Uppgjör mitt við 2024 kvikmyndir og Óskarinn

Það er ekki galli að Óskarinn fari ekki fram fyrren í mars. Það er bara eðlilegt. Það er ótrúlega kjánalegt að í lok desember sé farið að búa til lista og jafnvel verðalauna það besta frá árinu. Það þarf augljóslega lengri tíma. Þannig að mitt álit er auðvitað mun betur ígrundað en það sem fólk kom með í janúar eða febrúar.

Óskarinn er auðvitað byggður á bandarískum frumsýningarárum. Sem ruglar kerfið. Sumar eru sýndar á kvikmyndahátíðum árið áður en þær fara í almenna dreifingu. Sama gildir með „alþjóðlegu“ myndirnar sem hafa oft verið sýndar um víða veröld áður en þær koma til Bandaríkjanna.

Ég ætla ekki að giska á hvaða myndir vinna Óskarinn. Það er ágætur partíleikur en mig langar frekar að trana fram mínum eigin skoðunum. Ég fer ekki djúpt í hverja mynd fyrir sig enda hef ég skrifað um þær flestar.

Hvað varðar Óskarsverðlaunatilnefningar hef ég sett strik í gegnum titla þeirra mynda sem ég hef ekki séð. Sama gildir um flokka sem ég hef ekki sérstaka skoðun á.

Líklega eru teiknimyndirnar¹ eini flokkurinn þar sem ég get fullyrt um.

¹ Kvikmynd væri reyndar frábær þýðing á animated film. En það er víst frátekið.

Mínar skoðanir

Sterben: Besta mynd ársins 🏆

Ég held, en hef ekki staðfest það, að Sterben hafi ekki verið frumsýnd í Bandaríkjunum og sé því ekki talin með. En hún var hiklaust best.

Aðrar mjög góðar (í stafrófsröð)

Anora

Frábær og óvænt. Eins konar svar við Pretty Woman.

Fancy Dance

Myndin er oftast talin frá 2023 en ég leyfi henni að flakka með.

Ghostlight

Mig minnir að Leonard Maltin hafi mælt með þessari og hún er bara frábær. Fer næst því að skáka Sterben.

Hundreds of Beavers

Hundruð bifra, kannski þúsundir. Fyndnasta mynd ársins.

Jim Henson: Idea Man

Við Ingimar vorum að horfa á einhverja Disney-teiknimynd og tókum í kjölfarið eftir þessari heimildarmynd og létum vaða. Hún hefði mátt fá meiri athygli. Líklega kom hún aldrei í bíó en ég mæli með henni. Annars hef ég ekki séð neina mynd sem fékk tilnefningu í flokki heimildarmynda.

Love Lies Bleeding

Skemmtilegasta bíóreynsla ársins. Mynd sem gefur kjaftshögg (á góðan hátt). Áður en ég sá Sterben hefði ég líklega sett hana í efsta sætið yfir myndir ársins. Aðalleikkonurnar hefðu átt að fá tilnefningar.

Memoir of a Snail

Frábær stopphreyfimynd. Tilfinningarík og falleg á sinn hátt.

Sing Sing

Stórkostleg bíómynd. Synd að hún hafi ekki verið tilnefnd sem besta myndin.

Strange Darling

Önnur frábær bíóupplifun. Full keyrsla. Óvænt.

Óskarstilnefningar

Besta myndin

Anora 🏆

Það kom mér á óvart hve skemmtileg Anora var en hún er líka dramatísk og sannfærandi.

The Brutalist

Ofmetnasta kvikmynd ársins, allavega af gagnrýnendum.

A Complete Unknown

Mætti vinna.

Conclave

Myndin tekur sjálfa sig full alvarlega.

Dune: Part Two

Mjög sérstakur strákur nær að vera góður í eiginlega öllu. Hér var reynt að troða alltof miklu inn þannig að persónuþróun virðist nær handahófskennd.

Ofmentasta mynd ársins af hálfu almennings. Ótrúlega kjánalegt hve háa einkunn hún fékk frá áhorfendum þegar hún var frumsýnd. Bækurnar eru líka ofmetnar.

Emilia Pérez

Vel meint en illa heppnað.

Ainda Estou Aqui

Sú sem ég myndi vilja sjá en hef ekki komist í.

Nickel Boys

Oft er stíll á kostnað innihalds en hérna er innihald, það er bara í skugganum á innihaldinu.

