Lýðræðið grafið

Ég ætla ekki að hafa sérstaklega mörg orð um þessa síðu, bara benda á hana.

Ég vil aðeins segja tvennt.

1. Aðeins forsætisráðherra hefur heimild til að rjúfa þing. Þjóðin hefur það vald raunar líka, en til þess þarf að stíga útfyrir ramma laganna. Þeir sem trúa á lýðræðið setja það raunar ekki fyrir sig.

2. Mér hefur oft þótt ástæða til að krefja stjórnvöld skýringa, og jafnvel bola þeim burt fáist engar skýringar eða séu þær óásættanlegar. Fyrir utan linkind þjóðarinnar í garð stjórnvalda eru allar þær forsendur sem ég hef áður fundið þeirri skoðun minni, í fyrri eða seinni tíð, léttvægar orðnar miðað við lygar stjórnvalda nú, svo ekki sé minnst á þögn þeirra þegar þau vita ekki hverju skal ljúga næst.

Svo ég bendi á þessa síðu. Spurningin er ekki hvort hún verði hunsuð, aðeins hversu lengi verður hægt að hunsa hana, eða þá kröfu að stjórnvöld starfi með hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi, í umboði hennar, og séu þar af leiðandi skuldbundnir þjóðinni um sannleikann hvar og hvenær sem hann liggur fyrir hvað sem kröfum alþjóðlegra risastofnana líður.

Að öðrum kosti er lýðræðið grafið. Ef það var það ekki fyrir löngu.

Gæði

Ef þið hugsið um raunveruleg gæði, landgæði og framleiðslutæki, andspænis ímynduðum tölum á tölvuskjá sem standa fyrir peninga – sem eru ekki höfuðstóll neins nema sjálfra sín – þá er engin kreppa á Íslandi. Hér er allt óbreytt, því allt er enn á sínum stað. Vegið og metið aðstæður hverrar þjóðar fyrir sig, hvar standa þær? Spáið svo í hvort þetta sé ekki bara geðveiki, trú á einhvern pappírsseðil sem engu máli skiptir. Þetta er bara pappír þartil þú fjárfestir hann, og þegar trú fólks á pappírinn dvínar, hvar erum við þá? Akkúrat hérna. Og hvað, er Ísland þá á vonarvöl útaf ímynduðum tölum? Eða búum við þó ennþá að því að öll raunveruleg framleiðsla, öll raunveruleg eignamyndun, öll raunveruleg gæði, eru ennþá staðsett hérlendis, meðan óprenthæfar tölur hrapa í ritvinnsluforritum og töflureiknum spikfeitra smjörsleiktra bankamanna úti í heimi?

Nei, í alvörunni. Peningar eru ímyndun, þeir eru kjaftæði, þeir standa ekki fyrir ein einustu verðmæti í sjálfum sér. Þeir hafa ekki verið raunverulegur gjaldmiðill síðan þeir hættu að standa í sambandi við veruleikann, við upprunalega höfuðstólinn sem átti að tryggja innistæðu fyrir þeim. Peningar eru pappír sem ekki einu sinni er hægt að fjárfesta lengur. Ef allt ætti að vera eðlilegt tæki lífið við aftur. En horfið á trúðana reyna að bjarga því eina sem þeir trúa og treysta á: peningum. Þegar afkoma fólks byggist á hagtölum án þess að raunverulegur skortur sé á nokkru öðru en tölum á pappír, væntingum, vonum og vísitölum, þá er eitthvað mikið að gildismatinu.

Frjálshyggjan og framtíðin

Ég er reglulega spurður retórískt þessa dagana hvar frjálshyggjumennirnir séu, fyrir utan þennan eina sem þusaði eilíft í þenslunni en flýgur á hvolfi í kreppunni, og hingað til hef ég ekkert þorað að fullyrða. En núna segir mér svo hugur að einhversstaðar séu þeir hlæjandi með vindlareykinn standandi uppúr sér, því einhverjir þeirra fá vænti ég núna að horfa uppá draumalandið sitt rísa úr öskustónni, lágmarksríkið með öllum sínum félagslega darwínisma og mannúðarleysi.

Fyrsta skrefið var tekið í dag þegar stýrivextir voru hækkaðir um sex prósentustig svo standi nú í 18 prósentum. Geðveiki segir einn, óásættanlegt segir annar. En við hverju bjuggust þeir? Hvað segja þeir þegar IMF hækkar skatta? Óásættanleg geðveiki? Allavega munu frjálshyggjumennirnir firrtast við með okkur hinum, enda trúa þeir ekki á skatta eða aðra samfélagslega ábyrgð. Mig bara grunar að skattarnir eigi eftir að fara uppúr öllu valdi – og ekki til þeirrar þjónustu sem eðlilegt væri, heldur í vasann á þeim hinum sömu og hækkuðu þá.

Og hvað svo? Heilbrigðiskerfið, skólarnir, bókasöfnin, meðferðarheimilin og – fjandinn hafi það – jafnvel elliheimilin, öryrkjastyrkir, Tryggingastofnun. Hver veit hverju þeir taka uppá? Svartasta spáin er að hér verði bókstaflega ekkert eftir, og ég þori ekki að vera of bjartsýnn þegar sömu menn eru að verki og einkavæddu vatnsbólin í Bólivíu. En kannski finnst einhverjum þetta vera voða sniðugt allt, gargandi snilld einsog Íslendingar segja. Stjórnvöldum finnst ekkert athugavert við þetta. Vandamálið er að stjórnvöld hafa enga stjórn hérna og höfðu aldrei – umboðið kom frá okkur. Núna er umboðið meira eða minna selt til erlendra aðila.

Fjórtán árum eftir að 50 ára afmæli lýðveldisins var fagnað, fjórtán árum eftir að mér í barnaskóla var kennt að það stæði eitthvað á bakvið þingið, kjörna fulltrúa þjóðarinnar, forsetann, ættjarðarjarmið og fánann. Að þetta land væri byggt upp á einhverslags forsendum, og að lýðræði væri helgasta vé þjóðarinnar, að meirihlutavilji þjóða skipti máli. Þetta tók ekki langan tíma. Og hvað tekur við hérna? Í hreinustu hreinskilni þá vil ég bara ekki vita það. En það verður svart, það vitum við þó.

Fyrsta skrefið er allavega tekið. Segið svo ekki að þið hafið ekki séð þetta fyrir, það er allt aðgengilegt á netinu.