Af Pat Robertson og rökleysum

Ég ætla aðeins að tala um bloggfærslu og umræður sem ég hef núna lesið nokkrum sinnum yfir og bara verið gáttaður á. Áður en lengra er haldið er rétt að benda á að sá sem um ræðir er með gráðu í heimspeki.

Bakgrunnurinn er sá að bandaríski predikarinn og mislukkaði forsetaframbjóðandinn Pat Robertson sagði í kjölfar jarðskjálftans á Haíti:

And you know Kristi, something happened a long time ago in Haiti and people might not want to talk about it. They were under the heel of the French, uh you know Napoleon the third and whatever. And they got together and swore a pact to the Devil. They said we will serve you if you’ll get us free from the French. True Story. And so the Devil said “OK, it’s a deal.” And they kicked the French out. You know, the Haitians revolted and got themselves free. But ever since they have been cursed by one thing after the other, desperately poor. That island is Hispaniola is one island. It’s cut down the middle. On one side is Haiti, on the other side is the Dominican republic. Dominican Republic is prosperous, healthy, full of resorts, etc.. Haiti is in desperate poverty. Same island. Uh, they need to have, and we need to pray for them, a great turning to God and out of this tragedy. I’m optimistic something good may come.

Flestir túlkuðu þetta á þann veg að Robertson væri að tengja jarðskjálftann við þennan meinta samning við djöfulinn (sem var Vúdú-athöfn en engin samningur við djöfulinn og sagnfræði er greinilega ekki sterka hlið predikarans þar sem þetta var löngu fyrir tíð Napóleons III). En síðan skrifar Hrannar Baldursson bloggfærslu og segir meðal annars:

Það að trúaður maður skuli segja frá þessari merkilegu sagnfræðilegu heimild, sem er náttúrulega engin staðreynd eins og hann heldur fram, heldur heimild og mikill munur þar á, er engan veginn óeðlilegt. Hann talaði ekki um orsakasamband á milli þessa sögulega samnings og þessa hörmunga, en vissulega má grípa tækifærið og túlka sem svo að hann hafi gert það og gera sem mest úr því og það hversu allir trúaðir eru þröngsýnir.

Robertson var semsagt bara að segja frá þessum atburði (ég veit ekki hvað Hrannar á við með “heimild” enda minntist Robertson ekki á neitt slíkt) en ekki að tengja þetta við jarðskjálftann. Nú er rétt að taka fram að Hrannar segist ekki kannast við predikarann en það hefði líklega hjálpað honum töluvert því Robertson hefur tengt fjölda atburða og þá sérstaklega 11. september við það að fólk sé að snúa baki við guði. Það þarf reyndar ekki að lesa mikið um Robertson til að sjá að hann er snarklikkaður og hættulegur. Hann spáði líka heimsendi 1982 (það rættist ekki). Auðvitað var Robertson að segja að athöfnin sé, allavega mögulega, tengd jarðskjálftanum.

Hrannar heldur áfram:

Það sem komið hefur mér svolítið á óvart, en samt ekki, er hvernig trúleysingjar um heim allan hafa stökkið á þessa illa tímasettu fullyrðingu mannsins og blásið hana upp í einhvers konar heiftúðlega gagnrýni á fólk sem er trúað, rétt eins og þegar einhverjir öfgamenn brjáluðust við að sjá skopteikningar í Jyllands Posten. Dæmigerður stormur í vatnsglasi.

Í athugasemdakerfinu var Hrannar ítrekað spurður hvaða trúleysingja hann væri að vísa í en hann svaraði engu. Hann náði þó að koma með alveg gullna setningu sem vakti mikla kátínu á Vantrúarspjallinu:

Með trúleysingja á ég við þá manneskju sem er ekki sömu trúar og viðkomandi[…]

Að sjálfsögðu átti hann við trúleysingja í þeirri merkingu sem almennt er lögð í það hugtak enda myndi ásökunin ekki meika neinn sens (ekki það að hún sé vitræn fyrir). Ég er viss um að fjöldinn allur af trúleysingjum hefur vísað í þessi ummæli og þá sem ábendingu um hvaða öfgar trú getur leitt til en ekki til marks um að allir trúaðir séu svona klikkaðir (enda eru þeir það ekki). Þessir trúleysingjar hafa líklega, ólíkt Hrannari, haft vit á því sem þeir voru að segja enda þekkjum við (“öfgamennirnir”) flestir Pat Robertson.

Trúleysisofstæki er engu betra en trúarofstæki. Þetta eru einfaldlega tvær hliðar á sama peningnum. Millivegurinn* er vandrataður hér sem annars staðar.

Þegar þetta er rætt í athugasemdakerfinu þá segir Hrannar hins vegar:

Trúarofstæki er yfirleitt mun hættulegra[…]

Það er augljóslega satt en takið eftir að hann virðist hvorki geta bakkað upp skrif sín með rökum né viðurkennt að hann hafi haft rangt fyrir sér. Ég verð bara svoltið gáttaður þegar ég les þetta og mér datt ekki í hug að taka þátt í þessum umræðum því maður getur ekkert rökrætt við mann sem neitar að hafa sagt hluti sem standa orðréttir á sömu vefsíðu. Ótrúlegt alveg.

* Í heimspekitímum í M.A. var mér nú kennt að það væri nú gagnslítið að tala um hinn gullna meðalveg enda leiðir það mann fljótt í rökþrot. Hvaða milliveg fer maður til dæmis milli þeirra sem vilja drepa hreinar meyjar og þeirra sem aðhyllast þær öfgar að vilja ekki drepa neinar hreinar meyjar?