Omar Little og Sigmundur Brestisson

***Ekki er um að villast að hér á eftir fer efni sem spillt gæti Færeyinga sögu og The Wire fyrir fólki***

Skammt er síðan ég horfði á The Wire (ísl. Í heyranda holti) frá upphafi til enda og hafði ekki áður séð. Eins og svo oft fannst mér margt minna á Íslendingasögu í nútímanum. Það er sennilega ekkert frumlegt en ég fór að velta fyrir mér hvort það væri, einhvers staðar þarna í þessum mikla efniviði, einhver þráður fyrir mig að elta og ef til vill skrifa um. Kræsilegustu persónurnar til að líta til væru sennilegast Omar Little, Stringer Bell, Snoop (sýkópatastelpan með naglabyssuna; ég held að Stephen King hafi kallað hana óhugnanlegasta illkvendi allra tíma), og svo náttúrlega löggurnar sem jaðra stundum við að vera hálfu verri en krimmarnir (vont er þeirra ranglæti, verra þeirra réttlæti, eins og þar segir).

Í fimmtu og síðustu þáttaröð fannst mér þessi pæling byrja að ljúkast upp fyrir mér og það er enn margt fyrir mig að melta og ígrunda, og síðan þarf ég auðvitað að horfa aftur. En svona til gamans hér langar mig aðeins að bera saman Omar Little og Sigmund Brestisson. Meira skilur þá að en sameinar, en þetta síðarnefnda er samt að mér finnst skemmtilega hliðstætt.

Nálega frá upphafi sinnar sögu er Sigmundur í nokkurs konar útlegð ásamt Þóri bróður sínum, rétt eins og Omar Little stendur utan við valdastrúktúr undirheimanna, er sjálfs sín herra. Faðir þeirra og föðurbróðir höfðu þá verið vegnir af Hafgrími og handbendum hans,  en meðal þeirra var Þrándur í Götu þótt hann aðhefðist ekkert sjálfur annað en að eggja til atlögu (hann kallar Hafgrím skauð, sem fyrir forvitna merkir allt í senn: forhúð á hestsgöndli, kvensköp, sverðsslíður, bleyða), og féll Hafgrímur sjálfur. Þrándur vill næst láta drepa drengina en þykist hafa verið að gantast þegar viðtökurnar verða dræmar og fóstrar drengina þess í stað. Nema hvað, hann sendir þá síðan á laun til Noregs svo þeir muni aldrei snúa aftur til Færeyja (með hvaða hætti sem það er gert, tekur hann fram, og við skiljum þegar) og greiðir silfur fyrir (kunnuglegt stef).

En aldrei skal láta annan fremja sín eigin ódæði og þiggjandinn er enginn Júdas, hann er meiri skógarhöggsmaður. Margt hefði Þrándur getað lært af Disneymyndinni um Mjallhvíti. Þrándur áttar sig heldur ekki á því að hann er persóna í sögu og því sé augljóst að bræðurnir snúi aftur og leiti hefnda. En það mun ekki fara eins og nútímalesanda er vant að búast við. Þetta er ekki Hrafninn flýgur (sem hefst á þeim spakmælum að vopn séu bitlaus gagnvart orðum, en snýst síðan mest um að halda kjafti og drepa sem mest).

Hvað um það, sagan segir síðan af ævintýrum Sigmundar Brestissonar í Noregi og víðar, sem bersýnilega er hið allra mesta hreystimenni sem nokkru sinni hefur komið úr Færeyjum og þó víðar sé leitað, öllum fremri í sérhverri íþrótt að undanskildum Ólafi Tryggvasyni Noregskonungi. Eftir heilmikinn hernað, sem af fara miklar frægðarsögur sem berast á undan Sigmundi heim, snýr hann loks sjálfur aftur, þreyttur á því að sér sé brigslað fyrir að hefna ekki föður síns. Omar mættur með haglarann út í Skúfey. Haglarinn í þessu tilviki er nýfundinn átrúnaður á Þorgerði Hörðabrúði, sem í ýmsum frásögnum er einhvers konar magísk tröllskessa eða vættur, og vernd Hörðabrúðarinnar er bundin í hring sem hann skyldi aldrei lóga. Hringurinn er haglarinn, en fram að þessu hafði Sigmundur aðeins trúað á mátt sinn og megin, eins og fleiri sagnahetjur fyrir kristnitöku. Omar trúir mest á sjálfan sig; haglarinn er bara verkfæri.

Sigmundur tekur til óspilltra málanna að brytja þá niður sem myrtu föður sinn og frænda og hefðu jafnvel drepið þá bræður einnig, hefði einn maður ekki staðið í vegi fyrir því. Þránd ætlar Sigmundur síðan að leiða til Hákons jarls til sættagerðar, sem Þrándi lýst vitanlega ekkert á því hvað veit hann hvað hans bíður þar. Munurinn á Sigmundi og Omar er að fyrrnefndi er heiðursmaður og ekki sérlega slyngur, en þó að Omar láti plata sig tvisvar svífst hann einskis og er iðulega mörgum skrefum á undan andstæðingum sínum. Fer svo á endum að Sigmundur eignast forræði yfir eyjum öllum og þjarmar nú mjög að Þrándi. Gerist síðan kristinn fyrir tilstilli Ólafs Tryggvasonar, heldur samt haglaranumm og reynir að kristna Færeyjar en fær alla upp á móti sér fyrir tilstilli Þrándar. Fer svo í skjóli nætur með lið og lætur skíra Þránd með valdi og alla hans menn, en gætir hvorki að varnaðarorðum þess efnis að lifi Þrándur verði það hans bani, og að lógi hann ekki haglaranum verði það einnig hans bani.

Nú sér lesandi að það er fátt beinlínis sameiginlegt með Omar Little og Sigmundi Brestissyni, utan að þeir eru í andstöðu við gamla valdið og leita hefnda eftir sína. Að lokum hallar svo undan fæti hjá báðum og örlög þeirra beggja eru ekki einasta sjokkerandi og óvænt, heldur furðu lík. Að ýmsu öðru leyti minnir Sigmundur meira á Stringer Bell, sem telur sig réttan arftaka valdsins og unir engum mótbárum gegn fyrirætlunum sínum. Stringer trompast þegar undirmenn hans skilja ekki hvers vegna stjórn yfir götuhornum skiptir ekki í sjálfu sér máli þegar hann mætir með viðskiptafræðimódelið sitt á gangsterafund, eipsjittar síðan á Avon Barksdale með játningu á morði frænda hans til að virðast stærri maður, og þar með eru örlög hans ráðin. Sigmundur neitar að bæta morðið á Leifi Össurarsyni, sem framið var í hefndarskyni, enda hafi nú dauður jarl fyrir löngu ákveðið að hann skyldi óbættur — og þar ráðast örlög Sigmundar að endingu.

