108999330504472502

Þá er Ítalíuferðin fullborguð. Það setti mig aftur um nokkur þúsund svo lítið sé sagt. Leiðinlegt þótti mér að gjaldkeri SPRON þverneitaði að afhenda mér orlofið mitt. Skítt með reglugerðir bankans. Þetta er minn peningur og mér finnst ég ætti að hafa algjört forræði yfir honum.

Hitabylgja virðist hafa skollið á Reykjavík, þó ég fullyrði ekki um aðra bæi. Að ganga um í skyrtu og jakka í miðborg Reykjavíkur var fyrir mér eins og að ganga ber að ofan í Miðjarðarhafinu. Og þó er aðeins fimmtán gráðu hiti. Síðasta föstudag fullyrti útvarpsmaður að það væri tuttugu og fimm stiga hiti í Reykjavík og á Akureyri, og eitthvað þeim mun hærra á Snæfellsnesi. Þó fann ég ekki jafn greinilega fyrir hitanum þá. En bráðlega hyggst ég leggja leið mína niður í bæ á ný, því þar eru íturvaxnar konur að spóka sig um í hlýrabolum einum fata, og þá fer að harðna á dalnum og menn gerast breyskir.