkutíma. Það er samt margt vel gert. Leikararnir eru góðir.

Það eru áhugaverðar pælingar í Anatomie d’une chute. Hvað myndi fólk sjá ef það setti einkalíf þitt undir smásjá? Hvernig er hægt að túlka/mistúlka það sem þú hefur sagt eða gert ef tilgangurinn er að sýna fram á sekt þína eða sakleysi.

Sjálfur endaði ég nær því að trúa á sakleysi eiginkonunnar snemma í Anatomie d’une chute. Mögulega af því að afstaða saksóknara (rannsóknardómara?) til þekkingarfræði var glötuð. Það endurspeglar auðvitað veruleikann þar sem fólk sem er öruggt með sjálft sig og svona gaurar sem hafa engan sans fyrir því hvernig fólk virkar telja sig geta fullyrt um merkingu orða og athafna án samhengis.

Hvorum blóðslettufræðingnum ættum við að trúa? Ja, hvorugum. Blóðslettugreining er alveg rosalega vafasöm fræði. Prinsippið ætti að vera að hunsa slík gögn og framburð.

Óli gefur ★★★⯪☆👍.

Vamps (2012) ★★★★⯪👍👍

Tvær „ungar“ vampírur í New York þurfa að takast á við sambönd sín við mannfólkið, nýir og gamlir kærastar hrista upp í ólífi þeirra.

Það rifjaðist upp fyrir mér að ég ætti eftir að sjá Vamps þegar hún var nefnd í þætti af Critically Acclaimed Network um bestu vampírumyndirnar.

Alicia Silverstone og Krysten Ritter sem vampírur í gamanmynd eftir Amy Heckerling.¹ Ef þér finnst það ekki frábær hugmynd er þetta líklega ekki myndin fyrir þig.

Eftir örfáar mínútur efasemda byrjaði ég að hlæja og hætti því ekki. Vamps er fáránleg mynd og ég elskaði hana. Hún náði líka að vera innilega tilfinningarík á köflum. Þetta er mynd sem veit hvað hún er.

Sigourney Weaver, Malcolm McDowell, Richard Lewis og Wallace Shawn (óhugsandi!) eru í minni hlutverkum. Dan Stevens leikur van Helsing.

Óli gefur ★★★★⯪👍👍

¹ Amy Heckerling gerði líka Clueless þar sem Alicia Silverstone var í aðalhlutverki. Döh.

The Adventures of Robin Hood (1938)★★☆☆☆🫳

Hrói höttur lendir í útistöðum við skósveina Jóns landlausa sem hefur tekið völdin á meðan Ríkharður ljónshjarta er utan þjónustusvæðis (eins og hann var eiginlega alltaf).

The Adventures of Robin Hood er frumraun einnar frægustu stjörnu síns tíma. Ekki í aðalhlutverkinu, augljóslega. Hann er ekki einu sinni skráður sem leikari í myndinni og ef svo væri þá væri það undir upprunalega nafni sínu en ekki sviðsnafninu. Hann flytur Jómfrú Maríon¹ þangað sem hún vill.

Nokkru seinna var Roy Rogers boðið að velja sér hest og þá varð Golden Cloud fyrir valinu og nýtt nafn valið: Trigger.

The Adventures of Robin Hood… Vandamálið er fyrst og fremst að ég féll engan veginn fyrir Errol Flynn. Mér þykir hann pirrandi. Ég veit ekki hvað fólk sé við hann. Mel Brooks hefur líka haft þau áhrif að ég gat ekki hætt að hugsa um hve asnalegir búningarnir eru.

Olivia de Havilland (sem jómfrúin), Basil Rathbone (sem Guy of Gisbourne) og Una O’Connor (sem fylgir Trigger og Maríon) eru öll fín. Claude Rains leikur Jón landlausa.

The Adventures of Robin Hood vakti hjá mér löngun til að sjá Kevin Costner í Robin Hood: The Prince of Thieves.

Maltin gefur ★★★★.

Óli gefur ★★☆☆☆🫳.

¹ Það að hún er kölluð „Maid Marion“ er erfitt því augljósa íslenskunin á því nafni er María mey.

