Það vekur áhyggjur mínar, í ljósi þess að bók sem Veröld okkar vandalausra hafi verið svo hroðalega þýdd á þeim tveimur árum sem liðu frá því hún fyrst kom út þar til hún kom út á íslensku, að nýjasta bókin, Slepptu mér aldrei, skuli eiga að koma út á íslensku sama ár og hún er skrifuð. Þýðingin, gera útgefendur greinilega ráð fyrir, verður að sama skapi góð og minni tíma er eytt í hana. Að öðru leyti hlýtur tilkoma nýrrar bókar að vera mér fagnaðarefni.
Bókaforlagið Bjartur myndi svo gera vel með að þýða fyrstu bók hans, A Pale View of Hills, og endurútgefa Dreggjar dagsins (The Remains of the Day) og Í heimi kvikuls ljóss (An Artist of the Floating World). En slíkrar menningarlegrar viðleytni er erfitt að vonast eftir í þessum grimma heimi. Þannig er það nú bara.
Af verkum Ishiguro, fáanlegum sem ófáanlegum
Bókin Veröld okkar vandalausra (Once We Were Orphans) eftir Kazuo Ishiguro reyndist mér nokkur vonbrigði, varla verð þeim mikla meistara sem skrifaði Óhuggandi (The Unconsoled), einhverja þá mögnuðustu bók sem ég hef lesið. Það eru að vísu ljósir punktar í bókinni, og það gladdi mig að uppgötva að aðalpersónan, Banks, er sama tilfinningalega og samskiptalega úrhrakið og Ryder úr Óhuggandi. Þýðingin á bókinni er síður en svo til fyrirmyndar og innsláttur svo klaufskur að hann tekur út yfir allan þjófabálk. Nema það teljist réttlætanlegt að tala sitt á hvað um Mei Li og Mi Lei sem sömu persónu. Það er hreint út sagt til skammar hvað fólk þarf alltaf að flýta sér við þýðingar, eins og þær þarfnast mikillar viðkvæmni og nákvæmnisvinnu.