Einfalt fetasalat

Þetta er mögulega besta snarl í allri veröldinni og áreiðanlega margir sem hafa fundið upp á þessu á undan mér. Hvernig gæti ég lýst bragðinu? Það er nokkurn veginn eins og að gæða sér á sjálfum guðdóminum. Það er sætuvottur á móti sýrninni, og salt og pipar til að draga fram guðdóminn en tempra hann um leið svo við föllum ekki í óvit af gleði. Gegnum þetta allt er keimur af bleikum sveitaökrum og jarm í kind einhvers staðar í fjarska. Sólin skín í andlitið og við vitum að þetta verður góður dagur.

Uppskriftin er einföld: það þarf feta og það þarf tómata.

Namm …

Fetaostinn fæ ég í Istanbul Market á Grensásvegi en einnig má nota feta frá Taverna. Ekki nota íslenskan ost, sama hvað þið gerið.

Næst er bara að brytja tvo tómata og salta þá ofurlétt. Það er gríðarlega mikilvægt að salta alltaf tómata, það dregur fram bragðið.

Ætíð salta tómata

Næst er að skera eins og þrjár lengjur af feta.

Mmmm

Sem við svo rífum yfir tómatana. Ekki kubba þá! Rífið! Piprið svo örlétt.

Rífa, pipra

Næst er það dressingin: ein teskeið gott balsamedik og tvær-þrjár (fjórar? ekki verra!) teskeiðar sturluð ólífuolía. Ég nota ósíaða Frantoia frá Sikiley í þetta. Olían og edikið fást hvor tveggja hjá Barbera í Kópavogi.

Loks er ekkert annað eftir en að hella þessu yfir salatið og hræra vel saman. Svo skal éta þetta og ekki verra ef hægt er að skola því niður með góðu rauðvíni. Þetta er fæða fyrir guði og varla að við dauðlegar verur eigum annan eins munað skilið. En fyrst við getum þetta, þá skulum við láta það eftir okkur.

Guð minn GÓÐUR hvað þetta er gott!

Það besta er eftir: þegar salatið er uppétið er töluvert eftir af dressingu á disknum. Hvað er til ráða? Ekki hellum við þessu niður, auðvitað ekki! Nei, við skerum tómat til og söltum, eina-tvær lengjur til af feta og piprum, og veltum upp úr þessu og höldum áfram að borða. Og þannig höldum við áfram þar til ekki dropi er eftir á disknum utan það sem hægt er að sleikja af honum.

Verði ykkur að góðu!

Ingredients

Instructions

  1. Tómatar skornir í báta, bátarnir helmingaðir. Síðan er þetta saltað létt.
  2. Þrjár lengjur skornar af feta og síðan rifnar yfir tómatana. Síðan er þetta piprað létt.
  3. Dressing er gerð úr 1 tsk balsamediki og 2-3 tsk ólífuolíu. Þessu er svo hellt yfir salatið og öllu blandað vel saman.

Author: Arngrímur Vídalín

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Gefðu einkunn