Kýrhausinn

Í kvöld keppum við Skúli og Bjössi fyrir hönd bekkjar okkar í innanskólaspurningakeppninni, sem nefnd hefur verið Kýrhausinn. Það verður spennandi að sjá hvernig okkur gengur, en hvað sjálfan mig varðar hef ég verið efins um að ég sé spurningaliðsefni síðan hársbreidd munaði að ég væri valinn í Gettu betur liðið, og jafnvel hálffeginn (þó aðeins hálffeginn) því að ég var ekki valinn. En nú er að sjá hvort ég verði stressaður. Þeir sem þekkja mig vita að ég er alltaf stressaður, sama hvað ég geri og sama hversu lítilmótleg ástæðan er. Ég á það m.a.s. til að verða stressaður í bankanum, en það er önnur saga (og léleg).
En hvað sem því líður verður keppnin haldin klukkan átta í Skálholti í Menntaskólanum við Sund og allir sem vilja mæta mega mæta. Fyrir utanaðkomandi er Skálholt í kjallara stóru kassalaga byggingarinnar á bakvið aðalbygginguna (lítur út eins og annar hver grunnskóli á landinu). Ég verð með símann við höndina ef einhver skyldi villast (ef einhver kemur!).