The Bridge

Ég er með stóra spurningu við heimildarmyndina The Bridge.

Myndin fjallar um sjálfsvíg við Golden Gate brúna. Í myndinni eru u.þ.b. átta sjálfsvíg fest á filmu (eftir að þetta var skrifað sé ég að Wikipedia segir 19 – ég hlýt að hafa athyglisbrest), og að mig minnir þrjú stöðvuð. Rammafrásögn myndarinnar er eitt tiltekið sjálfsvíg. Við sjáum viðkomandi ganga fram og aftur eftir brúnni alla myndina inni á milli annarra atriða, augljóslega í öngum sínum, uns myndinni lýkur á því að hann stekkur upp á handriðið og tekur dýfu aftur á bak fram af.

Í myndinni eru tekin viðtöl við þrjá vini hans og móður. Ekkert þeirra virðist sjá neitt athugavert við þetta (aftur segir Wikipedia að aðstandendur hafi ekki vitað af upptökunum, en á hinn bóginn að öll hafi þau verið sátt við myndina). Spurningin er, og kannski er hún einfeldningsleg, en var í alvörunni ekki hægt að hindra þetta? Mér virðist augljóst að fyrst það var sérstaklega fylgst með þessum náunga þá hafi kvikmyndatökuliðið haft sínar væntingar til hans. Og þá vil ég spyrja, þó ekki sé nema til þess eins bara að spyrja.