Jóhann

Haustið 2006 mætti segja að skrattinn hafi hitt ömmu sína (skrattar eru víst lítið í því að heimsækja ömmur sínar) þegar forlögin höguðu því þannig að ég varð kunnugur Ásgeiri Berg. Báðir vorum við nýnemar við Háskólann, hann í heimspeki og ég í íslensku, báðir grindhoraðir, ljóshærðir og aðdáendur hatta.  Öll áhugamál sameiginleg fyrir utan að honum fannst gaman að spila körfubolta, sem engum þykir á Íslandi utan Reykjanesskaga. Svo líkir, að fólki fannst, að einhverjir munu hafa haldið okkur bræður.

Ásgeir átti sér ýmis fylgitungl sem ég varð kunnugur, en eitt þeirra vafðist alltaf fyrir mér. Ég fann mig nefnilega stöðugt í þeim sporum að honum fylgdi einhver Jóhann sem ég kannaðist aldrei neitt við. Einhverju sinni kynnti ég mig fyrir einhverjum félaga Ásgeirs sem hann taldi mig hafa hitt mörgum sinnum. Hann hló og sagði: „Þetta er Jóhann!“

Nújá, svo þetta er þessi J´óhann, hugsaði ég. Við annað tækifæri álpaðist ég inn á Næsta bar eins og gjarnan gerðist á þessum árum. Þar var einhver maður á borðinu hans Ásgeirs, ólmur sem berserkur. Ég hafði aldrei séð mann tala svona með öllum líkamanum, meira að segja fótunum. Sennilega bar hann é-in sín fram með ökklunum. Þessi náungi virtist þekkja mig en ég ekki hann, og áður en ég vissi hafði hann með líkamlegum sannfæringarkrafti slegið (óvart) bjórglasið mitt langt út á gólf þar sem það fórst — og búið að henda honum út af barnum áður en ég áttaði mig á neinu.

– Hver var nú þetta? spurði ég.
– Þetta var JÓHANN! svaraði Ásgeir. GETURÐU EKKI MUNAÐ EFTIR JÓHANNI?

Oft hitti ég Jóhann og kynnti mig fyrir honum í hvert sinn, honum og Ásgeiri til mikillar gremju. Mér skildist á Ásgeiri að Jóhanni sárnaði þetta mjög. En sama hvað ég reyndi að muna Jóhann þá gat ég aldrei áttað mig á því hvernig hann liti út.

Næstum því áratug eftir að Jóhanni var varpað út af Næsta bar mætti ég snotrum manni á Hjarðarhaganum — þá var ég nýfluttur í vesturbæinn — sem heilsaði mér með virktum. Hann hefur séð örvæntingaraugnkúluvarpið í tóftum mínum sem ætíð fer af stað þegar ég þekki ekki einhvern en vil ekki láta í það skína (þetta gerist oftar en ég vil viðurkenna), svo hann bætti því hæversklega við að hann héti Jóhann (Jóhann Björn).

Nú var þetta komið, þessu andliti gæti ég ekki gleymt. Nema hvað, fjórum árum síðar dvaldist ég lengi í Kaupmannahöfn og var þá töluvert í félagsskap við allt annan Jóhann (Jóhann Heiðdal), og sá Jóhann sagði mér þessa sömu sögu, að ég hefði átt eitthvað erfitt með að þekkja sig forðum. Nú fóru hjólin að snúast í höfðinu á mér. Það var aldrei einn Jóhann, þeir voru tveir! Og Ásgeir Berg, sá óhamingjunnar apaköttur, það óafvitandi illmenni, höfuðsóttargemlingurinn atarna, hafði þá haft sinn hvorn Jóhanninn með sér sitt á hvað í eitt eða tvö ár og ætíð presenterað báða fyrir mér aðeins sem Jóhann — hinn eina og sama Jóhann eins og ég skildi það. Kameljónið Jóhann, sem aldrei leit eins út dag frá degi, var stundum óðamála en stundum spakur sem snigill.

Þessu slengdi ég framan í skúrkinn hann Ásgeir.

– Í öll þessi ár léstu mig halda að ég gæti ekki munað eftir Jóhanni, en svo voru þeir tveir!
– Jaá, þú segir nokkuð. Reyndar, þegar ég hugsa út í það, þá gætu þeir hafa verið þrír.
– ÞRÍR!?

Og svona er nú sagan af Jóhanni. Í dag þekki ég vel í sundur hinar ýmsu íterasjónir Jóhanns, sem nú býr á Akureyri en vinnur í Melabúðinni og á þríbura í Kaupmannahöfn. Ég veit samt enn ekki hver þessi þriðji Jóhann er, en mig grunar að hann muni dúkka upp fyrirvaralaust næst þegar ég hitti Ásgeir Berg á förnum vegi, og þegar ég reyni að kynna mig fyrir honum ýlfri Ásgeir furðu lostinn á mig:

– ÞETTA. ER. JÓ-HAAAANN!

Of mikið

Ég er alltaf að ´átta mig betur og betur á því að það er ómögulegt að segja já við öllu til lengdar. Árum saman var ég spánýr, ungur fræðimaður og þá var hvort tveggja óhjákvæmilega satt, að allt var ferskt og spennandi og að ég þurfti að gera þetta sama allt til að eiga séns á að verða miðaldra fræðimaður. Nú er ég, nokkuð ungur að vísu, kominn í þau spor að þurfa ekki lengur að gera allt og einmitt þá, þegar ég hélt að orkan og starfsgleðin myndi aukast mér, þá finn ég að þetta er of mikið. Ég hef tekist of mikið á hendur og þarf að takast hvort tveggja í senn, að minnka verkefnastaflann áður en viðfangsefnið deyr í höndunum á mér og hætta að segja já við öllum mögulegum samstarfsverkefnum áður en ég dey í höndum kollega minna (ókei, kannski ekki alveg svo slæmt, en samt).

