Hvor er betri? Godfather eða Godfather part II? Ég hef aldrei getað svarað því. Ég lít eiginlega á þær sem heild.
Höskuldar, varist ef þið hafið ekki séð.
Því verður samt ekki neitað að uppbygging kvikmyndarinnar er mögnuð. Sögum feðganna er fléttað saman. Vito Corleone flýr Sikiley eftir að fjölskylda hans hefur verið myrt og sonur hans Michael sem er sjálfur að eyðileggja eigin fjölskyldu, eitraður af ofbeldinu sem faðir hans varð fyrir og beitti.
Það vantar samt eitt sem hefði mögulega gert myndina enn betri. Upprunalega átti Clemenza að vera lykilpersóna í samtíð Michael og fortíðinni með Vito.Þá hefði fortíðin verið saga Vito og tveggja manna sem sviku son hans seinna meir.
Því miður kom eitthvað óljóst í veg fyrir að Richard S. Castellano sneri aftur þannig að persónan Fimmengla Frankie fyllti í skarðið. Grátlegt.
Það þarf ekki að segja mikið um aðalleikarana í tíð Michael. Keaton, Pacino, Cazale, Duvall og Talia Shire snúa aftur. Þó er rétt að nefna að leiklistarkennarinn Lee Strasberg er í hlutverki Hyman Roth. Í þingyfirheyrslunum spyr Roger Corman hver gamli maðurinn við hlið Michael sé á meðan Harry Dean Stanton er ábúðarfullur á bak við vitnið.
Í fortíðinni kemur Robert De Niro og nær einhvern veginn að fylla skarð Brando. Er nokkuð meira að segja um hann? Síðan er Bruno Kirby flottur sem hinn ungi Clemenza.
Það er eitt atriði sem ég man ekki eftir að hafa talað um eða heyrt talað um. Það er atriðið með þingmanninn og myrtu konuna. Miðað við hve ákveðinn Michael var við þingmanninn þegar þeir ræddu sín mál finnst mér augljóst að þetta hafi verið fyrirfram planað. Einhverjir á vegum Corleone-fjölskyldunnar gáfuþingmanninum svefnlyf og myrtu síðan konuna.
Mér finnst þetta spegla atriðið í fyrri myndinni. Í stað þess að drepa hross er manneskju fórnað til að koma fram vilja Guðföðursins. Þetta bendir líka til þess að Michael er, þrátt fyrir yfirlýsingar um að vilja snúa baki við glæpum, mun vægðarlausari en Vito.
Lágpunktur Michael er auðvitað í lok myndarinnar þegar hann lætur drepa bróður sinn. Hann hefur unnið stríðið og glatað sálu sinni (kristilegt orðalag er viðeigandi þegar um er að ræða Guðföðurinn).