Þegar ég var lítill skiptumst við félagarnir á körfuboltamyndum, og einhugur ríkti um ímyndað verðmætamat einstakra spjalda. Sum voru „sjaldgæf“ og þar af leiðandi meira virði en önnur, og hver sá sem býttaði á 10 Karl Malone, einum Scotty Pippen og tveim Larry Bird fyrir einn Michael Jordan að kyssa gullbikar NBA deildarinnar lét Jordaninn ekki uppi nema hann fengi meira í staðinn. Stundum er þetta kallað hagvöxtur en það er bara rugl og þvæla.
Þegar körfuboltanum sleppti tók poxið við. Þá var Geir Sveins í loftköstum næstsjaldgæfastur að því er sagt var, en Siggi Sveins – alþýðuhetja allra 11 ára krakka – var að sjálfsögðu langflottastur. Það skipti enginn á honum sem átti. Á kvöldin reyndum við krakkarnir að útlista viðskiptasigra dagsins fyrir daufum eyrum foreldra okkar, en nújæa, okkur nægði eigin viðurkenning. Næstu kynslóðir héldu svo uppteknum þræði með pokémonspil.
En nóg um það. Búið er að „kaupa“ Birtíng. Morgunblaðið sparar ekki við köpuryrðin frekar en fyrri daginn og lýsir yfir að Birtíngur hafi rofið tengsl sín við Baug með eigendaskiptunum. Vísir segir á hinn bóginn að kaupandinn sé enginn annar en Hreinn Loftsson.
Naumast viðskiptin þegar Baugur gefur sjálfum sér sínar eigin verðlausu eignir. Hvenær ætli þeir gefist upp á að býtta á verðbréfum einsog pokémonspilum í von um að stóra fólkið í útlöndum taki mark á því að hér séu viðskipti enn stunduð, og að hér sé hagvöxtur?
Leikurinn er tilgangslaus, og viðskiptin eru ekki „raunveruleg“ nú fremur en fyrr. Það vill bara svo til að alveg einsog með körfuboltamyndirnar, poxið og pokémonspilin þá gildir sú regla að þegar allir aðrir hætta að býtta þá tapar sá sem harðast gekk fram og situr á mestum birgðum. Það er sama fólkið sem situr á sömu verðlausu eignunum, sama hvað þeir býtta sín á milli – það sem gerir það enn kjánalegra er að þeir heyra allir undir sama eignarhaldsfélag þeirra eigna sem þeim finnst svo gaman að býtta á.
Sjálfur á ég reyndar enn Michael Jordan að kyssa gullbikarinn, en hann er mér þó ennþá nokkurs virði, og sjálfsagt nokkrum dellukörlum á eBay. Og mér er alveg sama hvað þeir segja. Hér er aðeins stigsmunur á, ekki eðlis.