Eddan / Viljinn til trúar

Fyrst þegar ég las um hin tilvonandi Edduverðlaun tókst mér að misskilja fréttina svo hrapalega, að lengi á eftir taldi ég þau væru nefnd eftir Eddu Björgvinsdóttur. Fannst mér það temmilega viðeigandi.
Einhverju seinna kom á daginn að verðlaunin heita eftir einhverri allt annarri Eddu. Ég gaf „Akademíinu“ smá kredit fyrir það. Á móti kemur að verðlaunin eru ekki hótinu merkilegri því engum skyldi koma á óvart að einu þrjár kvikmyndir hvers árs skuli sópa að sér öllum verðlaununum. Annars er Eddan mér ekkert sérlega hugleikin nú fremur en endranær.

Eitt flaug mér í hug í strætó ofan úr skóla í vinnu í dag, sem ég gæti nefnt Gunnari Birgissyni til hróss. Það vill nefnilega henda að mér þyki Reykjavík afskaplega falleg þegar vel viðrar eins og í dag, og iðulega fyllist ég öfund í garð þeirra sem eiga frjálsan tíma til að liggja í grasinu í Hljómskálagarðinum með elskunni sinni, kannski með brauðkörfu, rauðvínsflösku og tvö glös. Á annars ekki að heita að það sé haust?
Hvað snertir Kópavog hins vegar geta fáir sagt að hann sé neitt sérlega fallegur. Kannski rétt svo ein smáspilda niðri við Grundirnar. Gunnari hefur samt tekist að láta Kópavog líta út fyrir að vera raunverulegur valkostur við Reykjavík. Nú er ég samt alls ekki að reyna að móðga blóðheita Kópavogsbúa. Og hvað aðra stjórnarhætti Gunnars snertir ætla ég að tjá mig sem minnst um.
En málið er nefnilega það að trú á fyrirbærið getur skapað fyrirbærið. Gunnar er maður sem í hvívetna teflir Kópavogi fram gegn Reykjavík með þónokkrum heimóttarskap og hroka, gengur jafnvel svo langt í því að hann hefur merkt sér svæði lengst utan siðmenningar og kallað Kópavog.
Á meðan Kópavogur hefur þannig ekkert framyfir til dæmis Húsavík annað en óhúsvandan, blóðheitan bæjarstjóra sem svífst einskis í að hefja veruna þar upp til skýjanna, þá þrífst Kópavogur en ekki Húsavík. Vegna þess að þar á bæ hefur fólk gefist upp. Það er slæmt að búa á Húsavík, við þurfum patentlausnir til að líf geti þrifist hér, reglubundna innspýtingu til að fresta vosbúðinni og kaldri gröfinni. En það er gott að búa í Kópavogi.
Ég meina, auðvitað er ekkert betra að búa í Kópavogi en hvar annarsstaðar, eða verra að búa á Húsavík en hvar annarsstaðar. Þetta er bara spurning um hugarfarsbreytingu. Þetta er spurning um viljann til að trúa.