Le voyage dans la lune (1902) 👍👍🖖 {55-ø-ø-ø}

Þetta er ein þekktasta mynd kvikmyndasögunnar. Ef þið hafið ekki séð hana þá hafið þið líklega séð allavega eina stutta klippu eða sillu úr henni. Þetta er tæknibrellumynd á skala sem hafði aldrei sést áður.

Ég hef áður sagt að uppáhaldsmyndin mín eftir Martin Scorsese sé Hugo. Þar fáum við, meðal annars, að kynnast öldruðum kvikmyndaleikstjóra. Það er Georges Méliès (þó augljóslega sé þetta ekki sannsöguleg mynd) leikstjóri Ferðarinnar til Tunglsins.

Þann 28. desember 1895 sýndu Lumière-bræður kvikmyndir opinberlega í fyrsta sinn. Þó hægt sé að rífast um hver fann upp tæknina er alveg ljóst að þetta var dagurinn sem kvikmyndaöldin hófst. Daginn áður var sýning fyrir útvalda, þar á meðal var eigandi Théâtre Robert-Houdin í París sem sá strax að hér væri gullið tækifæri.

Georges Méliès var sjónhverfingarmaður (meðal annars) og skildi að hægt væri að tengja saman töfrabrögð og kvikmyndir. Um leið og hann eignaðist tæki fór hann að leikstýra kvikmyndum … í hundraðavís. Allavega fimmhundruð.

Flestar myndirnar hans voru örstuttar brellur. Ég hef séð töluvert af þeim en ég ætla ekki að skrifa sérstaklega um þær. Það er lítið að segja um tveggja mínútna mynd þar sem Méliès leikur alla meðlimi hljómsveitar eða örstutta mynd um galdrakarl sem fleygir fólki ofan í pottinn sinn. Nema auðvitað að þetta eru brautryðjendaverk í kvikmyndasögunni.

Ferðin til Tunglsins er töluvert lengri, um fimmtán mínútur en það fer eftir því hve hratt sveifinni er snúið. Á þessum tíma var ekki beinlínis staðlaður rammafjöldi sem þýðir að sýningartíminn er breytilegur.

Sú útgáfa sem við horfðum á er í lit. Auðvitað er þetta áður en kvikmyndir voru teknar upp í lit en á þessum tíma var hægt að mála hvern ramma fyrir sig. Þetta var hálfgerð færibandavinna þar sem hver kona sá um að mála með einum lit.

Það var framleitt mjög takmarkað upplag af þessum lituðu myndum og öll virtust glötuð. Síðan fannst eitt eintak sem hefur verið gert upp (alveg rosalega vinna sem fór í það). Það er skondið að í myndinni sést fáni Spánar. Það var líklega ekki í öllum eintökum heldur fengu Spánverjar þessa útgáfu en væntanlega hafa önnur lönd fengið eigin fána.

Þessari útgáfu fylgir líka tónlist frá frönsku hjómsveitinni Air.

Söguþráður myndarinnar er byggður á, eða allavega undir áhrifum frá, tunglferðarbókum Jules Verne. Ég man ekki eftir því að hafa lesið þær en mig grunar að útgáfa Méliès sé fyndnari.

Ég hef áður sagt að gamanmyndir frá þögla tímanum eldast oft betur en drama eða hryllingur. Það á við hér. Þó söguþráðurinn sé rýr þá er hægt að hlæja að bröndurunum og að því hve kjánalegt margt er.

Fyndnustu brandararnir eru á sinn hátt höskuldar og ég ætla ekki að skemma fyrir ykkur mynd þó hún sé vel ríflega aldar gömul.

Það er vel hægt að njóta þessarar myndar í dag. Það er sérstaklega skemmtilegt að reyna að átta sig á hvernig brellurnar voru framkvæmdar. Líklega væri hægt að gera þetta flest með snjallsíma í dag en þú þarft að vera með hugmyndaflug á við Méliès til að framkvæma það.

Myndin er auðfinnanleg á netinu. Það þarf ekki að horfa á lituðu útgáfuna en það er gaman. Kíkið líka á Hugo.

Hér er annars svona dæmi um að mynd kallar á aðra mynd. Í Lair of the White Wyrm sést ein persónan horfa á gamla mynd í sjónvarpinu, það var kvikmyndin La Chrysalide et le papillon eftir Méliès.

 

Goodfellas (1990) 👍
{45-ø-ø-9}

„Þetta er ég, Henry Hill, á vettvangi morðs, þið eruð væntanlega að velta fyrir ykkur hvernig ég lenti í þessu klandri.“

Ég ýki en mér fannst þulurinn verða þreytandi. Ágætt í atriðinu í lokin en það er full lítið eftir allt sem á undan er komið.

Martin Scorsese er ekki í sérstöku uppáhaldi hjá mér sem leikstjóri. Hann hefur gefið mikið af sér til kvikmyndalistarinnar þannig að ég ber virðingu fyrir honum. Í fyrra horfði ég bæði á Taxi Driver og Raging Bull í fyrsta skipti á fullorðinsárum og hvorug heillaði mig.

Atli Sigurjónsson spurði mig einhvern tímann hvort ég væri undir áhrifum frá Ásgeiri en svo er ekki. Við Ásgeir ræddum eiginlega aldrei um kvikmyndir sem við vorum sammála um.

… þótt Scorsese hafi vissulega gert ágætar myndir þá hefur hann aldrei verið í sérstöku uppáhaldi á þessum bæ – sérstaklega út af því ofmetna rusli sem Taxi Driver og Goodfellas voru.

– Ásgeir H Ingólfsson 25. febrúar 2007

Því er þó ekki hægt að neita að kvikmyndauppeldi þarf smá Scorsese þannig að ég fór með Gunnstein í bíó að sjá Goodfellas. Svo er líka tenging við Community.

Ég hafði séð Goodfellas fyrir löngu og fannst hún ekkert spes en vildi gefa henni annan séns. Mér fannst hún betri í þetta skipti. Full hægfara undir lokin. Það jaðrar reglulega við ofleik, sérstaklega hjá Joe Pesci. Það eru samt mörg góð atriði. Langa skotið við og í Copacabana er ákaflega vel gert.

Kannski truflar það mig að þetta er byggt á sannri sögu þannig að ég á erfiðara með öll þessi morð en til dæmis í The Godfather sem er bara innblásin af sönnum atburðum.

Maltin gefur ★★★½ en það er frægt að hann stendur enn við þá einu og hálfu stjörnu sem hann gaf Taxi Driver.

Hugo (2011) er uppáhalds Martin Scorsese myndin mín og ein af fáum myndum sem mér þykir leiðinlegt að hafa misst af í þrívídd.

Hvað er annars málið með fólk sem mætir á gamlar myndir í bíó og hangir í símanum? Það er nógu slæmt dagsdaglega en ég hefði vonað að þetta fólk héldi sig bara heima við svona tilefni. Kvikmyndahúsin gera ekkert til að stoppa þetta þó margir nefni þetta sem eina helstu ástæðuna fyrir því að það nennir ekki lengur í bíó.