En víkur nú sögu aftur að gildrunni sem lögð er fyrir Omar og Sigmund. Omar hefur verið duglegur að hreinsa út greni andstæðinga sinna með haglarann á lofti og ber nú svo til að hann, ásamt föruneyti, brýst inn í blokkaríbúð á að giska á tíundu hæð eða svo, og situr þar lið fyrir þeim. Förunautar Omars eru vegnir við litla viðhöfn og Omar sjálfur er króaður af á bakvið sófa, kemur engum vörnum við, haglarinn hvergi í seilingarfjarlægð, og á um tvo kosti að velja: falla þar eða kasta sér út um glugga upp á von og óvon um að lifa af fallið. Þetta er dautt val, eins og kennari minn Róbert Haraldsson kallaði það í fílunni forðum daga. Óvinir hans hlaupa þegar að glugganum og sjá að Omar er horfinn, hvernig sem á því stendur.

Sigmundur Brestisson stingur sér til sunds

Þrándur á hinn bóginn mætir með lið og brennir hús Sigmundar, en Sigmundur og Þórir bróðir hans hafa séð við þeim og eru ekki á staðnum. Sigmundur vegur einn úr launsátri en er á flótta og stendur loks, haglaralaus, við þverhnípi og getur sig hvergi varið. Þeir bræður kasta sér fram af hamrinum út í sjó og ætla sér að synda í burt. „Þar fóru þeir nú,“ segir Þrándur og er þeir leita Sigmundar og Þóris, þá finnast þeir hvergi.

Omar skakklappast enn um Baldinnamæri með sinn haglara eins og göngustaf („eigi skal haltur ganga meðan báðir fætur eru jafnlangir“, sagði Omar, er manna vígfimastur var þeirra er þá voru einfættir) og murkar enn lífið úr fólki. Fer síðan inn í sjoppuna sína gamalkunnu að kaupa sígó og prins póló, þegar drengur sem lítt hefur komið við sögu fyrr álpast inn í sjoppuna og ber á hann kennsl. Omar sér litla ógn í drengnum og ætlar sér að greiða fyrir góssið, en veit ekki fyrr en hann hefur verið skotinn af skömmu færi í höfuðið. Er þá Omar Little úr sögunni. Munið krakkar, að reykingar drepa.

Er þá að segja frá Sigmundi að honum skolar einum l´ífs á land í Suðurey eftir mikið volk í illskeyttu hafi, „og var þá svo máttfarinn að hann mátti eigi ganga og skreið upp í fjöruna.“ Af hendingu býr þar skammt frá einn af nótum Þrándar að nafni Þorgrímur illi (með svona viðurnefni þarf maður enga óvini) og synir hans tveir. Þeir drepa Sigmund varnarlausan þar í fjörunni, ræna líkið og fela.

Hér lýkur þessum samlestri að sinni. Það sem án vafa er óvæntast í Færeyinga sögu er að Þrándi þykir illt hvernig farið er fyrir frænda sínum sem hann þó sjálfur ætlaði að myrða, og beitir fjölkynngi til að komast að því hver muni hafa komið Sigmundi fyrir kattarnef. Í báðum sögum heldur pólitíkin áfram með sínum skærum í undirheimum Færeyja/Baltimore. Sæmdarvíg ganga áfram á báða bóga og að endingu er Þrándi steypt af stóli og nýtt fólk tekur við Götuhornunum.

Viðtakendur beggja sagna átta sig á því að það skiptir engu máli þó að einhverjum einum eða tveim skúrkum sé kálað, þeir spretta upp eins og gorkúlur eftir sem áður, og hið sama gildir um stjórnmálastéttina sem kynslóð eftir kynslóð lofar öllu fögru, vill útrýma skærum og glæpum en stendur svo valdalaus gagnvart sjálfri sér og kerfinu meðan samfélagið brennur. Starf hennar er tilgangslaust. Starf löggunnar er tilgangslaust. Það eina sem hefur tilgang er hver hefur töglin og hagldirnar á götunni eða í Götu. Það er eina fólkið sem kemst áfram í lífinu og hefur að einhverju að stefna, enda þótt lífið sé gjarnan stutt og dauðsmátinn ferlegur.

Síðast en ekki síst þá er enginn góður kall og enginn vondur kall, þetta er allt bara spurning um samhengi og hagsmuni. Það er nefnilega alveg rétt sem Hákon jarl varar Sigmund við þegar síðarnefndi kveðst vilja til Færeyja, að „hafið er torsóttlegt til eyjanna og brim mikið“; bara ekki í þeirri merkingu sem augljósust er. Ofbeldi getur af sér ofbeldi og Færeyjum verður ekki bjargað frekar en Baltimore. Þar stendur til þessa dags stytta af Þrándi í Götu, standandi keik á einhverjum illskiljanlegum ás sem kannski heimamenn einir skilja.

Af skrýtnum tilboðum

Ég hef líkt og flestir fengið minn skerf af undarlegum tilboðum sem fela í sér að ég vinni tiltekið verkefni fyrir aðila sem skilur ekki að fólk nenni ekki að sjálfboðaliðast kringum alla hans tilveru.

Eitt slíkt dæmi sem rifjast reglulega upp fyrir mér er þegar falast var eftir því að ég mætti á alþjóðlega kvikmyndahátíð og stýrði umræðum við tiltekinn leikstjóra eftir sýningu á nýjustu mynd hans. Nú eru slík verkefni alveg á mínu færi og sérsviði en ég hafði hvorki séð eina einustu mynd eftir umræddan leikstjóra né heyrt um viðkomandi fyrr.