Þessi gaur veit nákvæmlega hvað ég á við

Það er nefnilega alls konar annað sem mig langar að gera en að vinna frítt úti um hvippinn og hvappinn, þó að ég fái að ferðast töluvert fyrir bragðið. Því meira sem ég ferðast, fyrirles og kenni kauplaust við erlenda háskóla þeim mun minni tíma hef ég til að sinna eigin rannsóknum — þessu sem er ástæða þess að mig langaði til að verða fræðimaður til að byrja með. Og mikið í þeim verkefnastafla er einmitt eitthvað sem ég hef líka skuldbundið mig til að skila af mér á tilteknum tíma.

Þessi gaur kemst aldrei heim til sín, of mörg verkefni

Ágætur kollegi benti mér raunar föðurlega á þetta fyrir ekki svo löngu, að utan frá séð (eins og hann sæi ekki í gegnum mig) liti út fyrir að ég hefði furðu mörg verkefni. Svo ég tók saman lista yfir það helsta sem ég þarf að klára til að koma aftur að hreinu borði og það er alveg sitthvað. Mig skortir í það minnsta ekki hugmyndaflug og af þeirri sök skortir mig víst ekki verkefni heldur. Listinn inniheldur til að mynda eftirfarandi atriði:

    • Ljúka við bókarhandrit fyrir ritrýni
    • Klára þrjár næstum því fullbúnar greinar
    • Klára tvær hálfkaraðar greinar
    • Skila af mér ritstjórnarverkefni

Það er mun fleira á þessum lista, en þetta er það mikilvægasta svo þarna verður áherslan lögð á næstunni. Og nú, undir lok janúar, hef ég óvænt fundið áramótaheit mitt fyrir næstu ár og hef þó aldrei strengt slíkt áður: ENGIN FLEIRI VERKEFNI.

Set þetta hér inn svo ég gleymi því ekki sjálfur.

———
Allar myndir sem hér fylgja eru ©Arngrímur Vídalín, teknar á Canon Powershot G1X Mark II

Rannsóknamisseri

Ég veit aldrei alveg hvort fólk er að grínast þegar það spyr mig hvort við háskólafólkið séum ekki alltaf „í leyfi“, svona eins og goðsögnin um að kennarar séu alltaf í fríi. Trúið mér, að allt það frí sem kennarar fá er fyllilega verðskuldað. Ef eitthvað er þá er það of stutt.

Kannski er það þess vegna sem háskólafólk er farið að tala um rannsóknamisseri í stað rannsóknaleyfis áður. Þetta er náttúrlega ekki leyfi þó að við fáum eitt kennslulaust misseri á nokkurra ára fresti. Við erum ennþá í vinnunni þó að við séum ekki að kenna, í rauninni meira í vinnunni en vanalega því loksins fáum við tíma til að sinna stórum hluta starfsskyldna okkar. Og ef eitthvað einkennir háskólafólk eftir minni reynslu þá er það að við erum alltaf í vinnunni.

Ef ég les bók þá er ég í vinnunni. Ef ég horfi á mynd þá er ég í vinnunni. Ég fæ þá hugmynd að gera vel við mig eina kvöldstund, skelli mér í leikhús og er óvart eiginlega um leið að borga fyrir að vera í vinnunni. Ef ég dett niður á fróðlega umfjöllun um nýtrúarhreyfingar á Akureyri í upphafi 20. aldar þá, jú, er ég óvart mættur í vinnuna. Ég kveiki á sellunum, analýsera og tengi saman þræði. Ég vinn við að lesa og skrifa og kenna um bókmenntir og menningu og allt sem því tengist, og svo vill til að ég vinn við mitt helsta áhugamál, svo ég er stöðugt í gangi.

Ég segi ekki að þetta sé vandamál en áreiðanlega er það að einhverju marki óheppilegt. En í sannleika sagt, ef ég ynni við eitthvað allt annað, þá kæmi ég samt heim og læsi bók og færi ósjálfrátt að greina hana, tengja þræði og velta upp hugmyndum. Og um leið er alltaf þessi hugsun í bakheilanum að þetta, já eða þetta þarna, þetta væri sniðugt í kennslu (jafnvel í rannsóknaleyfinu hugsa ég um kennslu, og dreymir um hvað ég er misheppnaður kennari). Svo það er sennilega besta lendingin að ég vinni við þetta líka. Ég er ekki viss um að ég hefði nægt vinnsluminni til að njóta menningar í frítímanum ef ég þyrfti t.d. að díla við hagtölur í vinnunni.

En þetta var útúrdúr, ég ætlaði að tala um rannsóknamisserið mitt. Ég er núna á að ég held tíunda degi þess og hef sett upp drög að efnisyfirliti að bók sem ég ætla mér að skrifa. Hálfnað er verk þá hafið er, enda hef ég ekki annað gert. Ég hef sofið töluvert, úrvinda eftir árin sem ég varði í að byggja upp feril í von um að fá að lokum starf við þetta (ég var að vísu heppnari en flestir með hversu fá þau ár voru), og svo Covidkennsluna þegar ég loksins var kominn í draumastarfið, og áföll og ýmiss konar persónulegt álag sem hefur verið mér tryggir förunautar sömuleiðis. Hugurinn er í svolitlum graut eftir þetta allt, sem er kannski eðlilegt. Það er mikilvægt að kulna ekki í draumadjobbinu um leið og það er í hönd.

Einu sinni spurði Ragnar í Smára, að mig minnir, Þórberg Þórðarson, sem skrifaði öll sín verk með penna, hvort hann myndi nú ekki leysa verk sín betur af hendi ef hann keypti ritvél. Svar Þórbergs var að það væri óþarfi, enda hugsaði hann ekkert hraðar en hann gæti handritað. Á svipaðan hátt fer þetta misseri rólega af stað hjá mér ekki aðeins af nauðsyn, heldur einfaldlega á þeim hraða sem hugurinn leyfir.

