Dagurinn hingað til

Mætti í skólann, veikur sem ég er, í heldur vondum húmör. Komst raunar í gott skap eftir hressandi debatt um málvernd og stöðu íslenskrar tungu (takið eftir slettunum). Post hoc, þegar ég megnaði ekki að þreyja í aðgerðaleysi eftir næstu kennslustund, afréð ég að yfirgefa svæðið og steig upp í næsta vagn vestur í Laugarnes. Eftir örskamma setu var ég orðinn vondur á ný og tók til við að berja saman kvæði í huganum um dauða, djöful, fjárskaða, nykra og njólubauga (hvar heyrði ég það orð eiginlega? Finn engar heimildir um það).

Ég tók þó gleði mína fljótt aftur við Hrafnistu, hvar tvær eldri konur stigu upp í vagninn og settust fyrir aftan mig og fóru að segja hver annarri hvert hin ætlaði að fara. Sú (áreiðanlega) eldri þeirra sagðist ekki myndu fara niður á Hlemm, hún færi alla leið niður á torg, heldur væri það hin sem færi niður á Hlemm og tæki þar annan strætó. Sú yngri þeirra tjáði hinni hvað hún (sú eldri) væri dugleg að ganga alla leið frá Lækjartorgi upp á Vesturgötu dag hvurn til þess að knitta með kerlingunum. Sú eldri svarar því til að hún sé 84 ára gömul og sé hreint ekkert dugleg miðað við það. Sú yngri þvertekur aftur fyrir það. Sú eldri fer þá að tjá sig um hvursu gott það nú sé eftir að „nýja hurðin“ kom, því þá komist þessi bannsetta síkjaftandi 91 árs tæfa ekki fram til að malda í móinn við sig, hún sé bara inni á herbergi horfandi á heiminn gegnum skerminn, og hún sé nú meiri ræfillinn sem aldrei fer neitt, hefur aldrei hreyft sig, í það minnsta aldrei þau þrettán ár sem hún (framsögukvinna) hafði búið á vistinni. Átti ég við ramman reip að draga við að halda aftur af hlátursrokunum.

Ég var kominn á fremsta hlunn með að bjóða þessum tveimur ektafrúm heim í kaffi þegar vagninn nam staðar á minni stöð og tími var kominn til að yfirgefa hann. Ég gekk kátur í kampinn í 10-11 til að kaupa mér tóbak en missti nærri sjálfsstjórn af bræði yfir óréttlæti heimsins við að sjá forsíðu Mannlífs, hvar getið var um þriggja ára stúlkubarn með heilaæxli, mæðgurnar reyna að halda í vonina. Afgreiðslustúlkan hefur þá líklega séð sæng sína útbreidda þar sem ég stóð eins og dauðinn í framan, og var svo afspyrnugóðlátleg við mig að ég hef varla kynnst öðru eins í þessari slælega lélegu búð.

Gekk heim á leið glaður í fasi, missti mig nærri þegar ég kom inn: Ég hafði gleymt hverri ljóðlínu síðan úr strætóferðinni. Læt það ekki hafa áhrif á mig. Hvur veit nema það hefði bara orðið hrútlélegt. Hvað tekur svo við hjá mér? Jú, að liggja eins og í kuðungi uppi í rúmi, berjandisk við að halda aftur af kuldaköstunum og beinverkjunum. Ja svei mér þá ef þetta verður ekki dagur til að minnast!

Uppfært kl. 17:18
Ekkert lát hefur orðið á störfum sjúklingsins. Fundur áðan klukkan 14:50, annar fundur klukkan tíu í kvöld, en þess á milli verður lesið undir próf. Hann hefur ekki tíma til að grafa andlit í kodda, þótt glaður vildi. Verði honum að góðu.