Genginn í það heilaga

Aldrei fór það ekki svo að ég gifti mig í bríaríi. Það var Kristján Ketill, skipstjóri, sem gaf okkur saman á barnum Barnum við mikinn fögnuð viðstaddra. Hringar voru fengnir af nærliggjandi lyklakippum, svaramenn voru til halds og trausts, og nálægt 60 vottar. Mér skilst að athöfnin hefði verið lögleg um borð í skipi.

Eftir það man ég ekki mikið eftir kvöldinu. En fyrr um daginn var ég meðal gesta í kokteilboði forsætisráðuneytisins, og þrátt fyrir ítrekuð loforð náði ég ekki að mana mig upp í að pota í bumbuna á Geir Haarde. En með því veitingar af næringarlega toganum voru af takmarkaðra magni en áfengið fór sem fór.

Hvað ætli spúsu minni Þórunni Ólafsdóttur finnist um það? Manneskja sem væri meira en líkleg ekki aðeins til að pota í bumbur, heldur fara í sleik við sjálfan forsætisráðherrann. Í þeim skilningi verður ekki annað sagt en ég hafi gifst upp fyrir mig. Það væri ólíkt skemmtilegra að konan mín héldi framhjá með honum en þess háttar rustum sem hún eyddi kvöldinu í að kyssa.