Það eru greinar sem þarf að klára, bókarhandrit fyrir Háskólaútgáfuna sem þarf að klára og þó fyrr hefði verið, ný bók til að vinna í, fyrirlestrar sem þarf að halda, hugsanir sem þarf að hugsa, hugmyndir til að útfæra, fræði sem þarf að lesa, greina og tileinka sér, og svo má ekki gleyma því að hér er einnig líf sem þarf að lifa, og lifa því vel með sínu fólki.

Svo þetta er ekkert leyfi, nema ef til vill leyfi til að anda aðeins á meðan ég geri það sem ég geri best: að stunda rannsóknir. Og þær get ég best stundað á skrifstofunni minni, þaðan sem myndin að ofan er tekin, sem ég hef aðeins nýlega fengið eftir að hafa skrifað flest mín fræði við eldhúsborð seint um kvöld og fram á nótt þegar aðrir voru farnir að sofa, þessi ár sem maður bægslaðist um í akademíska harkinu. Það er nefnilega þetta með samband vinnu og einkalífs, það verður hratt toxískt ef maður hefur ekki vinnuaðstöðu við hæfi. Sérherbergi, bækur og skriffæri er að mínum dómi hæversk lágmarkskrafa til fræðastarfa sem ekki útheimta flóknari búnað. Með þessu þrennu er hægt að fremja einn ótrúlegasta galdur sem hugsast getur: að búa til þekkingu.

Þó að misserið fari hægt af stað hjá mér þá veit ég að það á eftir að verða gjöfult. Það er nefnilega mikils virði að fá hálft ár til að vinna úr eigin hugsunum, inni á eigin skrifstofu, umkringdur dýrmætum fræðibókum, og leiða áður óþekkta vitneskju fram fyrir sjónir fólks. Vísindin tilheyra almenningi, öll þekking er og á að vera almannaeign sama hvað sumir kynnu að segja, og það eru heimsins mestu forréttindi að hafa vísindastörf að atvinnu — að fá að auka þekkingu mannkyns og miðla henni. Fyrir það er ég óendanlega þakklátur.

Hvað er það svo sem ég ætla að gera næsta hálfa árið? Ég ætla að rannsaka og skrifa um frumkynþáttahyggju í íslenskum bókmenntum fyrri alda — hvernig hatursorðræða og afmennskun á grunni erfða og uppruna birtist okkur á tímum fyrir hið eiginlega kynþáttahugtak, sem sjálft er búið að vera í öllum skilningi öðrum en sögulegum (þ.e. saga þeirra gervivísinda sem gátu af sér hugtakið og afleiðingar þess) og menningarlegum. Enn eru til fræðimenn sem finnst óttalegt bull að rannsaka þetta, eins og sambærileg afmennskun sé einhverra hluta vegna ómöguleg bara vegna þess að fólk skorti kynþáttahugtakið og þá sértæku hugsun sem lá að baki því. Þetta er bara miklu flóknara en svo og það er vel hægt að fjalla um þetta, þetta er áþreifanlegt og raunverulegt vandamál sem nær árþúsundir aftur tímann.

Og til að sýna fram á það mun bókin mín að fjalla um svonefnda blámenn í íslenskum miðaldaritum. Eitt það sem er kannski mest sjokkerandi við þetta verkefni mitt er hversu erfitt það er að ræða það við Íslendinga, sem oft virðast halda að þetta sé sakleysislegt orð sem sé fullkomlega eðlilegt að nota í daglegu tali. Staðreyndin er hins vegar sú að langfæstir átta sig á marglaga merkingu þessa hugtaks og hvernig hún hefur þróast gegnum aldirnar.

Meira um það síðar.

Nýtt útlit

Gamla útlitið á blogginu var orðið svolítið sjúskað fannst mér. Búinn að hafa það uppi í á að giska 13-14 ár og kominn tími á eitthvað stílhreint og einfalt með sæmilega stóru letri. Útlitið er enn eitthvað að stríða mér.

Til dæmis vill stjórnkerfið ekki leyfa mér að setja upp einfalt tenglasafn á spássíu síðunnar, svo ég fór út í einhverjar hundakúnstir. En þá vantar fyrirsögnina sem skýrir hvað þetta er svo eins og stendur lítur þetta út fyrir að vera safn af handahófskenndum nöfnum, flestum úr menningargeiranum.

Þetta er semsagt það fólk sem ég þekki og veit til að er virkir bloggarar. Endilega látið í ykkur heyra ef þið viljið komast í tenglaelítuna mína. Við höldum fundi á hverju fullu tungli á leynilegum stað, þegar við munum eftir því, og efni þeirra er leynilegt nema fyrir innvígða.

Aftur til hins hliðræna

Síðastliðið misseri hef ég verið að kukla við filmuljósmyndun. Það byrjaði sakleysislega þegar ég keypti ódýra og frumstæða myndavél frá bókabúðinni á Flateyri, Kodak Ektar H35 Half-frame: nýja hönnun sem líkir nokkurn veginn alveg eftir gömlu instamaticvélunum að því undanskildu að í stað kubbs er innbyggt flass og í stað hylkis tekur vélin filmu á rúllu og skýtur á hálfan ramma í senn, svo hægt er að fá 72 myndir á 36 mynda filmu.

„Stubbar segja bless bless“

Engar stillingar eru á vélinni og í stað þess að sýna gegnum linsuna er aðeins plastgluggi á vélinni, eins og á einnota myndavélum. Myndirnar eru auðvitað misjafnar eftir því. Í raun er eiginlega ómögulegt að ná góðum myndum á vélina nema í dagsbirtu, þrátt fyrir flassið. En það er hluti af því sem heillaði mig við hana, þetta stjórnleysi og þessar allt að því handahófskenndu niðurstöður. Þetta er feiknarlega skemmtilegt ekki síður vegna þess að það er ekkert markmið hjá mér að taka skýrar eða flottar myndir. Mig langar til að taka myndir af andartökum og það er allt í lagi þótt þær verði skrýtnar, skældar og misheppnaðar. Eiginlega bara betra.

