Þitt og hetta

Ég er farinn að finna svolítið fyrir tímaleysi. Ég þarf orðið oft að fresta hlutum um nokkra daga eða framyfir helgi vegna anna. Það er skrýtin tilfinning.

Í fyrradag keypti ég mér bókina Miðaldabörn í ritstjórn Ármanns Jakobssonar og Torfa H. Tuliniusar. Þetta er ritgerðasafn um stöðu íslenskra barna á miðöldum. Ég get ekki beðið eftir að geta gefið mér tíma til að lesa í henni.

Ég reif plastið utanaf Hundshjarta meistara Búlgakov um daginn og hóf lestur. Komst að því að það var kannski óþarfi að kaupa hana þar sem ég kann hana utanað, án þess þó að hafa lesið hana. Handritið sem við notuðum í Herranæturuppfærslunni var nefnilega tekið orðrétt upp úr þýðingunni, utan nöfnin voru þýdd.

Ég lagaði mér áðan te í katlinum sem ég fékk að gjöf frá föður mínum og drakk það úr arabísku teglasi sem ég fékk sömuleiðis að gjöf frá sama. Teið var gott en ég notaði helst til mikið vatn. Ég þarf greinilega að prófa mig aðeins áfram. Synd var að því að hvergi gat ég fundið samskonar te og ég drakk úti í Marokkó. Það kemur kannski einhverntíma til landsins.

Á morgun höldum við Brynjar erindi fyrir skólaráð. Ég geri ráð fyrir góðum viðbrögðum.