Bloggið um veginn

Bloggið um veginn er upprisið. Vonandi taka allir eftir þversögninni á titlinum. Hvað varðar þau ykkar sem ekki tóku eftir því, mætti vel efast um hvort þið séuð í raun og veru þess verð að njóta lesturs Bloggsins um veginn.
Um hvaða veg snýst bloggið? Því er hægt að svara á einfaldan máta: Sama veg og Bókin um veginn snýst um. Annars hef ég aldrei nennt að lesa þá sjálfshjálparbók snobbhænsnanna, enda er hún alger þvæla, þegar allt kemur til alls. T.a.m. gæti eitthvað á þessa leið staðið í henni:

Vegsemd líkamans vex með vegsemd hugans. Það er ekki veraldlegra að kveða upp dóm yfir huganum, því það er hugurinn, sem skilgreinir hið veraldlega.

Allir geta séð að þetta er helvítis kjaftæði. Þ.a.l. er einnig hægt að svara spurningunni „Um hvaða veg snýst bloggið?“ svona: Engan. Þannig hverfur þversögnin í titlinum.
Hvers vegna skipti ég um titil er svo önnur spurning. Mun henni einnig svarað, en í tvennu lagi:
1. Nýji titillinn er töff.
2. Mér (og sjálfsagt mörgum öðrum) þótti titillinn líkjast hinu heitna Bloggi dauðans helst til mikið, og það skal enginn segja, að ég hafi ekki eigin stíl. Ekki að höfundarréttarreglur séu í gildi þegar að bloggi kemur, eins og sannast hefur af fjölda blogga dauðans, en þau eru nú orðin allmörg ef satt skal segja.
Hér er annars pæling. Oft á tíðum er talað um að menn vaði uppi, t.d. með offorsi eða einhverju þvíumlíku. Þá er það pælingin: Hafa þeir vaðið fyrir ofan sig sem vaða uppi? Eigi veit ég það svo gjörla, en hitt veit ég þó, að ef ég tek upp á því að vaða uppi ætla ég að hafa vaðið fyrir neðan mig.