Þetta fikt jók áhuga minn á því að prófa mig áfram með alvöru myndavélar og svo vildi til að ég hafði aðgang að þrem gömlum vélum sem afi minn (sem einmitt var fæddur og uppalinn á Flateyri) átti. Internetið er gjöfult, því á því má finna upprunalega leiðbeiningabæklinga með öllum þessum myndavélum auk nýlegra myndbanda sem sýna helstu atriði sem kunna þarf skil á. Þannig komst ég fljótt af stað með að leika mér með gömlu vélarnar líka.

Og það verður að segjast að myndir teknar á filmu eru bara ekki eins og stafrænar myndir. Það er ekki hægt að líkja þessu saman, því alveg sama hversu fullkomin stafræna tæknin er og verður þá eru filmumyndir miklu hrárri, það eru svo margir þættir sem koma saman og ljósmyndarinn fær ekki niðurstöðuna fyrr en löngu seinna, sem verður þess valdandi að ósjálfrátt fer maður að taka myndir á allt annan hátt. Það er líka annars konar dýpt í filmum, birtan er önnur og skuggarnir sömuleiðis, og auðvitað allt háð því meðal annars hvernig filmu maður notar og hvernig maður notar hana. Það á sér einhver galdur stað þegar filma nemur ljós sem ég kann ekki að skýra. Mér nægir sú skýring að þetta gleður mig. Það er það eina sem ég sækist eftir með þessu dútli. Og nú hefur þetta áhugamál á skömmum tíma undið upp á sig. Ég hef skráð mig á námskeið í Myndlistarskóla Reykjavíkur til að (vonandi) læra skipulegar á þessa tækni. Hef að vísu ekki enn fengið staðfestingu á að pláss sé fyrir mig í bekknum, en það er vonandi.

Önnur hliðræn baktería sem náði taki á mér nýverið eru vínylplötur. Sumarið 2018 dvaldi ég í Kaupmannahöfn og meðan Gunni heitinn var á milli heimila geymdi ég fyrir hann ferðaplötuspilara og lítið plötusafn. Ég fiktaði auðvitað við þetta fyrst ég hafði það til varðveislu, hafði aldrei áður sett plötu undir nál og fannst þetta skemmtilegt. Öðruvísi stemning fólgin í þessu, meiri innlifun vil ég segja sem felst í nokkrum þáttum:

  • Hin fýsíska plata, sem leggja þarf undir nálina. Hver einasta rykarða, rispa eða kám (eða skortur á þessu), breidd grófanna í sjálfri plötunni, hefur áhrif á hvernig platan spilast. Ef til vill mætti halda því fram að í hvert sinn sem maður spilar sömu plötu sé það aldrei alveg sami flutningurinn.
  • Lengd plötunnar hefur áhrif á hvernig maður hlustar á hana, enda líður ekki löng stund áður en A-hliðin hefur runnið sitt skeið og snúa þarf plötunni við. Þetta útheimtir annars konar hlustun, meiri andlega viðveru. Í öllu falli finnst mér ég hlusta meira gagngert, frekar en að ég renni plötu í gegn í bakgrunninum meðan ég geri eitthvað annað.
  • Þetta hvetur fólk til að hlusta frekar á hverja plötu í heild sinni. Það hef ég raunar alltaf gert svo að því leyti er þetta engin breyting fyrir mig.

Svo ég af dellu minni keypti mér auðvitað minn eigin ferðaplötuspilara, alveg eins og þann sem Gunni átti, og borgaði sama og ekkert fyrir hann. Þessi spilari var ekki byggður til að endast og svo fór að nú nýverið keypti ég mér mjög vandaðan, reimardrifinn plötuspilara frá Lenco sem ég þurfti sjálfur að setja saman, með massífum tónarmi ólíkt þessu fislétta plastskrípi á gamla spilaranum mínum. Ég get ekki neitað því að ég elska sándið sem þessi græja framkallar, í samvinnu við Tívolítækið mitt.

Eins og með filmuna finnst mér vera allt annars konar hljómur í vínylplötum en í stafrænum skrám eins og ég hef fyrst og fremst hlustað á síðustu tvo áratugi. Mér finnst hann hlýrri og meira umfaðmandi, en ekki eins hreinn og tær. Það er eitthvað að gerast í hvert sinn sem ég spila plötu sem á sér ekki stað þegar ég spila af Spotify, eitthvað sem ég veit ekki hvað er fyrir utan allt það samspil ólíkra þátta sem á sér stað til að framkalla tónlist af plötunni. Ég heyri snark þegar kusk verður á vegi nálarinnar, og platan dansar hring eftir hring eftir því hvernig ég hef sjálfur stillt tónarminn. Það er eitthvað lífrænt við þetta.

Það er fjarri mér að halda því fram að vínyl sé betra en eitthvað annað (þessi náungi hér hefur skrifað langa og lærða grein þar sem hann heldur því fram, eins og margir audiofílar, að vínyl sé betra). Sjálfum finnst mér það ekki skipta neinu máli hvað er betra og hvað verra, og efast raunar um að það sé hægt að meta það, held það sé fyrst og síðast persónubundið og fólk á auðvitað bara að njóta þess sem það nýtur. Það er komið í tísku aftur núna að gefa út tónlist á kassettum til dæmis, sem höfðar ekki til mín. Mér hefur alltaf fundist tónninn í þeim of hár einhvern veginn. Ég myndi heldur ekki hlusta á hvernig tónlist sem er í plötuspilara. Tónlist sem er hönnuð í og fyrir stafrænt umhverfi er ég til dæmis ekki viss um að myndi skila neinu á plötuspilara umfram það sem er hægt að spila af Spotify í sæmilega góðum græjum.

