Útrás

Og nú þegar víkingarnir liggja í valnum og ekki dugir neitt minna en hrækja á hræin er þegar búið að finna arftaka þeirra sem verðugir eru sæmdarheitisins „víkingar“.

Jú, það eru rithöfundar. Og hvaða rithöfundar? Arnaldur Indriðason, Ævar Örn Jósepsson, Yrsa Sigurðardóttir og Árni Þórarinsson. Semsé rjómi stéttarinnar. Vantar bara Birgittu Halldórs. Jú, og svo er eitthvað minnst á Guðrúnu Evu, Auði Jóns og Gerði Kristnýju. Í framhjáhlaupi. Þetta eru hinir nýju víkingar, og ekkert kreppuvæl á þeim bænum. Bara trilljón titlar hjá Fischer Verlag og læti. Líklega tökum við yfir allan evrópskan markað á fyrsta ársfjórðungi 2009 og leysum kreppuna.

Ágætis þverskurður sem Evrópa fær af íslenskum bókmenntum þarna þegar 57% útgefinna verka eru glæpasögur. Þau halda þá allavega ekki að hinir nýju víkingar hugsi bara um peninga eins og þeir gömlu. En kannski finnst þeim hjákátlegt að Íslendingar skrifi um glæpi í ljósi nýliðinna atburða. Ekki það, ef allt væri með eðlilegu móti ættum við að vera orðin sérfræðingar í þeim, en ef allt hefði verið með eðlilegu móti til að byrja með hefðu þeir aldrei verið mögulegir.

Ég ætla ekki að röfla of mikið undan þessu en mér finnst þetta vinsældamat leiðinlegt. Fólk les það sem því er sagt að sé vinsælt og vinsældir glæpasögunnar eru fyrst og fremst sprottnar af því að hún er matreidd ofan í það af bókaútgefendum og í framhaldi af ritdómurum og bókasöfnum. Og þetta er ekkert bara svona hérna – Arnaldur er kannski vinsælastur hérna en James Patterson er vinsælastur í heimi. Er mér sagt. Svo eru til minni spámenn á borð við John Grisham og Stephen King.

En svo er þessi víkingastimpill. Hann og þessi sjálfsskilyrta firring sem honum fylgir er eiginlega tífalt verri en einsleitur bókmenntasmekkur Íslendinga: að allt sé gott meðan það er vinsælt, sama hversu siðlaust og hreint út sagt viðbjóðslegt það er. Því það er alveg sama hvað mönnum finnst um verk þessara rithöfunda; það er alvarlega vanhugsað og fullkomlega óréttlætanlegt að kalla þá „útrásarvíkinga“. Við Íslendingar erum ekki svo merkileg meðal þjóða að við höfum efni á svona hroka nema síður sé, sama hversu merkileg við eigum það til að telja okkur vera.

4 thoughts on “Útrás”

  1. Veistu það, ég er sammála þér.
    Kom eiginlega gubb upp í háls þegar ég las þessa þvælu.

  2. Jamm, við bíðum þess þá bara að rithöfundarnir hefji morð, rán, eyðileggingar og nauðganir eins og forfeðurnir, til að standa nú undir sæmdartitlinum.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *