Strange Darling (2024) 👍👍
{53-ø-ø-ø}

Ég sá þessa í bíó og það var þess virði. Þar að auki vissi ég nær ekkert um myndina sem var plús. Þetta er ein af þeim myndum sem ég heyrði fyrst af í gegnum hlaðvarpið The Movies That Made Me. Bæði leikstjórinn JT Mollner og kvikmyndatökustjórinn Giovanni Ribisi (já, bróðir Pheobe í Friends) komu í þáttinn í fyrra. Það var ljóst að Joe og Josh voru mjög hrifnir af Strange Darling og slík meðmæli hafa ekki brugðist til þessa.

Myndin byrjar á Fargo-legum texta að myndin sé byggð á sannri sögu um fjöldamorðingja. Sem er ekki satt. Það eru annars Coen-bræður sem koma upp í hugann þegar ég ímynda mér innblásturinn að myndinni. Strange Darling keyrir samt á meiri hraða en myndir þeirra. Það er aldrei öruggur tími fyrir persónurnar. Myndin er svört gamanmynd, og hryllingsmynd, og glæpamynd.

Myndin er ekki línuleg. Við hoppum fram og til baka. Það væri freistandi að tengja það við Pulp Fiction en ég held varla. Þó hefur Tarantino líklega gert alla djarfari í að spila með tímaröðina. Þetta er gert mjög vel í Strange Darling.

Aðalpersónurnar okkar eru ekki kynntar með nöfnum. Willa Fitzgerald leikur dömuna (minnir aðeins á Juliette Lewis hérna) og Kyle Gallner (Beaver úr Veronica Mars) er demóninn. Ed Begley Jr. og Barbara Hershey leika hippa í kofa í nágrenni skógarins. Það eru fáar persónur í myndinni.

Margir leikarar hafa fært sig á bak við myndavélina í leikstjórastólinn en fáir hafa tekið að sér kvikmyndatöku eins og Ribisi. Hann hefur mikinn metnað fyrir þessu. Litirnir í myndinni eru úthugsaðir en ekki svo að það ætti að fara í taugarnar á fólki. Nema ósennileiki þess að einkennisbúningur hjúkrunarfræðings sé svona rauður.

Tónlistin í myndinni hoppar á milli Chopin, ískurssins sem er svo vinsælt í kvikmyndinum (en fór ekki sérstaklega illa í mig hérna) og rólegheitalaga. Love Hurts er lykillag myndarinnar sem minnti mig auðvitað á að það heyrðist ekki í myndinni Love Hurts.

Ég er ekki einn um þá skoðun að Strange Darling hafi verið ein besta mynd síðasta árs (kvikmyndahátíðir 2023 – almenn dreifing í fyrra). Hún var örugglega, ásamt Love Lies Bleeding, skemmtilegasta nýja myndin sem ég sá í bíói í fyrra. Mæli með fyrir fólk sem verður ekki afhuga myndinni við lesturinn á þessari færslu.

Companion (2025) 👍👍
{39-31-29-5}

Handritshöfundurinn og leikstjórinn Drew Hancock kom nýlega í hlaðvarpið The Movies That Made Me og ræddi um bíómyndir sem komu út 1999, árið sem hann vann í kvikmyndahúsi. Eins og svo oft þá heyrist á Josh og Joe hvenær þeir eru sérstaklega hrifnir af mynd. Tónninn sagði að ég ætti að drífa mig á Companion.

Landið er nær alrautt á veðurkortum en við Gunnsteinn fórum samt niður í Mjódd. Ég hafði spottað smá lausn frá rigningu í kvöld.

Aðalhlutverkin eru í höndum Sophie Thatcher (sem lék líka í Heretic) og Jack Quaid (sonur Dennis og Meg Ryan).

Þrjú pör koma saman í einangruðu húsi í skógi. Sígild klisja. Eiginlega ekki. Þetta er að vissu leyti hryllingsmynd (blóð allavega) en samt meira svört gamanmynd, jafnvel ádeila.

Við Gunnsteinn vorum einir í salnum og þótti myndin frábær. Hún er fyrst og fremst ótrúlega fyndin. Við hlógum mikið og óheft. Bara, farið á þessa í bíó ef þið eruð ekki viðkvæm fyrir blóði.

Love Lies Bleeding (2024) 👍👍
{38-ø-ø-ø}

Nú er ég ekki búinn að sjá allar þær mörgu myndir sem koma á topplistum síðasta árs eða fengu tilnefningar eða verðlaun. Ég get ekki sagt fyrir hver besta mynd 2024. En af öllum myndum frá 2024 sem ég sá í bíó er Love Lies Bleeding mín uppáhalds.

Ekki fyrir fólk sem er viðkvæmt fyrir kynlífi eða ofbeldi.

Leikstjórinn Rose Glass kom í hlaðvarpið The Movies That Made Me og meðmæli þáttastjórnenda (Joe Dante/Josh Olson) voru slík að ég dreif mig við fyrsta tækifæri.

Myndin fjallar um tvær konur sem verða ástfangnar, önnur vinnur í ræktinni (Kristen Stewart) og hin ástundar vaxtarækt á leið sinni til Las Vegas (Katy O’Brien. Árið er 1989. Múrinn að falla (nóvember) og George Herbert Walker Bush lýgur því að hægt sé að kaupa krakk rétt hjá Hvíta húsinu (september). Reyndar ég ekki viss um að það passi allt út frá tímalínu myndarinnar.