Án efa eru til alls konar týpur sem snobba á þann eða hinn veginn fyrir því sem þeim þykir betra, með mishaldbærum rökum, en hvað sem því líður vil ég halda því fram að vínyl sé í öllu falli öðruvísi. Það fylgir því annars konar stemning, annars konar hljómur, og ég nýt þess betur að hlusta á uppáhaldstónlistina mína þannig. Það sem höfuðmáli skiptir eins og ég sé það er að mér þykir einfaldlega skemmtilegra að spila tónlist af plötu, í góðum plötuspilara, úr sæmilegum hátölurum. Ég nýt þess hvað allt er lifandi við þetta, án þess ég geti útskýrt hvað það er nákvæmlega sem gerir þetta lifandi.

Það er líka ákveðin aukafyrirhöfn, bæði hvað snertir vínylplötur og filmuljósmyndun. Það er lítið mál að smella af fínni mynd á símann sinn, með bestu tónlistina á Spotify tengda úr sama síma yfir í dúndrandi flottan blátannarhátalara, og njóta þess sem maður gerir. Sjálfur geri ég töluvert af hvoru tveggja, eins og flestir; er með stóran hátalara á skrifstofunni úti í Háskóla tengdan við klassíska listann minn á Tidal.

En ég verð um leið að viðurkenna, nú þegar ég er kominn á bragðið, að í hinu hliðræna finn ég mun meiri ánægju — bæði í efninu sjálfu og líka í umstanginu. Rétt eins og það er meiri athöfn og innlifun að hlusta á plötu (ég allavega fæ meira út úr því en ella) þá er það í vissum skilningi handverk að meðhöndla gamla myndavél: að stilla hana af eins og maður telur henta hverju skoti, eftir þörfum hverrar filmu, hafandi hugfast að myndirnar sjálfar eru takmarkaðar við lítinn fjölda per filmu og því skipti hver tilraun máli, að trekkja kláraða filmuna tilbaka, að arka með hana í framköllun

— og bíða.

Að vera kennari

Ég var að átta mig á því að í janúar komandi hef ég verið kennari í tíu ár. Töluvert hefur runnið til sjávar frá því ég stóð í fyrsta sinn vitlausu megin við kennaraborðið og reyndi að fela að ég var viti mínu fjær af hræðslu. Þegar kom að kaffipásu milli fyrri og seinni tíma forðaði ég mér inn á kaffistofu og stóð þar aleinn, stjarfur af ráðaleysi í tíu mínútur áður en ég sneri aftur í stofuna. Ég er ekki viss um að nemendur hafi tekið eftir neinu.

Eftir fyrstu kennslustundina á ferlinum settist ég við skrifborðið mitt, áttaði mig á því að ég hafði svitnað gegnum fötin mín, og fann að ég myndi ekki geta unnið neitt frekar þann daginn. Ég nefndi við einn lærimeistara minna að mér hefði þótt það gaman að kenna, en alveg óskaplega erfitt. „Það á að vera erfitt,“ sagði hann. „Ef það er ekki erfitt þá ertu að gera eitthvað rangt.“

Ég fékk oft í magann fyrir kennslu og stundum hafði ég lítið sem ekkert getað sofið nóttina á undan. En um leið og kennslustundin fór af stað þá einhvern veginn lánaðist þetta, og ég fann frá upphafi að mér þótti gaman að kenna og að ég vildi starfa við kennslu. Smám saman vandist þetta. Þrem árum síðar kenndi ég tvö námskeið á meistarastigi við pólskan háskóla og með tímanum var ég svo lánsamur að fá að kenna við ýmsa skóla í Evrópu og á Íslandi. Núna, eftir vel heppnaða kennslustund, finn ég til gleði sem er ef til vill ekki ólík því sem leikari finnur þegar tjaldið fellur í lok sýningar. Að kenna felur alltaf í sér vissa sviðssetningu og því er hún eðlilega alltaf krefjandi, en eftir því ánægjuleg þegar vel tekst til.

Kennarar eru stétt sem ég ber botnlausa virðingu fyrir. Frá því ég var í barnaskóla sá ég mig oft fyrir mér í kennarahlutverkinu, fann mér margar fyrirmyndir í því hlutverki, allt gegnum stormasöm gagnfræðaskólaárin, misgóð menntaskólaárin, og háskólaárin sem sérstaklega knúðu fram spurningar um hvað ég ætlaði að verða þegar ég yrði stór. Flestar mínar fyrirmyndir eru konur. Ég gerði mér sérstaklega far um að þakka öllum kennurum mínum í formálsorðum doktorsritgerðar minnar; án þeirra hefði það rit aldei orðið til, né ég orðið kennari. Enn bætast nöfn við það registur, fólk sem hefur haft og hefur enn mikil áhrif á mig. Fyrir allt það fólk verð ég ævarandi þakklátur.

Að kenna er að skilja sérhlífni eftir heima hjá sér sem best maður getur, mæta ólíkum einstaklingum og hópum með virðingu, og gera sitt besta til að mæta þörfum allra á sama tíma og maður reynir að miðla ástríðu fyrir því sem unnið er að í kennslustofunni og búa nemendum eins öruggt umhverfi og kostur er á. Það er krefjandi og getur að sama skapi verið lýjandi, í einhverjum tilvikum jafnvel ómögulegt. Kennarar upplifa oft vanþakklæti og skilningsleysi í garð starfa sinna, álag á þá er oft mikið og misjafnlega búið að innviðum vinnustaðanna; þeim aðbúnaði sem þarf að vera til staðar til að kennarar geti sinnt starfi sínu. Metnaður kennara er oft töluvert meiri en aðstæður bjóða upp á.