Kjáni sem ég var að reikna með því að haft hefði verið samband við mig vegna fræðilegrar þekkingar á bókmenntum og kvikmyndum fór ég að telja upp hvers konar vinnu þetta myndi útheimta af minni hálfu:

 1. Ég myndi þurfa að kynna mér verk viðkomandi leikstjóra í það minnsta sæmilega, svo ég yrði samræðuhæfur um fleiri myndir en þessa einu og gæti þar með dregið upp sameiginlega þræði í höfundarverkinu og greint í samræðu við leikstjórann.
 2. Vitanlega þyrfti ég að eiga þess kost að sjá nýju myndina ekki sjaldnar en tvisvar og jafnvel oftar, því einkanlega yrði ég að hafa þokkalegt vit á henni.
 3. Allt tæki þetta töluverðan tíma frá öðrum störfum mínum (mikilvægum, að mér fannst, en ekki verkbeiðanda), fyrir utan svo kvöldið sjálft í bíóhúsinu.

Svo ég spurði, eftir að hafa útlistað þetta allt saman, hvort það væri ekki þóknun fyrir viðvikið. Hvort það nú væri, maður: heill frípassi á kvikmyndahátíðina sjálfa. Umbunin fyrir verkefni sem tæki mig minnst þrjá heila vinnudaga var semsagt að fá mér að kostnaðarlausu að verja ennþá meiri tíma launalaust frá vinnu.

Höfum það alveg á hreinu að kvikmyndahátíð er ekkert annað en ráðstefna. Kvikmyndirnar sjálfar eru erindin og umræðurnar á eftir eiga að snúa um erindin og samhengi þeirra í listinni. Það er ábyggilega hægt að bjóða hvaða jólasveini sem er að stýra einhverjum yfirborðskenndum umræðum eftir bíósýningu, en ef þú biður fræðimann um að gera það þá gengur ekki að láta eins og kvikmyndahátíðin sjálf sé ekki vinna fyrir viðkomandi, hann mun alltaf nálgast þetta eins og ráðstefnu.

Maður mætir fjandakornið ekki á ráðstefnu, þó það heiti kvikmyndahátíð, til að blaðra innihaldslaust eins og Kolbrún Bergþórsdóttir í sjónvarpssetti, hvað þá að mæta nálega fyrirvaralaust á ráðstefnu sem maður hefur ekki sýnt nokkurn próaktífan áhuga á, til að þykjast hafa hundsvit á listamanni sem maður fær ekkert svigrúm til að yfirleitt kynna sér, til þess eins að fá ráðstefnugjöldin niðurfelld. Gjöldin á ráðstefnuna sem maður ætlaði sér ekki yfirleitt að mæta á, ekki síst vegna annarra verkefna (sem svo vill til að maður er í launaðri vinnu annars staðar við að sinna).

Það er ekki það, ég hefði svosem alveg þekkst boðið fyrir einhverja málamyndagreiðslu. En þessi aumingjans leikstjóri var tæpast kominn alla leið til Íslands til þess eins að vera afgreiddur svona billega eða af svo lítilli virðingu fyrir verkum hans. Sama þó svona hátíðir séu illa fjármagnaðar þá verður að vera einhver standard annar en sá að véla B.A.-nema í hinum ýmsu menningarfræðum til að kollast á sviðinu, um leið og það verður að vera kristaltært að fræðimenn hafa engan áhuga á því að taka kauplaust að sér störf annarra.

Svo eðlilega afþakkaði ég. Mér fannst ég heyra furðuna í þöglu innhólfinu hinum megin. Var auðvitað aldrei beðinn aftur og hef ekki saknað þess. Svo vegur enn salt innra með mér öllum þessum árum síðar, hvort ég eigi að vona að einhver góður hafi fengist í þetta launalausa verkefni leikstjórans vegna, eða að enginn hæfur hafi fengist prinsípsins vegna.

Mér hefur virst að almenna stemningin í þjóðfélaginu sé sú að fólki leiðast prinsípmenn og ítrekað rekið mig á það, svo kannski er það ég sem er fíflið í þessari sögu.

Íslendingar skilja ekki einkarekstur

Mann setur hljóðan þegar Perlan í samkrulli við Samtök ferðaþjónustunnar kvartar til samkeppnisyfirlitsins undan því að Náttúruminjasafn Íslands ætli að setja upp sýningu á náttúruminjum „í beinni samkeppni við sig“. Er mönnum ekki sjálfrátt eða ultu þeir kannski á hausinn? Þarf einu sinni að útskýra fyrir fólki hve mikið eip þetta er? Jú, greinilega. Því þetta er álíka vitrænt eins og ef Víkingasögusafnið færi í mál við Þjóðminjasafn Íslands vegna „beinnar samkeppni“; ef einhverjum jólasveini áskotnaðist sautjándu aldar pappírssnifsi og færi í mál við Árnastofnun.

Íslenskar ríkisstofnanir hafa lagalegar skuldbindingar um miðlun upplýsinga til almennings. Það þó að einhver fígúra úti í bæ stofni fyrirtæki um sams konar fræðslu kemur hinu opinbera ekkert við, enda er sá rekstur alfarið á ábyrgð viðkomandi.

Fleirum virðist óskiljanlegt hvernig samspil ríkis- og einkarekstrar virkar. Til að mynda virðist ráðherra vísinda, nýsköpunar og iðnaðar telja að ríkið eigi að lágmarka kostnað af rekstri opinberra stofnana, til dæmis Háskóla Íslands, en verja þeim mun meiri fjármunum til stofnana í einkaeigu, til dæmis Háskólans á Bifröst (sjá t.d. hér og hér). Það hvarflar ekki að ráðherranum að hlutverk hennar er að halda úti opinberu menntakerfi fyrir alla og að aðrir rekstraraðilar á sama „markaði“ verði að sjá um eigin rekstur á eigin kostnað. Þannig virkar þessi kapítalismi sem ráðherrann þykist trúa á en gerir greinilega ekki. Auðvitað er jákvætt að framboð á háskólamenntun sé sem allra mest en ríkið ber aðeins skyldu gagnvart sínum eigin stofnunum. Það skýtur því skökku við þegar opinberar stofnanir sæta niðurskurði svo hægt sé að veita hærri styrkjum til einkaaðila.

