Í Kvikmyndahandbók Halliwell¹ er vísað í topplista tímaritsins Sight & Sound frá 1952, ’62, ’72 og ’82. Á elsta listanum eru Hjólreiðaþjófarnir efstir en á þeim þremur sem á eftir fylgja er það Citizen Kane sem trónir á toppnum². Það varð til þess að myndin lenti á „þarf að finna og horfa“ listanum mínum.
Það var ekki auðvelt að komast yfir Citizen Kane á Akureyri þannig að ég held að ég hafi að lokum séð hana þegar hún var sýnd í sjónvarpi 1995. Mér fannst hún góð en féll ekki strax fyrir henni. Ég hef mögulega séð The Magnificent Ambersons³ oftar.
Eitt af því frægasta við Citizen Kane er að hún byggir að einhverju leyti á ævi blaðakóngsins William Randolph Hearst. Það skemmdi líka feril Orson Welles þegar að fólk á vegum auðjöfursins réðust á myndina og leikstjórann.
Í seinni tíð er frægt að kvikmyndagagnrýnirinn Pauline Kael hélt því fram í bókinni Raising Kane (1971) að Orson Welles hefði eiginlega ekkert komið nálægt því að skrifa handritið heldur hefði skráður meðhöfundur þess, Herman J. Mankiewicz, skrifað allt.
Þetta hefur meira og minna verið hrakið. Það eru til gögn sem sýna að Welles var sannanlega meðhöfundur og byggir ævi Kana að einhverju leyti á eigin reynslu. John Houseman (sem vann með Orson í Mercury leikhúsinu) á líka ýmislegt í handritinu en afþakkaði boð um að nafn hans yrði sett á myndina.
Orson Welles átti auðvel með að deila heiðri með öðrum. Það sést mögulega best á því að í endatitlinum þar sem hann er skráður leikstjóri setti hann, þvert á venjur, nafn Gregg Toland upptökustjóra beint fyrir neðan.
Auðvitað er það myndatakan, miklu frekar en handritið, sem gerir Citizen Kane að þeirri áhrifamestu í bandarískri kvikmyndasögu.

Höskuldar framundan. Það er betra að horfa á myndina fyrst en að lesa það sem ég skrifa. Ef þið hafið minnsta áhuga á kvikmyndum ættuð þið að horfa á Citizen Kane áður, eða jafnvel frekar, en þið lesið lengri.
HÖSKULDAR.
Citizen Kane var höskulduð fyrir mér löngu áður en ég sá hana. The Simpsons er til dæmis stór sökudólgur. Ég vissi alveg hvað Rosebud væri. Ég þekkti líka söguna frá Gore Vidal um að Hearst hefði kallað sníp Marion Davis, fyrirmyndin að seinni konu Kane, þessu nafni. Gagnrýnandinn Andrew Sarris sagði víst að þetta hefði verið hjól sem Mankiewicz glataði í æsku.
Ég man eftir að hafa heyrt eða lesið sögu um að Orson Welles hafi verið spurður í viðtali hvernig nokkur hafi vitað andlátsorð Charles Foster Kane ef hann var einn í herberginu þegar hann lést. Welles á að hafa verið hissa og sagði: „Ég hef aldrei hugsað um það“. Fólk sem man eftir myndinni getur ímyndað sér kaldhæðnina í röddinni því auðvitað er þetta útskýrt, brytinn Raymond var í herberginu.
Eins og ég nefndi að ofan þá eru það myndatakan og myndmálið sem gerir Citizen Kane að stórvirki. Myndavélin smeygir sér inn og út eins og ekkert sé. Við heyrum samband Kane við fyrri eiginkonu sína deyja í samtölum þeirra en það sem er eftirminnilegast er hvernig fjarlægðin er sýnd.
Það sem er kannski sérstæðast við myndatökuna er að lýsingin er oft notuð til fella skugga á andlit leikaranna. Það er sérstaklega áberandi í atriðinu þar sem blaðamennirnir eru að reyna að finna nýjan vinkil á umfjöllun sína um dauða Kane. Þeir sjást varla og þannig eru samræðurnar settar í forgrunn. Það má segja að almennt sé hljóðhönnun kvikmyndarinnar vel nýtt til þess að dýpka áhrifin.