Nú þegar ég færist óðfluga inn á ellefta ár mitt sem kennari finnst mér við hæfi að þakka enn og aftur fyrir mig. Á þessum stutta tíma hef ég kennt þúsundum, hvernig sem þær tölur geta stemmt. Nú er það starf mitt að mennta aðra kennara og ég vona að ég geti bæði miðlað einhverju sem skiptir máli og verið öðrum hvatning. Kennarar eru ekki aðeins sú stétt sem skiptir mig mestu máli, heldur sú stétt að ég held sem skiptir yfirhöfuð mestu máli í heiminum. Ég er þakklátur fyrir að fá að tilheyra kennarastéttinni.

Ráðgátur og Þúsöld — snilld yngri áranna rifjuð upp

Er fössari? Já, svo sannarlega! Að vísu er ég meiri djammhundur en flestir svo ég kom fyrst heim af skrifstofunni klukkan átta um kvöld. Það er ekki alvöru fössari nema maður vinni fram eftir.

Þessa dagana horfi ég samtímis á X-Files og Millennium, í tilefni af því að nýverið var loksins bundinn endapunktur á fyrrnefnda þáttaröð (kemur í ljós að reykingakallinn er ekki bara pabbi Mulders, heldur er hann líka raunverulegur pabbi sonar Mulders og Scullyar (af ýmsum ástæðum bauð mér við þeim hvörfum í plottinu).

Síðarnefndi þátturinn minnir mig á tvennt: hve nojað sumt fólk var í kringum árþúsundamótin 2000, og það hvað mér þykir þúsöld vera óbærilega ljótt orð. Hvað um það, báðar þáttaraðir gerast í sama veruleika og þegar Millennium var slaufað af einhverjum peningaástæðum neyddist framleiðandinn til að ljúka söguþræði þeirra þátta með sérþætti af X-Files, þar sem Frank Black hittir Mulder og Scully.

Í því ljósi þykir mér skemmtilega klunnalegt að þau skuli hafa valið leikarann Brad Dourif (e.t.v. þekktastur í dag fyrir að leika Grím Ormstungu í Hringadróttinssögu) til að fara með hlutverk stjarnspekinöttarans Dennis Hoffman. Af hverju? Jú, því hann lék morðingjann Luther Lee Boggs í X-Files aðeins þremur árum áður og hefur auðþekkjanlegt andlit. Þegar maður horfir á þættina saman þá verða áhrifin af þessu furðuleg, eins og annar sé tvíburi hins. Sem söguþráðurinn þó útilokar — eða hvað? Dennis Hoffman reynist vera einræktaður bróðir einhverra 20 nákvæmlega eins systra, svo hversu margir skyldu bræðurnir vera?

Enn skemmtilegra er samt kjánagangurinn í X-Files. Í fyrstu seríu leikur kanadíski leikarinn Nicholas Lea einhvern al-amerískan súkkulaðidreng sem verður nærri því bráð bókstaflegs kvendjöfuls, en í annarri seríu mætir hann til leiks sem einn höfuðóvinur Mulders til endaloka tíundu seríu, hinn rússnesk-ameríski samsæriskarl í löggugæru Alex Krycek (sem að lokum fær byssukúlu í ennið öllum til mikillar gleði). Vissulega gat enginn séð fyrir framhaldið og góður leikari á ekki að þurfa að gjalda svona klunnaskapar, en þetta kemur vægast sagt furðulega út.

Ekki að ég kvarti neitt undan þessu. Þetta er bráðskemmtilegt og gefur báðum þáttaröðum óvæntan lit. Hversu margir tvífarar ætli leynist í hinum dularfulla heimi Ráðgátna og Þúsaldar? Kannski ramba ég á fleiri við þetta áhorfsmaraþon.

Að vetri loknum

Meira sem hefur gengið á þennan veturinn! Bara síðan í janúar höfum við séð:

  • Stórbruna í Ástralíu
  • Snjóflóð á Flateyri og í Esju
  • Landris við Grindavík
  • Endalausar appelsínugular og rauðar viðvaranir
  • Næstumþvístríð Bandaríkjanna við Íran (afstýrt, að líkindum, vegna annarrar uppákomu á þessum lista)
  • Veiruheimsfaraldur (sem að auki kostaði Daða og Gagnamagnið sigur í Eurovision, segja sumir)

Áreiðanlega er ég að gleyma einhverju; ég man ekki einu sinni hvernig lífið var fyrir áramót. En vírusinn hefur auðvitað aukið álag á alla, nemendur mínir og ég sjálfur erum víst ekki undanskilin, og ekki laust við að ég sé dálítið dasaður nú þegar einkunnir hafa verið veittar og lokaritgerðir á leið til prófdómara.

Hvað hef ég verið að gera þess utan? Ég velti því fyrir mér, því mér finnst ég aldrei gera neitt. Ég kláraði nýverið bók Michels Houllebecq um H.P. Lovecraft, Contre le monde, contre la vie (Ullabjakk um ullabjakk, gæti hún heitið á íslensku), sem Sverrir Norland benti mér á. Áhugavert í sjálfu sér að höfundur sem seinna meir átti ekki eftir að hata að vera umdeildur skuli hafa hafið feril sinn á bók um Lovecraft, svo mikinn rasista að fólki finnst það þurfa að réttlæta að það yfirleitt lesi hann. Margt sem hann segir um hann er gáfulegt, sumu er ég ósammála. Mæli með bókinni fyrir áhugasama.

Ég las líka meistaraverkið Í barndómi eftir Jakobínu Sigurðardóttur. Þrælmerkileg bók sem skilur margt eftir, mætti jafnvel kalla hana ritgerð um minnið.

Svo fékk ég víst styrk líka úr kennslumálasjóði til að hressa nokkuð laglega upp á eitt námskeiða minna með viðtölum við rithöfunda og fræðimenn. Æskilegt væri að hafa þetta tilbúið fyrir haustið svo ég hef nóg að gera í sumar.

Annars bara mest lítið.