Á Íslandi virðast sömuleiðis margir aðhyllast þau trúarbrögð að ríkið eigi alls ekki að reka sinn eigin fjölmiðil, en í nafni lýðræðis sé annað ómögulegt en að ríkið haldi einkareknum fjölmiðlum á lífi enda gætu þeir annars ekki rekið sig í svo smáu samfélagi, ekki síst sakir þess að rekstrarumhverfi fjölmiðla hefur gjörbreyst á internetöld. Á Íslandi er fyrirkomulagið nefnilega þannig að hver sá sem stofnar fjölmiðil virðist eiga heimtingu á opinberu fé til að halda rekstrinum úti ef fyrirtækið rekur sig ekki — og jafnvel þó það ræki sig með hagnaði. Það var lengi trú mín að kapítalismi snerist ekki síður um að fyrirtæki mættu fara á hausinn en ég hef greinilega haft rangt fyrir mér. Kapítalismi virðist fremur ganga út á að leggja niður ríkismiðilinn og verja sömu fjármunum í einkarekna fjölmiðla því enginn vill kaupa áskrift hjá þeim á hvorn veginn sem er.

Þá er einnig kvartað undan því að ríkisútvarpið sé „á auglýsingamarkaði“, sem eru merkingarlaus orð enda er sá markaður botnlaus hít. Ríkisútvarpið getur ekki hirt auglýsingatekjur af einkareknum miðlum vegna þess einfaldlega að ríkisútvarpið er hrein viðbót á auglýsingamarkaði. Fari RÚV út þá breytist ekkert fyrir hina sem eru eftir. Eins og svo margt annað er innihaldslaust sífrið um „samkeppni“ ríkisútvarpsins við aðra fjölmiðla ekki annað en einmitt það.

Bankar mega heldur ekki fara á hausinn, en því síður má ríkið reka banka; svo þegar bankar fara á hausinn neyðist ríkið til að kaupa bankana frá gjaldþroti til þess eins að selja þá aftur. Þessi lógík gengur bersýnilega upp í hausnum á ýmsu fólki á alþingi, þó að ýmislegt megi út á hana setja.

Hið opinbera hefur margvíslegum skyldum að gegna gagnvart íbúum ríkisins, til að mynda að halda úti grundvallaralmannaþjónustu. Undir það hlutverk fellur meðal annars rekstur safna, menntastofnana, heilbrigðisstofnana og ríkismiðils í almannaþágu. Þetta er gert af ótal ástæðum en ekki síst til þess að tryggja að óháð því hvernig fyrirtækjum reiðir af á almennum markaði, þá sé sú þjónusta alltaf til staðar fyrir alla sem hafa á henni þörf. Hlutverk hins opinbera er ekki að halda uppi fjárhagslega óburðugum einkafyrirtækjum sem sækja inn á svið almannaþjónustunnar, til að mynda með stofnun fjölmiðla, einkaskóla eða fræðslusýninga.

Gangi þeim aðilum sem allra best sem stofna fyrirtæki í samkeppni við almannaþjónustuna, en þeir verða að átta sig á að það er úr þeirra eigin ranni sem samkeppnin kemur, ekki af hálfu ríkisins. Hið opinbera ber því eðlilega enga ábyrgð á því hvernig þeim reiðir af. Ef þeirra er ágóðinn þá er áhættan þeirra sömuleiðis.

Fótlausi andlegi leiðangursmaðurinn

Ég rakst á nafn í fjölmiðlum sem ég kannast vel við og smettið á myndinni sem fylgdi staðfesti að um sama mann er að ræða. Ég kynntist honum kannski aldrei neitt vel en við urðum málkunnugir í Hornafirði 2006. Þá stefndi allt í að hálendinu norðvestur af Héraði yrði sökkt, sem varð og raunin, og náungi þessi ákvað að leggjast í andlegan leiðangur austur, fótgangandi til Kringilsárrana við Kárahnjúka.

Fyrstu nóttina svaf hann að sögn í Elliðavogshrauni austur af Bláfjöllum og fannst mér það ekki sérlega mikil afreksganga á einum degi, þó ég auðvitað héldi um það kjafti. Síðan þegar hann var kominn eitthvað áleiðis austur, kannski á Mýrdalssand, var hann búinn að rústa fótunum og skórnir voru fullir af blóði. Restina af leiðinni til Hafnar fór hann á puttanum og þar ætlaði hann að jafna sig áður en hann héldi áfram ferðinni upp á hálendi. Við duttum eitthvað í það saman á hótelinu og ætluðum að vera í sambandi síðar, en það varð ekkert úr því.

Svo varð hann fyrir bíl held ég skömmu síðar, kannski árið eftir, og ég man eftir að hafa lesið um það í fréttum. Það virðist hafa farið betur en á horfðist á þeim tíma. Hann var illa haldinn á eftir og spáð einhverri örorku, minnir mig.

Þetta var fínn náungi, en svolítið sérstakur. Ein af þessum týpum sem er alltaf að leita að sjálfum sér og fattar ekki að hann er nákvæmlega sá sem hann er og ekkert sérlega flókið við það, óþarfi að sækja vatnið yfir lækinn. Hef aldrei alveg botnað í þessum andlegu leiðangursmönnum.

Skondið að sjá honum skyndilega bregða fyrir í frétt um mál sem tengist honum í sjálfu sér ekki neitt. Þá rifjuðust okkar stuttu kynni upp fyrir mér. Væri alveg til í að rekast á hann aftur á flóahóteli úti á landi, detta svolítið í það og heyra fleiri sögur af honum.

Nýtt upphaf

Árum saman hef ég haldið því fram að ég ætlaði að skrifa meira hér en ég hef lengi gert, en svo strandar það alltaf á því að mér finnst ég ekki hafa neitt að segja — og Facebook í staðinn, sá tilgangslausi, sálarétandi staður, gleypir allar hugsanir mínar og orku.

Það sem ég hef helst verið að sýsla utan vinnu síðustu misseri er ljósmyndanám, jafnt í skóla, á vefnámskeiðum meistaraljósmyndara og í sjálfsnámi (enda lærir maður alltaf mest á því að prófa sig áfram, stunda rannsóknarvinnu, kynna sér verk annarra, læra handverkið, lesa teóríu). Hef farið út með ótal filmur að gera tilraunir, jafnt 35mm og 120, framkallað þær heima, skannað og stúderað til að sjá hvort ég nái fram þeim áhrifum sem ég sækist eftir, og mér fer stöðugt fram. Niðurstöðurnar eru orðnar fyrirsjáanlegar og ég veit orðið yfirleitt nákvæmlega hvað ég er að gera, jafnvel með filmu sem ég hef ekki áður prófað.