The Sting (1973) ★★★⯪☆👍

Ungur svikahrappur fær þjálfun frá sér reyndari hrappi til þess að framkvæma stórt svindl.

Þegar ég sá The Sting fyrst, sem krakki, fannst mér hún frábær. Næst fannst mér hún óspennandi. Þetta var líklega þriðja skiptið.

Þrátt fyrir að vera oft stillt upp sem klassísku tvíeyki á hvíta tjaldinu léku Paul Newman og Robert Redford einungis saman í tveimur myndum. The Sting og Butch Cassidy and the Sundance Kid. Ég lét duga að sjá þá síðarnefndu einu sinni.

Það eru ótal kunnugleg andlit í The Sting. Efst á lista eru Charles Durning og Robert Shaw. Eileen Brennan, Sally Kirkland, Ray Walston, Harold Gould, Jack Keheo og svo framvegis. Ég tók ekki eftir Kathleen Freeman sem var víst í pínulitlu hlutverki.

Eitt andlit var ákaflega kunnuglegt í fjarlægð en ekki í nærmynd. Robert Earl Jones var mjög líkur syni sínum James Earl Jones.

George Roy Hill leikstýrði The Sting (og Butch Cassidy and the Sundance Kid). Hann ber væntanlega ábyrgð á tónlistarvali sem gæti verið það eftirminnilegasta við myndina. Tónskáldið Marvin Hamlisch aðlagaði píanóverk Scott Joplin til að skapa skemmtilega stemmingu … sem passaði alls ekki því myndin gerist á fjórða áratugnum en þessi „ragtime“ tónlist var vinsælust um og uppúr aldamótunum.

Meiripart myndarinnar var ég að rembast við að muna hvað aðallagið héti og þegar í lokaatriði hallaði ég mér að Gunnsteini og hvíslaði „The Entertainer“.

The Sting er skemmtileg. Það að hún vann Óskarinn (m.a.) sem besta mynd ársins 1973 gefur henni yfirbragð gæða sem hún býr ekki yfir. Leikararnir bæta að miklu leyti upp fyrir það.

Maltin gefur ★★★½.

Óli gefur ★★★⯪☆👍

Pee-wee’s Big Adventure (1985) ★★★★★👍👍🖖

Barnslegur maður leggur í háskaför í leit að reiðhjólinu sínu.

Af einhverjum ástæðum tók það mig 40 ár að sjá Pee-wee’s Big Adventure. Hún hefur samt verið á listanum mínum í langan tíma. Þegar ég sá færi á að sjá hana í bíó fór ég og tók son og frænku með. Ég vissi samt fyrirfram um leyndardóma Alamó.

Pee-wee Herman er persóna leikin af Paul Reubens sem varð til þegar leikarinn var hluti af Groundlings-spunahópnum¹. Persónan var ekki alltaf barnvæn en þróaðist, varð hægt og rólega vinsælli þar til skaparanum var boðið að gera kvikmynd um hann.

Paul Reubens var í öfundsverðri stöðu því hann mátti velja leikstjóra. Hann tók óvænta ákvörðun og bað um lítt þekktan leikstjóra sem hafði vakið athygli fyrir stuttmyndir sínar. Tim Burton hafði þá nýlega verið sparkað af Disney sem var ekki ánægt með þessar myndir.

Handrit Pee-wee’s Big Adventure var skrifað af Reubens, Michael Varhol og hinum goðsagnakennda Phil Hartman (sem einnig kom úr The Groundlings). Þeir kunnu ekki að skrifa kvikmyndahandrit þannig að þeir lása frægustu bók um efnið, Screenplay: The Foundations of Screenwriting eftir Syd Fields, og mótuðu söguþráðinn til að módelinu sem þar er kynnt.

Það þurfti að hafa tónlist í myndinni og Tim Burton og Paul Reubens tóku þá furðulegu ákvörðun að bjóða lítt þekktum tónlistarmanni úr tilraunakenndu hljómsveitinni Oingo Boingo starfið. Danny Elfman var tregur til en samþykkti. Þar hófst samstarf leikstjóra og tónskálds sem hægt er að líkja við Spielberg/Williams og Hitchcock/Herrmann.