The Substance

Ef það eru líkur á að ég fái höfuðverk af því að horfa á mynd þá er hún ekki gerð fyrir mig. Sleppti þessari viljandi.

Wicked

Eiginlega hálf mynd. Varla hægt að dæma. Margt skemmtilegt samt.

Leikari í aðalhlutverki

Adrien Brody, The Brutalist

Þau notuðu víst einhverja gervigreind fyrir ungverska hreiminn. Enginn furða að þetta hafi farið illa í eyrun á mér. Ég segi nei takk.

Timothée Chalamet, A Complete Unknown

Hann getur alveg leikið þegar hann fær efnivið.

Colman Domingo, Sing Sing 🏆

Úr mynd sem var stútfull af frábærum leikurum. Colman á verðlaunin hiklaust skilið.

Ralph Fiennes, Conclave

Mjög fínn en kannski bjóst ég við meiru af honum.

Sebastian Stan, The Apprentice

Ég er bara ekki í stuði til að horfa á mynd um Trump þessa daganna. Ég veit að hann er skíthæll.

Leikkona í aðalhlutverki

Cynthia Erivo, Wicked

Mjög fín. Veit ekki með verðlaun.

Karla Sofía Gascón, Emilia Pérez

Meh.

Mikey Madison, Anora

Alveg frábær. Hiklaust sú sem ég myndi velja með fyrirvara um að ég hef ekki góða yfirsýn á þennan flokk.

Demi Moore, The Substance

Fernanda Torres, Ainda Estou Aqui

Leikari í aukahlutverki

Yura Borisov, Anora

Ákaflega góður. Það hefði verið auðvelt fyrir hann að hverfa í bakgrunninn af því hann segir svo lítið.

Kieran Culkin, A Real Pain

Alveg frábær. Mætti vel vinna.

Edward Norton, A Complete Unknown 🏆

Leiksigur. Á verðlaunin skilið.

Guy Pearce, The Brutalist

Fínn en ekkert mikið meira.

Jeremy Strong, The Apprentice

Leikkona í aukahlutverki

Monica Barbaro, A Complete Unknown

Góð en fékk ekki mikið að gera.

Ariana Grande, Wicked

Veit ekki með „besta“ en hún var með áberandi góðan ryþma fyrir grínleik.

Felicity Jones, The Brutalist

Suðandi gervigreindarhreimur.

Isabella Rossellini, Conclave 🏆

Ákaflega góð. Mætti vinna.

Zoe Saldaña, Emilia Pérez

Fín þannig séð en …

Teikni- og aðrar ólifandi myndir

Kisi

Ekki jafn hrifinn og aðrir. Kannski sérstaklega pirraður á stílnum.

Inside Out 2

Önnur góð Pixar mynd. En ekki best.

Memoir of a Snail 🏆

Hiklaust allra besta myndin í þessum flokki. Það hefði mátt tilnefna hana sem bestu myndina.

Wallace & Gromit: Vengeance Most Fowl

Önnur góð Wallace & Gromit. Svipað og Inside Out 2. Ekki nógu góð til að verðlauna.

The Wild Robot

Fín en ekki mikið meira en það.

Alþjóðlega myndin

Ainda Estou Aqui

Pigen med nålen 🏆

Mjög hryllileg hryllingsmynd. Mætti vinna en ég efast samt um það.

Emilia Pérez

Sjá ofar.

Dane-ye anjir-e ma’abed

Kisi

Sjá ofar.

Leikstjórn

Sean Baker, Anora

Hiklaust mitt val.

Brady Corbet, The Brutalist

Meh, stílæfingar og tilgerðarleiki.

James Mangold, A Complete Unknown

Ég yrði ekki fyrir vonbrigðum ef hann myndi sigra.

Jacques Audiard, Emilia Pérez

Nei takk.

Coralie Fargeat, The Substance

Handrit (upprunalegt)

Anora 🏆

Mitt val.

The Brutalist

Nei takk. Engin verðlaun fyrir fólk sem veit ekki hvernig á að stytta textann sinn.

A Real Pain

Mætti vel vinna.

September 5

The Substance

Handrit (aðlagað)

A Complete Unknown

Mjög góð.

Conclave

Sjá ofar.

Emilia Pérez

Alls ekki.

Nickel Boys

Neibb.

Sing Sing 🏆

Ein besta mynd ársins, hefði átt að fá fleiri tilnefningar.

