Vonbrigði

Árið 2002 var eitt af þeim verri árum ævi minnar, alltént það sem ég man eftir. Það virðist vera að árið 2003 sé að sækja í sig veðrið í þeim efnum, og er það nú þegar orðið með verri árum. Smá yfirgrip af því sem hefur gerst í ár:

* Ég byrjaði árið á því að missa vinnuna.
* Sama dag drapst ég úr áfengisdauða skömmu eftir miðnætti.
* Kiddi Peppó lést. Guð blessi minningu hans.
* Mér tókst að stefna mér í skuldir í fyrsta sinn á ævinni. Vona að ég geti farið að borga þær bráðum.
* Ég féll úr besta skóla landsins og olli minni ástkæru ömmu miklum vonbrigðum í leiðinni. Það er eitt sem ég get aldrei fyrirgefið sjálfum mér fyrir að gera.

Og í dag bættist dropi í hafið. Tóti, vinur minn, var gerður að bráðabirgðaverkstjóra í vinnunni í dag. Hann á mínar hamingjuóskir verðskuldaðar en það er ekki laust við það að mér finnist ég svikinn. Ég og maður að nafni Hjalti (sem, veitið því athygli, er líka verkstjóri yfir mér) höfum báðir unnið þarna í sex ár. Tóti er nú á sínu fjórða sumri. Þegar Hjalti var gerður verkstjóri í fyrra var það soldið súr biti að kyngja en ég sættist að lokum á þetta. Þetta var ekki svo slæmt. Núna hefur verið gengið framhjá mér og mér finnst ég ekki vera metin til neins á þessum vinnustað. Ég þarf að sæta missaklausu áreiti vinnufélaga (svolítið sem ég þoli ekki) daginn inn og daginn út. Það er talað niður til mín og ég er iðullega settur í mestu skítverkin vegna þess að ég virðist ekki vera í náðinni hjá stjórunum.
Já, það er kannski ekki skrýtið að ég þjáist af þunglyndi miðað við hversu yndislegt líf mitt er. Þetta er ekki tæmandi listi leiðindaatvika og eru þau í raun ekkert nema pínkulitlir dropar í hið mikla haf vonbrigða í lífi mínu. Fólki dettur ekki einu sinni í hug að vera nærgætið við mig. Nei. Ég er bara Arngrímur, og á að gera eins og fólk segir. Mamma mín skilur þetta ekki, vinnufélagar mínir skilja þetta ekki og Tóti skilur þetta ekki. Ég hef ekki verið sannarlega hamingjusamur síðan ég var barn. Miðað við almenna framkomu í minn garð, farsælni mína í ástarmálum, félagsmálum og almenna óheppni mína er ég hissa á að fólk geti samt haldið að ég sé hamingjusamur.

Ég ætla að fara að semja lag núna sem heitir ég er svo bitur. Það getur verið svona paródía á það hvernig mér líður akkúrat núna. Eins og ég sé einskis nýtur aumingi.