Óspennandi kosningar

Áhugi minn á nýafstöðnum kosningum endurspeglast í því að ég hef ekkert skrifað um þær nema einstaka stöðuuppfærslur á Facebook. Það endurspeglast fyrst og fremst í því að mér fannst stjórnlagaráð skila óspennandi tillögum og þá fyrst fremst varðandi kirkjuákvæði. Þar var engin raunveruleg breyting – enginn aðskilnaður í boði.

Reyndar má segja að hluti vandans hafi verið að stjórnlagaráðsfólk vissi síðan ekki hvernig kosið yrði um tillögurnar. Ýmsir þar inni virðast hafa bakkað með aðskilnað vegna þess að þeir héldu að þeir þyrftu að sannfæra fólk um að kjósa heila pakkann. Þannig endum við með kosningu þar sem spurt er hvort maður vilji sama þjóðkirkjuákvæðið eða öðruvísi þjóðkirkjuákvæði og manni er eiginlega sama um niðurstöðuna.

Ég geri fastlega ráð fyrir því að ef stjórnlagaráð hefði vitað að kosið yrði um hvert atriði fyrir sig þá hefðu tillögurnar gert ráð fyrir að hægt væri að kjósa um raunverulegan aðskilnað. Þeir stjórnlagaráðsliðar sem bökkuðu þarna með sannfæringar sínar til þess að búa til þennan pakka verða að eiga það við sjálfan sig. Í þeirra hópi var meirihluti fyrir aðskilnaði en þeir seldu þá sannfæringu sína.

Í dag var ekkert annað í boði en að samþykkt hefði verið stjórnarskrá þar sem sum dýrin væru jafnari en önnur í trúmálum og því er engin ástæða til þess að ergja sig sérstaklega á því.