Skærur Össurar

Ekki veit ég hver fjandinn gengur að Össuri Skarphéðinssyni þessa dagana. En honum nægir ekki að brigsla Árna Þór fyrir að tilgreina lágmarksmarkmið VG í komandi borgarstjórnarkosningum, heldur ræðst hann gegn niðjum Svavars Gestssonar fyrir það eitt að vera niðjar hans. Það er viðbúið að sjónarmið Össurar væru önnur ef Vinstri-grænir hefðu haldið sig í sama flokki og hann. Þá væru Árni Þór, Svandís og Oddur Ástráðs fallbyssur og hershöfðingjar að mati Össurar, líkt og Stefán Jón og Steinunn Valdís, og íhaldið eitt varnarlaust gatasigti. Enda er Samtíningin sannkallað stórskotalið og allir aðrir eru ræflar.

Versta leikrit allra tíma?

„Halldór í Hollywood er nýtt verk eftir Ólaf Hauk Símonarson sem frumsýnt verður 14. október. Leikritið byggir á Ameríkuárum Halldórs Laxness 1927-1929 þegar Halldór var ungur ofurhugi. Í Hollywood heillaðist hann af kvikmyndaiðnaðinum og ætlaði sér að slá í gegn sem handritshöfundur kvikmynda. Í leikriti Ólafs Hauks sjáum við hvernig dvöl Halldórs í Ameríku varð fyrst og fremst til þess að hann fann Ísland á ný og gerðist íslenskur rithöfundur. Við sögu koma ýmsir vinir og velgjörðarmenn Halldórs frá Ameríkuárunum, nokkrar af skærustu stjörnum Hollywood á þessum tíma eins og Charlie Chaplin og Greta Garbo og síðast en ekki síst allar konurnar í lífi hans“.

Úff! Hryllingurinn stendur mér eins skýrt fyrir hugskotssjónum og ef hér væru fimm trúðar útaðaðir í blóði og ælu að syngja Vengaboyslög. Sjáið þið ekki Kiljan fyrir ykkur, raunamæddan á koffortinu í slitnum Tweed-jakka með vasa fulla af brostnum draumum og Gretu Garbo stumrandi yfir honum: Þetta verður allt í lagi Halldór minn. Þú slærð í gegn á endanum!
Óekki, segir Halldór. Líf mitt á sér eingan frama hér í Amríkunni. Ég er haldinn heim á leið, til lands íss og elda, að pára sögur um kotroskna bændaskítsdurga sem kúaðir lifðu og forsmáðir í skugga dönsku krúnunnar. Ef ég aðeins hefði sorðið leikkventátuna þá arna hefðu hlutirnir máski æxlast öðru vísi.
Ókei, segir Greta. Ég er farin að leika í Wild Orchids eða einhverri annarri samtímakvikmynd. Charlie hefur ofan af fyrir þér á meðan.
Ólafur Darri gengur inn á sviðið í hlutverki Chaplins og dettur á rassinn. Halldór hlær hjartanlega og tjaldið fellur.

Mín árlegu veikindi

Ég hef haft hálsbólgú (ákvað að leyfa þessari villu að standa) síðan ég kom heim úr sumarreisunni og hóstaköstin eru sem endranær að gera mig geggjaðan. Ekki hefur hóstinn heldur sjatnað, þvert á móti hefur hann aðeins versnað og nú er svo komið að stundum þarf ég að hósta svo mikið að ég einfaldlega kúgast af hósta. Aðeins tímaspursmál hvenær maginn fylgir kúguninni eftir.

Svo spurði mamma mig áðan hvort mig vantaði nokkuð úr apótekinu. Það var þó hugmynd. Ótrúlegt hvað maður getur haft litla rænu á að bjarga sér um svona smáhluti fyrr en einhver minnist á það. En nú sit ég semsagt vel birgður af Strepsils og Norskum brjóstdropum. Það voru hrein mistök að gleyma að biðja apótekaralakkrís í leiðinni. En það eru mistök sem ég og enginn annar þarf að lifa með.

