Rafræn dreifing gagna (eða: Af hverju ég hata PDF skjöl)

Í morgun komst ég að því hvenær fyrirlestur minn verður á föstudaginn. Það er full skammur fyrirvari en reddast svosem.

Fyrirlestur minn, líkt og grein mín sem birtist vonandi líka í rafrænni útgáfu Rannsókna í félagsvísindum á föstudaginn, fjallar um rafræna dreifingu texta. Þar tala ég m.a. mjög illa um PDF skjöl enda eru þau af hinu illa. Ég varð því fyrir miklum vonbrigðum þegar ég opnaði dagskrársíðu Þjóðarspegilsins og sá þar alveg verstu útfærslu á því að nota PDF. Þar einhver óstaðlaður lesari sem setur dagskrárbæklinginn upp þannig að maður geti flett því eins og um væri að ræða alvöru prentað eintak. Ég smellti mig áfram til að reyna að niðurhala bæklingnum og fékk þá upp skilaboð um að ég þyrfti að skrá mig inn hjá fyrirtækinu bíður upp á þetta PDF flettiforrit. Það er algjörlega fráleitt. [Reyndar sé ég núna neðst á síðunni lítið áberandi hlekk þar sem maður getur opnað PDF skjalið beint. Veit ekki hvort hlekkurinn var þarna fyrir.]
PDF skjöl eru aðskotadýr á vefnum. Þetta eru meindýr sem ætti kerfisbundið að útrýma. Á vefnum á maður að nota html og xml eftir því sem við verður komið. Það að setja upp dagskrá fyrir ráðstefnu er ekkert flókið á html formi og það er svo miklu aðgengilegra en PDF. En fólki finnst það kannski ekki jafn “flott”. Fyrsta reglan á vefnum á að vera sú að hugsa fyrst um að hafa efni á aðgengilegu formi og síðan má bæta við einhverjum flottheitum.

Ég get ekki einu sinni gert þarna copy/paste til þess að benda fólki á áhugaverða fyrirlestra – hvorki minn né annarra. Á tímum samfélagsmiðla ætti þetta að vera á formi sem gerir manni auðvelt að dreifa og auglýsa.

En ég er hér að tala um aðgengi á upplýsingum fyrir almennan vefnotanda. Mér sýnist að þetta sé jafnvel verra fyrir t.d. blinda netnotendur sem væntanlega lenda bara á steinvegg þegar þeir ætla að athuga dagskránna.