Íslenskar kvikmyndir

Þær eru margar hverjar alveg afskaplega leiðinlegar, kjánalegar, illa skrifaðar, illa leiknar og óraunsæar. Skemmtilegar undantekningar frá því eru Sódóma Reykjavík og 101 Reykjavík. Aðrar myndir sem því miður falla að einu eða öllum ofangreindum atriðum eru Englar alheimsins, Dís og nærri því allar myndir gerðar fyrir aldamót.

Ég er að horfa á A Little Trip to Heaven núna. Hún er eitthvað það allra leiðinlegasta sem ég hef horft á lengi. Og ekki nóg með það heldur er hún illa skrifuð, illa leikin, ótrúverðug, kjánaleg og bersýnilega að mestu tekin upp á Íslandi – meira að segja prýðileg tónlist Mugisons virkar hálffáránlega á stemninguna. Á meðan myndin rétt lullar áfram er plottið á slíkri hraðferð að meira að segja Mýrin myndi skammast sín. Það er eitthvað svo hryllilega vandræðalegt við alla framvindu að ég bara veit ekki almennilega hvað ég get sagt.

Nema bara þetta: Ef þið eruð þreytt á að fylgjast með íslenskum fjármálamarkaði þá eru fleiri leiðir til að sjá tugmilljónum sóað í vitleysu. Eitt gott hef ég þó að segja um myndina og það er að allt í henni minnir á Ísland níunda áratugarins. Það er í sjálfu sér afrek sem vert er að nefna.