Versta leikrit allra tíma?

„Halldór í Hollywood er nýtt verk eftir Ólaf Hauk Símonarson sem frumsýnt verður 14. október. Leikritið byggir á Ameríkuárum Halldórs Laxness 1927-1929 þegar Halldór var ungur ofurhugi. Í Hollywood heillaðist hann af kvikmyndaiðnaðinum og ætlaði sér að slá í gegn sem handritshöfundur kvikmynda. Í leikriti Ólafs Hauks sjáum við hvernig dvöl Halldórs í Ameríku varð fyrst og fremst til þess að hann fann Ísland á ný og gerðist íslenskur rithöfundur. Við sögu koma ýmsir vinir og velgjörðarmenn Halldórs frá Ameríkuárunum, nokkrar af skærustu stjörnum Hollywood á þessum tíma eins og Charlie Chaplin og Greta Garbo og síðast en ekki síst allar konurnar í lífi hans“.

Úff! Hryllingurinn stendur mér eins skýrt fyrir hugskotssjónum og ef hér væru fimm trúðar útaðaðir í blóði og ælu að syngja Vengaboyslög. Sjáið þið ekki Kiljan fyrir ykkur, raunamæddan á koffortinu í slitnum Tweed-jakka með vasa fulla af brostnum draumum og Gretu Garbo stumrandi yfir honum: Þetta verður allt í lagi Halldór minn. Þú slærð í gegn á endanum!
Óekki, segir Halldór. Líf mitt á sér eingan frama hér í Amríkunni. Ég er haldinn heim á leið, til lands íss og elda, að pára sögur um kotroskna bændaskítsdurga sem kúaðir lifðu og forsmáðir í skugga dönsku krúnunnar. Ef ég aðeins hefði sorðið leikkventátuna þá arna hefðu hlutirnir máski æxlast öðru vísi.
Ókei, segir Greta. Ég er farin að leika í Wild Orchids eða einhverri annarri samtímakvikmynd. Charlie hefur ofan af fyrir þér á meðan.
Ólafur Darri gengur inn á sviðið í hlutverki Chaplins og dettur á rassinn. Halldór hlær hjartanlega og tjaldið fellur.

Mín árlegu veikindi

Ég hef haft hálsbólgú (ákvað að leyfa þessari villu að standa) síðan ég kom heim úr sumarreisunni og hóstaköstin eru sem endranær að gera mig geggjaðan. Ekki hefur hóstinn heldur sjatnað, þvert á móti hefur hann aðeins versnað og nú er svo komið að stundum þarf ég að hósta svo mikið að ég einfaldlega kúgast af hósta. Aðeins tímaspursmál hvenær maginn fylgir kúguninni eftir.

Svo spurði mamma mig áðan hvort mig vantaði nokkuð úr apótekinu. Það var þó hugmynd. Ótrúlegt hvað maður getur haft litla rænu á að bjarga sér um svona smáhluti fyrr en einhver minnist á það. En nú sit ég semsagt vel birgður af Strepsils og Norskum brjóstdropum. Það voru hrein mistök að gleyma að biðja apótekaralakkrís í leiðinni. En það eru mistök sem ég og enginn annar þarf að lifa með.