Amma mín

Nei, þetta verður ekki væmið!

Áðan var ég í nauðum staddur, en fyrsta seinkoma lífs míns (þ.e. utan skóla) virtist vera í uppsiglingu. Leitaði ég á náðir ömmu minnar, sem ég hef stundum viljað setja í samhengi við þennan hérna, lánaði (já, lánaði!) mér bílinn sinn. Hvað kom fyrir? Hefur höggormurinn brugðið sér í meyjar líki? Er sjálfur andskotinn að freista mín? Eitthvað þykir mér þetta gruggugt og verandi með afbrigðum vænisjúkur hef ég hrapað að ályktun, tveimur reyndar.

1) Amma vill vingast við mig. Tel ég það ólíklegri kostinn
2) Bíllinn er að hruni kominn (keyptur skömmu eftir að ég fæddist) og amma ráðgerir að ég vilja kaupa hann – á uppsprengdu verði að sjálfsögðu.

Eins og ég áður sagði krefst þetta nánari athugana. Mér líst ekki á blikuna.

Menning

Alltaf þegar mér er boðið eitthvað, t.d. í leikhús, bíó, á óperur eða tónleika, enda ég alltaf á að sjá eftir því að hafa þegið það. Einmitt núna gæti ég verið sofandi ef ekki væri fyrir brigðula „innri vekjaraklukku“ mína (hvað þá þá ytri!), þ.e. ég myndi missa af tónleikunum sem mér er boðið á í kvöld.

Ég þarf að setja mér fastar reglur um hvenær ég þigg og þigg ekki slík boð. Nú finnst mörgum ég sjálfsagt vanþakklátur. Er þeim lesendum bent á að það er rétt. Ég hugsa alltaf um hvernig sérhver ákvörðun kemur mér í hag og ef ég neita að þiggja frímiða á einhverja sýningu finnst mér ég vera leiðinlegur. Þess vegna þigg ég alltaf miðann, mæti á sýninguna og hef (yfirleitt) gaman að.

Sjálfur er ég þó ekki hissa á neikvæðri afstöðu minni til menningarstarfs þessarar borgar. Ég er einfaldlega búinn að fá mig fullsaddan á þessu öllu saman. Maður fær alltaf leið á öllu sem maður gerir of mikið af.