Smjör og ostur

Fólk er svo latt nútildags, sagði fýlupúkinn og teygði sig í pakka af niðursneiddum osti.

Niðursneiddur ostur er hámark letinnar. Það vantar bara að hægt sé að kaupa tilbúnar smjörhimnur sem hægt væri að leggja beint ofan á brauð. Það væri eitthvað fyrir sjónvarpsmarkaðinn. Þeir myndu sýna myndir af fólki að skera brauð í tætlur og smjör úti um allt, undir fyrirsögninni „aðrar vörur“, og segja: Ertu ekki orðinn leiður á gömlu, tímafreku aðferðinni við að smyrja brauð? Keyptu þér SmjörhimnurTM og láttu okkur smyrja fyrir þig!

Hlýtur þetta ekki að vera á leiðinni? Ég spái sprengingu á neysluvörumarkaði.

Ljóta staðreynd dagsins

Þegar framkvæmdastjórn vinnustaðaðarins segir þér að þú sért traustur og reyndur starfsmaður er það ekki vegna þess að þú sért það. Þeir vilja hafa þig í vasanum því þú ert einn þeirra fáu eða sá eini sem þeir hafa. Verið því viðbúin fjölgun vinnustunda, styttingu kaffitíma og skertu fríi þegar þið verðið vör við undraverðan kumpánskap framkvæmdastjórnar.

Ekki það að ég hafi orðið var við neitt slíkt. Neinei, ekki að ræða það.

Tilvitnun dagsins

Tilvitnun dagsins á litli bróðir minn, sem hefur alveg sérstakan talanda þegar hann reynir að bæta mettímann í að koma einhverju frá sér. Í þetta sinn sagði hann mér brandara úr einhverjum grínþætti:
&#8222Það var ógeðslega fyndið í Tom and Berry, þegar Sparky kom svona með hjarta á Valentine’s Day, og sagði: Here’s a card in time og þá var alveg: Oh, no! Not a real heart, sagði Exwife!&#8220
Ég gat ekki varist því að skella upp úr. Ekki vegna þess að brandarinn væri svona fyndinn, heldur vegna þess að hann heldur áreiðanlega að fyrrverandi eiginkonan heiti Ex-Wife. Segið svo að sjónvarpið ali ekki á staðalmyndum!
Annars er fyrrverandi eiginkonan einum of týpískur karakter, sem nánast undantekingarlaust er mannfjandsamleg og aðalpersónunni til trafala þegar hann fremur einhver af sínum fjölmörgu axarsköftum, þar sem hann er jú bara feitur einfeldningur sem drekkur bjór, þegar allt kemur til alls. Reyndar, þegar ég hugsa um það, er þessi málsgrein nærri fullnægjandi sem innihaldsgreining á bandarísku skemmtiefni. Það vantaði bara heimskari vininn (haltur leiðir blindan), sem ávallt er með aðra höndina í ísskáp fjölskylduföðurins og hina í klofinu, og skapvonda heimilisafann sem enginn veit hvers vegna býr inni á feitum syni sínum, fallegu núverandi (eða ævarandi) eiginkonu hans og þremur óþolandi krökkum.
Krakkarnir eru að sjálfsögðu sérkapítuli, en þeir eru undantekningarlaust þrír: Stóra systirin, sem á kærasta sem á mótorhjól, pabbinn þolir ekki en mömmunni finnst í lagi. Millibróðirinn, sem neitar að læra heima nema eftir smá quality time með föður sínum, er í uppreisn gagnvart móðurinni og, ef því er að skipta, ömmunni líka. Síðast en ekki síst er sá sem mest er óþolandi, en það er litla stelpan sem á yfirborðinu er sæt, stillt og prúð, en undir niðri er hún lævis og undirförul og fær allt sem hún vill. Hún á aðeins einstaka sinnum í útistöðum við miðjubróðurinn, en þeim viðskiptum líkur undantekningarlaust þannig að litla hefur betur, enda svo mikil pabbastelpa. Og mömmustelpa, ef svo ber undir.
En jæa, nóg komið af þessu rugli. Nú er það rússneska og Gunnar Gunnarsson!