Fyrsta spurningin sem ég spurði, bókstaflega upphátt, eftir að hafa horft á Pee-wee’s Big Adventure var: Af hverju finnst mér Pee-wee Herman ekki einfaldlega óþolandi? Persónan er óþolandi týpa og ætti að pirra mig alla leið til helvítis. Í staðinn hló ég og vildi að hann fengi hjólið sitt til baka.

Vegferð Pee-wee um Bandaríkin er uppfull af óvenjulegum persónum og skemmtilegum atvikum. Sumsé, ég hló oft og mikið. Fæstar myndir sem eru skrifaðar „eftir bókinnni“ virka jafn vel og Pee-wee’s Big Adventure.

Við sjáum að Tim Burton hafði veruleg áhrif á myndina. Stíllinn er greinilega hans, sérstaklega í draumaatriðum. Jafnvel þegar Pee-wee er bara að lýsa draumi sá ég strax fyrir mér stopphreyfimynd að hætti Burton.

Pee-wee’s Big Adventure er vísanamynd, sumsé hún er það sem var yfirleitt kallað póstmódernísk en er nú oft flokkað sem „meta“. Þetta er mynd sem vísar í aðrar myndir og sjálfa sig. Það er til dæmis spunnið skemmtilega með vísun í Psycho.

Það koma fram ótal leikarar í Pee-wee’s Big Adventure. Elizabeth Daily leikur unga konu sem líkar við Pee-wee. Diane Salinger er gengilbeina með gullhjarta. Cassandra Peterson (helst þekkt sem Elvira), einn besti vinur Paul Reubens, á skemmtilegt innlit á mótorhjólabar.

Milton Bearle sést og segir hluta af brandara sem er greinilega um frægasta vin hans. Phil Hartman er í litlu hlutverki sem ég bara missti af. Morgan Fairchild og James Brolin birtast í hálfgerðum gestahlutverkum.

Lexía myndarinnar er að fólk ætti að kunna að meta fólkið í kringum sig og lögreglan ætti að taka reiðhjólaþjófnað alvarlega í stað þess að trufla fólk sem er að reyna að njóta tíma síns í bíósal.²

Maltin gefur ★★½ og það passa alveg við hann.

Óli gefur ★★★★★👍👍🖖.

¹ The Groundlings er mjög áhrifamikill hópur sem hefur í gegnum tíðina fóstrað fólk eins og: Will Ferrell, Will Forte, Kathy Griffin, Jennifer Coolidge, Jon Lovitz, Melissa McCarthy, Craig T. Nelson og Pat Morita.

² Ég hef ekki kafað neitt ofan í tilgátur um að Pee-wee’s Big Adventure vísi sérstaklega í Reiðhólaþjófana/Ladri di biciclette (1948) en það er alveg áhugavert.

All the President’s Men (1976) ★★★★☆👍👍🖖

Blaðamenn reyna að grennslast fyrir um hvort einhver nátengdur Nixon gæti mögulega kannski tengst ólöglegum gjörningum.

All the President’s Men er gerð eftir samnefndri sannsögulegri bók Bob Woodward og Carl Bernstein um rannsókn þeirra á Watergate hneykslinu.

Alan J. Pakula leikstýrir All the President’s Men. Dustin Hoffman og Robert Redford eru í aðalhlutverkum. Jason Robards, Jack Warden, Ned Beatty og alveg haugur af öðrum eru með. Ég missti af F. Murray Abraham í hlutverki löggu sem handtekur píparagengið. Síðan eru konur í smærri hlutverkum.

Þessi mynd var gerð af því að Robert Redford vildi láta gera hana. Hann var nógu stór stjarna til að keyra það í gegn.

William Goldman er skrifaður fyrir handriti All the President’s Men en það er umdeilt. Redford og Pakula endurskrifuðu handrit hans og töldu sig eiga meirihlutann af því sem var kvikmyndað. Samanburður á þessum tveimur útgáfum hefur víst leitt í ljós að mest kom frá Goldman sem var mjög bitur yfir þessari reynslu.