Tónlist (lag)

“El Mal” from Emilia Pérez

Man ekki einu sinni eftir því. Kannski eitt af fínu lögunum.

“The Journey” from The Six Triple Eight

“Like a Bird” from Sing Sing 🏆

Gott.

“Mi Camino” from Emilia Pérez

Man ekki einu sinni eftir því. Kannski eitt af fínu lögunum.

“Never Too Late” from Elton John: Never Too Late

Nú gæti ég hlustað á lagið en það er ekki hægt að dæma það án þess að heyra það í samhengi myndarinnar og þvert á fullyrðingar um annað þá er það of seint.

Listræn stjórnun, kvikmyndaupptaka, búningar, förðun og hárgreiðsla.

Í þessum flokkum finnst mér Nosferatu ekki eiga neina raunverulega samkeppni. Hún var ótrúlega flott útlitslega séð.

Jarin Blaschke, Nosferatu 🏆

Nosferatu 🏆

Nosferatu 🏆

Linda Muir, Nosferatu 🏆

Tek ekki afstöðu

  • Besta heimildarmyndin
  • Besta stutta heimildarmyndin
  • Besta stuttmyndin
  • Besta stutta teikni- eða önnur hreyfimynd
  • Sjónbrellur
  • Klipping
  • Tónlist

A Complete Unknown (2024) 👍👍
{43-35-33-8}

Sko, það var búið að höskulda myndina fyrir mér. Ég vissi að óþekkti maðurinn væri Bob Dylan. Kannski væri betra að vita það ekki.

Ég sagði útgáfu af þessum brandara þegar við Gunnsteinn vorum að leggja af stað í bíóið og ég var svo ánægður með að hann að ég þurfti að endurtaka hann hérna.

Myndin fjallar um ris Bob Dylan, fyrstu árin hans í þjóðlagageiranum. Þó ég hafi ekki kynnt mér myndina fyrirfram grunaði mig sterklega hver hápunkturinn yrði. Ég man að fyrst þegar ég heyrði þá sögu var ég allur á bandi Dylan en eftir því sem tíminn líður þá finnst mér þetta hafa verið frekar kjánalegt stönt (þið vitið ef þið vitið). Það má alveg leyfa fólki að njóta þess sem það vill njóta.

Ekki að ég telji Alan Lomax og félaga handhafa þess að skilgreina þjóðlagatónlist. Sem þjóðfræðingur er ég eiginlega á því að þetta sé hugtak sem ekki sé hægt að skilgreina endanlega. Þeir Lomax-feðgar eru auðvitað risar í þjóðfræðinni fyrir söfnun sína á þjóðlögum. Sérstaklega er ég hrifinn af fangelsisblúsnum sem Siggi kynnti mig fyrir en það stingur mig alltaf þegar Alan er titlaður eins og hann sé höfundur eða flytjandi þeirra laga sem hann tók upp. Þó það sé kannski ekki verra en að tala um Þjóðsögur Jóns Árnasonar.

Annars þá var A Complete Unknown uppáhaldsmynd Leonard Maltin’s í fyrra:

No one is more surprised than I, because I’ve never been a Bob Dylan fan… but Timothée Chalamet delivers a compelling and convincing performance as the singular troubadour-poet. By not imitating Dylan’s distinctively whiny voice he even improves on some of the songs.

Maltin skýtur á Dylan en hrósar Chalamet. Þetta er vissulega langsamlega besta mynd Timothée frá því í fyrra. Hin stóra myndin hans greip mig ekki. Annars verð ég að segja að Edward Norton í hlutverk Pete Seeger heillaði mig meira. Eiginlega stórkostlegur.

Elle Fanning fékk ekki sérstaklega mikið að gera. Síðan talaði hún ítrekað um systur sína og ég gat ekki hugsað um annað en að Dakota myndi láta sjá sig.

Þetta er alveg ákaflega góð mynd. Fínt tónlistaruppeldi. Ég söng (lágt) með lögunum. Bob Dylan kemur ekkert sérstaklega vel út úr myndinni og það er líklega sanngjarnt. Skemmtileg líka. Mæli hiklaust með.

Ég er ekki stór Dylan aðdáandi en fór á tónleika með honum um árið (með fyrrnefndum Sigga). Ég bjóst ekki við miklu en við fengum tvo miða á verði eins og þetta var tækifæri til að sjá goðsögn. Mér fannst stúdíóútgáfurnar betri.