Vanhugsað sumarmisseri

Það er áhugavert að lesa um það í fjölmiðlum að menntamálaráðherra ætli að veita fjármunum inn í skólakerfið svo að hægt verði að kenna í framhalds- og háskólum í sumar. Það að kennarar frétti þetta fyrst í fjölmiðlum gefur til kynna að ekkert samráð hafi verið við skólastjórnendur, og ég held að við séum allflest frekar hissa á þessu.

Svo ég byrji á sjálfum mér þá er ég aðjunkt við Háskóla Íslands. Starfsskyldur mínar eru að tveim þriðju hluta kennsla og að þriðja hluta rannsóknir. Svo vill til að almanaksárið skiptist gróflega þannig að kennsla fer fram frá september út apríl og síðan eru fjórir mánuðir sem ég á eftir til rannsókna. Allflestir háskólakennarar nýta sumrin í rannsóknir. Að vísu er ótalið að vinna í kringum lokaritgerðir, prófayfirferð og kennsluundirbúning fyrir haustið tekur töluvert af þessum fjórum mánuðum. Síðan er sumarfrí þarna inni í líka. Með öðrum orðum er rannsóknatími minn þegar skorinn niður miðað við allar eðlilegar forsendur. Virkir rannsakendur fá í raun ekki sumarfrí.

Mér er borgað fyrir að stunda þessar rannsóknir og þess er krafist að ég stundi þær. Rannsóknir eru líka forsenda framgangs í starfi, þær stýra röðun í launaflokka og í mínu tilviki eru þær sérstaklega mikilvægar af því ég er ekki í fastri stöðu. Eitt það sem helst er litið til við ráðningar í fastar stöður er rannsóknavirkni. Það getur því beinlínis kostað mig fast starf í framtíðinni ef ég stend mig ekki í rannsóknum.

Síðan lýsir ráðherra því yfir að það eigi að kenna í háskólum í sumar. Það er komið fast fram að mánaðamótum apríl-maí og ekkert í þessa veru hefur verið undirbúið. Ég hlýt að spyrja hvað nákvæmlega eigi að kenna, og hvaða fólk eigi að kenna það? Háskólakennarar fá ekki greidda yfirvinnu, við tökum alla yfirvinnu út í kennsluafslætti síðar. En nú er búist við sprengingu í nýskráningum í háskólana í haust, bæði vegna faraldursins en í kennaranámið sem ég kenni hefur þegar verið mikil fjölgun nemenda milli ára. Á ég þá að kenna í sumar og fórna til þess rannsóknatíma mínum og sumarfríi til þess eins að kenna minna í vetur þegar holskefla nemenda gengur yfir?

Það er nógu erfitt til að byrja með að manna þá kennslu sem fyrir er í allflestum deildum háskólans sem ég þekki til þó að þetta bætist ekki við, ekki síst vegna uppsafnaðrar yfirvinnu háskólakennara. Og fyrirvarinn er enginn, þetta kemur eins og þruma úr heiðskíru lofti. Ég sé ekki að háskólunum sé fært að bregðast við þessu. Þar við bætist að mínir nemendur eru allflestir uppgefnir eftir hryllilega erfitt misseri. Ég sé ekki fyrir mér að þau séu beinlínis ólm í að halda álaginu út sumarið.

Enn síður get ég ímyndað mér að framhaldsskólakennarar séu hressir með þessa yfirlýsingu. Það þekkir enginn sem ekki hefur kennt við framhaldsskóla hverslags ómanneskjulegt álag er á kennarana og hversu nauðsynlegt sumarfríið er þeim. Það er ekki hægt að ætlast til þess af nokkrum framhaldsskólakennara að hann kenni á sumrin líka. Nú eru sérstæðar kringumstæður sem hafa gert starf þeirra ennþá erfiðara en nokkru sinni fyrr og hreint út sagt furðulegt að láta sér detta í hug að halda úti kennslu yfir sumarið nema markmiðið sé hreinlega að sem flestir kennarar brenni yfir í starfi. Nemendum veitir heldur ekkert af fríinu, tíma til að pústa og hugsa um sjálf sig. Ég man það vel hve langur veturinn er framhaldsskólanemanum og hversu kærkomið sumrið var. Þá er ekkert aðalatriði að fá sumarvinnu, þessi vinnukúltúr meðal ungmenna er hvort sem er heldur yfirgengilegur hér á landi. Ungmennin okkar eiga skilið að fá frí til þess eins að vera ungmenni og njóta lífsins.

Í sem fæstum orðum sagt átta ég mig ekki á því hvaðan menntamálaráðherra fær þessa hugmynd sína. Hún er varla tekin í samráði við skólana, annars hefðu kennarar væntanlega frétt þetta fyrr. Ég hef ekki fengið neina orðsendingu frá rektor eða sviðsforseta þess efnis að verið sé að undirbúa sumarönn við Háskóla Íslands, þó að einhver orðsending hljóti að vera væntanleg. Við hljótum að þurfa að ræða þetta í skólunum. Fyrst mætti þó kanna hvaða heimtur voru á nemendum á sumarmisseri 2009 eftir bankahrun, sem tókst að skipuleggja með miklum mun lengri fyrirvara, áður en ráðist verður í þessa aðgerð. Það væri fróðlegt að vita hverjar þær voru, en þar sem ég þekki best til voru heimturnar ærið litlar og varla fyrirhafnarinnar virði.

En ég sé ekki hvernig í ósköpunum þetta á að vera gerlegt, með hvaða mannskap, og hvað eigi þá að kenna.

Í dag er sumardagurinn fyrsti og enginn veit hvernig eigi að útfæra þetta.

