Umfjöllun í Víðsjá

Snemma í kvöld var viðtali við mig útvarpað í þættinum Víðsjá í Ríkisútvarpinu. Viðtalið má heyra hér. Bókin hefur hlotið góðar viðtökur kaupenda enn sem komið er og er fyrsti ritdómur væntanlegur á næstu dögum.

Ég hef enn ekki haft færi á að kanna stöðuna í bókabúðunum, en hafi verðið á bókinni enn ekki verið leiðrétt þá vinsamlegast kvartið við viðeigandi aðila, þarmeðtalið mig.

Á föstudaginn þarsíðasta fór ég með hlass af bókum í bókabúð Máls og menningar að Laugavegi 18. Í húsasundi milli Grettisgötu og Laugavegs steig ég á snifsi úr Blaðinu með flennistórri mynd af Þórbergi undir fyrirsögninni: „Var Þórbergur með asperger?“ Í sama blaði tjáði ég mig um jólabækur. Get aðeins vonað að ég fái ekki asperger að mér látnum.

Davíð Stefánsson um Endurómun upphafsins

Endurómun upphafsins„Það eru ó! í þessari bók. Og þau eru ekki sett fram í hæðni hrútspungsins eða annarra súrsaðra kynfæra heldur í fúlustu alvöru; þau eru mælt fram vegna þess að ó! er vel fram mælanlegt og gjaldgengt til tjáningar. Þarna eru líka blóm, og hrafnar, og stjörnubjartur himinn, og sólstafir, og röðulgeislar – hellings aragrúi af fallegum fyrirbærum sem fáir skilja lengur, í raun og veru.
Samt er Endurómun upphafsins ekki rómantísk bók, ekki í þeim skilningi að allt skuli dýrkað sem fagurt er, bara vegna þess og þess vegna. Hún er hálf-rómantísk, þannig, að í stað þess að sneiða framhjá því sem kalla mætti eðlislæga þörf manneskjunnar fyrir rómantík og fagurfræði tekur hún á þessum fyrirbærum og kljáist við rómantískar tilhneigingar sem eru illa gjaldgengar í „tough-love-bling-bling-pow-wow“ heimi. Hér fer fram tveimur lýsisglímum samtímis – í annarri slæst Arngrímur við hefðina með samtímann að vopni og í hinni berst Vídalín við samtímann með rómantískan kuta. Enn hefur enginn farið með sigur af hólmi, þótt á halli.
Við höfum stigið langt inn í heim sýndarveruleikans, og þá gildir einu hvort við blekkjum okkur til að halda að heiminn sé að finna í raunveruleikasjónvarpi eða í ljóði – allir staðgenglar rjúfa tengslin við hinn raunverulega heim, eða, öllu heldur, afmá skilin á milli raunveruleika og skáldskapar. Hvar erum við? Hver erum við? Hvert förum við?
Ljóð eru ekki frumheimild um heiminn. En ljóðabókin sem hvílir á fingrum mér er ári góð – vel ígrunduð og falleg átakabók, ekki hispurslaus (enda eiga ljóð ekki að vera hispurslaus) heldur lúmsk og undirförul, í jákvæðasta mögulega skilningi þeirra orða.“

-Davíð A .Stefánsson.

Áríðandi tilkynning!

Bókabúðir Pennans Eymundssonar, Máls og menningar, verðlögðu Endurómun upphafsins á kr. 2.990. Rétt verð á bókinni eru kr. 1.990 og hefur það nú verið leiðrétt.

Ennfremur hef ég komið því til leiðar að haft verður samband við þá sem keypt hafa bókina fyrir ofangreindan morðfjár, og munu viðkomandi fá endurgreitt í samræmi við eðlilegt verð.

Bókin er nú fáanleg í verslun Máls og menningar, Laugavegi, og verslunum Pennans Eymundssonar á Austurstræti, í Kringlunni og Smáralind. Bókin er væntanleg í Bóksölu stúdenta og Bókval á Akureyri í vikunni.