Stafræn ljósmyndun er eiginlega allt önnur dýrategund en ég stunda hana grimmt líka og hef náð, að mér finnst, ágætum tökum á báðum miðlum. Að verða góður ljósmyndari er svo auðvitað ævilangt verkefni. Kannski verð ég það aldrei. En ég veit í það minnsta hvað ég vil gera, hvernig ég á að gera það og er ánægður með afraksturinn. Það dugar mér til prívat listsköpunar.

Ég skrifa ábyggilega eitthvað meira hérna á næstunni um lesefni mitt að undanförnu. Svo margt ótrúlega áhugavert sem ég vissi ekkert um þar til nýlega. Þá kannski tekst mér að halda dampi við skrif á þennan forna miðil minn, sem senn hefur verið í loftinu í 21 ár.

Skref áfram

Þrjú ár á morgun og enn reynist mér erfitt að tala um tilfinningar mínar. Ég hitti dóttur hans í fyrsta sinn í mörg ár og svipurinn er yfirnáttúrlegur. Það  var eins og að horfa beint í augun á honum, ljóslifandi. Ég varð orðlaus, meira svo en ég var fyrir.

Og enn get ég ekki talað um tilfinningar mínar. Það er ólíkt mér.

Svo leggst þetta utan á mann með tímanum eins og ryð og maður hættir að skilja hversu mikið flak maður smám saman er orðinn. Algjör lamandi kvíði, alla daga, allan daginn þar til maður venst því og hættir að taka eftir því af því lífið bara heldur áfram. Svo brestur eitthvað innra og brestirnir sýna sig ytra, líkaminn gefur eftir undan því andlega.

Stefni hraðbyri að því að verða sjúklingur. Vakna nötrandi, tek lyf en nötra áfram, hjakka gegnum þetta, fer nötrandi að sofa nema ég taki annað lyf sem er ávanabindandi og ég vil því ekki taka.

Sorg. Álag í vinnu. Sístækkandi tilfinning um tilgangsleysi flestra hluta, múmínpabbi orðinn að bísamrottu. Prinsípleysi hvert sem litið er. Stríð, rifrildi um stríð, rifrildi um allt — til hvers? Hverju breytir það hvað Íslendingar rífast um á internetinu? Hvernig bætir það heiminn? Er hægt að bæta heiminn? Hefur eitthvað á síðasta aldarfjórðungi gefið okkur það í skyn að við getum haft áhrif á nokkurn skapaðan hlut?

En þetta er sorg frekar en níhilismi.

Líkamlega planið er komið og loksins er ég kominn með fagaðila til að hjálpa mér að takast á við hið andlega. Í raun er andleg endurhæfing öll forsenda líkamlegrar endurhæfingar. Ég hef bara ekki getað talað um þetta, ég á engin orð. En nú finn ég að ég er brotinn svo ég bara neyðist til að tala um þetta, sama þó ég viti ekki hvernig.

Það er erfitt að viðurkenna að maður sé brotinn og að maður þoli ekki mikið meira. Finnst reyndar að það sé ekki alveg rétt lýsing en ég finn ekki aðra.

Nú sér vonandi til sólar, smám saman eftir því sem heimurinn hvolfir sér og mér með, allt að sólu og til bjartari tíma. Vonandi. En það hefur verið erfitt að finna birtu í deginum síðan Gunni dó, ekki síst í ljósi þess hvernig sú bjarta stjarna sem hann var hvarf sjónum okkar. Mér finnst ég orðinn kaldur, þreyttur, reiður, dapur, og ég á erfitt með að finna mína náttúrlegu barnslegu gleði yfir öllu og engu.

Ég þarf að endurheimta sjálfan mig. Nú er ég vonandi kominn á réttan stað til þess.

Nýjar knattspyrnureglur

Ég held að við séum öll sammála um að knattspyrna eins og hún hefur verið iðkuð frá miðri nítjándu öld er á endastöð. Þetta er stöðnuð íþrótt, ekkert sérstaklega skemmtileg, heldur einhæf. Snýst í rauninni mest um fjárráð, það er að segja: hver getur keypt upp sem best sett af leikmönnum annars staðar frá og búið til sinn litla málaliðaher. Mestur tími í karlaboltanum fer í að hjálpa grenjandi piltum aftur á lappir eftir að þeir ímynduðu sér að einhver hefði stuggað við þeim. Við þetta verður ekki lengur unað.

Blessunarlega hef ég ráð undir rifi hverju og hér fylgja mín fyrstu drög að uppfærðum reglum um knattspyrnu. Fyrir þessu eru ýmis fordæmi í íþróttum, til að mynda þegar Bobby Fisher bjó til sínar eigin skákreglur, eða þegar fyrsti málfræðingurinn skóp Íslendingum sitt eigið stafróf sem síðan enginn notaði (höfum hér í huga hina fornu merkingu orðsins íþrótt).

Nú hef ég brotið odd af oflæti mínu og legg til eftirfarandi drög að endurbótum á knattspyrnu. Ég læt þetta liggja hér í bili því ég sé ekki betur en forseti FIFA sé á línunni.

