Af Vostúni

Haft eftir glæpamanni: „Við þurfum að steypa Saddam Hussein af stóli, því hann á gereyðingarvopn og fyrir því er hann hættulegur. Þannig tryggjum við öryggi heimsins.“

Haft eftir sama glæpamanni, nokkru síðar: „Við þurftum að steypa Saddam Hussein af stóli, því hann var hættulegur, jafnvel þótt hann ætti engin gereyðingarvopn. Þannig tryggðum við öryggi heimsins.“

Mér finnst ég engu bættari eftir þessa duldu viðurkenningu. Það eru ekki allir sem reyna að réttlætt morð eftir að þeir komast að því að byssan var sápustykki. Að hann skuli ekki segja af sér eftir annað eins pólitískt sjálfsmorð. Það er reyndar trixið: Ef pólitíkus segir ekki af sér eftir valdníðslu þá fer fólk kannski að halda með tíð og tíma að hann hafi ekkert brotið af sér. Til hvers er annars þessi stríðsglæpadómstóll og hver eru viðurlögin fyrir að mæta ekki? Kannski evil eye frá Kofi Annan, sem annars virðist orðinn reglulegur penni á Fréttablaðinu?

Að vakna

Í nótt vaknaði ég við umferðarniðinn frá Sæbrautinni. Það hefur ekki gerst áður og ég skil ekki hvers vegna það heyrðist svona hátt í honum. Nú veit ég að hljóð berst betur í vatni, en varla hefur rignt svo mikið. Ég varð ekki einu sinni var við neina rigningu, hvað þá syndaflóð.