Brotin leikföng

Eitt það leiðinlegasta sem ég horfi upp á er þegar börn brjóta leikföngin sín í einhverju óðagoti. Aftur á móti er það and-sorglegt þegar börn brjóta leikföngin sín viljandi. Hvað þetta snertir er litli bróðir minn öðruvísi en ég. Hann syrgir ekki brotin leikföng, hann tjaslar þeim bara saman með límbandi og heldur áfram. Það finnst mér aðdáunarvert.

Skotspónn félagasamtakanna

Aldrei hefði ég búist við því að fá senda ítrökun frá Spron á kröfu um félagsgjöld í frjálsu félagasamtökin Ný kynslóð, nemenda- og stúdentafélag, en þegar ég kom heim rak ég augun í nákvæmlega þannig ítrekun. Félagið er kristið. Öðruvísi mér áður brá.

Á heimasíðu þjóðkirkjunnar stendur um félagið: Félagið miðar að því að efla trúarlegt starf og vitund nemenda í skólum og námsstofnunum. Vísir að því starfaði í Menntaskólanum í Hamrahlíð síðastliðinn vetur og stóð meðal annars fyrir „Jesus madness“ viku. Þetta er semsagt eitthvað fyrir mig, eða þannig.

Svo ég hringdi upp í Spron og spurðist fyrir um málið. Stúlkan í símanum sagði mér að félagið eitt gæti haft milligöngu um að fella niður kröfuna. Þá hringdi ég í sjálft félagið. Náunginn í símanum virtist allur af vilja gerður og sagðist koma ofan af fjöllum (hann sagði það raunar ekki, hann sagðist vera hissa).

Þá er að sjá hvort fleiri ítrekanir berist eða hvort stormsveitir Intrum Justitia geri aðsúg að mér. Ég hef fulla ástæðu til að vera efins um hvort þeir taki mig af listum sínum. Önnur félagasamtök hafa ekki verið viljug til þess hingað til, s.s. Framsóknaræskan og sms-klúbbur Heimdallar, eða hvað maður skyldi kalla það (rétt í þessu fékk ég sms frá þessum litlu djöflum).

Einn daginn ætla ég að slá á þráðinn til biskups og spyrja hvort hann hafi lesið eitthvað eftir „félaga Lavey“. Svona er nú lundin í manni misjöfn.

Mikið andskoti er ég annars þreyttur.