Ég man alltaf eftir að Siggi Davíðs, frændi og sögukennari, fór mjög vel í gegnum Watergate-hneykslið í tíma. Hans söguskýring var sú að í raun hefði almenningi verið nokkuð saman um innbrotin og allt það. Hins vegar hefði fólk verið hneykslað á því hvernig talað var um kjósendur á upptökum Nixon.

Mig minnir líka að Siggi hafi verið á því að Alexander Haig væri Deep Throat¹ en við vitum núna að persónan er aðallega byggð á FBI-manninum Mark Felt. Það eru reyndar ákveðnar vísbendingar í All the President’s Men að þeir hefðu ákaflega góða innsýn í skýrslur Alríkislögreglunnar.

Það er ótrúlegt að All the President’s Men kom út tveimur árum eftir að Nixon sagði af sér. Það er líka helsti veikleiki myndarinnar því hún kafar ekkert í sjálfan aðdraganda afsagnarinnar heldur stoppar frekar skyndilega, líklega á sama tímapunkti og bókin endaði. Woodward og Bernstein gáfu einmitt út aðra bók um síðustu daga Nixon sama ár og þessi mynd kom út.

Auðvitað hefur þessi mynd margt að segja um samtíma okkar. Aðallega hve skelfilegt er að blaðamennska sé að fjara út.² Síðan virðist ótrúlega mörgu fólki í dag vera alveg sama um hve spilltur Bandaríkjaforseti sé.³

Kannski horfa fljótlega á The Post?

Maltin gefur ★★★★.

Óli gefur ★★★★☆👍👍🖖.

¹ Þegar ég sá All the President’s Men fyrst fattaði ég ekkert að Deep Throat væri vísun í samnefnda klámmynd.

² Bob Woodward hefur auðvitað sjálfur fjarað út sem blaðamaður. Næsta stóra bók hans var Wired sem fjallaði um John Belushi. Það eftirminnilegasta við þá bók er mögulega hvernig hann talar um pönkhljómsveitina Fear. Minnir að hann hafi talið hrifningu Belushi á þeirri tónlist vera afleiðing vímuefnanotkunnar.

³ Svo skrifaði Woodward líka um Trump og allt það mál var glatað.

The Rocky Horror Picture Show (1975) ★★★★☆👍👍🖖

Ferkantað par með sprungið dekk leitar hjálpar í dularfullum kastala.

Ég sá The Rocky Horror Picture Show í fyrsta skiptið í enskutíma Í Lundarskóla þegar ég var í sjöunda bekk. Þar áður spilaði ég tölvuleikinn á Amstrad.

The Rocky Horror Picture Show er költmynd. Hún floppaði á sínum tíma en var uppgötvuð í miðnætursýningum¹ þar sem áhorfendur fóru að syngja með, mæta í búningum og leika atriðin. Myndin hefur verið í bíóhúsum frá því hún kom út.² Í þeim borgum þar sem fóru fram miðnætursýningarnar á Rocky Horror urðu þær mikilvægar í samfélagi hinsegin fólks.

Í aðalhlutverkum The Rocky Horror Picture Show eru Tim Curry, Susan Sarandon, Barry Bostwick (borgarstjórinn í Spin City) og Richard O’Brien³ höfundur söngleiksins. Meat Loaf er í minna en þó áberandi hlutverki.

Ef við tökum Frank-N-Furter (Tim Curry) bókstaflega er hann hættulegur skúrkur og skíthæll. Það er rökréttara að líta á hann og gjörðir hans sem táknrænar fyrir uppreisn gegn bælandi samfélagi sem leyfir fólki ekki að lifa lífi sínu í friði. Það er allavega boðskapurinn sem aðdáendur hafa tekið til sín.

Fyrir mitt leyti er stóri vandinn við The Rocky Horror Picture Show að mörg lögin eru auðgleymanleg. The Time Warp er langbesta lagið. Hin eru meira skemmtileg en góð og í mörgum þeirra er ég bara að bíða eftir viðlaginu eða góðu pörtunum.

Maltin gefur ★★★.

Óli gefur ★★★★☆👍👍🖖 .

¹ Rocky Horror var kannski ekki fyrsta myndin sem varð vinsæl vegna slíkra sýninga. Sýruvestrinn El Topo eftir Alejandro Jodorowsky kom á undan.