Þekkingarfræði skáldskapar

Fyrirsögnin hér er kannski helst til háfleyg. Ég var að velta fyrir mér hvernig aðdáendur kvikmynda á borð við Stjörnustríð vita það sem þeir telja sig vita um söguheiminn. Þetta er hugmynd sem kviknaði fyrst þegar ég fór að sjá Scream 2 í bíó árið 1997. Þar leikur Timothy Olyphant morðóðan kvikmyndanörð sem þykja bangsarnir í Return of the Jedi ekkert skemmtilegir. Eftirfarandi samskipti eiga sér stað milli hans og skólasystur hans:

Hallie: I like the little furry things.
Mickey: Ewoks, they blow.

Þarna man ég að ég hugsaði, í Stjörnubíó þar sem ég sá myndina: Ha? Persónan er greinilega að rugla böngsunum saman við dýrategundina Wookiee, nema hann segir nafnið aftur á bak. Seinna komst ég að því að þetta er í raun og veru það sem bangsarnir eru kallaðir – nema þeir eru aldrei kallaðir þetta í myndinni sjálfri. Þetta er lykilatriði. Bókmenntafræðingar læra það í námi sínu að ekki sé hægt að greina bækur út frá atriðum sem hvergi koma fyrir í þeim. Það er ekki hægt að skálda eitthvað inn í texta til að láta það passa betur við einhverjar hugmyndir (eins og Rósa B. Blöndals gerir í bók sinni Leyndar ástir í Njálu – svo leyndar eru ástirnar að Njála segir ekkert um þær). Hvernig er þá hægt að halda því fram að bangsategundin heiti Ewok ef það kemur hvergi fram nema á leikfangaöskjum, skrifum aðdáenda og öðru aukaefni sem stendur algerlega utan við myndirnar sjálfar?

Svarið felst í þeirri þekkingarfræðilegu afstöðu sem við, neytendur Stjörnustríðs, höfum til viðfangsefnisins. Margir aðdáendur vilja sökkva sér ofan í allt mögulegt ítarefni sem ekki er komið frá hinum upprunalegu höfundum. Þannig hafa margir skrifað langa myndasagna- og skáldsagnabálka, þá eru til teiknimyndaseríur sem eiga að fylla betur inn í heildarmyndina, tölvuleikir sem bæta við persónum og segja nýjar sögur og ýmislegt fleira í þessum dúr. Þessu fólki finnst ekkert mál að fella sig við að bangsarnir heiti Ewok.

Ég, aftur á móti, hef þá einstrengingslegu afstöðu að ég tek ekkert gilt sem ekki kemur fram í myndunum sjálfum. Myndirnar eru eina kanónan sem ég sætti mig við. Stundum búa aðdáendur til hugtök (t.d. Sith) sem rata inn í kvikmyndirnar sjálfar, en það er fátítt samspil.

Fyrir vikið hlýtur mín persónulega niðurstaða að vera á þá leið að heill helvítis hellingur sem margir ganga að sem vísu um heim Stjörnustríðs er einfaldlega ekki byggt á nægilega sterkum þekkingarfræðilegum grunni til að ég leyfi mér að fullyrða um það. Bangsana kalla ég einfaldlega bangsana, því þeir eru einhvers konar bangsar. Öll kristalsfræðin kringum geislasverðin eru þvæla sem kemur myndunum ekkert við, og þar með er engin raunveruleg skýring á bakvið hjöltin á sverði Kylo Ren (hann á að hafa notað brotinn kristal, þess vegna klofni geislinn svona). Einhver mun sömuleiðis hafa ákveðið að furðudýrin Tauntaun séu skriðdýr, en fyrir því höfum við enga staðfestu innan kvikmyndanna sjálfra. Og við vitum heldur ekkert hvað Kessel Run merkir af því enginn með réttu ráði viðurkennir tilvist kvikmyndarinnar um Han Solo. Vákarnir eiga að vera frá plánetunni Kashyyk. Það kemur hvergi fram í nokkurri bíómynd. Og svo framvegis og svo framvegis.

Þetta er mín leiðinlega og einstrengingslega afstaða til Stjörnustríðs og sömuleiðis annarra sambærilegra sagnabálka, ritaðra eða kvikmyndaðra. Ef J.K. Rowling segir eitthvað í viðtali um Harry Potter þá tek ég það heldur ekki gilt, ekki nema það hafi komið fram í bókunum eða myndunum (sem eru, vel að merkja, ekki sama eining – verða ekki greindar saman). Þetta er auðvitað virðingarverð afstaða hjá sjálfum mér og allir aðrir hafa augljóslega rangt fyrir sér. Og hananú.

 

Viðbætir
Mér var bent á að í kreditlistanum að Return of the Jedi komi heitið Ewok fyrir. Þá má velta fyrir sér hvort það gildi til að bangsarnir heiti þetta innan kvikmyndaheimsins, eða hvort kreditlistinn standi utan við myndina sjálfa (t.d. standa handritshöfundar og ljósahönnuðir og aðrir utan við myndina sjálfa, því þá ekki nöfn persóna sem aldrei eru nefnd í myndinni?).

Svo við höldum okkur við Stjörnustríð þá kemur fyrir aukapersóna í Attack of the Clones sem reynir að selja Obi Wan eiturlyf. Þessi persóna er aldrei nefnd á nafn. Í kreditlista er hann hins vegar kallaður Elan Sel’Sabagno. Hefur þetta nafn einhverja þýðingu fyrir myndina? Hægt er að hafa tvenna skoðun á því: annars vegar að taka kreditlistann gildan sem höfundarætlan, eða að líta aðeins á listaverkið sjálft og hafna því sem ekki kemur fyrir í verkinu sjálfu. Sjálfur undanskil ég kreditlistann frá verkinu því þessi ósögðu nöfn sem þar birtast eru í raun ekki annað en merkimiðar fyrir framleiðendur. Eiturlyfjasalinn í Attack of the Clones á sér enga baksögu og ekkert nafn þó að hann fái nafn til hægðarauka í framleiðsluferlinu.

En svo má auðvitað hafa aðra skoðun á því.