Lesefnið

Ragnar loðbrók eignaðist ægimarga syni. Einn þeirra hét Ívar, fæddist beinlaus og var mest manna gefinn um fríðleik, vitsmuni og fjölkynngi. Vegna fötlunar sinnar var hann jafnan borinn um af bræðrum sínum ýmist á stöngum meðan hann lagði á ráðin um að tortíma heilu byggðarlögunum eða á skildi ef í bardaga. Það finnst mér fyndið.

Í Tídægru er áherslan meira á karníval og almennan kynusla. En karnívalið er sérstakt fyrir að vera í senn andborgaralegur gjörningur fólks – jafnan krakka – af borgarastétt, og getur því ekki talist neins konar eiginleg uppreisn gegn viðteknum gildum. Þetta er bara galgopaskapur, og þegar plágan er gengin um garð og nóg komið af ergi er einfalt að fleygja af sér grímunni og halda áfram þátttöku í samfélaginu líkt og ekkert hefði gerst. Raunar virðist mér þeir sem héldu kyrru fyrir í borginni síst borgaralegri í háttum sínum, og því má spyrja sig hvers vegna Boccaccio er svo í mun að vernda borgaralegt siðgæði krakkanna í inngangi bókarinnar umfram aðra.

Menn skrifa auðvitað ekki svona bækur svo mikið til að lasta eins og að benda á hræsni, enda gera krakkarnir það ágætlega milli þess sem þeir viðhalda hýerarkíu efri millistéttarinnar og skiptast á að vera konungur/drottning karnívalsins. Boccaccio var enda sjálfur af millistétt og spurning hvort hér sé ekki höggvið á báða bóga þegar nánar er að gætt. Til hvers er uppreisnin ef ekki til að bylta?