 1. Nafn íþróttarinnar skal vera knattleikur.
 2. Boltinn er alltaf í leik, jafnvel þótt hann hafni uppi í stúku eða fyrir utan leikvang.
 3. Af þeim sökum má dómari aldrei stöðva leik. Ef leikmaður gerist brotlegur að mati dómara skal aðeins sá leikmaður hætta leik. Leikurinn áfram meðan dómari útdeilir refsingu sinni.
 4. Dómari má fara út fyrir allt meðalhóf í refsigleði sinni ef honum svo sýnist.
 5. Af 1) leiðir einnig að leiktími er og verður nákvæmlega 90 mínútur frá því að dómari flautar upphaf leiks.
 6. Ef bolti er sendur í átt til dómara má dómari skerast í leikinn og reyna að skora hjá því liði sem honum sýnist. Takist dómara að skora ber honum að reyna að skora hjá andstæðu liði fái hann boltann aftur (um brot á þessu sjá lið 10).
 7. Rangstaða er ekki til.
 8. Ekki skal dæmt fyrir hendi nema vísvitandi sé beitt og skal mat á því byggjast á geðþótta dómara.
 9. Ekkert eftirlit skal haft með því hvernig mörk eru skoruð. Ef mark er skorað þá skal það talist skorað þótt ólöglega hafi verið að staðið. Dómari hefur eftir sem áður heimild til að refsa fyrir slík brot eftir geðþótta.
 10. Nú þykir dómari sérlega vilhallur öðru liðinu enda megi færa sönnur á þrjú skýr dæmi um slíkt og skal fulltrúi ásakandi liðs færa fyrir því rök í heyranda hljóði. Almennir áhorfendur greiða um það atkvæði rafrænt og hafa til þess 5 sekúndur að málflutningi loknum. Ekkert leikhlé á sér stað meðan á þessu stendur svo málflutningi fylgir nokkur áhætta. Þeirri áhættu fylgja þau laun að falli dómur ásakanda í vil skal dómari spila með því liði til leiksloka og hvergi draga af sér nema komi til meiðsla, en skal dómari hafa sjálfdæmi um mat á eigin meiðslum. Sé dómari á móti fundinn saklaus dæmist refsistig á ásakanda.
 11. Áður en leikmaður tekur vítaspyrnu skal sá leikmaður flytja frumort dróttkvæði um vígfimi sína í heyranda hljóði. Sérstök dómnefnd sker úr um ágæti kvæðisins og skiptist í þrjá flokka:
  1. Sé kvæðið vel ort og leikmaður skorar, hlýtur lið hans tvö stig í stað eins.
  2. Sé kvæðið illa ort og leikmaður missir marks, hlýtur lið hans eitt refsistig.
  3. Sé kvæðið lélegt en skorað er, ellegar að leikmaður missir marks en hefur ort vel, þá fellur mál niður.
  4. Ef markmaður hefur þrótt og anda til eftir gilda markvörslu gefst honum færi á að svara með sinni eigin frumortu dróttkvæðu hendingu. Ef dómnefnd þykir svíða undan svari markvarðar, svo sem með háði eða niðurlægingu, þá hlýtur lið hans eitt stig.
 12. Leikhlé skal haldið þá og því aðeins meðan kveðið er og skal truflun á löghelgi þess varða skóggang (úr íþróttinni) að fornum sið. Tíminn sem flutningur kvæða tekur dregst af leiktíma þótt leikhlé sé á meðan.
  1. Nú hlýtir leikmaður ekki dómi og spilar í fullri sekt og skal hann óhelgur verða og skriðtæklaður griðlaus hvar sem til hans næst.
  2. Sé leikmaður saklaus skriðtæklaður fær sá og aðeins sá leikmaður að taka vítaspyrnu, hafi hann heilsu og þrek til eftir tæklingu. Bandamönnum þess leikmanns er heimilt að hefna með sæmdartæklingu án þess að það hafi afleiðingar fyrir leikmanninn, en með þeirri áhættu að leikurinn kunni að leysast upp í linnulausar sæmdartæklingar á víxl, eða svonefnd tæklingavíg. Tæklingavíg getur dómari stöðvað eða látið afskiptalaus að geðþótta.
 13. Leikmönnum skal gert ljóst fyrir sérhvern leik að utan vallar gilda landslög sem ekki endilega samræmast því sem gott þykir og gilt innan vallar. Um þetta geta gilt ólík lög í ólíkum löndum.
 14. Ekki er heimilt að leikmenn gangi kaupum og sölum. Leikmenn skulu haldnir sömu óbilandi tryggð gagnvart sínu liði og fylgismenn liðsins.
  1. Nú kýs leikmaður að skipta um lið enda hafi hann lýst yfir að hann hafi leikið tveim skjöldum fram að því. Skal hann uppfrá því teljast yfirlýstur svikahrappur og hvers manns níðingur og fær hann ekki aftur að skipta um lið.
 15. Sé leikmaður dæmdur af velli kemur maður í manns stað.
 16. Fari svo að lið þrjóti varamenn sakir fjöldadóma má sækja varamenn í raðir áhorfenda svo lengi sem þá ekki skortir.

Jóhann

Haustið 2006 mætti segja að skrattinn hafi hitt ömmu sína (skrattar eru víst lítið í því að heimsækja ömmur sínar) þegar forlögin höguðu því þannig að ég varð kunnugur Ásgeiri Berg. Báðir vorum við nýnemar við Háskólann, hann í heimspeki og ég í íslensku, báðir grindhoraðir, ljóshærðir og aðdáendur hatta.  Öll áhugamál sameiginleg fyrir utan að honum fannst gaman að spila körfubolta, sem engum þykir á Íslandi utan Reykjanesskaga. Svo líkir, að fólki fannst, að einhverjir munu hafa haldið okkur bræður.

Ásgeir átti sér ýmis fylgitungl sem ég varð kunnugur, en eitt þeirra vafðist alltaf fyrir mér. Ég fann mig nefnilega stöðugt í þeim sporum að honum fylgdi einhver Jóhann sem ég kannaðist aldrei neitt við. Einhverju sinni kynnti ég mig fyrir einhverjum félaga Ásgeirs sem hann taldi mig hafa hitt mörgum sinnum. Hann hló og sagði: „Þetta er Jóhann!“

Nújá, svo þetta er þessi J´óhann, hugsaði ég. Við annað tækifæri álpaðist ég inn á Næsta bar eins og gjarnan gerðist á þessum árum. Þar var einhver maður á borðinu hans Ásgeirs, ólmur sem berserkur. Ég hafði aldrei séð mann tala svona með öllum líkamanum, meira að segja fótunum. Sennilega bar hann é-in sín fram með ökklunum. Þessi náungi virtist þekkja mig en ég ekki hann, og áður en ég vissi hafði hann með líkamlegum sannfæringarkrafti slegið (óvart) bjórglasið mitt langt út á gólf þar sem það fórst — og búið að henda honum út af barnum áður en ég áttaði mig á neinu.

– Hver var nú þetta? spurði ég.
– Þetta var JÓHANN! svaraði Ásgeir. GETURÐU EKKI MUNAÐ EFTIR JÓHANNI?

Oft hitti ég Jóhann og kynnti mig fyrir honum í hvert sinn, honum og Ásgeiri til mikillar gremju. Mér skildist á Ásgeiri að Jóhanni sárnaði þetta mjög. En sama hvað ég reyndi að muna Jóhann þá gat ég aldrei áttað mig á því hvernig hann liti út.

Næstum því áratug eftir að Jóhanni var varpað út af Næsta bar mætti ég snotrum manni á Hjarðarhaganum — þá var ég nýfluttur í vesturbæinn — sem heilsaði mér með virktum. Hann hefur séð örvæntingaraugnkúluvarpið í tóftum mínum sem ætíð fer af stað þegar ég þekki ekki einhvern en vil ekki láta í það skína (þetta gerist oftar en ég vil viðurkenna), svo hann bætti því hæversklega við að hann héti Jóhann (Jóhann Björn).

