Býsnast yfir barnlendingi

Manneskja sem nefnir sig Mengellu skrifar heillanga ritgerð um hversu hörundsár Eyvindur Karlsson hafi verið á spjalli á Barnalandinu, vef sem gengur hvað síst út á börn en þeim mun heldur brandara um fósturlát og sifjaspell ef marka má hana. Það er í samræmi við það sem ég hef heyrt um þann vef.

Undir lok pistilsins lýsir Mengella því yfir að Eyvindur hafi svo fyrirgert virðingu hennar að hún hafi ákveðið að flokka hann með húmorsleysingjum á borð við Ágúst Borgþór og sjálfan mig. Það fannst mér að vísu nokkuð fyndið, en á hinn bóginn fæ ég ekki séð að ég tengist þessari umræðu. Ég þekki hvorki Ágúst né Eyvind, hef aldrei á Barnaland komið og þaðanaf síður get ég ímyndað mér að ég þekki nokkuð til þessarar Mengellu.

Einhverjum nafnleysingja úti í bæ er sumsé í nöp við mig. Ég er enn ekki búinn að gera upp við mig hvort ég gráti mig í svefn. En meðan hún þorir ekki að gangast við eigin köpuryrðum er fráleitt mark á henni takandi.