The Godfather Part II (1974)👍👍🖖
{90-ø-ø-28}

Hvor er betri? Godfather eða Godfather part II? Ég hef aldrei getað svarað því. Ég lít eiginlega á þær sem heild.

Höskuldar, varist ef þið hafið ekki séð.

Því verður samt ekki neitað að uppbygging kvikmyndarinnar er mögnuð. Sögum feðganna er fléttað saman. Vito Corleone flýr Sikiley eftir að fjölskylda hans hefur verið myrt og sonur hans Michael sem er sjálfur að eyðileggja eigin fjölskyldu, eitraður af ofbeldinu sem faðir hans varð fyrir og beitti.

Það vantar samt eitt sem hefði mögulega gert myndina enn betri. Upprunalega átti Clemenza að vera lykilpersóna í samtíð Michael og fortíðinni með Vito.Þá hefði fortíðin verið saga Vito og tveggja manna sem sviku son hans seinna meir.

Því miður kom eitthvað óljóst í veg fyrir að Richard S. Castellano sneri aftur þannig að persónan Fimmengla Frankie fyllti í skarðið. Grátlegt.

Það þarf ekki að segja mikið um aðalleikarana í tíð Michael. Keaton, Pacino, Cazale, Duvall og Talia Shire snúa aftur. Þó er rétt að nefna að leiklistarkennarinn Lee Strasberg er í hlutverki Hyman Roth. Í þingyfirheyrslunum spyr Roger Corman hver gamli maðurinn við hlið Michael sé á meðan Harry Dean Stanton er ábúðarfullur á bak við vitnið.

Í fortíðinni kemur Robert De Niro og nær einhvern veginn að fylla skarð Brando. Er nokkuð meira að segja um hann? Síðan er Bruno Kirby flottur sem hinn ungi Clemenza.

Það er eitt atriði sem ég man ekki eftir að hafa talað um eða heyrt talað um. Það er atriðið með þingmanninn og myrtu konuna. Miðað við hve ákveðinn Michael var við þingmanninn þegar þeir ræddu sín mál finnst mér augljóst að þetta hafi verið fyrirfram planað. Einhverjir á vegum Corleone-fjölskyldunnar gáfuþingmanninum svefnlyf og myrtu síðan konuna.

Mér finnst þetta spegla atriðið í fyrri myndinni. Í stað þess að drepa hross er manneskju fórnað til að koma fram vilja Guðföðursins. Þetta bendir líka til þess að Michael er, þrátt fyrir yfirlýsingar um að vilja snúa baki við glæpum, mun vægðarlausari en Vito.

Lágpunktur Michael er auðvitað í lok myndarinnar þegar hann lætur drepa bróður sinn. Hann hefur unnið stríðið og glatað sálu sinni (kristilegt orðalag er viðeigandi þegar um er að ræða Guðföðurinn).

The Godfather (1972) 👍👍🖖
{82-ø-ø-25}

Líklega hef ekki heyrt eða lesið meira um nokkra mynd heldur en The Godfather. Baksagan er nefnilega áhugaverð. Mafíósar, olíubarónar og listamenn. Ef ég myndi leyfa mér það gæti ég skrifað nærri því jafn mörg um þá sögu og kvikmyndina sjálfa. Ég skal reyna að hemja mig. Francis Ford Coppola hefur sagt að þetta hafi verið erfiðara en að gera Apocalypse Now. Læt söguna af þeirri mynd líka bíða. En ég mæli alveg með sjónvarpsþáttunum The Offer (2022) sem fjallar um þetta og er ótrúlega nærri sannleikanum.

Myndin er gerð eftir samnefndri metsölubók Mario Puzo frá árinu 1969. Leikstjóri er fyrrnefndur Coppola. Aðalhlutverk er Marlon Brando, Al Pacino, James Caan, Diane Keaton, John Cazale, Talia Shire (systir Coppola og mamma Jason Schwartzman) og Robert Duvall.

Kvikmyndagerð Coppola virðist alltaf hafa verið fjölskyldumál. Pabbi hans Carmine kom að tónlistinni og sést í einu atriði. Sonur hans Roman Coppola (sjá Dracula færsluna) leikur strák á götunni. Áhugaverðast er kannski að nýfædd dóttir hans Sofia kemur fram í skírnaratriðinu og enginn hefur kvartað yfir frammistöðu hennar. Bróðursonurinn Nicolas Coppola fékk ekki hlutverk en þið kannist við hann sem Nicolas Cage.

Richard S. Castellano festist í minninu sem Clemenza. Því miður er Abe Vigoda sem lék Tessio látinn fyrir nokkrum árum (brandari sem þið munið kannski ekkert eftir).

Af öðrum eftirminnilegum má nefna Lenny Montana sem hafði unnið unnið fyrir mafíuna í hlutverk Luca Brasi. Hann var svo taugaóstyrkur að Coppola innlimaði það í persónuna. Annar uppgjafaglæpamaður var Alex Rocco í hlutverki Moe Greene (Bugsy Siegel) en þið þekkið kannski röddina hans frekar úr The Simpsons þar sem hann lék Roger Meyers Jr. (Itchy and Scratchy framleiðandinn).