Nú var þetta komið, þessu andliti gæti ég ekki gleymt. Nema hvað, fjórum árum síðar dvaldist ég lengi í Kaupmannahöfn og var þá töluvert í félagsskap við allt annan Jóhann (Jóhann Heiðdal), og sá Jóhann sagði mér þessa sömu sögu, að ég hefði átt eitthvað erfitt með að þekkja sig forðum. Nú fóru hjólin að snúast í höfðinu á mér. Það var aldrei einn Jóhann, þeir voru tveir! Og Ásgeir Berg, sá óhamingjunnar apaköttur, það óafvitandi illmenni, höfuðsóttargemlingurinn atarna, hafði þá haft sinn hvorn Jóhanninn með sér sitt á hvað í eitt eða tvö ár og ætíð presenterað báða fyrir mér aðeins sem Jóhann — hinn eina og sama Jóhann eins og ég skildi það. Kameljónið Jóhann, sem aldrei leit eins út dag frá degi, var stundum óðamála en stundum spakur sem snigill.

Þessu slengdi ég framan í skúrkinn hann Ásgeir.

– Í öll þessi ár léstu mig halda að ég gæti ekki munað eftir Jóhanni, en svo voru þeir tveir!
– Jaá, þú segir nokkuð. Reyndar, þegar ég hugsa út í það, þá gætu þeir hafa verið þrír.
– ÞRÍR!?

Og svona er nú sagan af Jóhanni. Í dag þekki ég vel í sundur hinar ýmsu íterasjónir Jóhanns, sem nú býr á Akureyri en vinnur í Melabúðinni og á þríbura í Kaupmannahöfn. Ég veit samt enn ekki hver þessi þriðji Jóhann er, en mig grunar að hann muni dúkka upp fyrirvaralaust næst þegar ég hitti Ásgeir Berg á förnum vegi, og þegar ég reyni að kynna mig fyrir honum ýlfri Ásgeir furðu lostinn á mig:

– ÞETTA. ER. JÓ-HAAAANN!

Of mikið

Ég er alltaf að ´átta mig betur og betur á því að það er ómögulegt að segja já við öllu til lengdar. Árum saman var ég spánýr, ungur fræðimaður og þá var hvort tveggja óhjákvæmilega satt, að allt var ferskt og spennandi og að ég þurfti að gera þetta sama allt til að eiga séns á að verða miðaldra fræðimaður. Nú er ég, nokkuð ungur að vísu, kominn í þau spor að þurfa ekki lengur að gera allt og einmitt þá, þegar ég hélt að orkan og starfsgleðin myndi aukast mér, þá finn ég að þetta er of mikið. Ég hef tekist of mikið á hendur og þarf að takast hvort tveggja í senn, að minnka verkefnastaflann áður en viðfangsefnið deyr í höndunum á mér og hætta að segja já við öllum mögulegum samstarfsverkefnum áður en ég dey í höndum kollega minna (ókei, kannski ekki alveg svo slæmt, en samt).

Þessi gaur veit nákvæmlega hvað ég á við

Það er nefnilega alls konar annað sem mig langar að gera en að vinna frítt úti um hvippinn og hvappinn, þó að ég fái að ferðast töluvert fyrir bragðið. Því meira sem ég ferðast, fyrirles og kenni kauplaust við erlenda háskóla þeim mun minni tíma hef ég til að sinna eigin rannsóknum — þessu sem er ástæða þess að mig langaði til að verða fræðimaður til að byrja með. Og mikið í þeim verkefnastafla er einmitt eitthvað sem ég hef líka skuldbundið mig til að skila af mér á tilteknum tíma.

Þessi gaur kemst aldrei heim til sín, of mörg verkefni

Ágætur kollegi benti mér raunar föðurlega á þetta fyrir ekki svo löngu, að utan frá séð (eins og hann sæi ekki í gegnum mig) liti út fyrir að ég hefði furðu mörg verkefni. Svo ég tók saman lista yfir það helsta sem ég þarf að klára til að koma aftur að hreinu borði og það er alveg sitthvað. Mig skortir í það minnsta ekki hugmyndaflug og af þeirri sök skortir mig víst ekki verkefni heldur. Listinn inniheldur til að mynda eftirfarandi atriði:

  • Ljúka við bókarhandrit fyrir ritrýni
  • Klára þrjár næstum því fullbúnar greinar
  • Klára tvær hálfkaraðar greinar
  • Skila af mér ritstjórnarverkefni

Það er mun fleira á þessum lista, en þetta er það mikilvægasta svo þarna verður áherslan lögð á næstunni. Og nú, undir lok janúar, hef ég óvænt fundið áramótaheit mitt fyrir næstu ár og hef þó aldrei strengt slíkt áður: ENGIN FLEIRI VERKEFNI.

Set þetta hér inn svo ég gleymi því ekki sjálfur.

———
Allar myndir sem hér fylgja eru ©Arngrímur Vídalín, teknar á Canon Powershot G1X Mark II

Rannsóknamisseri

Ég veit aldrei alveg hvort fólk er að grínast þegar það spyr mig hvort við háskólafólkið séum ekki alltaf „í leyfi“, svona eins og goðsögnin um að kennarar séu alltaf í fríi. Trúið mér, að allt það frí sem kennarar fá er fyllilega verðskuldað. Ef eitthvað er þá er það of stutt.

Kannski er það þess vegna sem háskólafólk er farið að tala um rannsóknamisseri í stað rannsóknaleyfis áður. Þetta er náttúrlega ekki leyfi þó að við fáum eitt kennslulaust misseri á nokkurra ára fresti. Við erum ennþá í vinnunni þó að við séum ekki að kenna, í rauninni meira í vinnunni en vanalega því loksins fáum við tíma til að sinna stórum hluta starfsskyldna okkar. Og ef eitthvað einkennir háskólafólk eftir minni reynslu þá er það að við erum alltaf í vinnunni.