Þau atriði sem höfðu mest áhrif á mig, allavega í þetta skiptið. Voru í blálokin. Þegar við sjáum listaverkin sem Kane safnaði en voru, að öðru leyti en að sýna auðæfi hans, merkingarlaus fyrir hann persónulega. Síðan sjáum við sleðann, sem er einskis virði en þó ómetanlegur í huga Kane, fleygt á eldinn. Við sjáum hann brenna og með honum leysist leyndardómur myndarinnar upp í ösku og reyk.
Við þetta áhorf tók ég eftir einu sem ég hafði sem ég hafði ekki fattað áður. Þegar Kane hittir fyrst Susan, sem verður seinni konan hans, nefnir hann að hann hafi verið á leið að kíkja í geymslu þar sem væru hlutir sem hann fékk frá mömmu sinni. Hann ætlaði að trítla niður veg minninganna.
Kane hættir við og tekur ákvörðun sem mun ekki bara eyðileggja fjölskyldu hans og drauma heldur svipta hann um mögulegu uppgjöri við æsku sína. Hvort hann hefði orðið betri maður við að finna sleðann sinn í geymslunni er opin spurning.
Það voru gerðir margir Rosebud sleðar fyrir gerð Citizen Kane. Hve margir hafa glatast er óljóst en nokkrir eru enn til. Mig minnir að Spielberg eigi einn.
Á níunda áratugnum kom starfsmaður Universal að tali við Joe Dante og sagðist vera að henda allskonar hlutum sem ekki væri pláss fyrir. Honum varð hugsað til leikstjórans því Dante var og er mikill áhugamaður um kvikmyndasöguna. Í draslinu var einn af Rosebud sleðunum. Það er víst hægt að sjá sleðann í fjórum kvikmyndum Dante. Ég veit ekki hverjum en ég mun örugglega athuga það.
Í júlí síðastliðnum seldi Joe Dante sleðann fyrir rúmar fjórtán milljónir dollara.
Samband Kane við „söngkonuna“ er veigamikið í kvikmyndinni. Hann vill henni allt hið besta og hið besta er það sem hann vill. Hann neyðir hana til að takast á við óperusöng þó hún hafi augljóslega ekki röddina í það (en hefði líklega getað sungið léttari tónlist).
Þar sem söngkonan er byggð á leikkonunni Marion Davis, ástkonu Hearst, var sú persóna líklega það sem fór mest í taugarnar á blaðakónginum. Þetta eitraði líka orðspor Davis því fólk hélt að leikhæfileikar hennar hefðu verið á sama stigi og sönghæfileikar Susan.
Citizen Kane er frábær mynd og gríðarlega áhrifamikil en ég myndi ekki setja hana efst á lista yfir bestu kvikmyndir allra tíma. Ekki það að ég hafi slíkan lista en ég get hugsað mér nokkrar sem ég myndi hafa oftar. En á lista yfir áhrifamestu kvikmyndirnar…
Maltin gefur ★★★★.
Óli gefur ★★★★★ 👍👍🖖.
¹ Leslie Halliwell var breskur kvikmyndagagnrýnir sem þoldi ekki myndir gerðar eftir cirka 1950. Kannski ýki ég. Af einhverjum ástæðum var valið að þýða og gefa út Kvikmyndahandbók hans í fimm bindum. Mjög handhægt. Ef þið voruð ekki þarna þá áttið ykkur ekki á hve ferskur andblær kom þegar hinn (í samanburðinum) ungi Leonard Maltin varð aðgengilegri í íslenskum bókabúðum.
² Kane er líka á toppnum 1992 og 2002. Myndin toppaði líka leikstjóralista Sight & Sound sömu ár. Árið 2012 færist hún neðar á báðum listum en var þá samt ofarlega sem og 2022.
³ RKO bókstaflega eyðilagði filmurnar sem hefðu gert það mögulegt að endurskapa upprunlegu útgáfu Orson Welles af The Magnificent Ambersons og bjó til sinn eigin. Það er ekki eina dæmið um slík skemmdarverk sem oft voru bara til þess að sýna leikstjórum að þeir hefðu engin völd. Auðvitað er algengara að efni hafi glatast af vanrækslu eða af því það vantaði geymslupláss.
Ég var að lesa að eitthvað gervigreindarfyrirtæki ætlaði að endurgera endinn á The Magnificent Ambersons í takt við fyrirætlanir Welles. Það er viðbjóðslega hugmynd og til merkis um þann ógeðfellda hroka sem fylgir tæknibransanum almennt.