Paul Ramses – taka tvö

Íslensk yfirvöld ráku úr landi pólitískan flóttamann sem hafði það eitt sér til saka unnið að bjóða sig fram til bæjarstjóra Nairóbí. Hann tapaði þeim kosningum og óttast er að hann verði myrtur við komuna „heim“ vegna stjórnmálaþátttöku sinnar.

Ekki aðeins á hann konu og barn hér heima heldur hefur hann einnig unnið sem sjálfboðaliði hérlendis á vegum AUS, starfað fyrir ABC barnahjálp í Kenýa og átt þátt í að stofna þar skóla.

Hann var handtekinn og sendur til Ítalíu í morgun vegna tæknilegrar heimildar til að vísa flóttamönnum aftur til fyrsta áfangastaðar – það er að segja: Paul Ramses millilenti á Ítalíu, og þess vegna má reka hann þangað. Munu þarlend útlendingayfirvöld fjalla um mál hans.

Ítalir eru ekki þekktir fyrir að standa sig vel í innflytjendamálum. Þar í landi eru ýmis vandamál tengd sígaunum, að því er ítölsk yfirvöld segja, og þar að auki eru þar talsverðir fordómar gegn dekkri kynþáttum. Íslendingar þurfa litlar áhyggjur að hafa af eigin móttökum þar í landi, en þeldökkir eru ekki jafn heppnir.

Á Ítalíu standa núna yfir eins konar hreinsanir. Á vef Morgunblaðsins í dag (3. júlí) kemur fram að „[i]nnanríkisráðherrann Roberto Maroni segir þetta nauðsynlegt í baráttunni gegn glæpum og til þess að bera kennsl á ólöglega innflytjendur svo unnt sé að reka þá úr landi“. Tylliástæðan sem er gefin er að „[þ]á muni þetta bæta lífsskilyrði þeirra sem búa löglega í búðunum, sem oft séu óheilnæmar“. Það var og.

Miðað við allt ofangreint, hverjar skyldi maður ætla að líkurnar séu á að vist Pauls Ramses á Ítalíu sé tryggð? Harla litlar. Í svarbréfi við umleitunum mínum um íhlutun í máli Pauls sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, jafnframt því að hún harmaði hvernig komið væri, að „samkvæmt mannréttindasáttmála Evrópu [væri] Ítalía sem upphaflegt móttökuríki skuldbundið til að veita honum skjól ef hann er í hættu.“ En hvers vegna erum við of góð til að veita honum skjól? Hafa flóttamenn fram að þessu getað reitt sig á stuðning Evrópusambandsins? Það eru skiptar skoðanir um það.

Í öllu falli hefur manni verið vísað frá Íslandi án nokkurs rökstuðnings. Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, svaraði ekki bréfi mínu til hans, en hann svaraði umleitunum Vísis – án þess þó reyndar að svara spurningum þeirra. Ástæður þess að Paul Ramses hefur enn á ný verið gerður landflótta eru því enn á huldu. Honum hefur verið vísað, frá konu sinni og nýfæddu barni, til lands þar sem staða hans er ótrygg. Verði hann sendur þaðan til Kenýa eru allar líkur á að hann verði myrtur. Ef Björn Bjarnason telur sig hafa firrt sig ábyrgð á málinu skjátlast honum gróflega. Spurningin er því ekki hver ber raunverulega ábyrgð í þessu máli, heldur hvort sá sem það gerir sé varanlega firrtur eða hættulega siðblindur, nema hvort tveggja sé.

Á morgun, 4. júlí á milli 12:00 og 13:00, verða mótmæli fyrir utan dómsmálaráðuneytið í Skuggasundi. Þar verður þess krafist að Pauli Ramses verði snúið aftur til Íslands og fjallað um mál hans hér. Mætið og látið í ykkur heyra.

Paul Ramses Oduor

Þá hefur ríkisstjórninni tekist að senda manneskju út í opinn dauðann. Ég sendi bæði dóms- og utanríkisráðherra bréf að forskrift Hauks Más (sjá einnig Brissó), en auðvitað svara þau ekki almúga með sínar ómerkilegu hvatir. Og hvar eru fjölmiðlar? Hvers vegna er ekki allt vitlaust?

Ég er þess reyndar fullviss um að það verða mótmæli úti um allan bæ vegna þessa. Hins vegar er það starf stjórnmálamanna að hunsa það eins og annað sem skiptir máli, enda snýst pólitík fyrst og fremst um að moka kavíar upp í rassgatið á sér og láta kampavínsstólpípu fylgja. Það og stríðsrekstur. Annað snýst pólitík helst ekki um.

Ég vil því bara nota tækifærið og óska stjórnvöldum til hamingju með fyrsta morðið sitt. Líklega er það merki um að íslensk pólitík er komin af gelgjuskeiðinu.