Morgunfærsla

Hvað gerir maður sem hefur vakað af sér nóttina til að leiðrétta svefntímann? Fer í vinnutúr á Þjóðarbókhlöðuna? Mætir til vinnu á frídegi og skrifar stykki sín innanum herskara lánþega? Skrifar þau heima hjá sér með birgðir af múslírúnstykkjum með skinku og osti úr Voru daglegu brauði og drekkur nýlagað kaffi með? Í rúminu þá eða við skrifborðið? Fer í sund eins og hann hefur sagt sér að hann hefði gott af að gera reglulega (ef það kostaði ekki andvirði strætóferðar)? Get hreint ekki sagt ég sé viss.

Fór í bókabúð Máls og menningar í gærkvöldi og skipti út jólabókum hjá syni Múmínmömmunnar. Fékk þar Myndir af Bruegel eftir William Carlos Williams (í þýðingu Árna Ibsen – ue í stað ü vænti ég því Williams var Kani, hvað sem Árna leið) á 480 krónur. Það gefur mér talsvert svigrúm til að ráðstafa restinni af innleggsnótunni þegar þar að kemur. Hinsvegar fann ég ekki Riddarann sem var ekki eftir Italo Calvino, en ég þorði svosem lítið að spyrja. Nema Haukur Már taki upp bloggið á ný neyðist ég sjálfur til að segja mína hlið á því máli öllu, enda er glæpsamlegt að halda góðum sögum frá fólki.

Á dögunum færðu Guttesen og Tómasson mér heilan stafla af bókum til eignar, þar á meðal ljóðasafn Dags Sigurðarsonar og ógrynni bóka eftir Bjarna Bernharð. Þeim kann ég vitaskuld góðar þakkir fyrir. Daginn eftir stungu tveir óprúttnir aðilar uppá við ólík tilefni að ég aðgætti tilkynningu lögreglu um bækur Hjörleifs Kvaran. Touché. Þartil Valdimar laumar að mér mörghundruð ára gamalli Konungsskuggsjá er mér í lófa lagið að vera næsta græskulaus. Hver les enda svona gamlar bækur? Morknar þetta ekki bara í höndunum á manni?