Fjölskylda Kristen Stewart er með endalaust vesen. Allavega pabbi hennar (Ed Harris með besta hárgreiðsluna) og mágur (Dave Franco með skíthælalegasta skíthælinn sinn). Síðan eru það sterarnir.

Það pirraði mig svolítið að margir kvörtuðu yfir því að endalok myndarinnar hafi komið upp úr þurru. Svo er ekki. Þetta fólk fylgdist bara ekki með. Það var ennþá augljósara núna þegar ég horfði á hana aftur. Þetta byggist upp. Skref og skref. Tsjekhov plantar byssum sínum hægri vinstri.

Þessi bíóupplifun var frískandi. Eitthvað allt öðruvísi en það sem við höfum séð síðustu ár. Sú besta sem ég hef séð frá árinu 2024.

Síðan þarf ég bara að drífa mig að sjá fyrri mynd Rose Glass Saint Maud, veit ekki hvers vegna ég hef ekki drifið í því.

Love Lies Bleeding með The Cross hefði átt að vera í myndinni.

Nosferatu (2024) 👍👍
{1-1-1-1}

Það er meira en aldarfjórðungur síðan ég sá upprunalegu Nosferatu (1922). Á þeim tíma var einungis hægt að sjá myndina í skelfilega lélegri útgáfu, af myndbandsspóla sem var gerð eftir rispaðri og skemmdri filmu.

Ástæðan fyrir því hvernig komið var fyrir myndinni er áhugaverð í ljósi samspils menningar og höfundaréttar. Ekkja Bram Stoker taldi að myndina hugverkaþjófnað, einfaldlega eftirhermu af bókinni Dracula. Í kjölfarið var reynt að eyðileggja sem flest eintök af mynni.

Í dag er hægt að sjá myndina í mun betra ástandi og ég ætti líklega að kíkja á hana þannig. Samt hef ég á tilfinningunni að hún sé kannski hræðilegri í skelfilegum gæðum.

Ég er veikur fyrir vampírumyndum, þetta er líklega uppáhaldskvikmyndaskrýmslið mitt. Ég elska til Francis Ford Coppola’s Bram Stoker’s Dracula (1992) þrátt fyrir augljósa galla myndarinnar. Það er erfitt að gera góða vampírumynd.

Það hefur reynst mér vel að treysta á álit Joe Dante og Josh Olson í hlaðvarpinu The Movies That Made Me og því ákvað ég að drífa mig í bíó.

Yfir heildina var þetta frábær mynd. Það tókst sérstaklega vel að skapa andrúmsloft drunga og ógnar. Tónlistin var mjög góð en tapar eiginlega sjálfkrafa í samanburði við Drakúla frá 1992 sem er í sérstöku uppáhaldi hjá mér (Wojciech Kilar).

Myndin leyfir sér að taka sér tíma og það virkar mjög í fyrri hluta myndarinnar. Þegar nær dregur endinum hefði samt þurft að keyra á meiri hraða. Maltin myndi kannski segja að myndin þjáist af oflengd. En það er eiginlega eini raunverulegi galli myndarinnar.

Greifinn Orlok býr á slóðum Drakúla í Karpatafjöllunum. Það var aukaleg gleði fyrir okkur Gunnstein sem höfðum verið þarna í næsta nágrenni í fyrrasumar og heyrt rúmensku daglega á meðan. En Orlok talaði ekki rúmensku heldur útdautt dakískt tungumál (Dakía er fornt nafn á svæðinu). Kannski var það bara sænski hreimurinn (Bill Skarsgård) en mér fannst eins og ég ætti að skilja það sem greifinn var að segja.

Vampíran er vel heppnuð. Ég hafði áhyggjur af því að reynt yrði um of að herma eftir Nosferatu en svo var ekki. Þess í stað fáum við skugga af þeirri upprunalegu, og það virkar. Þessi Orlok brúar bilið milli Gary Oldman og Max Schreck.

Sögusvið myndarinnar er trúverðuglegt, bæði í Þýskalandi og Rúmeníu. Ég geri fastlega ráð fyrir að tölvubrellur hafi verið notaðar til að afmá ummerki nútímans en ég tók aldrei eftir neinu.

Það er óneitanlegur feminískur blær á myndinni sem ég man ekki eftir úr eldri útgáfum á sögunni. Staða kvenna í þessu samfélagi (Þýskaland á fyrri hluta 19du aldar) skiptir töluverðu máli í framvindunni. Gallinn á því er kannski sá að það setur kvenpersónur of oft til hliðar. Einungis Ellen (Lily-Rose Depp var frábær) er virkur þátttakandi. Vinkona hennar fær litlu áorkað.

Willem Dafoe var auðvitað góður í Van Helsing hlutverkinu. Það truflaði mig smá að ég var alltaf að hugsa hvaðan ég þekkti Nicholas Hoult (eiginmanninn). Ég vissi að ég hefði séð hann yngri. Mun yngri sá ég þegar ég fletti honum upp. Hann var í About A Boy (2002). Ég hef svosem séð hann í öðru, s.s. The Great (2020-2023), en hausinn minn hefur greinilega ákveðið að ég ætti fyrst og fremst að tengja hann við stráksa.

Ég mæli með Nosferatu fyrir fólk sem er hrifið af hryllingsmyndum af gamla skólanum, sumsé myndir sem eru ekki bara að reyna að láta áhorfendum bregða. Ég mæli ekki með myndinni fyrir fólk sem telur að það sé góð hugmynd að draga fram símann sinn í kvikmyndasal.