² Veit ekki alveg hvernig covid-tímabilið spilaði þar inn í.

³ Því miður hefur Richard O’Brien hefur sagt heimskulega hluti um trans fólk síðustu áratug. Hann skilgreinir sig samt sjálfur sem utan hefðbundinnar kynjatvíhyggju sem gerir tal hans um „alvöru konur“ sérstaklega kjánalegt.

Það að ætla að skilgreina hvaða konur séu „alvöru“ er ekki bara málefni sem trans fólk (og stuðningsfólk þeirra) þarf að hafa áhyggjur af. Í gegnum tíðina hafa ýmsir verið duglegir að stimpla allskonar konur sem óekta. Það getur verið af því þær uppfylla ekki ákveðin útlitsleg skilyrði, af því þær ekki eiga börn, af því þær eru samkynhneigðar … Þetta er mjög eitruð umræða.

The Banshees of Inisherin (2022)★★★★★👍👍

Brestir koma í vináttu tveggja manna á afskekktri írskri eyju á tímum borgarastríðsins.

Inisherin er ekki alvöru eyja. Eyjurnar Inis Mór, Inis Meáin og Inis Oírr eru kallaðar Aran-eyjar. Þær liggja við vesturströnd Írlands og tilheyra Galway. Þær eru bæði afskekktar og sumir telja menninguna þar „ekta“. The Banshees of Inisherin gerist á hálfgerðri Aran-eyju.

Brendan Gleeson og Colin Farrell leiða hér í annað skiptið saman hesta sína (asna og hund) í mynd eftir Martin McDonagh. Sú fyrri var In Bruges (sem er í Belgíu).

Martin McDonagh hefur ekki gert nema fjórar myndir í fullri lengd og mér hefur líkað við þær allar.

  • In Bruges (2008)
  • Seven Psychopaths (2012)
  • Three Billboards Outside Ebbing, Missouri 2017
  • The Banshees of Inisherin (2022)

Mig langar að finna stuttmyndina Six Shooter eftir Martin McDonagh frá árinu 2005 (með Brendan Gleeson í aðalhlutverki).

Ef ég hefði tekið eftir The Banshees of Inisherin hefði ég farið á hana í bíó. Á fyrstu mögulegu sýningu. Síðan fór hún bara á listann og ég ákvað að horfa fyrst á In Bruges með Gunnsteini þannig að hún frestaðist aðeins lengur.

Þegar ég heyrði að The Banshees of Inisherin gerðist á tímum Írska borgarastríðsins (1922-23)¹ fékk ég ákveðna hugmynd um hvað myndin snerist. Það var allt rangt. Átökin falla þó innan þema myndarinnar.

The Banshees of Inisherin fjallar um örvæntingu, vináttu og einmanaleika. Hún er bæði ógeðslega fyndin og ákaflega sorgleg. Það er erfitt að ná slíkri blöndu án þess að tónninn fari í óhljóð.

Það eru ekki bara aðalleikararnir tveir sem gera The Banshees of Inisherin frábæra. Kerry Condon (Three Billboards Outside Ebbing, Missouri) leikur systur Farrell, Barry Keoghan er einfaldur en oft indæll ungur maður og Sheila Flitton er eldri kona sem gæti verið holdgervingur bansjí-óvættanna.

Það eru nokkur mjög óþægileg atriði með blóði og ofbeldi. Síðan eru verri atriði þar sem aðstæður eru alveg rosalega vandræðalegar.²

Gunnsteini þótti stundum erfitt að skilja talað mál í myndinni þannig að við settum texta. Það hjálpaði reyndar ekki við að skilja hvað orð eins og „gom“ þýða.

Óli gefur ★★★★★👍👍

¹ Þegar fyrrum samherjar í uppreisninni gegn Bretum börðust um hvort ætti að sætta sig við Fríríkið eða reyna að fá fullt sjálfstæði. Sjá Michael Collins og The Wind That Shakes The Barley.

² Ekki jafn vandræðalegt og í Saltburn með Barry Keoghan í aðalhluverki þar sem ég hætti í miðri mynd því ég bara gat ekki meir. Blóð er miklu þægilegra.