Hvor um sig hafði skilið mikilvægan hluta af sjálfum sér eftir er þeir gengu inn í flugstöðina í Helsinki. Farangurinn í hjarta þeirra vó þyngra.
Þeir fundu reykherbergið og settust þar inn. Enn áttu þeir bróðurpartinn af viskíflösku sem þurfti að losna við.
Eftir því sem flaskan smátæmdist tóku þeir að gleyma, að lokum var allt orðið frábært. Þeir drukku og hlógu, lífið lék við þá.
Það var ekki fyrr en þegar heim var komið og þeir skildust við að finnski veturinn tók sér bólfestu í huga þeirra á ný, eins og dagarnir og vikurnar staðfestu í kjölfarið.