Það þarf að nefna kvikmyndatökustjórann Gordon Willis sem ber mikla ábyrgð á útliti myndarinnar. Hann var einmitt kallaður myrkrahöfðinginn vegna þess hve takmarkaða lýsingu hann notaði (og mig minnir að hann hafi svarað með því að kalla eldri kollega sína eldvörpur).

Þá er ónefndur Nino Rota sem samdi tónlistina í myndinni (sumt aðlagað frá fyrri verkum sínum). Ég man það alltaf því einhvern tímann sagði ég að það hefði verið Ennio Morricone og Ásgeir leiðrétti mig.

Söguþráðurinn, og hér verða höskuldar, er í stuttu máli: Þó mafíuforingi hafi gert sitt besta til þess að halda yngsta syni sínum frá glæpum neyðist sá til að blanda sér í fjölskyldureksturinn eftir að faðirinn hefur verið skotinn. Einfalt? Ekki beint.

Ég sá Godfather þríleikinn fyrst í október 1995. Þemamánaður á Stöð 2 Líklega sá ég fyrstu myndina 13. október. Þó var þetta á tíma í lífi mínum þar sem ég var allt í einu virkur í félagslífi þannig að það er smá séns að ég hafi tekið myndina upp og horft á daginn eftir. Þetta var auðvitað á túbusjónvarpi og mig grunar að ég hafi ekki áður séð myndina á breiðskjá og auðvitað aldrei á breiðtjaldi.

Það munar töluverðu að sjá hana á stóra tjaldinu. Reyndar klúðruðu Sambíóin þessu og um mínúta í upphafi myndarinnar var bara svört. Pirrpirr. Ekki einu sinni Gordon Willis hefði ekki sætt við slík birtuskilyrði.

Ég man aldrei eftir að tekið eftir því að Frelsisstyttan er í bakgrunninum í cannoli atriðinu. Hún snýr bakinu í það sem gerist.

Þessi mynd, þessar myndir, fjalla auðvitað um það sem við köllum núna eitraða karlmennsku og hvernig ofbeldi kallar á ofbeldi. Við sjáum hvernig ævistarfi og markmiðum Vito Corleone er rústað. Sonurinn sem átti að vera heiðarlegur er orðinn guðfaðir. Sá elsti er dauður. Framhald síðar. Coppola og Puzo vissu alveg hvað þeir væru að gera.

Atriðið í skírninni er auðvitað meistaraverk. Hræsni Michael sem afneitar djöflinum og öllum hans verkum á meðan morðingjar vinna skítverkin hans.

Maltin gefur ★★★★ og það ætti að vera óumdeilt. Ég hlustaði líka á þátt af hlaðvarpinu hans The Movie Guide with Maltin & Davis þar sem er létt umfjöllun um The Godfather. Í þættinum segir hann frá því þegar hann sé myndina fyrst í bíó og á ákveðnum tímapunkti segir stelpa bak við hann við vinkona sína: Þetta er atriðið með hestshausnum í rúminu.

Vampyr (1932) 👍🖖
{63-50-ø-16}

Undarleg mynd sem féll mér í geð. Gerð á undan Dracula (1932) en gefin út seinna og floppaði.

Söguþráður myndarinnar er óskýr og skiptir kannski ekki máli. Í staðinn er þetta upplifun. Andrúmsloft og sjónbrellur sem grípa áhorfendur. Vonandi. Í myndinni sjáum við töluvert af tæknibrellum sem Francis Ford Coppola notaði seinna í sinni Drakúlamynd.

Þar sem Vampyr og Nosferatu nota mikið skugga velti ég fyrir mér hve mikil áhrif skuggamyndir Lotte Reiniger höfðu áhrif á þýska kvikmyndagerð á þessum tíma. Ég get vel ímyndað mér tengsl þarna á milli (og er væntanlega ekki fyrstur til að pæla í því). Þó frægasta mynd Reiniger sé frá 1926 var hún búin að gera einhverjar myndir áður en Nosferatu kom út.

Mér þótti klæðnaður og förðun persónunnar Giséle (Rena Mandel) minna töluvert á það sem við hugsum um sem „goth“ eða „emó“ í dag. Það væri gaman að skoða hvernig sú ímynd hefur orðið til og þróast í tengslum við vampírumyndir.

Þessi er örugglega ekki allra en hún er allavega nógu stutt til að fæstir pirrist mikið á henni.

Bram Stoker’s Dracula (1992) 👍👍🖖
{47-ø-ø-ø}

Þetta er algjörlega uppáhalds vampírumyndin mín. Ég veit að hún er gölluð en mér finnst hún samt æðisleg.

Það væri örugglega þess virði að fara á Bram Stoker’s Dracula í bíó. Ég missti alveg af því á sínum tíma (fullungur fyrir hryllingsmyndir). Þess í stað er það UHD (4k) útgáfan í stóra sjónvarpinu.

