Um kostnað afskipta og óþarfleika bloggeftirspurnarinnar

Mér líður hálfplebbalega eitthvað, sem ég sit hér fullur löngunar til að glugga í margvíslegum fræðum, en bíð þess í stað eftir símhringingu svo ég megi yfirgefa híbýli mín. Ef ég gæti svalað eigin fýsnum fyrir hvert sinn sem ég neyðist til að hafa afskipti af öðru fólki væri ég ansi fróður. Það skal sérstaklega tekið fram að ég á ekki við samskipti almennt, heldur afskipti. Þau eru stundum nauðsynleg, t.d. núna.

Þeir sem þola ekki dylgjur og vilja skýrt svar við því hvað ég ætla að gera geta hvorki búist við svari hér né annarsstaðar. Hvers vegna bloggaði ég þá? Vegna þess að sannur bloggari veit að framboðið er það sem skiptir máli – ekki eftirspurnin, enda er eftirspurnarfall bloggsins háð bloggframboðinu. Það eru raunar „húkkd“ lesendur líka. Þau blogg sem láta stýrast af eftirspurn má nefna „markaðsstýrð blogg“ en hin „sjálfstýrð“. Markaðsstýrðir bloggarar hóta af og til að leggja niður laupana nema lesendur væli um áframhald. Það er óttalega sjálfhverfur gjörningur. Þegar sjálfstýrð blogg hætta er ekkert tillit tekið til lesenda, sama hvað þeim finnst. Sum blogg má raunar staðsetja mitt á milli. Þau nefnast „hálfsjálfstýrð blogg“, en þau taka tillit til lesenda upp að ákveðnu marki.

Fyrir þá lesendur sem eru „lost“ þá er þetta blogg ekki markaðsstýrt, sem svarar þeim stöku spurningum sem mér berast um hvað ég eigi við með hinum eða þessum bloggskrifum. Ef þú veist það ekki þá kemur þér það líklegast ekki við.