Aðfangadagur

Í gær mætti ég til vinnu klukkan fjögur og var þar til hálftólf, sem var ágætt. Fólk var rólegt, allir í jólaskapi, og lítið var að gera. Svo atvikaðist að sjálfur Sigurður Kári pseudolíbertarían kom á kassa til mín. Hann var langtum kurteisari en venjulegt getur talist.

Að vinnudegi loknum var ég leystur út með miklum gjöfum, körfu með hangikjötslæri, hátíðarsíld, reyktum laxi, graflaxi, graflaxsósu, Carr’s kexi, fínum ostum, sultukrukkum, After Eight, rauðkáli, Ora grænum baunum og jólaviskustykki. Semsagt allt í kvöldmatinn. Það var höfðingleg gjöf.

Einnig fékk ég einstaka afmælis- og jólagjöf frá Alla og ann honum þakkir mínar fyrir.

En í dag er Aðfangadagur. Sem endranær kom það mér algjörlega í opna skjöldu, mér finnst ekki eins og það sé Aðfangadagur í dag og ég er þ.a.l. ekki í neinu jólaskapi. Hins vegar er ég í góðu skapi og læt það nægja. Enn er nóg að gera fram að kvöldmat og kemur graflaxinn sér að góðum notum fram að kvöldmat Og þá er ekkert eftir en að óska öllum lesendum þessarar auðmjúku bloggsíðu, kenndum sem ókenndum, gleðilegra jóla! Mér finnst hins vegar mikilvægt að hugsa til þeirra sem ekki fá notið lífsins á þessum tíma hinna mestu lystisemda og finnst því rétt að minna á ástandið í Afríku og Asíu, þá sérstaklega Eþíópíu, Fílabeinsströndina, Írak og Súdan. Eigið þið gleðileg jól, en hafið það hugfast, hversu gott þið hafið það.