Kannanir Fréttablaðsins

Ég hef velt því fyrir mér hvað ofan í annað, aftur og aftur, fram og til baka, hvers vegna í ósköpunum Fréttablaðið fær að birta niðurstöður skoðanakannana sinna, ógagnrýnt fyrir vinnubrögð sín, sem eru á par við þau sem búast mætti við af límsniffandi gagnfræðanemum (ekki svo að skilja að ég álíti að gagnfræðanemar sniffi upp til hópa lím). Þeir sem aldrei hafa lært tölfræði ættu ekki að leika sér að henni.

Fréttablaðið hefur opinberlega gagnrýnt þá stefnu sem Gallup rekur í úrvinnslu gagna, svo og aðferðir þær er Gallup beitir við gagnaöflun. Það er líkt og ef samfélag órangútanapa á Borneó gagnrýndi aðferðafræði spendýralíffræðinga. Aparnir á Fréttablaðinu þekkja enda ekki muninn á tölfræði og rassgatinu á Össuri Skarphéðinssyni. Þeir vita ekki sem er, að þegar kemur að ályktandi tölfræði, þá er Gallup kóngurinn, en Fréttablaðið er hirðfíflið. Vísindi skulu í höndum sérfróðra höfð, en ekki milli lúka einhverra krómagnónmanna. Kannanir Fréttablaðsins eru til þess eins gerðar, að þær megi hafa áhrif á kosningar, en ekki til þess þær geti sagt fyrir um úrslit þeirra. Þær eru eingöngu skoðanamyndandi, en ekki vísindalegar.

Þó held ég því ekki fram að Fréttablaðinu hafi ekki farið neitt fram við þessar kannananir sínar. Upphaflega voru niðurstöðurnar fengnar með netkönnunum á vefsíðu Vísis. Þær niðurstöður héldu þeir vitaskuld fram að væru áreiðanlegar. Og svo vilja þeir láta taka sig alvarlega.