Flugfargjöld

Fyrsti tíminn í forníslensku í dag fór allur í að skipuleggja, panta og borga fyrir tengiflug frá London til Milano. Ég lendi varla í tímahraki milli véla, því á leiðinni utan þarf ég að bíða í um fjóra tíma en kringum sjö á leiðinni tilbaka (já, ég kem aftur) þótt ég muni það nú ekki upp á hár. Styttri varð biðin ekki.

Hvernig er það annars, eru íslensk flugfélög eitthvað vangefin? Iceland Express rukkar mig 35 þúsund krónur fyrir að fljúga með mig til London og heim aftur, þar af kostaði miðinn utan 10 þúsund en leiðin heim 19 (hvað veldur verðmuninum?).

Hvað kostar svo að fljúga með Ryan Air til Milano og tilbaka? 8000 krónur, með sköttum, sérstakt töskugjald innifalið. Ekki nóg með það heldur greiddi ég aðeins fyrir einn miða, því bakaleiðin kostaði 0.1 sterlingspund fyrir utan skatta. Það er semsé hægt að fljúga ókeypis, en það er eftir sem áður skattskylt. Þannig má í síauknum mæli ferðast vítt og breitt um Evrópu án þess varla að borga neitt að heita megi.

Rúsínan í pylsuendanum er auðvitað sú að á meðan ég flýg fyrir rúm 40 þúsund rukka Flugleiðir 111 þúsund krónur fyrir beint flug til Milano. Þar sem kaffið er það besta sem Milano hefur uppá að bjóða má nefna að Te&Kaffi í Smáralind reynist þrátt fyrir allt vera valkostur við evrópska heimsborg. Með tengifluginu reiknast mér þá til að ég hafi „sparað mér“ heilan fjóshaug af peningum sem nota má til ýmislegra bóhemískra hversdagsverka í stað þess eins að þurfa ekki að skipta um vél í miðri flugleiðamáltíð. Að fordæmi Dr. Gunna leyfi ég mér að segja: OKUR!

Nú verð ég að játa að ég er kominn talsvert utan við efnið, ég ætlaði víst að blogga um tilhlökkun. Hún er mikil, og það er að segja ansi lítið.

6 thoughts on “Flugfargjöld”

  1. Nei, ég hef nefnilega aldrei farið suður fyrir Róm. Hins vegar dauðlangar mig til Positano og þá er Napoli í leiðinni.
    Annars er það ekki svo að ég ætli mér neitt að stoppa í Milano. Ég er á leiðinni annað.

  2. Ravello er þúsund sinnum flottari en Positano.
    Napólí er borg með óendanlega mikla sögu. Hún er sennilega eldri en Róm og býr yfir dulúð sem fáar Evrópskar borgir hafa yfir að búa.
    Kíktu á kirkjugarðinn þegar þú ferð þangað. Skoðaðu kirkjurnar í miðbænum. Fáðu þér pizzu. Drekktu rósavín eða hvítvín. Passaðu að verða ekki rændur; ef einhver biður þig um smáaur fyrir að passa bílinn, borgaðu það umorðalaust.

  3. Ég er svo hjartanlega sammála þér að hér er um OKUR að ræða.
    Ég flaug til Torino í fyrra og greiddi þá samtals 5000 fyrir flugið báðar leiðir, þ.e. 15 pund aðra leiðina + 10 í svokallaða skatta og síðan 0.01 pund fyrir bakaleiðina + 10 pund samtals 35 pund.
    Þá kostaði 32 þús með Æsland Express en 29 þús með Flugleiðum og frítt viðbit. Í því dæmi borgaði sig að fara frekar með Æsland Express til að sleppa við lestarferðir á milli Heathrow og Stansted. Það er einasti plússinn við það félag.

  4. Það munar svaðalega miklu að fljúga með Express á vinsælum dögum og óvinsælum. Á vinsælum dögum fara þeir nánast upp fyrir Icelandair – enda fyrirtæki í sömu fokking eigu!

Lokað er á athugasemdir.