Ef ég les bók þá er ég í vinnunni. Ef ég horfi á mynd þá er ég í vinnunni. Ég fæ þá hugmynd að gera vel við mig eina kvöldstund, skelli mér í leikhús og er óvart eiginlega um leið að borga fyrir að vera í vinnunni. Ef ég dett niður á fróðlega umfjöllun um nýtrúarhreyfingar á Akureyri í upphafi 20. aldar þá, jú, er ég óvart mættur í vinnuna. Ég kveiki á sellunum, analýsera og tengi saman þræði. Ég vinn við að lesa og skrifa og kenna um bókmenntir og menningu og allt sem því tengist, og svo vill til að ég vinn við mitt helsta áhugamál, svo ég er stöðugt í gangi.

Ég segi ekki að þetta sé vandamál en áreiðanlega er það að einhverju marki óheppilegt. En í sannleika sagt, ef ég ynni við eitthvað allt annað, þá kæmi ég samt heim og læsi bók og færi ósjálfrátt að greina hana, tengja þræði og velta upp hugmyndum. Og um leið er alltaf þessi hugsun í bakheilanum að þetta, já eða þetta þarna, þetta væri sniðugt í kennslu (jafnvel í rannsóknaleyfinu hugsa ég um kennslu, og dreymir um hvað ég er misheppnaður kennari). Svo það er sennilega besta lendingin að ég vinni við þetta líka. Ég er ekki viss um að ég hefði nægt vinnsluminni til að njóta menningar í frítímanum ef ég þyrfti t.d. að díla við hagtölur í vinnunni.

En þetta var útúrdúr, ég ætlaði að tala um rannsóknamisserið mitt. Ég er núna á að ég held tíunda degi þess og hef sett upp drög að efnisyfirliti að bók sem ég ætla mér að skrifa. Hálfnað er verk þá hafið er, enda hef ég ekki annað gert. Ég hef sofið töluvert, úrvinda eftir árin sem ég varði í að byggja upp feril í von um að fá að lokum starf við þetta (ég var að vísu heppnari en flestir með hversu fá þau ár voru), og svo Covidkennsluna þegar ég loksins var kominn í draumastarfið, og áföll og ýmiss konar persónulegt álag sem hefur verið mér tryggir förunautar sömuleiðis. Hugurinn er í svolitlum graut eftir þetta allt, sem er kannski eðlilegt. Það er mikilvægt að kulna ekki í draumadjobbinu um leið og það er í hönd.

Einu sinni spurði Ragnar í Smára, að mig minnir, Þórberg Þórðarson, sem skrifaði öll sín verk með penna, hvort hann myndi nú ekki leysa verk sín betur af hendi ef hann keypti ritvél. Svar Þórbergs var að það væri óþarfi, enda hugsaði hann ekkert hraðar en hann gæti handritað. Á svipaðan hátt fer þetta misseri rólega af stað hjá mér ekki aðeins af nauðsyn, heldur einfaldlega á þeim hraða sem hugurinn leyfir.

Það eru greinar sem þarf að klára, bókarhandrit fyrir Háskólaútgáfuna sem þarf að klára og þó fyrr hefði verið, ný bók til að vinna í, fyrirlestrar sem þarf að halda, hugsanir sem þarf að hugsa, hugmyndir til að útfæra, fræði sem þarf að lesa, greina og tileinka sér, og svo má ekki gleyma því að hér er einnig líf sem þarf að lifa, og lifa því vel með sínu fólki.

Svo þetta er ekkert leyfi, nema ef til vill leyfi til að anda aðeins á meðan ég geri það sem ég geri best: að stunda rannsóknir. Og þær get ég best stundað á skrifstofunni minni, þaðan sem myndin að ofan er tekin, sem ég hef aðeins nýlega fengið eftir að hafa skrifað flest mín fræði við eldhúsborð seint um kvöld og fram á nótt þegar aðrir voru farnir að sofa, þessi ár sem maður bægslaðist um í akademíska harkinu. Það er nefnilega þetta með samband vinnu og einkalífs, það verður hratt toxískt ef maður hefur ekki vinnuaðstöðu við hæfi. Sérherbergi, bækur og skriffæri er að mínum dómi hæversk lágmarkskrafa til fræðastarfa sem ekki útheimta flóknari búnað. Með þessu þrennu er hægt að fremja einn ótrúlegasta galdur sem hugsast getur: að búa til þekkingu.

Þó að misserið fari hægt af stað hjá mér þá veit ég að það á eftir að verða gjöfult. Það er nefnilega mikils virði að fá hálft ár til að vinna úr eigin hugsunum, inni á eigin skrifstofu, umkringdur dýrmætum fræðibókum, og leiða áður óþekkta vitneskju fram fyrir sjónir fólks. Vísindin tilheyra almenningi, öll þekking er og á að vera almannaeign sama hvað sumir kynnu að segja, og það eru heimsins mestu forréttindi að hafa vísindastörf að atvinnu — að fá að auka þekkingu mannkyns og miðla henni. Fyrir það er ég óendanlega þakklátur.

Hvað er það svo sem ég ætla að gera næsta hálfa árið? Ég ætla að rannsaka og skrifa um frumkynþáttahyggju í íslenskum bókmenntum fyrri alda — hvernig hatursorðræða og afmennskun á grunni erfða og uppruna birtist okkur á tímum fyrir hið eiginlega kynþáttahugtak, sem sjálft er búið að vera í öllum skilningi öðrum en sögulegum (þ.e. saga þeirra gervivísinda sem gátu af sér hugtakið og afleiðingar þess) og menningarlegum. Enn eru til fræðimenn sem finnst óttalegt bull að rannsaka þetta, eins og sambærileg afmennskun sé einhverra hluta vegna ómöguleg bara vegna þess að fólk skorti kynþáttahugtakið og þá sértæku hugsun sem lá að baki því. Þetta er bara miklu flóknara en svo og það er vel hægt að fjalla um þetta, þetta er áþreifanlegt og raunverulegt vandamál sem nær árþúsundir aftur tímann.

Og til að sýna fram á það mun bókin mín að fjalla um svonefnda blámenn í íslenskum miðaldaritum. Eitt það sem er kannski mest sjokkerandi við þetta verkefni mitt er hversu erfitt það er að ræða það við Íslendinga, sem oft virðast halda að þetta sé sakleysislegt orð sem sé fullkomlega eðlilegt að nota í daglegu tali. Staðreyndin er hins vegar sú að langfæstir átta sig á marglaga merkingu þessa hugtaks og hvernig hún hefur þróast gegnum aldirnar.

Meira um það síðar.