Augljósasti galli myndarinnar er Keanu Reeves. Það var stórundarleg hugmynd að velja hann í þetta hlutverk (Christian Slater kom líka til greina sem hefði ekki heldur verið gott). Hann virkar stífur og hreimurinn hans er, samkvæmt átta heimildum á Wikipediu, einn sá versti ef ekki sá versti í kvikmyndasögunni. Coppola segir að vandinn hafi verið að Keanu var að vanda sig alveg rosalega mikið. Mér finnst samt stífleikinn virka fyrir persónuna. Mér finnst hann aðallega of sætur fyrir hlutverkið. Einhver sagði að Keanu væri svo rangur að hann væri næstum réttur. Ekki alveg en ég fyrirgef honum allavega.

Margir hafa líka gagnrýnt hreiminn sem Winona Ryder notar í myndinni. Hún passar samt betur að öllu öðru leyti þannig að flest okkar tökum miklu minna eftir því.

Gary Oldman er auðvitað stjarna myndarinnar og er yfirdrifinn eins og svo oft. Það virkar hérna eins og í mörgum, en ekki öllum, myndum hans. Þú þarft að vera yfirdrifinn þegar þú segist ekki smakka vín.

Anthony Hopkins gæðir sig líka á leiktjöldunum. Sama gildir um Sadie Frost. Tom Waits er dásamlega yfirdrifinn. Það er ákaflega gaman að fylgjast með honum. Richard E. Grant er lágstemmdari og það virkar. Cary Elwes hverfur svolítið í bakgrunninn líkt og kúrekinn sem ég man aldrei hver leikur.

Aðalmálið er samt að kvikmyndin er listaverk. Francis Ford Coppola vildi engar nútímabrellur. Allt var gert með tækni sem var til á fyrstu árum kvikmyndagerðar, það er á þeim tíma sem myndin á að gerast. Útkoman er yndisleg. Á stóra skjánum var hægt að njóta smáatriða sem ég hef aldrei áður séð. Myndin verður einfaldlega betri í hærri upplausn.

Það er hægt að njóta myndarinnar án þess að vita hvernig brellurnar voru gerðar. Það er hins vegar ákaflega skemmtilega að horfa á aukaefnið á disknum til að sjá töfrabrögðin, og margt af þessu var byggt á brellum töframanna, framkvæmd.

Ég myndi segja að myndin sé full hægfara á köflum ef mér þætti ekki svo gaman að horfa á hana. Ef það er galli þá fyrirgef ég hann líkt og ég fyrirgef Keanu og Guð fyrirgefur Drakúla.

Að öðrum ólöstuðum er það samt tónskáldið Wojciech Kilar sem stelur myndinni. Ég gæti ekki ímyndað mér að gera lista yfir bestu kvikmyndatónlistina án þess að setja þessa í topp fimm eða bara á toppinn.

Þessi mynd færir mér gleði og það er ástæðan fyrir því að hún er í UHD-safninu mínu.

Maltin gefur ★★★½ sem er innan skekkjumarka en samt full lítið.

Megalopolis (2024) 👎
{18-17-15-ø}

Ég bjóst ekki við að nýjasta mynd Francis Ford Coppola væri sérstaklega góð en ég vonaði að hún væri áhugaverð. Það átti reyndar við um fyrsta klukkutímann. Fáránleg en stundum skemmtilega skrýtin.

En það dregst og dregst. Söguþráður er varla til staðar. Persónusköpun ekki heldur. Mig langaði samt að sjá hvert þetta færi og þetta fór ekkert. Mig grunar að það sé boðskapur þarna en ekki nenni ég að greina myndina í leit að honum.

Myndin er Shakespearísk en ekki á góðan máta heldur vegna tilgerðarlegra takta.

Margt í hönnuninni minnti mig á óræða framtíðarheiminn úr Mystery Men (1999). Dustin Hoffman, Jon Voight, Shia LeBeouf og Aubrey Plaza voru bara skrefi frá því að vera persónur úr þeirri mynd. Mögulega hefði þetta virkað betur sem gamanmynd en þegar ég hló var ég aldrei viss um hvort það væri tilætlunin.

Adam Driver og Laurence Fishburne gera að vanda sitt besta en það bjargar engu. Aðrir leikarar fá lítið til að vinna úr eða gera ekkert úr því.

Ekki horfa á Megalopolis. Kíkið á Mystery Men í staðinn.

Godfather II mistök?

Það er frétt á Mogganum (sem ég sá í gegnum bloggið hans Ómars Ragnarssonar) um að Francis Ford Coppola sé á þeirri skoðun að það hafi verið mistök að gera framhald af The Godfather. Ég ákvað að leita upp viðtalið og fann það (en Mogganum þótti einmitt óþarfi að vísa á heimildir):

video platformvideo managementvideo solutionsvideo player

Ef þið getið séð viðtalið þá er það augljóst að gaurinn sem tekur það er gjörsamlega óþolandi dólgur sem helst virðist ætla að ergja leikstjórann með því að tengja myndir hans við Saddam Hussein. Ég get bara ekki tekið svörin sem Coppola gefur þarna alvarlega. Ég get ekki útilokað neitt en það er engin leið að treysta því að hann hafi meint þetta.