109301306278763497

Ég fór út í bakarí áðan og rak þar augun í skemmtilega vörumerkingu. Þar var kaka, ekki ósvipuð sveskjuköku, merkt sem „hjónabandsæla“. Kærði ég mig kollóttan um slíka köku og fékk mér vínarbrauð. Mig langaði til að benda afgreiðslustúlkunni á hversu kræsilegri kakan yrði ef öðru s-i yrði bætt inn á merkimiðann en afréð að láta það eiga sig. Það er miklu skemmtilegra svona.

Siv Friðleifs mun víkja þann 15. september. Kominn tími til, segi ég, þó efast megi um réttmæti ákvörðunarinnar. Halldór lætur ekkert uppi um ástæðu þessa annað en það að þetta sé „pólitísk ráðstöfun“. Mun það þýða að Siv eigi ekki jafn valdamikla vini og arftaki hennar eða að hún sé vitlaus eða að hún sé hreinlega óvinsæl?