Af rándýrri Laxness rafbók

Um daginn gagnrýndi Gísli Ásgeirsson verðlagningu á rafbókum í bloggfærslu. Þar fór af stað lífleg umræða. Framkvæmdarstjóri Forlagsins Egill Örn Jóhannsson varði verðlagninguna og reyndi að skýra. Palli Hilmars benti á að verð á rafbókinni Heimsljósi væri fullmikið miðað við þær forsendur sem kæmu fram hjá Agli. Egill svaraði á þennan veg:

Að koma Heimsljósi á rafrænt form var meiriháttar mál. Þar voru engin tölvugögn fyrirliggjandi og þurfti að síðuskanna bókina og þá í framhaldinu nauðsynlegt að prófarkalesa. Kostnaður við rafbókargerðina nam fleiri hundruð þúsundum vegna þessa (prófarkalestur einn og sér er verulegur). Ég geri ráð fyrir Forlaginu takist seint að ná inn kostnaði vegna þessa, og myndi litlu breyta hvort bókin kostaði 990 krónur eða 3990.

Þetta skildi ég þannig að áður en rafbókin hefði verið gefin út hafi texti Heimsljóss ekki verið til rafrænn og mér þótti það svolítið skrýtið. Ég athugaði og sá að Heimsljós hafi verið gefið út árið 2010 og þótti skrýtið að þar hefði ekki orðið til rafrænn texti. En ég hugsaði ekki meira um það þá.

Í dag var mér bent á svolítið skemmtilegt. Á vefnum Snara er hægt að finna Orðstöðulykil verka Halldórs Laxness. Hann byggir á rafrænum textum af fjórtán verkum Laxness – þ.á.m. er Heimsljós. Verkið er sumsé til rafrænt. Forlagið á sumsé Snöru – allavega útgáfuréttinn á þeim verkum sem eru þar.

Það að koma þessum verkum á rafrænt form var örugglega rándýrt (enda margstyrkt af hinu opinbera) en samkvæmt gamalli frétt Morgunblaðsins var byrjað á því verki cirka árið 1990 og Orðstöðulykillinn kom á netið árið 2002.

Ég get því ekki sagt annað en mér þyki málflutningur framkvæmdarstjóra Forlagsins örlítið villandi.

0 thoughts on “Af rándýrri Laxness rafbók”

  1. Kostnaðurinn við að koma texta á rafrænt form getur aldrei orðið meiri en að slá hann inn.

    Ef það er verið að síðuskanna, ljóslesa og yfirfara þann texta, verður það að vera ódýrara en innslátturinn, annars hlýtur innslátturinn að verða fyrir valinu.

    Er meira en vikuvinna að slá inn Heimsljós? Þá miða ég við fólk sem vinnur við þetta.

  2. Ég á ómerkilegan skanna og í tölvunni minni er forrit sem heitir Omipage og með því skanna ég texta allt upp í 50 bls í einu [getur vel gert meira í einu] og læt forritið lesa og svo vista það sem doc, jú það tekur svona 30 sec að skanna hverja blaðsíðu með mínum skanna, en forritið er enga stund að færa textann í txt eða doc. Ég lét forritið læra íslenskuna sem reyndar tók um hundrað blaðsíður að þjóðsögum Jóns Árna [ca 1-2 mín á hverja bls.] en svo er þetta ekkert mál 🙂
    Svo ég skil hreint út ekki þennan málflutning um að yfirfærslan sé svo svakalega dýr. Tel reyndar líklega að þeir vilji halda tekjunum og flottu laununum 😉

Leave a Reply